Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 783. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1802  —  783. mál.
Nefndarálitum frv. til jarðalaga.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.    Samhliða framlagningu frumvarps til jarðalaga var lagt fram frumvarp til ábúðarlaga. Nefndin hefur á fundum sínum fjallað um bæði frumvörpin.
    Í 1. gr. frumvarpsins segir að markmið laganna sé „að setja reglur um réttindi og skyldur þeirra sem eiga land og nýta það og stuðla að skipulegri nýtingu lands í samræmi við landkosti, fjölþætt hlutverk landbúnaðar og hagsmuni sveitarfélaga og íbúa þeirra, svo og að tryggja svo sem kostur er að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði varðveitt til slíkra nota.“ Markmið þetta er gott svo langt sem það nær.
    Sjónarmið um meðferð lands og landgæða hafa breyst mjög á síðari árum og nú eru gerðar ríkar kröfur um að meðferð, varsla og nýting lands og landgæða lúti lögmálum um sjálfbæra þróun. Hafa íslensk stjórnvöld undirgengist alþjóðlega sáttmála sem kveða á um þá stefnumörkun auk eigin yfirlýsinga í þá veru. Telja verður því eðlilegt og sjálfsagt að í markmiðskafla þessara laga verði kveðið á um að meðferð og landnýting lúti lögmálum og kröfum um sjálfbæra nýtingu auðlindanna.
    Nú standa fyrir dyrum grundvallarbreytingar á stuðningskerfi stjórnvalda við landbúnað, vörslu, meðferð og nýtingu landgæða, búsetu og félagsauð í dreifbýlum byggðum landsins. Mun þróunin verða sú að hverfa frá framleiðslutengdum stuðningi til stuðnings við félagslega og náttúrulega grunnþætti landbúnaðar samkvæmt lögmálum um verndun gæðanna og sjálfbæra nýtingu þeirra. Þetta sjónarmið fær litla stoð í þessum lagafrumvörpum. Breytingar í þá átt geta gjörbreytt afstöðu til lagaumgjörðar um meðferð og ráðstöfun lands og landgæða. Þetta frumvarp tekur ekkert tillit til þessara nýju og breyttu sjónarmiða.
    Eitt megininntak frumvarpsins er að rýmka um öll ákvæði sem lúta að því að taka land úr landbúnaðarnotum; stuðla á að „frelsi“ í viðskiptum með land og náttúruauðlindir og litið er á jarðeignir sem forgengilega hluti eins og hús eða bíl. Minni hlutinn er andvígur þeirri nálgun. Land og landgæði er í sjálfu sér félagsleg eign framtíðarinnar. Við erum gestir á „Hótel Jörð“ eins og Tómas Guðmundsson kvað. Yrði það varla vel séð að hótelgestir hefðu mjög frjálsar hendur um nýtingu, meðferð eða sölu herbergis meðan þeir dveldust þar. Nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum halda þeirri hugsjón mun hærra á lofti að land og landgæði hafi sérstöðu og horfa í mun meiri mæli til framtíðarábyrgðar í sinni lagaumgjörð en gert er í þessu frumvarpi.
    Réttur sveitarfélaganna til að grípa inn í ráðstöfun lands og meðferð þess er skertur verulega frá því sem áður var og er það miður. Eðlilegra hefði verið að auka skilgreindan rétt sveitarfélaga til afskipta af eignarhaldi og nýtingu lands. Sveitarfélög verða oft að grípa inn í og styðja við rekstur í öðrum atvinnugreinum sem myndar grundvöll byggðar og atvinnulífs á svæðinu. Því skyldu þau ekki mega það í sambandi við landbúnað? Það er t.a.m. í hæsta máta eðlileg krafa sveitarfélaganna að þau eigi forkaupsrétt við sölu ríkisjarða þegar ekki er verið að selja samkvæmt rétti ábúenda. Á þetta hafa sveitarfélögin lagt áherslu.
    Bændasamtökin gera alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og hefur ekki verið tekið tillit til margra veigamikilla breytingartillagna sem samtökin hafa lagt til. Frumvarpið hefur auk þess tekið verulegum breytingum í meðferð nefndarinnar sem hagsmunaaðilum hefur ekki verið gefið ráðrúm til að kanna hver áhrif hafa. Meiri hlutinn leggur til nýjar skilgreiningar á grundvallareiningum í landbúnaði, svo sem á hugtökunum lögbýli, eyðijörð og hlunnindi. Við þessar skilgreiningar eru margháttuð atvinnuréttindi og félagsleg kjaraatriði bænda tengd.
    Réttur ábúenda á leigujörðum er skertur en réttur jarðareiganda aukinn. Er þetta almennt andstætt siðvenjum og mun veikja búrekstrarstöðu leigjenda verulega. Áhrif þessara breytinga hafa ekki verið gaumgæfð.
    Þjóðkirkjan er annar stærsti einstaki jarðareigandinn á eftir ríkissjóði. Ekkert samráð virðist hafa verið haft við forsvarsmenn hennar við samningu þessara frumvarpa. Enda ber mikið í milli í túlkun þessara aðila, þ.e. annars vegar ríkissjóðs og hins vegar þjóðkirkjunnar, á eignar- og réttarstöðu fjölmargra jarða. Þrátt fyrir yfirlýsingu um að þessi frumvörp ættu í engu að breyta stöðu kirkjujarða er sú ekki raunin. Að mati minni hlutans ber að hafa samráð við þjóðkirkjuna um lagasetningu um meðferð og sölu jarðeigna. Brýnt er að leysa úr ágreiningi milli ríkissjóðs og þjóðkirkjunnar um eignar- og ráðstöfunarrétt jarða.
    Nokkrar jarðir eru svokallaðar kristfjárjarðir og fátækrajarðir sem hvorki er hægt að líta á sem eign ríkisins né þjóðkirkjunnar og eru ekki nefndar á nafn í frumvarpinu. En skv. 1. gr. frumvarpsins eiga lögin að ná til allra jarðeigenda. Í frumvarpinu virðist litið svo á að ríkið fari með eignar- og ráðstöfunarrétt á öllum jörðum sem ekki eru skráðar á kennitölu einstaklinga eða fyrirtækja. Sú nálgun er alröng, sbr. sérstöðu kirkjujarða og kristfjárjarða.
    Þá er hvorki í frumvarpi til jarðalaga né ábúðarlaga sérákvæði er lýtur að rétti útlendinga til að kaupa jarðir á Íslandi. Eðlilegt væri að kveða á um takmörkun þar á eða hindrun. Veiking á forkaupsrétti sveitarfélaga á jörðum á markaði gerir slíka takmörkun enn brýnni.
    Meiri hluti landbúnaðarnefndar leggur til umfangsmiklar breytingar á frumvarpi til ábúðarlaga og frumvarpi til jarðalaga. Minni hlutinn bendir á að frumvörpin hafa verið skamman tíma til umræðu í landbúnaðarnefnd, áhrif þeirra breytinga sem frumvörpin geta haft í för með sér hafi ekki verið könnuð til hlítar og ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda umsagnaraðila, þ.m.t. Bændasamtakanna, þjóðkirkjunnar og margra sveitarfélaga. Á grundvelli þess leggur minni hlutinn til að málunum verði vísað til ríkisstjórnarinnar og þau unnin betur og lögð fyrir næsta reglulega þing til meðferðar. Ekkert liggur á því að endurskoða jarðalög og ábúðarlög en þeim mun mikilvægara að vanda til endurskoðunar þeirra.

Alþingi, 26. maí 2004.Jón Bjarnason.


Fylgiskjal I.Minnisblað frá landbúnaðarráðuneytinu
um löggjöf um jarðir á öðrum Norðurlöndum.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.

Guðni Ágústsson,
landbúnaðarráðherra:


Ávarp á Búnaðarþingi 7. mars 2004.


    Ágætu Búnaðarþingsfulltrúar og aðrir góðir gestir.
    Við lifum á tímum umfangsmikilla breytinga. Undanfarin ár hefur átt sér stað gríðarlega ör þróun á nánast öllum sviðum þjóðlífs og þjóðarbúskapar. Margt er jákvætt í þeirri þróun. Á Íslandi býr nýjungagjörn, hámenntuð, hugmyndarík og kraftmikil þjóð, vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem breytingarnar boða og nýta þau tækifæri sem þær bera með sér. Nánast á hverjum degi berast stórtíðindi úr íslensku fjármála- og viðskiptalífi þessu til sönnunar.
    En kappi verður að fylgja forsjá. Framtíðin er þeirra sem búa sig undir hana. Erfiðlega getur reynst að ráða í hana, en tryggt er að hún kemur og oftast fyrr en menn eiga von á. Þeir sem hér sitja vita manna best að landbúnaðarinn hefur ekki farið varhluta af þeim gríðarlegu breytingum sem einkennt hafa undanfarin ár. Hefur þar margt verið til heilla en annað til tjóns. Hygg ég að augu manna á þessu Búnaðarþingi munu fyrst og síðast beinast fram á veginn til að bera kennsl á ógnanir og tækifæri landbúnaðarins, svo hámarka megi styrkleikana og sigrast á veikleikunum. Því ber að fagna og vil ég hér í þessu ávarpi leggja mitt á vogarskálarnar í þágu bjartrar framtíðar íslensks landbúnaðar.
    Sá tími er liðinn er þróun íslensks landbúnaðar réðst nær eingöngu af innlendum áhrifavöldum. Hnattvæðingin hefur náð fótfestu í landbúnaðinum sem og öðrum sviðum mannlífsins. Í dag hafa alþjóðlegir samningar og sú stefna sem einstök ríki eða ríkjahópar taka í framkvæmd skuldbindinga sinna á þeim vettvangi mikil áhrif á starfsumhverfi landbúnaðarins. Framhjá þeirri staðreynd verður ekki litið. Hitt er annað mál að við getum sjálf beitt okkur til að hafa áhrif á þróun alþjóðaumhverfisins með öflugum og rökföstum málflutningi sem miðast við þarfir okkar og sérstöðu og með þeim hætti leitast við að móta eigin framtíð heima og heiman. Í þessu sambandi vil ég fagna því ágæta samstarfi sem ríkir milli landbúnaðarráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins og samtaka bænda.
    Ég tel mikið hafa áunnist á síðustu misserum í upplýstri umræðu um alþjóðlegt starfsumhverfi landbúnaðarins. Með meiri þekkingu og skilningi á fjölþjóðlegum áhrifavöldum getum við stuðlað að farsælli aðlögun landbúnaðarins að þeim breytingum sem þeir kunna að leiða af sér. Styrkleikar íslensks landbúnaðar eru ótvíræðir. Við búum við óviðjafnanlega náttúru og hreinleika sem á sér vart hliðstæðu. Ennfremur erum við blessunarlega laus við alvarlega dýrasjúkdóma, sem herjað hafa um víða veröld á undanförnum árum með alvarlegum afleiðingum fyrir heilsu bæði manna og dýra. Í þessu umhverfi getum við framleitt búvörur, sem eru fyrirmynd annarra þegar kemur að gæðum og hollustu. Það er mjög mikilvægt að fórna ekki þessum styrkleika á þróunarbraut landbúnaðarins. Hagræðing og aukin hagkvæmni er nauðsynleg í landbúnaði sem og öðrum atvinnurekstri í samkeppni. Hins vegar megum við ekki falla í þá gryfju að hirða krónuna en tapa glórunni.
    Íslenskur landbúnaður gegnir fjölþættu hlutverki í okkar samfélagi og verður umfjöllun um þróun hans að taka mið af þeirri staðreynd. Margþættir hagsmunir neytenda og bænda fara saman og felst framtíð íslensks landbúnaðar fremur öðru í sátt um hlutskipti beggja. Öryggi matvælanna, hollusta og gæði afurðanna, þetta eru mikilvægustu neytendamál samtíðarinnar og þessa kosti íslensks landbúnaðar ber okkur vitaskuld að varðveita. Í því sambandi hljótum við að þurfa að viðurkenna að hvaða marki þessi mikilvægu gildi eru afleiðing þeirra jákvæðu búskaparhátta, sem hér hafa verið stundaðir.
    Ég hef á undanförnum dögum verið að vekja máls á þessu mikilvæga atriði og í því sambandi lagt áherslu á fjölskyldubúskapinn. Fyrir liggur að hefja gerð nýs samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og er nýlokið stefnumótunarvinnu í því sambandi með aðkomu fulltrúa ríkis, bænda og aðila vinnumarkaðarins. Í skýrslu stefnumótunarnefndarinnar kemur fram að margt hefur vel til tekist á undanförnum árum í mjólkurframleiðslunni. Staða mjólkur og mjólkurafurða á íslenskum markaði er sterk og vöruþróun hefur verið öflug. Hagræðing hefur verið að eiga sér stað í framleiðslu og vinnslu, en krafa neytenda nú er að þessi þróun skili sér í meira mæli til þeirra. Skuldaaukning mjólkurframleiðenda er eitt helsta áhyggjuefnið.
    Kúabændum hefur fækkað mikið á undanförnum árum og er tala þeirra nú komin niður fyrir 900, en hún var um 1500 við upphaf síðasta áratugar. Ljóst má vera að þessi þróun er á fullri ferð í dag. Margir líta hana jákvæðum augum og verður ekki horft framhjá því að hún hefur verið nauðsynleg og að hluta óhjákvæmileg. Hins vegar velti ég vöngum yfir því hvort þessi þróun getur talist sjálfbær og jákvæð út í hið óendanlega. Fyrir nokkru velti ég upp spurningunni: „Hversu fáir bændur eru nógu margir til að viðhalda blómlegri byggð og lífi í sveitunum?“ Leitin að svarinu við þessari spurningu hlýtur að vera áskorun sem við þurfum að takast á við af skynsemi og ábyrgð.
    Skoða verður viðfangsefnið í ljósi þess að íslenski bóndinn gegnir fjölþættu lykilhlutverki um landið allt og er ekki einungis að framleiða búvörur, sem neytt er við matarborðið. Hans athafnir í búrekstri eru að skapa og viðhalda fjölmörgum gildum og gæðum, sem þjóðin og ekki síður erlendir ferðamenn sem sækja hana heim vilja njóta er þeir halda til sveita. Þau gildi og gæði eru e.t.v. tekin sem sjálfsagður hlutur af sumum, en þau verða seint aðskilin frá störfum bóndans og dvína því eðli máls samkvæmt með minnkuðum umsvifum hans.
    Það landslag sem við þekkjum og metum og er aðdráttarafl ferðamannastraums til landsins er nátengt starfi bóndans. Að viðhalda landkostum, að græða landið, byggja upp skóglendi, nýta og varðveita auðlindir vatna og veiðiáa – þessi göfugu markmið færu fyrir lítið ef ekki væru til staðar bændur til að vinna störfin og hlúa að þessum mikilvægu gildum þjóðarinnar. Í sveitum landsins er einnig varðveittur mikilvægur hluti af menningararfi þjóðarinnar. Ef við missum sveitirnar, glötum við okkur sjálfum.
    Ég hef á undanförnum dögum verið ásakaður fyrir að vera haldinn sveitarómantík. En ég segi, ef sveitarómantík er glæpur þá vil ég gerast síbrotamaður. Hygg ég að þjóðin standi með mér í þeim efnum og ber gríðarleg ásókn hennar í sveitirnar því skýran vitnisburð. Sú sýn sem ég hef sett fram og þau gildi sem ég vil með henni varðveita eru í dag öfund annarra þjóða, sem gengið hafa of nærri sinni náttúru og iðnvætt landbúnaðinn með alvarlegum afleiðingum. Ég er ekki á móti hagræðingu og aukinni hagkvæmni. Ég stend jafn fast með neytandanum og bóndanum og þeim hagsmunum sem báðir eiga í að viðhalda styrkleikum íslensks landbúnaðar.
    Búum fækkar og þau stækka, slík er einfaldlega þróunin. Hef ég ekki talað fyrir skerðingu á athafnafrelsi manna í þeim efnum. Það sem ég hef vakið athygli á er að það er ekki sjálfsagt að stuðningur ríkisvaldsins við búvöruframleiðsluna fylgi mönnum óbreyttur á þeirri braut. Í hagkvæmni stærðarinnar hljóta að liggja þau mörk að eðlilegt getur talist að ríkisstuðningur, þ.e.a.s. fjármunir skattgreiðenda sem veitt er í þessu tilfelli til mjólkurframleiðslu, dragist saman eftir að þeim mörkum er náð. Ef hagræðing er aðalmarkmiðið, leiðir það ekki af eðli máls að skýr mörk eiga að vera fyrir hlutskipti ríkisstuðnings í þróuninni og að markaðslögmálin fái í stað þess í vaxandi mæli að njóta sín? Þessi sjónarmið voru rædd í stefnumótunarnefndinni og voru um þau skiptar skoðanir. Ég tel hins vegar eðlilegt að þetta sé skoðað af ábyrgð og alvöru í þeim samningaviðræðum ríkis og bænda sem nú ganga í hönd. Mín skoðun er að samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar felist ekki síst í gæðum og hollustu og búskaparháttunum, sem skapa slíkar afurðir.
    Ég óttast það að í styrkleikum kúabúskaparins kunni að liggja veikleiki landbúnaðarins í heild þegar horft er til framtíðar. Í stefnumótunarskýrslunni er athygli vakin á þeim áhrifavaldi sem alþjóðlegir samningar eru. Jafnframt er mælst til þess að gildistími komandi samnings verði nýttur til að kanna til hlítar, hvort og þá hvernig koma megi stuðningi við landbúnað, þ.m.t. mjólkurframleiðslu, fyrir með öðrum hætti en tíðkast hefur, sem betur samræmist þeirri þróun sem alþjóðlegir samningar boða og víðtæk sátt getur ríkt um. Ekki verð ég sakaður um að vera talsmaður alþjóðavæðingar eða aðildar að Evrópusambandinu, en framhjá ákveðnum staðreyndum verðum samt ekki litið.
    Landbúnaðurinn er í örri þróun allt í kringum okkur. Á síðasta ári lauk til að mynda endurskoðun á sameiginilegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins þar sem gerðar eru grundvallarbreytingar á ýmsum þáttum er varða ríkisstuðning. Verið er að draga úr og hverfa jafnvel frá beinum stuðningi við búvöruframleiðslu og miða stuðninginn frekar við önnur gildi, í samræmi við hugsunina um fjölþætt hlutverk landbúnaðarins, t.d. byggðir og umhverfi.
    Þetta gerist í Evrópusambandinu og víðar m.a. sökum þrýstings frá samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, samningum sem eru ekki síður áhrifavaldar á okkur hér. Er það líklegt að vera til farsældar fyrir íslenskan landbúnað að ríkisstuðningur hér sé á annarri sporbraut en gengur og gerist þegar horft er til framtíðar? Er ekki farsælla að hefja aðlögun að því sem koma skal á okkar eigin forsendum, frekar en að lenda í nauðvörn á forsendum annarra? Um mál af þessu tagi þarf að fara fram upplýst umræða svo ákvarðanir geti verið í samræmi við skilgreind markmið og þróun landbúnaðarins geti orðið í sem víðtækastri sátt.
    Ég hef því í hyggju að hefja vinnu við gerð þess sem ég hef kosið að kalla grænbók landbúnaðarins, stefnumótunarbók um almenna þróun starfsumhverfis landbúnaðarins og opinbers stuðnings við hið fjölþætta hlutverk hans á næstu 15–20 árum. Það er fleira landbúnaður en ær og kýr. Landnotin breytast og Íslendingar sem ætla að gera ferðaþjónustu og afþreyingu að atvinnuvegi framtíðarinnar þurfa að huga að rótgrónum búgreinum, hvernig þær þróast og lifa af um leið og nýjar búgreinar skjóta rótum og fá aðhlynningu. Meginmarkmiðið hlýtur að þurfa að vera að auka sveigjanleika í íslenskum landbúnaði og landnýtingu almennt, með áherslu á aukna aðlögunar- og samkeppnishæfni landbúnaðarins, bæði í samfélagslegu og alþjóðlegu samhengi. Ég tel farsælast að nálgast viðfangsefnið út frá heildarstefnumörkun fyrir landbúnaðinn, þar sem einstakir hlutar hans ganga í takt og í samræmi við skilgreind heildarmarkmið.
    Landbúnaðurinn býr yfir gríðarlegum mannauði sem áorkað getur miklu. Viðfangsefni morgundagsins kalla eftir betri samhæfingu og samstillingu þeirra krafta en við höfum búið við fram til þessa. Á þetta jafnt við bændur sjálfa sem og stofnanir landbúnaðarins. Framsókn landbúnaðar felst ekki síst í þekkingu. Vil ég stuðla að öflugri landbúnaði með því að sameina krafta Landbúnaðarháskólans að Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Með aukinni samþættingu rannsókna og menntunar færast hvoru tveggja nær atvinnuveginum og þörfum hans á hverjum tíma. Lít ég á þetta sem mikilvægt fyrsta skref í endurskipulagningu stofnanaumhverfis landbúnaðarins. Þarna verður til aðdráttarafl og kraftur sem mun laða til sín aðra starfsemi, landbúnaðinum til heilla. Sé ég til dæmis fyrir mér að með þessari endurskipulagningu skapist jákvæður grundvöllur til endurskoðunar á fyrirkomulagi leiðbeiningaþjónustu í landbúnaði.
    Ég er ennfremur að leggja drög að endurskipulagningu á stjórnsýslu- og eftirlitsverkefnum landbúnaðarins og hef kynnt í þeim efnum hugmyndir mínar um Landbúnaðarstofnun. En það er ekki nóg að einungis hið opinbera hugi að endurskipulagningu sín megin. Bændur þurfa sjálfir að styrkja sína stöðu og stilla saman strengi. Á það ekki síst við í markaðsmálum landbúnaðarins, heima og heiman.
    Ástandið á kjötmarkaði hér heima hefur verið erfitt, m.a. sökum glórulausrar þróunar í framleiðslu á hvítu kjöti. Hinn meinti ávinningur neytenda í lægra vöruverði kemur nú í bakið á þeim með vöxtum vegna gjaldþrota í kjúklinga- og svínakjötsframleiðslu. Ríkisstjórnin samþykkti undir lok síðasta árs að veita 140 m.kr. á fjáraukalögum til að greiða sauðfjárbændum bætur vegna tekjusamdráttar. Ennfremur hefur verið sett fjármagn til úreldingar sláturhúsa og uppbyggingu kjötvinnslustöðva. Sú þróun er nauðsynleg, en það er mikið undir bændum sjálfum komið hvernig úr þessu spilast.
    Það er trú mín að betur horfi í þessum efnum og að til staðar séu forsendur til framfara. Það hafa verið að gerast góðir hlutir í markaðsmálum landbúnaðarins erlendis, og þeim málum er betur hagað nú en áður. Hvort æskilegt sé að stofnuð verði einhvers konar útflutningsmiðstöð landbúnaðarins skal ég ekki segja til um hér og nú, einungis að það sé valkostur sem þurfi að skoða af alvöru til að tækifæri megi fullnýtast. Starfar nú í mínu umboði nefnd sem ætlað er að gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag varðandi markaðssetningu dilkakjöts á erlendum mörkuðum og um samræmingu á markaðsstuðningi við sláturleyfishafa. Ennfremur hvernig hátta megi samnýtingu krafta og auka samstarf þeirra aðila sem þegar starfa að markaðssetningu íslenskra vara erlendis.
    Ágætu Búnaðarþingsfulltrúar.
    Fjölmargar áskoranir og tækifæri bíða okkar á komandi árum. Meira að segja íslenskt veðurfar lætur ekki sitt eftir liggja og boðar betri tíð og þar með tækifæri til frekari athafna og nýsköpunar til sveita. Fyrirsjáanlegt er að hið fjölþætta hlutverk landbúnaðarins verði áfram í örum vexti. Ég hef viljað hlúa að þessu hlutverki í mínu starfi sem landbúnaðarráðherra en í því sambandi má benda á þann árangur sem náðst hefur á undanförnum árum í uppbyggingu landgræðslu- og skógræktarverkefna, vexti ferðaþjónustu til sveita, framförum í upplýsingatækni í dreifbýli, uppbyggingu fiskeldis, gríðarlegum uppgangi í hrossarækt og hestamennsku og nýsköpun í landbúnaði, svo dæmi séu nefnd.
    Ég hef hér í dag boðað stefnumótunarstarf um starfsumhverfi landbúnaðarins til næstu 15–20 ára sem miðar að skipulegri útfærslu þeirrar hugsunar og þeirra gilda sem liggja að baki þessu fjölþætta hlutverki. Ég tel að slík stefnumörkun verði landbúnaðinum og íslenskri þjóð til heilla og hlakka til að takast á við það verkefni í samstarfi við ykkur á komandi misserum. Ég óska ykkur heilla í störfum ykkar hér og til framtíðar.
    Ég vil að lokum minnast á eina breytinguna enn sem er mér ofarlega í huga á þessari stundu. Ari Teitsson hefur ákveðið að láta af formennsku Bændasamtakanna. Ég vil hér bæði persónulega og fyrir hönd svo margra sem með Ara hafa starfað síðastliðin 9 ár þakka gott samstarf. Ari tók við forystu Bændasamtakanna á breytingatímum og farsæld hefur verið yfir störfum hans. Umbrotatímar í landbúnaði hafa reynt á hann og gert hann að víðsýnni og sterkari manni. Járn herðist í eldi; einstaklingurinn mótast af erfiðum verkefnum. Ari Teitsson. Rödd þín er skýr, sýn þín er mörkuð af draumum um betri framtíð og meiri sátt um starf bóndans. Þú hefur fengið miklu áorkað og landbúnaðurinn flaggar við hún mörgum nýjum tækifærum við starfslok þín. Þú ferð heim í Þingeyjarsýslu með hreinan skjöld; þú gerðir skyldu þína. Hér þökkum við þér Ari og konu þinni mikið starf og óeigingjarnt í þágu íslenskra bænda.
Fylgiskjal III.


Tillaga til þingsályktunar um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar
og stuðning við byggð í sveitum.

(Þskj. 168, 166. mál.)


Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,
Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.

Greinargerð.


    Óþarfi að fjölyrða um þann vanda sem blasir við íslenskum landbúnaði og þá erfiðleika sem við er að glíma í byggðamálum í strjálbýlinu. Hæst hefur borið að undanförnu vanda sauðfjárræktarinnar en ljóst er að margar fleiri greinar landbúnaðar búa við mikla erfiðleika. Þannig er afkoma loðdýrabænda mjög slæm og framleiðendur nautakjöts hafa ekki farið varhluta af ástandinu á kjötmarkaði frekar en aðrir þar sem mikil upplausn ríkir. Einna best stendur mjólkurframleiðslan og málefni garðyrkjunnar hafa einnig verið að komast í heldur skárra horf að undanförnu. Sem betur fer hefur að sjálfsögðu ýmislegt jákvætt gerst í atvinnu- og byggðamálum til sveita. Má þar nefna uppbyggingu í ferðaþjónustu og ýmiss konar afþreyingu, handverk og framleiðslu sem þeirri uppbyggingu tengist. Einnig aukna kornrækt, hrossarækt, skógrækt, bleikjueldi og aukinn hlut sveitanna í margs konar umönnunarstörfum svo að eitthvað sé nefnt.
    Ný störf af ýmsum toga sem skapast hafa í nokkrum mæli í sveitum landsins að undanförnu breyta ekki því að hin hefðbundna búvöruframleiðsla, ekki síst sauðfjárræktin, er undirstaða hinnar dreifðu búsetu. Fjöldi nýrra starfa dugar tæpast til að vega upp á móti samdrætti og fækkun í hinum hefðbundna landbúnaði. Félagslega mega sveitir landsins yfirleitt ekki við frekari fækkun sem að óbreyttu leiðir til byggðahruns í heilum héruðum og landshlutum innan ekki langs tíma haldi svo fram sem horfir.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur undanfarin ár haft málefni landbúnaðarins og sveitanna stanslaust til umræðu og á dagskrá. Flokkurinn hefur lagt áherslu á sjálfbæra þróun greinarinnar, stuðning við hefðbundnar fjölskyldueiningar í rekstri og hefur varað við tilhneigingum til óhóflegrar samþjöppunar og verksmiðjubúskapar. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur flutt tillögur um stuðning við lífrænan landbúnað og mörg önnur þingmál sem varða hagsmuni landbúnaðarins og hinna dreifðu byggða. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur mótað stefnu um að taka beri upp svonefndan búsetutengdan grunnstuðning við landbúnaðinn og búsetu í sveitum. Fyrstu hugmyndir í þessa veru komu fram í umræðum og ályktunum á vettvangi kjördæmisráða á landsbyggðinni fyrir nokkrum árum og síðan hafa slíkar hugmyndir mótast og verið festar í sessi í ályktunum landsfunda og í síðustu kosningastefnuskrá flokksins. Um nánari útfærslu vísast í fylgiskjöl með tillögu þessari.
    Tillagan gerir ráð fyrir að kosin verði nefnd fulltrúa allra þingflokka til að vinna að málinu með stjórnvöldum og bændasamtökunum og að sjálfsögðu eftir atvikum einnig öðrum helstu hagsmuna- og málsaðilum svo sem neytendum og aðilum vinnumarkaðarins, aðilum á sviði byggðamála o.s.frv.
Fylgiskjal IV.


Umsögn Þórshafnarhrepps.
(5. apríl 2004.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Umsögn kirkjuráðs þjóðkirkjunnar.
(21. apríl 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.


Umsögn Búnaðarsambands Austurlands.
(16. apríl 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VII.


Minnisblað frá prestssetranefnd:
Um kristsfjárjarðir og fátækrajarðir.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VIII.


Minnisblað frá landbúnaðarráðuneytinu:
Réttaráhrif sem fylgja því að jörð sé lögbýliHér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal IX.


Umsögn Náttúrufræðistofnunar.
(13. apríl 2004.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal X.


Minnisblað frá landbúnaðarráðuneytinu:
Lagaákvæði sem banna að hlunnindi séu skilin frá jörð.

(28. apríl 2004.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.