Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1819, 130. löggjafarþing 948. mál: Norðurlandasamningur um almannatryggingar.
Lög nr. 66 7. júní 2004.

Lög um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar.


1. gr.

     Þegar Norðurlandasamningur um almannatryggingar, sem gerður var í Karlskrona 18. ágúst 2003 og prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum, hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 46/1993.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.


Fylgiskjal.

NORÐURLANDASAMNINGUR
um almannatryggingar.
     
     Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,
     
     sem hafa, frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) gekk í gildi, beitt ákvæðum reglugerðar (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, einnig gagnvart þeim sem flytja á milli norrænu landanna,
     
     sem gerðu með sér Norðurlandasamning um almannatryggingar 15. júní 1992 til viðbótar við fyrrgreinda reglugerð en með honum skuldbinda Norðurlöndin sig til að beita ákvæðum reglugerðarinnar að verulegu leyti einnig gagnvart tilteknum hópum manna sem reglugerðin tekur ekki beint til, þ.e. þeim sem eru ekki eða hafa ekki verið í starfi hjá öðrum eða starfað á eigin vegum í skilningi reglugerðarinnar eða eru ekki ríkisborgarar í landi sem er aðili að EES-samningnum,
     
     sem vísa m.a. til 8. gr., 36. gr. og b-liðar 2. mgr. 46. gr. b, 63. gr. og 70. gr. framangreindrar reglugerðar,
     
     sem vilja laga samninginn að þeirri þróun sem orðið hefur á framangreindri reglugerð og á löggjöf norrænu landanna um almannatryggingar,
     
     sem hafa hliðsjón af reglugerð ráðsins um að rýmka gildissvið reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 og reglugerðar (EBE) nr. 574/72 og láta ákvæði þeirra taka til þeirra ríkisborgara þriðju landa sem falla ekki undir ákvæðin einungis á grundvelli ríkisfangs síns,
     
     sem vísa til þess að ákvæðum 69. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 skal beitt gagnvart ríkisborgara þriðja lands þegar hann hefur lagalegan rétt til að dveljast og starfa þar, svo og að leita sér atvinnu í norrænu landi eftir að hann hefur skráð sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun,
     
     sem hafa komið sér saman um sérákvæði fyrir Danmörku samkvæmt fylgiskjali með þessum samningi,
     
     hafa komið sér saman um að gera nýjan Norðurlandasamning um almannatryggingar og er hann svohljóðandi:
I. HLUTI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Skilgreiningar.
     1. Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
 1. „norrænt land“ merkir
  hvert og eitt samningslandanna ásamt sjálfsstjórnarsvæðunum Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum að því marki sem þessi svæði hafa samþykkt að samningurinn skuli gilda fyrir þau,
 2. „reglugerðin“ merkir
  reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, með því orðalagi sem í gildi er milli norrænu landanna á hverjum tíma,
 3. „framkvæmdareglugerðin“ merkir
  reglugerð (EBE) nr. 574/72 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, með því orðalagi sem í gildi er milli norrænu landanna á hverjum tíma,
 4. „grunnlífeyrir“ merkir
  almennan lífeyri sem ekki miðast við starfstíma sem lokið er, fyrri atvinnutekjur eða iðgjaldagreiðslur, þar á meðal þann almenna lífeyri eða viðbótarlífeyri sem greiddur er þeim sem fær lítinn eða engan starfstengdan lífeyri,
 5. „starfstengdur lífeyrir“ merkir
  almennan lífeyri sem fer einungis til þeirra sem hafa verið á vinnumarkaði samkvæmt innlendri löggjöf,
 6. „búseta“ merkir
  að maður sé búsettur í norrænu landi samkvæmt þjóðskrá þess ef ekki eru sérstakar ástæður til annars.

     2. Önnur hugtök í þessum samningi hafa sömu merkingu og þau hafa í reglugerðinni, framkvæmdareglugerðinni eða í innlendri löggjöf norrænu landanna.

2. gr.

Efnislegt gildissvið.
     Þessi samningur gildir um alla löggjöf sem tekur til efnislegs gildissviðs reglugerðarinnar.

3. gr.

Persónulegt gildissvið.
     1. Samningur þessi gildir um alla einstaklinga sem falla undir persónulegt gildissvið reglugerðarinnar.
     2. Samningur þessi gildir einnig um eftirtalda einstaklinga sem falla ekki undir persónulegt gildissvið reglugerðarinnar:
 1. einstaklinga sem heyra undir eða hafa heyrt undir löggjöf í norrænu landi,
 2. aðstandendur eða eftirlifendur sem rekja rétt sinn til einstaklinga sem um getur í a-lið.


4. gr.

Rýmkun gildissviðs reglugerðarinnar.
     Ef ekki er annars getið í þessum samningi skal rýmka gildissvið reglugerðarinnar og framkvæmdareglugerðarinnar þannig að reglugerðirnar taki til allra þeirra sem falla undir þennan samning og eru búsettir í norrænu landi.

II. HLUTI
Ákvæði um hvaða löggjöf skuli beita.

5. gr.

Einstaklingar utan vinnumarkaðar.
     1. Að því er varðar einstaklinga sem eru ekki eða hafa ekki verið launþegar eða sjálfstætt starfandi í skilningi reglugerðarinnar er löggjöfinni í því norræna landi þar sem þeir eru búsettir beitt.
     2. Maki og börn undir 18 ára aldri, sem fylgja launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklingi frá einu norrænu landi til annars, skulu, þegar ákvæði d-liðar 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 14. gr. a og 17. gr. reglugerðarinnar hafa í för með sér að launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur fellur áfram undir löggjöf í fyrrnefnda landinu, einnig falla áfram undir löggjöf þess lands eins og þau sem fylgja honum væru áfram búsett þar.

6. gr.

Einstaklingar á vinnumarkaði.
     Við beitingu ákvæða í II. bálki reglugerðarinnar telst einnig starf við rannsóknir og nýtingu náttúruauðlinda á landgrunni lands sem starf í því landi.

III. HLUTI
Sérákvæði um rétt til bóta.
1. kafli.
Veikindi og meðganga og fæðing.

7. gr.

Greiðsla vegna kostnaðar við heimferð.
     1. Nú er einstaklingur búsettur í norrænu landi og á rétt á aðstoð þar en fær aðstoð meðan hann dvelur tímabundið í öðru norrænu landi og skal þá dvalarlandið standa straum af þeim aukakostnaði við heimferð til búsetulandsins sem leiðir af því að vegna veikindanna verður viðkomandi að nota dýrari ferðamáta en hann ella mundi gera.
     2. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um einstakling sem fær leyfi til að fara til annars norræns lands til þess að fá þá meðferð sem hann þarfnast.

2. kafli.
Bætur vegna örorku, elli og andláts.

8. gr.

Lágmarksbúsetutími til að öðlast rétt til grunnlífeyris.
     1. Einstaklingur, sem er ekki eða hefur ekki verið í starfi hjá öðrum eða starfað á eigin vegum í skilningi reglugerðarinnar, á því aðeins rétt á grunnlífeyri frá norrænu landi að hann hafi öðlast rétt til slíks lífeyris í því landi á grundvelli a.m.k. þriggja ára búsetu þar.
     2. Ekki er hægt að uppfylla skilyrði 1. mgr. með vísan til búsetu- og tryggingatímabila í öðrum löndum.
     3. Tímabil, sem leiðir til lífeyrisréttar í öðru landi og reglugerðin eða þessi samningur gildir um, skal ekki reikna með þegar sannreyna á hvort skilyrði um búsetu skv. 1. mgr. hafi verið fullnægt.

9. gr.

Grunnlífeyrir á grundvelli búsetu í landi sem er aðili að EES-samningnum.
     Einstaklingur á rétt á grunnlífeyri sem hann hefur öðlast í norrænu landi á meðan hann er búsettur í landi sem er aðili að EES-samningnum. Hið sama á við um búsetu í Færeyjum og á Grænlandi að því marki sem samningurinn á við um þessi svæði.

10. gr.

Samkomulag skv. b-lið 2. mgr. 46. gr. b í reglugerðinni.
     Hafi skilyrðum fyrir því að lífeyrir sé einnig reiknaður út á grundvelli ætlaðra trygginga- eða búsetutímabila, sem hefðu komið til hefði lífeyrisatburður ekki gerst, verið fullnægt í fleiri en einu norrænu landi skal við útreikning í hverju einstöku landi eingöngu tekið tillit til hluta ætlaðra tímabila. Sá hluti er ákveðinn á grundvelli raunverulegra trygginga- eða búsetutímabila sem eru notuð við lífeyrisútreikninginn út frá hlutfallinu milli raunverulegra tímabila í landinu og samanlagðra raunverulegra tímabila í löndunum.

11. gr.

Tiltekin tímabil fyrir 1994.
     Hafi einstaklingur öðlast rétt til grunnlífeyris frá norrænu landi á grundvelli búsetu í landinu fyrir 1. janúar 1994 og á sama tíma öðlast rétt til starfstengds lífeyris í öðru norrænu landi skal grunnlífeyrir fyrir þetta tímabil eingöngu koma frá síðarnefnda landinu. Hafi einstaklingur á þessu tímabili öðlast samtímis rétt til starfstengds lífeyris frá fleiri norrænum löndum, og þar af hafi eitt þeirra verið búsetuland hans, skal grunnlífeyrir einungis koma frá síðastnefnda landinu.

3. kafli.
Atvinnuleysisbætur.

12. gr.

Undanþágur frá tilteknum kröfum um að tímabilum sé lokið.
     Skilyrði 3. mgr. 67. gr. reglugerðarinnar um trygginga- eða starfstímabil eiga ekki við um þá einstaklinga sem hafa annaðhvort starfað í þeim mæli að viðkomandi hafi fallið undir löggjöf um atvinnuleysisbætur eða hafi fengið atvinnuleysisbætur í því norræna landi þar sem sótt er um bætur. Starfið skal þó hafa verið leyst af hendi eða atvinnuleysisbætur greiddar innan fimm ára frá þeim degi sem sótt var um atvinnu hjá opinberri vinnumiðlun og, ef við á, um félagaskráningu hjá viðkomandi atvinnuleysistryggingasjóði.

IV. HLUTI
Önnur ákvæði.

13. gr.

Framkvæmdarákvæði.
     Þar til bær stjórnvöld skulu setja þær reglur sem þurfa þykir til þess að tryggja samræmda norræna framkvæmd þessa samnings.

14. gr.

Samskiptastofnun.
     Við framkvæmd samnings þessa skulu stjórnvöld og stofnanir veita gagnkvæmt liðsinni eftir þörfum. Í hverju norrænu landi skal vera samskiptastofnun sem tilnefnd er af þar til bæru stjórnvaldi.

15. gr.

Afsal endurgreiðslna.
     1. Ef ekki er samið um annað milli tveggja eða fleiri norrænna landa afsala þau sér skv. 36., 63. og 70. gr. reglugerðarinnar og 105. gr. framkvæmdareglugerðarinnar allri endurgreiðslu sín í milli vegna útgjalda við aðstoð vegna veikinda og barnsburðar og vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma, vegna bóta til atvinnulausra sem leita atvinnu utan lögbærs lands og vegna útgjalda við eftirlit stjórnsýslu- og læknisfræðilegs eðlis.
     2. Afsal endurgreiðslu nær ekki til aðstoðar við þann sem fær leyfi skv. c-lið 1. mgr. 22. gr. og c-lið 1. mgr. 55. gr. reglugerðarinnar til að fara til annars norræns lands og fá þar þá meðferð sem ástand hans krefst.

16. gr.

Gildistaka.
     1. Samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag þriðja mánaðar frá því að allar ríkisstjórnir hafa tilkynnt dönsku ríkisstjórninni að þær hafi staðfest samninginn.
     2. Hvað varðar Færeyjar, Grænland og Álandseyjar öðlast samningurinn gildi 30 dögum eftir að ríkisstjórnir Danmerkur og Finnlands hafa tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu að færeyska landstjórnin, grænlenska landstjórnin og þing Álandseyja hafi tilkynnt að samningurinn skuli gilda fyrir Færeyjar, Grænland og Álandseyjar.
     3. Danska utanríkisráðuneytið tilkynnir öðrum aðilum og skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar um viðtöku þessara tilkynninga og hvenær samningurinn öðlast gildi.

17. gr.

Uppsögn samningsins.
     1. Óski einn aðili eftir að segja samningnum upp skal hann afhenda danska utanríkisráðuneytinu skriflega tilkynningu þess efnis og skal ráðuneytið gera öðrum aðilum viðvart um viðtöku tilkynningarinnar og efni hennar.
     2. Uppsögn gildir aðeins fyrir þann aðila sem segir upp og gildir hún frá og með byrjun þess almanaksárs sem hefst að liðnum sex mánuðum hið minnsta frá þeim degi er danska utanríkisráðuneytinu berst tilkynning um uppsögnina.
     3. Sé samningnum sagt upp haldast áfram þau réttindi sem fengin eru á grundvelli hans.

18. gr.

Eldri ákvæði.
     1. Við gildistöku samnings þessa fellur Norðurlandasamningurinn frá 15. júní 1992 um almannatryggingar úr gildi. Þessi samningur skal ekki hafa í för með sér lækkun bótafjárhæða sem greiddar eru við gildistöku samningsins.
     2. Grunnlífeyrir til ríkisborgara í norrænu landi, sem fram til 31. desember 1993 var greiddur samkvæmt ákvæðum Norðurlandasamningsins frá 5. mars 1981 um almannatryggingar eða samkvæmt innlendri löggjöf í einu eða fleiri landanna og er áfram greiddur frá gildistöku þessa samnings samkvæmt ákvæðum hans, skal reiknaður samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar eða þessum samningi ef rétthafi sækir um grunnlífeyri frá öðru norrænu landi.
     3. Umsóknir um bætur sem eru lagðar fram eftir gildistöku þessa samnings skulu afgreiddar samkvæmt þessum samningi einnig þegar um er að ræða bætur fyrir tímabil fyrir gildistökuna.

19. gr.

Undirritun.
     Frumtexti samnings þessa skal varðveittur í danska utanríkisráðuneytinu sem lætur öðrum aðilum í té staðfest afrit af honum.
     Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.
     Gjört í Karlskrona hinn 18. ágúst 2003 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og eru allir textarnir jafngildir.

FYLGISKJAL
     
     Sérákvæði fyrir Danmörku varðandi 4. gr.
     
     Að því er varðar

      •    7. og 8. kafla í III. bálki reglugerðarinnar

      •    69. og 70. gr. reglugerðarinnar

      •    grunnlífeyri í 8. og 9. gr. samningsins
     
skal beiting reglugerðarinnar og framkvæmdareglugerðarinnar einungis taka til ríkisborgara í norrænu landi og því gilda 8. og 9. gr. samningsins aðeins fyrir norræna ríkisborgara.

Samþykkt á Alþingi 27. maí 2004.