Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 740. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1862  —  740. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003.

(Eftir 2. umr., 28. maí.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      6. tölul. orðast svo: Flutningskerfi: Raflínur og mannvirki þeim tengd sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna á þeim afhendingarstöðum sem taldir eru upp í viðauka með lögum þessum. Það nær frá háspennuhlið stöðvarspenna virkjana sem tengjast því, sbr. 3. mgr. 5. gr., að háspennuhlið aðveituspenna stórnotenda eða dreifiveitna.
     b.      8. og 9. tölul. falla brott og breytast númer síðari töluliða til samræmis við það.
     c.      Við bætist nýr töluliður, 15. tölul., svohljóðandi: Stórnotandi: Notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 MW afl með árlegum nýtingartíma 8.000 stundir eða meira.
     d.      Við bætist nýr töluliður, 17. tölul., svohljóðandi: Tekjumörk: Hámark leyfilegra árlegra tekna flutningsfyrirtækis og dreifiveitna til að mæta kostnaði.

2. gr.

    Í stað 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó þarf ekki slíkt leyfi vegna raforkuvera með uppsettu afli sem er undir 1 MW nema orka frá raforkuveri sé afhent inn á dreifikerfi dreifiveitna eða flutningskerfið. Eigendur virkjana með uppsett afl 30–1.000 kW skulu skila Orkustofnun tæknilegum upplýsingum um virkjun. Einnig er skylt að tilkynna Orkustofnun árlega um heildarraforkuvinnslu raforkuvera með uppsettu afli yfir 100 kW.

3. gr.

    3. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Tengja skal leyfisskylda virkjun flutningskerfinu, sbr. þó 2. mgr. 11. gr. Virkjanir sem eru 7 MW eða stærri skulu tengjast flutningskerfinu beint en minni virkjunum er heimilt að tengjast því um dreifiveitu. Samningur við flutningsfyrirtækið eða dreifiveitu á því dreifiveitusvæði sem virkjunin er á skal liggja fyrir þegar sótt er um virkjunarleyfi.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Eitt fyrirtæki skal annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Fyrirtækið skal vera hlutafélag. Ráðherra veitir flutningsfyrirtækinu rekstrarleyfi þar sem kveðið skal á um réttindi og skyldur þess. Heimilt er að kveða á um að leyfið skuli endurskoðað að tilteknum tíma liðnum, enda hafi forsendur fyrir skilyrðum þess breyst verulega.
     b.      Við bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
                  Viðskiptavinir flutningsfyrirtækisins skulu vera dreifiveitur, stórnotendur og virkjanir.
     c.      Í stað „2. mgr.“ í 3. mgr. og 5. mgr. kemur: 3. mgr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Ákvarða“ í 3. tölul. 4. mgr. kemur: Samræma.
     b.      5. tölul. 4. mgr. fellur brott.
     c.      Við bætist ný málsgrein, er verður 5. mgr., svohljóðandi:
                  Flutningsfyrirtækinu er skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku. Rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr. Úrskurður Orkustofnunar í þessu efni sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.
     d.      Í stað „1.–5. tölul.“ í 5. mgr. kemur: 1.–4. tölul.
     e.      9. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um hlutverk og starfsemi flutningsfyrirtækisins, kerfisstjórnun, notkunarferla og tengingu virkjana við flutningskerfið.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Eigendum flutningsvirkja sem falla undir 6. tölul. 3. gr. er skylt að selja eða leigja þau flutningsfyrirtækinu eða leggja þau fram sem hlutafé í flutningsfyrirtækinu.
                  Eigendur flutningsvirkja sem leigð eru flutningsfyrirtækinu geta ávallt óskað eftir því að flutningsfyrirtækið kaupi flutningsvirki sem falla undir 6. tölul. 3. gr. eða að þau verði lögð fram sem hlutafé í flutningsfyrirtækinu.
     b.      1. málsl. 2. mgr., er verður 3. mgr., orðast svo: Eigendum flutningsvirkja sem leigð eru flutningsfyrirtækinu ber að viðhalda virkjum sínum til að tryggja öryggi og áreiðanleika flutninga um þau.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: 2. mgr.

8. gr.

    12. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Tekjumörk og gjaldskrá.

    Orkustofnun skal setja flutningsfyrirtækinu tekjumörk vegna kostnaðar við flutning á raforku til dreifiveitna annars vegar og vegna flutnings til stórnotenda hins vegar. Við setningu tekjumarka skal taka tillit til þess hvort tenging stórnotenda leiði eða hafi leitt til hagkvæmari uppbyggingar og nýtingar flutningskerfisins en ella væri.
    Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
     1.      Kostnaði sem tengist starfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, leigukostnaði vegna flutningsvirkja, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun.
     2.      Arðsemi flutningsfyrirtækisins skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna.
     3.      Hagræðingarkröfu sem skal taka mið af eðlilegum kostnaði samkvæmt mati Orkustofnunar að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem fyrirtækið veitir.
    Tekjumörk skulu ákveðin til þriggja ára í senn. Þó er heimilt að endurskoða tekjumörk árlega ef forsendur breytast verulega að mati Orkustofnunar.
    Flutningsfyrirtækið skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk skv. 2. mgr. Gjaldskráin skal gilda annars vegar fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi og hins vegar fyrir úttekt stórnotenda. Gjaldskrá fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi á afhendingarstöðum, sbr. 6. tölul. 3. gr., skal miðast við að raforka sé afhent á 66 kV spennu. Ef orka frá flutningskerfi er afhent á hærri spennu ber að lækka gjaldskrá með tilliti til þess. Með sama hætti skal taka tillit til annars mismunar á afhendingarþjónustu við gjaldtöku fyrir úttekt á einstökum afhendingarstöðum.
    Sama gjaldskrá skal vera fyrir innmötun virkjana á flutningskerfið. Þar sem virkjanir tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu skal gjaldinu skipt milli flutningsfyrirtækisins og viðkomandi dreifiveitu eftir skiptireglu sem ákveðin skal af Orkustofnun að fenginni tillögu aðila.
    Varaaflsstöðvar sem nýttar eru þegar truflanir koma upp í raforkukerfinu skulu undanþegnar greiðslum til flutningskerfisins.
    Tveimur mánuðum áður en gjaldskráin á að taka gildi skal hún send Orkustofnun. Telji stofnunin framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði laga þessara eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við flutningsfyrirtækið innan sex vikna frá móttöku. Gjaldskráin tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar. Flutningsfyrirtækið skal birta gjaldskrána opinberlega.
    Krefjast skal greiðslu ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfið veldur auknum tilkostnaði í kerfinu. Með sama hætti skal taka tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins.
    Komi í ljós að arðsemi flutningsfyrirtækisins síðastliðin þrjú ár er undir helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa eða meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs.
    Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um tekjumörk, viðskiptaskilmála og gjaldskrá, m.a. um notkunarferla, afskriftareglur, arðsemismarkmið og kröfur um hagræðingu. Jafnframt skal í reglugerð kveða á um með hvaða hætti tekið er tillit til almennra verðbreytinga.

9. gr.

    Við 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr. Úrskurður Orkustofnunar í þessu efni sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.

10. gr.

    17. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Tekjumörk og gjaldskrá.

    Orkustofnun skal setja dreifiveitum tekjumörk vegna kostnaðar við dreifingu raforku. Ef heimilað er að hafa í gildi sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæði, sbr. 5. mgr., skulu sérstök tekjumörk sett vegna dreifingar raforku í þéttbýli annars vegar og í dreifbýli hins vegar.
    Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
     1.      Kostnaði sem tengist starfsemi dreifiveitu, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, kostnaði vegna flutnings um flutningskerfið, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun í dreifikerfinu.
     2.      Arðsemi dreifiveitu skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna.
     3.      Hagræðingarkröfu sem skal taka mið af eðlilegum kostnaði samkvæmt mati Orkustofnunar að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem dreifiveitan veitir.
    Tekjumörk skulu ákveðin til þriggja ára í senn. Þó er heimilt að endurskoða tekjumörk árlega ef forsendur breytast verulega að mati Orkustofnunar.
    Dreifiveita skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk, sbr. 2. mgr. Sama gjaldskrá skal gilda á veitusvæði hverrar dreifiveitu fyrir úttekt á lágspennu, þ.e. 230–400 V spennu. Ef orka frá dreifiveitu er afhent á annarri spennu er heimilt að taka tillit til þess í gjaldskrá. Með sama hætti er við gjaldtöku heimilt að taka tillit til annars mismunar á þjónustu.
    Dreifiveitum er heimilt að sækja um leyfi til Orkustofnunar til að hafa sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæðum þar sem kostnaður vegna dreifingar er sannanlega hærri en í þéttbýli. Það er skilyrði fyrir heimild til sérstakrar dreifbýlisgjaldskrár að notkun á viðkomandi dreifbýlissvæði sé a.m.k. 5% af heildarnotkun dreifiveitusvæðisins. Með umsókn um skiptingu gjaldskrár skulu fylgja upplýsingar um landfræðilega afmörkun svæða, landnotkun og fjölda íbúa á viðkomandi svæði, auk gagna sem sýna fram á að kostnaður við dreifingu til notenda á svæðinu sé hærri en til annarra.
    Tveimur mánuðum áður en gjaldskráin á að taka gildi skal hún send Orkustofnun. Telji Orkustofnun framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði laga þessara eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við viðkomandi dreifiveitu innan sex vikna frá móttöku. Gjaldskrá tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar. Dreifiveita skal birta gjaldskrána opinberlega.
    Komi í ljós að arðsemi dreifiveitu síðastliðin þrjú ár er undir helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa eða meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs.
    Standi væntanlegar tekjur dreifiveitu af nýjum viðskiptavini ekki undir eðlilegum stofn- eða rekstrarkostnaði er heimilt að krefja hann um greiðslu viðbótarkostnaðar. Sama á við hafi forsendur viðskipta breyst verulega.
    Í reglugerð skal setja frekari ákvæði um tekjumörk, viðskiptaskilmála og gjaldskrá, m.a. um afskriftareglur, arðsemismarkmið og kröfur um hagræðingu, auk notkunarferla og nánari skilgreiningar dreifbýlis, sbr. 5. mgr. Jafnframt skal í reglugerð kveða á um með hvaða hætti tekið er tillit til almennra verðbreytinga.

11. gr.

    Við 1. mgr. 28. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Orkustofnun skal hafa umsjón með framkvæmd þessa ákvæðis, sbr. einnig 24. gr.

12. gr.

    Í stað orðanna „á fjögurra ára fresti“ í 39. gr. laganna kemur: á tveggja ára fresti.

13. gr.

    Á eftir 42. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Aðfararheimild o.fl.


    Gjöld fyrir raforku, flutning og dreifingu, sem innheimt eru í samræmi við gjaldskrár sem fengið hafa meðferð samkvæmt lögum þessum, eru aðfararhæf án dóms eða sáttar skv. 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989. Heimilt er að stöðva afhendingu raforku ef ekki er staðið í skilum með greiðslu þessara gjalda.

14. gr.

    2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum orðast svo:
    Gjaldskrár dreifiveitna sem giltu 7. apríl 2003 skulu þrátt fyrir 17. gr. halda gildi sínu til 1. janúar 2005. Dreifiveitur geta þó að fenginni staðfestingu Orkustofnunar ákveðið gjaldskrárlækkun. Þá geta dreifiveitur að fenginni staðfestingu Orkustofnunar hækkað gjaldskrá sína í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu eða sannanlegar og óviðráðanlegar hækkanir á kostnaði sem er í beinum og efnislegum tengslum við starfsemina. Á þessu tímabili skal sama gjaldskrá gilda á starfssvæði hverrar dreifiveitu. Ekki er á tímabilinu heimilt að veita leyfi fyrir dreifbýlisgjaldskrám.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum:
     a.      Á undan orðinu „stuðla“ í 2. málsl. kemur: fylgjast með og.
     b.      Í stað orðsins „sjö“ í 3. málsl. kemur: tíu.
     c.      Á eftir 3. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þrír skulu kosnir af Alþingi.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum:
     a.      1. og 2. mgr. orðast svo:
                  Gildistöku ákvæða III. kafla er frestað. Skulu þau taka gildi 1. janúar 2005 nema annað sé tekið fram í ákvæði þessu. Sama á við um 6. tölul. 3. gr. og 3. mgr. 5. gr. laga þessara. Fram að þeim tíma skal ákvæði þetta gilda um flutning raforku.
                  Flutningskerfið á gildistíma þessa ákvæðis er raflínur og mannvirki þeim tengd sem flytja raforku á 66, 132 og 220 kV spennu og tilheyrðu Landsvirkjun 7. apríl 2003, enn fremur viðbætur Landsvirkjunar eftir þann tíma á 132 kV spennu og hærri spennu til að auka flutninga um þetta kerfi en ekki geislalínur út frá kerfinu. Hið sama gildir um línur annarra á þessari spennu sem þeir semja við Landsvirkjun um að tilheyri flutningskerfinu. Til að leggja nýjar flutningslínur þarf Landsvirkjun leyfi iðnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „orkutöp“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: orkutap.
     c.      3. málsl. 7. mgr. orðast svo: Þó getur stórnotandi samið við flutningsfyrirtækið um endurgjald vegna flutnings.

17. gr.

    Við lögin bætast fimm ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo ásamt fyrirsögnum:

    a. (IX.)

Arðsemi flutningsfyrirtækis og dreifiveitna.

    Við setningu tekjuramma flutningsfyrirtækisins vegna flutnings raforku til dreifiveitna skal Orkustofnun í upphafi miða við að arðsemi sé helmingur af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til sex ára eða sambærilegra verðbréfa. Sama á við um tekjumörk dreifiveitna. Hækka skal arðsemisviðmiðunina á fimm árum í þá ávöxtun sem kveðið er á um í 2. tölul. 2. mgr. 12. gr. og 2. tölul. 2. mgr. 17. gr. Þó skal hækkun arðsemisviðmiðunar ekki valda meiri hækkun tekjumarka en næst með hagræðingarkröfu.

    b. (X.)

Stofnun flutningsfyrirtækis.

    Við gildistöku laga þessara skal stofna hlutafélag í eigu ríkisins til að annast flutning raforku og kerfisstjórnun, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga þessara. Ráðherra skipar félaginu þriggja manna stjórn sem koma skal fram fyrir hönd þess við verðmat flutningsvirkja samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XI. Stjórn þessi skal sitja þar til endanleg niðurstaða um verðmæti flutningsvirkja liggur fyrir og gengið hefur verið frá samkomulagi eigenda hlutafjár í félaginu.

    c. (XI.)

Mat á verðmæti flutningsvirkja.

    Eigendur þeirra flutningsvirkja sem mynda flutningskerfið skv. 6. tölul. 3. gr. laga þessara skulu koma sér saman um mat á verðmæti þeirra. Stefnt skal að því að matsverðið sé sem næst endurstofnverði flutningsvirkjanna að frádregnum framreiknuðum afskriftum sem bókfærðar hafa verið vegna viðkomandi eignar, auk annarra atriða sem máli kunna að skipta, svo sem sérstakra framlaga sem veitt hafa verið úr opinberum sjóðum til fjárfestingar í uppbyggingu raforkukerfisins. Í þessu skyni skal ráðherra skipa samninganefnd sem í eiga sæti þrír fulltrúar skipaðir án tilnefningar, þar af skal einn vera formaður, tveir fulltrúar skulu tilnefndir af Reykjavíkurborg, einn af Akureyrarbæ og einn af eigendum Hitaveitu Suðurnesja hf. Orkustofnun skal vera nefndinni til ráðgjafar og aðstoðar. Samninganefndin skal hafa lokið störfum eigi síðar en 1. ágúst 2004. Útlagður kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði en eigendur skulu bera kostnað af störfum fulltrúa sinna.
    Ef ekki næst samkomulag í samninganefnd skv. 1. mgr. um verðmat einstakra flutningsvirkja skal ráðherra skipa sérstaka matsnefnd sem meta skal verðmæti þeirra að kröfu eiganda viðkomandi flutningsvirkis.
    Í matsnefndina skal skipa einn lögfræðing, sem verður formaður nefndarinnar, einn endurskoðanda og einn verkfræðing. Um hæfi matsmanna til meðferðar einstakra mála skal fara eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála eftir því sem við á.
    Við mat á verðmæti flutningsvirkja skal matsnefndin miða við endurstofnverð að teknu tilliti til afskrifta. Lög nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, skulu gilda um störf matsnefndarinnar eftir því sem við á, að frátöldum 2. mgr. 2. gr., 7. gr., 11. gr. og 15. gr.
    Matsnefndin getur leitað umsagnar Orkustofnunar um það sem þurfa þykir.
    Kostnaður af störfum matsnefndarinnar skal greiðast af flutningsfyrirtækinu.
    Úrskurður matsnefndar skal liggja fyrir eigi síðar en 15. október 2004.
    Ágreiningur um verðmæti flutningsvirkja sem seld verða flutningsfyrirtækinu eða lögð inn í það sem hlutafé verður ekki borinn undir dómstóla fyrr en að gengnum úrskurði matsnefndar.
    Verði niðurstaða matsnefndar borin undir dómstóla skal flutningsfyrirtækið greiða eiganda flutningsvirkja leigu fyrir þau á grundvelli leigufjárhæðar sem Orkustofnun ákveður til bráðabirgða með hliðsjón af niðurstöðu matsnefndar.
    Þegar endanleg niðurstaða um verðmæti flutningsvirkja liggur fyrir skal eigandi þeirra tilkynna flutningsfyrirtækinu og Orkustofnun hvort hann velur að leggja virkin inn í flutningsfyrirtækið sem hlutafé, selja þau fyrirtækinu eða leigja þau til þess. Velji eigandi flutningsvirkja að leigja þau flutningsfyrirtækinu ákveður Orkustofnun leigugjaldið með hliðsjón af endanlegri niðurstöðu um verðmæti þeirra.

    d. (XII.)

Takmörkun á heimild til framsals hlutafjár í flutningsfyrirtækinu.

    Eigendum hlutafjár í flutningsfyrirtækinu er einungis heimilt að framselja hlutafé sitt til annarra hlutafjáreigenda í fyrirtækinu en ekki til aðila utan þess.

    e. (XIII.)

Endurskoðun.

    Ráðherra skal skipa nefnd fulltrúa hagsmunaaðila og þingflokka sem falin skal endurskoðun laga þessara. Endurskoðuninni skal lokið fyrir 31. desember 2010.

18. gr.

    Við lögin bætist svofelldur viðauki:

Viðauki.

    Afhendingarstaðir til dreifiveitna úr flutningskerfi skv. 6. tölul. 3. gr.:
     1.      Svartsengi,
     2.      Fitjar,
     3.      Hamranes,
     4.      Hnoðraholt,
     5.      Rauðavatn,
     6.      Korpa,
     7.      Brennimelur,
     8.      Akranes,
     9.      Vatnshamrar,
     10.      Vegamót,
     11.      Ólafsvík,
     12.      Grundarfjörður,
     13.      Vogaskeið,
     14.      Glerárskógar,
     15.      Geiradalur,
     16.      Tálknafjörður,
     17.      Mjólká,
     18.      Breiðidalur,
     19.      Bolungarvík,
     20.      Ísafjörður,
     21.      Hrútatunga,
     22.      Laxárvatn,
     23.      Blanda,
     24.      Sauðárkrókur,
     25.      Varmahlíð,
     26.      Dalvík,
     27.      Rangárvellir við Akureyri,
     28.      Húsavík,
     29.      Laxá,
     30.      Krafla,
     31.      Lindarbrekka,
     32.      Silfurstjarna,
     33.      Kópasker,
     34.      Vopnafjörður,
     35.      Lagarfoss,
     36.      Eyvindará,
     37.      Seyðisfjörður,
     38.      Neskaupstaður,
     39.      Eskifjörður,
     40.      Hryggstekkur,
     41.      Stuðlar,
     42.      Fáskrúðsfjörður,
     43.      Teigarhorn,
     44.      Hólar,
     45.      Prestbakki,
     46.      Búrfell,
     47.      Hvolsvöllur,
     48.      Rimakot,
     49.      Vestmannaeyjar,
     50.      Flúðir,
     51.      Hella,
     52.      Selfoss,
     53.      Ljósifoss,
     54.      Hveragerði,
     55.      Þorlákshöfn.

19. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.