Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1006. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1893  —  1006. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um efnahagslegar refsiaðgerðir.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu oft og í hvaða tilvikum hafa Íslendingar tekið þátt í efnahagslegum eða viðskiptalegum refsiaðgerðum gegn þjóðum sem brotið hafa alþjóðalög eða -samþykktir?
     2.      Hversu lengi stóðu þær aðgerðir?


    Eftirfarandi auglýsingar um refsiaðgerðir gegn Líbýu, Írak, Sambandslýðveldinu Júgóslavíu, Haítí, Angóla, Sierra Leone, Súdan, Afganistan og Líberíu hafa verið settar á grundvelli 3. gr. laga nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Sérstök lög voru hins vegar sett á sínum tíma um viðskiptabann gegn Suður-Afríku og Namibíu.
    Aðgerðir öryggisráðsins eru byggðar á VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir vegna ófriðarhættu, friðrofa og árása, en samkvæmt 41. gr. sáttmálans er öryggisráðinu heimilt að ákveða hvaða aðgerðir, aðrar en hernaðaraðgerðir, skuli viðhafðar til þess að framfylgja ákvörðunum þess og getur það hvatt félaga hinna Sameinuðu þjóða til þess að beita slíkum aðgerðum. Aðgerðir þessar mega vera í því fólgnar að slíta viðskiptasambandi að nokkru eða öllu leyti. Með aðild að Sameinuðu þjóðunum fallast aðildarríkin á að hlíta ákvörðunum öryggisráðsins samkvæmt 25. gr. sáttmálans þar sem segir að meðlimir hinna Sameinuðu þjóða séu ásáttir um að fallast á og framkvæma ákvarðanir öryggisráðsins í samræmi við ákvæði sáttmálans.

Líbýa.
    Auglýsing nr. 130 frá 15. apríl 1992 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 748 (1992) vegna stuðnings líbýskra stjórnvalda við hryðjuverkastarfsemi.
    Auglýsing nr. 474 frá 26. nóvember 1993 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 883 (1993) um refsiaðgerðir gegn Líbýu.
    Fyrrgreindar auglýsingar voru felldar úr gildi með auglýsingu nr. 333 frá 9. maí 1999.

Írak.
    Auglýsing nr. 331 frá 9. ágúst 1990 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661 (1990) vegna innrásar Íraka í Kúveit.
    Auglýsing nr. 160 frá 28. apríl 1992 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661 (1990) vegna innrásar Íraka í Kúveit. Jafnframt var auglýsing nr. 331 frá 9. ágúst 1990 felld úr gildi.
    Auglýsing nr. 470 frá 8. júlí 1998 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661 (1990) vegna innrásar Íraka í Kúveit til samræmis við ályktanir öryggisráðsins nr. 706 (1991), 712 (1991), 986 (1995), 1111 (1997), 1129 (1997), 1137 (1997), 1143 (1997), 1153 (1998), 1158 (1998) og 1175 (1998). Jafnframt var auglýsing nr. 160 frá 28. apríl 1992 felld úr gildi.
    Auglýsing um breytingu á auglýsingu nr. 470/1998 bíður birtingar, þar sem öryggisráðið hefur fellt niður allar takmarkanir á viðskiptum við Írak nema þær sem lúta að viðskiptum með vopn og vopnabúnað. Heimilt er þó að eiga viðskipti með vopn og vopnabúnað sem nauðsynlegur er fyrir stjórnvöld í Írak til að framfylgja ályktunum öryggisráðsins.

Sambandslýðveldið Júgóslavía.
    Auglýsing nr. 197 frá 2. júní 1992 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 757 (1992) um refsiaðgerðir gegn Sambandslýðveldinu Júgóslavíu (Serbíu og Svartfjallalandi).
    Auglýsing nr. 469 frá 8. júlí 1998 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1160 (1998) um bann við sölu vopna og vopnabúnaðar til Sambandslýðveldisins Júgóslavíu, þ.m.t. Kósóvó, og um að fella úr gildi auglýsingu nr. 197 frá 2. júní 1992.
    Auglýsing um að fella auglýsingu nr. 469/1998 úr gildi bíður birtingar, þar sem öryggisráðið hefur fellt niður refsiaðgerðir gegn Sambandslýðveldinu Júgóslavíu.

Haítí.
    Auglýsing nr. 459 frá 3. nóvember 1993 um ráðstafanir til að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 841 (1993), 873 (1993) og 875 (1993) um refsiaðgerðir gegn Haítí.
    Auglýsing nr. 456 frá 8. júlí 1998 um að fella úr gildi auglýsingu nr. 459 frá 3. nóvember 1993.

Angóla.
    Auglýsing nr. 468 frá 8. júlí 1998 um ráðstafanir til að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 864 (1993), 1127 (1997), 1130 (1997), 1173 (1998) og 1176 (1998) vegna brota UNITA-hreyfingarinnar í Angóla á ályktunum ráðsins.
    Auglýsing um að fella auglýsingu nr. 468/1998 úr gildi bíður birtingar, þar sem öryggisráðið hefur fellt niður refsiaðgerðir gegn Angóla.

Sierra Leone.
    Auglýsing nr. 471 frá 8. júlí 1998 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1171 (1998) um refsiaðgerðir gegn hinum vopnuðu stjórnarandstöðusveitum í Sierra Leone.

Súdan.
    Auglýsing nr. 472 frá 8. júlí 1998 um refsiaðgerðir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1054 (1996) um refsiaðgerðir gegn Súdan.
    Auglýsing um að fella auglýsingu nr. 472/1998 úr gildi bíður birtingar, þar sem öryggisráðið hefur fellt niður refsiaðgerðir gegn Súdan.

Afganistan.
    Auglýsing nr. 776 frá 15. október 2001 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1267 (1999) um aðgerðir gegn liðsmönnum stjórnar talibana í Afganistan og nr. 1333 (2000) um aðgerðir gegn talibönum í Afganistan og hryðjuverkasveitum sem hafa aðsetur í Afganistan.

Líbería.
    Auglýsing nr. 846 frá 6. nóvember 2001 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1343 (2001) um refsiaðgerðir gegn Líberíu.

Suður-Afríka og Namibía.
    Alþingi setti lög nr. 67 hinn 20. maí 1988 um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu. Þessum lögum var breytt með lögum nr. 30, 8. maí 1990, þar sem bann gegn viðskiptum við Namibíu var fellt niður.
    Með lögum nr. 33 frá 30. apríl 1993 voru lög nr. 67 frá 20. maí 1988, eins og þeim var breytt með lögum nr. 30/1990, felld úr gildi.