Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 4  —  4. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 75/2001, um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason.1. gr.

    Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga þessara skal ríkissjóður halda óskertum hlut í fyrirtækinu, a.m.k. til ársloka 2008. Fyrirtækinu skal falið að gera sérstakt átak á þeim tíma til að bæta fjarskipta- og gagnaflutningakerfi landsins með það að markmiði að allir landsmenn, án tillits til búsetu, eigi kost á nýjustu og fullkomnustu tækni á þessu sviði. Heimilt er að lækka eða fella niður arðgreiðslur í ríkissjóð á móti þeim fjárfestingum fyrirtækisins í þessu skyni sem síst eru arðbærar, samkvæmt nánari reglum er fjármálaráðherra setur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á síðasta löggjafarþingi en varð þá eigi útrætt. Það er nú endurflutt enda aðstæður í öllum aðalatriðum óbreyttar. Þó ber að geta þess að samhliða skiptum stjórnarflokkanna á ráðuneytum hefur formennska í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar færst til Framsóknarflokks frá Sjálfstæðisflokki. Boðað er að einkavæðing Landssímans hefjist á næstu vikum og hefur verið auglýst eftir sérstökum ráðgjafa til að vera nefndinni innan handar við það verk. Jafnframt bárust nýlega þau tíðindi að Landssíminn hefði keypt stóran hlut í Íslenska sjónvarpsfélaginu sem rekur sjónvarpsstöðina Skjá einn. Þar með hefur Landssíminn tekið stórt skref í þá átt að verða fjölmiðlafyrirtæki frá því að reka eingöngu dreifikerfi, þ.e. breiðbandið svokallaða, þar sem endurvarpað var útsendingum ýmissa sjónvarpsstöðva, til viðbótar hefðbundinni kjarnastarfsemi sinni á sviði fjarskipta.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð telur engin haldbær rök fyrir einkavæðingu Símans og telur hann áfram best kominn sem öflugt almannaþjónustufyrirtæki í opinberri eigu. Því er þess nú enn freistað að hafa áhrif á málið með því að leggja til að horfið verði frá hugmyndum um sölu, a.m.k. til ársloka 2008. Með því gefst ráðrúm til að skoða málin, meta reynslu annarra þjóða af einkavæðingu fjarskipta og síðast en ekki síst nota tímann vel til að bæta fjarskiptakerfið. Framhald málsins verður svo í höndum þess löggjafar- og framkvæmdarvalds sem með málin fer þegar þar að kemur. Það er von flutningsmanna að sú leið sem frumvarpið felur í sér fáist tekin til alvarlegrar skoðunar, ekki síst í því skyni að ná lágmarkssáttum um meðferð þessa umdeilda máls. Í ljósi óumdeilds mikilvægis fjarskipta og gagnaflutninga í nútímasamfélagi verður að gera kröfu um ýtrustu gát. Má í því sambandi benda á að hægri stjórnin í Noregi hefur farið sér mjög hægt í því að minnka í áföngum eignarhald ríkisins í norska símanum, Tele Nor. Ekki er annað vitað hér en til standi að afhenda Símann í heilu lagi, eða a.m.k. ráðandi hlut í honum, sbr. tal um kjölfestueiganda, jafnvel einum aðila. Erfitt er þó að henda reiður á aðferðafræði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í einkavæðingarmálum, enda oftast skipt um aðferð hverju sinni. Þannig var dreifð eignaraðild einu sinni sögð sérstakt keppikefli en hvarf síðan út úr myndinni og í staðinn kom ofuráhersla á svokallaðan kjölfestueiganda, þ.e. algerlega gagnstæð aðferð varð allt í einu ofan á. Fyrri einkavæðingaráform Símans gengu út á að fá að fyrirtækinu erlendan eiganda með sérþekkingu á sviði fjarskipta. Frá því virðist nú hafa verið horfið og alveg eins uppi á teningunum að mögulegir innlendir kaupendur fyrirtækisins beiti afli þess til fjárfestinga erlendis.
    Fyrri tilraunir ríkisstjórnarinnar til að einkavæða Símann enduðu í farsakenndu klúðri sem skaðaði hagsmuni fyrirtækisins. Reynslan af einkavæðingu ýmissa ríkisfyrirtækja með þeim aðferðum sem ríkisstjórnin hefur notað hefur vægast sagt verið blendin. Aukin samþjöppun og fákeppni virðist óhjákvæmilegur fylgifiskur þess háttar einkavæðingar, a.m.k. við íslenskar aðstæður, og þannig hafa völd og áhrif færst á hendur fárra í viðskiptalífinu. Til að mynda hefur einkavæðing bankanna verið olía á þennan eld og hraðað samþjöppun og fákeppni sem skaðar hvort tveggja í senn, íslenskt viðskiptalíf og neytendur. Í ljósi þessarar reynslu er erfitt að skilja hvers vegna því er haldið til streitu að einkavæða Símann. Engin trygging er fyrir því að hann lendi ekki í höndum einhverra þeirra sömu aðila og mestu hafa sópað til sín að undanförnu.
    Megn óánægja er í samfélaginu með margar þær breytingar sem orðið hafa með einkavæðingu öflugra ríkisfyrirtækja. Almenningi blöskrar samþjöppun valds og auðs í kjölfar markaðs- og einkavæðingarinnar sem einnig orsakar minna aðhald og lakari aðkomu almennings að ákvörðunum um mikilvæg hagsmunamál í samfélaginu. Meira að segja ýmsir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa hrifist með óánægjubylgjunni og látið ummæli falla um skerta þjónustu í kjölfar einkavæðingar ríkisfyrirtækja eða lýst yfir áhyggjum af græðgisvæðingu samfélagsins, samþjöppun auðs og valda. Gerir það áformin um einkavæðingu Símans enn óskiljanlegri en ella.
    Mörg verkefni eru fram undan í fjarskiptamálum sem brýnt er að ráðast í næstu árin. Ber þar einkum að nefna tvennt, þ.e. uppbyggingu á fjarskipta- og gagnaflutningamöguleikum um allt land og að tryggja aðgang allra landsmanna að GSM-kerfinu. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa flutt tillögur um hvort tveggja og er þar gert ráð fyrir að arðgreiðslur til ríkissjóðs verði lækkaðar á meðan Síminn vinni að þeim verkefnum. Með þessu er að sjálfsögðu ekki allt talið upp sem fram undan er á þessu sviði. Svonefnd þriðja kynslóð farsíma er að halda innreið sína og fram undan miklar fjárfestingar á vegum fjarskiptafyrirtækja við að byggja upp þá þjónustu. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að kröfur til fjarskiptaþjónustu fara sívaxandi og þróunin er hröð hvað varðar nýja og afkastameiri tækni. Mikilvægt er að öllum landsmönnum verði tryggðir möguleikar til að fylgja þeirri þróun.
    Með einkavæðingu Símans yrði ljóst að Alþingi gæti ekki tryggt framkvæmd slíkra verkefna og afsalaði sér þar með öflugu tæki til að tryggja jafnan aðgang landsmanna að fjarskiptaþjónustu. Fyrirtæki á hlutabréfamarkaði telja sig að sjálfsögðu ekki bera neina slíka ábyrgð heldur hafa fyrst og síðast þá skyldu við eigendur sína að tryggja þeim arð. Því er veruleg hætta á að uppbygging fjarskiptaþjónustu eins og hún getur best orðið á hverjum tíma, sérstaklega á strjálbýlum svæðum, verði hagvæmnis- og arðsemissjónarmiðum endanlega að bráð með einkavæðingu Símans. Má til samanburðar minna á lokun útibúa eða styttan afgreiðslutíma bankanna á landsbyggðinni eftir að ríkisbankarnir voru einkavæddir. Reynsla annarra þjóða, t.d. Nýsjálendinga, af slíkri einkavæðingu er sú að hún hefur bitnað harkalega á landsbyggðinni og reyndar landsmönnum öllum. Ekki aðeins hefur fjárfesting í fjarskiptakerfinu á strjálbýlli eða fámennari markaðssvæðum setið á hakanum, heldur hefur strjálbýlið þar sem hið einkavædda símfyrirtæki er enn í einokunaraðstöðu, verið látið greiða niður herkostnaðinn af samkeppni í stórborgunum. Arður af rekstri fjarskiptafyrirtækjanna, og einnig störf í þó nokkrum mæli, hafa flust úr landi hjá Nýsjálendingum eftir að helstu fjarskiptafyrirtæki landsins komust í eigu útlendinga.
    Í mars 2002 lét þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs Gallup kanna afstöðu almennings til þess hvort selja bæri Landssímann eða hafa hann áfram í opinberri eigu. Niðurstöður könnunarinnar voru einkar athyglisverðar þar sem 61% þeirra sem afstöðu tóku vildu að Landssíminn væri áfram í opinberri eigu en 39% að hann yrði seldur. Hljóta þær niðurstöður að teljast mikilvægt innlegg í umræðuna um framtíð Landssímans og vera enn frekar til marks um andstöðu almennings við fyrirhugaðar breytingar á eignarhaldi Símans. Mestu máli skiptir að Landssíminn geti sinnt því hlutverki sínu vel að tryggja góða og sambærilega þjónustu um allt land. Það er markmið þessa frumvarps.