Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 5. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 5  —  5. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson.



1. gr.

    Í stað 3. mgr. 5. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann frá undirskriftardegi en þó því aðeins að hann hafi verið undirritaður innan sex mánaða frá því að fyrri samningur féll úr gildi, enda sé ekki á annan veg samið, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungs þátttöku samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun.
    Séu kjarasamningar lausir lengur en sex mánuði skal upphafshækkun launaliða og önnur atriði sem bæta kjör launþega þegar kjarasamningur kemst á virka aftur til helmings þess tíma sem liðinn er án nýs kjarasamnings. Við hverja tvo mánuði sem bætast við án kjarasamnings færist gildistaka upphafshækkunar aftur um einn mánuð. Eftir tólf mánuði eða meira með lausa kjarasamninga gildir umsamin hækkun frá því að samningurinn féll úr gildi. Óheimilt er að semja um annan upphafsgildistíma, nema því aðeins að launþegum verði greidd eingreiðsla sem telst jafngild í tekjum þeim afturvirku upphafshækkunum, eða áfangahækkunum á liðnum tíma án endurnýjunar kjarasamnings, sem lög þessi kveða á um.
    Fari fram almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð þátttöku. Nú tekur kjarasamningur einungis til hluta félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis og er þá heimilt að ákveða í samningnum að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann, enda komi þar skýrt fram hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lögð til réttarbót fyrir launþega ef upp kemur sú staða að kjarasamningar eru lausir mánuðum saman. Viðbótarákvæðin, sem lagt er til með frumvarpi þessu að komi í 5. gr. laga nr. 80/1938, með síðari breytingum, eru efnislega þau að tryggja launþegum sambærilegar launabreytingar og öðrum launþegum hafa verið tryggðar fyrir sömu tímabil eða ár ef svo hagar til að gerð nýrra kjarasamninga dregst verulega á langinn. Ákvæðin sem bætt er í 5. gr. laganna eiga aðeins við og verða því aðeins virk að kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags hafi verið lausir lengur en í sex mánuði. Sé nýr kjarasamningur gerður innan sex mánaða frá því að eldri kjarasamningur féll úr gildi hafa þau ákvæði sem frumvarpið felur í sér enga beina virkni. Ákvæðin ættu samt sem áður að hafa óbeina virkni í þá veru að hvetja aðila kjaradeilu til þess að leysa mál sín fyrr en ella.
    Réttarbót launþegans felst í því að honum sem einstaklingi er tryggð leiðrétting á launum í samræmi við það sem samið hefur verið um við önnur launþegasamtök eða stéttarfélög. Ákvæðin verða virk þegar svo hagar til að samtök launþega og vinnuveitendur hafa ekki gert nýjan kjarasamning innan sex mánaða frá því að eldri samningur féll úr gildi. Um leið og sex mánuðir eru liðnir (6 x 30 = 180 dagar) er launþeganum tryggt að kjarabætur til hans verða afturvirkar í þrjá mánuði (3 x 30 = 90 daga). Jafnframt eru ákvæði um að fyrir hverja 60 daga sem dregst að endurnýja eða gera nýjan kjarasamning bætast 30 dagar við afturvirkni hækkunar kaupliða og kjaraatriða. Dragist í 12 mánuði að gera kjarasamninga á launþeginn orðið lögvarinn rétt til þess að fá upphafshækkun reiknaða aftur í tímann til þess dags er eldri kjarasamningur féll úr gildi. Að þessum lagabreytingum gerðum ætti það að vera úr sögunni að vinnuveitendur hagnist á því árum og áratugum saman, eins og dæmi eru um, að draga gerð kjarasamninga. Ákvæðin ættu einnig að verða til þess almennt að bein inngrip löggjafans í kjaradeilur yrðu sjaldséðari en verið hefur á undanförnum árum.
    Kjarasamningar Sjómannasambands Íslands (SSÍ) og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ), sem og Alþýðusambands Vestfjarða, hafa verið lausir frá 1. janúar, í níu mánuði, og grunnskólakennara frá 1. apríl, eða í sex mánuði. Í sjómannadeilunni hafa verið haldnir 30 fundir og 51 fundur í kjaradeilu grunnskólakennara. Þetta frumvarp, ef það fengi fljóta afgreiðslu á Alþingi, gæti vissulega flýtt fyrir gerð kjarasamninga í þessum launadeilum sem ekki sér enn fyrir endann á.
    Eins og sést í fylgiskjali með frumvarpi þessu hafa kjarasamningar oft dregist mjög á langinn hjá fiskimönnum sem lengst hafa átt LÍÚ að beinum viðsemjendum þótt samtök vinnuveitenda og nú síðast Samtök atvinnulífsins, SA, hafi verið þar með hlutverk. Sú saga er reyndar mun lengri en fylgiskjalið sýnir. Það sem upp úr stendur við þessa samantekt er að „samningatækni“ LÍÚ sl. 19 ár hefur haft þau áhrif á kjör og kjarasamninga fiskimanna að þeir hafa ekki notið kaupbreytinga á launaliði eða annarra kjarabóta til jafns við aðra launþega í landinu. Þar munar miklu í tíma, 2.403 dögum eða um það bil sex og hálfu ári á þeim 19 árum sem gerð er grein fyrir í fylgiskjalinu. Samtök fiskimanna verða varla með sanngirni sökuð um of mikla verkfallsgleði til þess að þvinga útgerðina til samninga þegar litið er á að fiskimenn voru sex og hálft ár á sl. 19 árum með lausa kjarasamninga þegar aðrir nutu kauphækkana mestallan þann tíma. Þess eru þó dæmi að kjarasamningar annarra hafi verið lausir einhverja mánuði, en „afrek“ LÍÚ í þessum efnum er einsdæmi.
    Þrátt fyrir þetta er löggjafinn sjaldan langt undan þegar kemur að kjaradeilum sjómanna. Tímamæling á því væri fróðleg en flutningsmaður kann þá sögu. Oftast voru 15–25 dagar sá tími sem LÍÚ þurfti að bíða uns LÍÚ-vinveittu ríkisstjórnirnar settu lög á kjaradeilur sjómanna. Því væri full ástæða til þess að setja ákvæði inn í vinnulöggjöfina um að þegar kjaradeilu er frestað tímabundið með lögum skuli það ástand sem lögin frestuðu koma aftur upp þegar gildistíma laganna lýkur. Þetta þýðir í reynd að verkfall hæfist sjálfkrafa á nýjan leik um leið og lögbundinn samningstími væri runninn út. Sú tillaga er þó ekki flutt að þessu sinni.
    Ef setja ætti slíkt ákvæði í lög ætti það að koma sem ný grein á eftir 19. gr. laganna og hljóða svo:
    „Vinnustöðvanir, þ.e. verkbönn og verkföll eins og þau eru skilgreind í lögum þessum, sem ákveðnar eru með lögum, hefjast að nýju þann dag sem þau lög falla úr gildi eða að loknum þeim tíma sem tiltekin ákvæði kjarasamningsins skulu gilda samkvæmt sömu lögum.“
    Frumvarp sama efnis var flutt á 126., 127., 128. og 130. löggjafarþingi en varð eigi útrætt og er því endurflutt.



Fylgiskjal.


Yfirlit yfir kjarasamninga sjómanna á fiskiskipum
15. janúar 1985 – 31. desember 2003*)

Gildistími kjarasamninga eða laga Undirskrift kjarasamninga     eða laga
Samningslaust tímabil
15.01.85–30.11.88
01.06.89–31.12.89
20.11.90–15.09.91
27.07.92–01.03.93
14.01.94–15.06.94
15.06.95–31.12.96
27.03.98–15.02.00
19.03.01–01.04.01
   16.05.01–31.12.03**)
03.06.89
20.11.90
27.07.92
14.01.94
15.06.95
27.03.98
19.03.01
16.05.01

?

185 dagar
324 dagar
315 dagar
320 dagar
365 dagar
451 dagar
397 dagar
  46 dagar

        Alls 2.403 dagar
*)    Gildistími gerðardóms samkvæmt lögum nr. 34/2001 er til 31. desember 2003.
**)    Gildir ekki fyrir félagsmenn.

     Athugasemdir: Feitletraðar dagsetningar tákna setningu og gildistíma laga til framlengingar á kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna.
     Gildistími kjarasamninga eða laga: Hér er átt við þann gildistíma sem kveðið er á um í hlutaðeigandi kjarasamningi eða lögum. Hins vegar er hinn raunverulegi gildistími lengri eins og dæmin sanna, þar sem nýr kjarasamningur tekur ekki gildi fyrr en nýr kjarasamningur hefur verið undirritaður eða lög sett.
     Samningslaust tímabil: Hér er átt við þann tíma sem skilur á milli frá gildislokum kjarasamnings/laga og þar til undirritun kjarasamnings/setning laga hefur farið fram.
    Á framangreindu yfirlitstímabili, þ.e. frá 15. janúar 1985 til 31. desember 2003, eru 6.920 dagar. Á þessu tímabili eru 2.403 „samningslausir“ dagar eða rúmlega 35% af yfirlitstímanum. Á þessu tímabili hafa lög framlengt kjarasamninga um 2.622 daga eða sem nemur um 38% af yfirlitstímanum. Samtals eru því sjómenn á fiskiskipum samningslausir og bundnir lögum sem nemur um 3/ 4 af yfirlitstímanum.