Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 15. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 15  —  15. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun atvinnuvegaráðuneytis.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir,
Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Ágúst Ólafur Ágústsson,
Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson,
Einar Már Sigurðarson, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar,
Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller,
Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Mörður Árnason,
Rannveig Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar í því skyni að setja á stofn nýtt, öflugt atvinnuvegaráðuneyti í stað landbúnaðar-, sjávarútvegs-, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta.
    Hið nýja ráðuneyti fari með stjórnsýslu og stefnumörkun sem varðar málefni allra atvinnugreina. Ferðaþjónusta, þekkingariðnaður og aðrar atvinnugreinar sem heyra nú undir önnur ráðuneyti eða eiga ekki fastan stað í stjórnkerfinu verði felld undir atvinnuvegaráðuneytið.
    Við stofnun hins nýja ráðuneytis verði yfirfarin og skilgreind nákvæmlega öll verkefni og stofnanir viðkomandi ráðuneyta með það fyrir augum að sameina stofnanir og styrkja þær þannig til að takast á við ný viðfangsefni. Jafnframt verði stefnt að því að draga úr kostnaði og gera rekstur hins nýja ráðuneytis eins hagkvæman og skilvirkan og kostur er.
    Undirbúningi að stofnun hins nýja ráðuneytis verði lokið fyrir árslok 2006.

Greinargerð.


    Heildarendurskoðun á Stjórnarráðinu, bæði skiptingu þess í ráðuneyti og verkaskiptingu milli ráðuneyta, er löngu tímabær. Langbrýnast er að endurskoða atvinnuvegaráðuneytin en þau eru of mörg, of smá og ekki nógu skilvirk, enda leifar úreltrar þrískiptingar atvinnulífsins sem þróunin hefur gert ónothæfa.
    Burðarásar hins nýja öfluga atvinnuvegaráðuneytis yrðu ýmis stórverkefni sem kæmu úr ráðuneytum sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og viðskipta, en einnig stórverkefni á borð við ferðaþjónustu sem nú heyrir undir samgönguráðuneyti. Voldugt ráðuneyti af þessu tagi mundi þjóna hagsmunum hins margslungna atvinnulífs Íslendinga miklu betur en litlu ráðuneytin þrjú sitt í hverju lagi.
    Samfylkingin leggur áherslu á að með þessu er einungis stigið fyrsta skrefið í átt að því að nútímavæða Stjórnarráðið og aðlaga það nýjum breytingum og viðhorfum, jafnt í atvinnulífi sem opinberum rekstri. Samhliða þessu mikilvæga skrefi telur Samfylkingin að rétt sé að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt á öðrum ráðuneytum og stofnunum þeira með það fyrir augum að sameina þau og fækka og leggja þannig grunn að frekari endurskoðun og nútímavæðingu Stjórnarráðsins.

Markmið.
    Markmið uppstokkunar Stjórnarráðsins er margþætt. Í fyrsta lagi er mikilvægt að laga Stjórnarráðið, ráðuneytin og stofnanir þeirra, að þeim gríðarlegu breytingum sem orðið hafa í atvinnuháttum en speglast ekki í uppbyggingu Stjórnarráðsins. Í öðru lagi hefur ráðuneytum fjölgað úr hófi fram og löngu orðið tímabært að fækka þeim og gera starfsemi þeirra skilvirkari með því að sameina verkefni. Í þriðja lagi eru stofnanir íslensku stjórnsýslunnar of margar miðað við verkefni samfélagsins, of smáar og því ekki nægilega öflugar til að takast á við æ flóknari verkefni margþætts tæknisamfélags. Í fjórða lagi er uppstokkun á Stjórnarráðinu, stofnunum og ráðuneytum, tímabær til að gera rekstur hins opinbera skilvirkari, hagræða með sameiningu og draga þannig úr kostnaði skattborgaranna af rekstri ríkisins.

Úrelt verkaskipting.
    Verkaskipting Stjórnarráðsins endurspeglar ekki nútímann. Skipan þess hefur verið að mestu óbreytt frá árinu 1969 ef frá er talin stofnun umhverfisráðuneytisins. Sannkallaðar byltingar á sviði fjarskipta sem felast í netinu og þekkingar- og vitundariðnaði nútímans, sem jafna má við iðnbyltinguna á sínum tíma, endurspeglast hvergi í uppbyggingu og verkaskiptingu Stjórnarráðsins.
    Gamaldags uppbygging Stjórnarráðsins kemur skýrast fram í þeim hlutum þess sem snúa að atvinnulífinu. Þeim er enn skipt samkvæmt löngu úreltri skiptingu atvinnulífsins í þrjú lítil og veikburða ráðuneyti sem sinna gömlu frumframleiðslugreinunum í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Kerfið rígheldur í gömul ráðuneyti sem skipta æ minna máli fyrir atvinnulíf landsmanna meðan nýjar greinar fá hvorki athvarf né atlæti innan Stjórnarráðsins. Dæmi um þetta er að landbúnaður, sem leggur til 1% landsframleiðslunnar, hefur í kringum sig heilt ráðuneyti og viðamikið stoðkerfi dýrra stofnana, þar á meðal heilan háskóla, en upplýsingatækni með 5,5% af landsframleiðslu hefur til skamms tíma velkst eins og sprek í Stjórnarráðinu. Einnig má nefna að ferðaþjónustu, sem leggur til 4,5% landsframleiðslunnar, var á sínum tíma holað niður í samgönguráðuneytinu án mikilla raka.
    Það er viðtekin skoðun að hið opinbera eigi ekki að gera neinn greinarmun á mismunandi atvinnugreinum heldur skapa atvinnulífinu öllu sömu skilyrði til að vaxa. Það er hin útbreidda skoðun og vinnuaðferð í atvinnulífinu sjálfu. Öllum þessum greinum, gömlum og nýjum, væri best komið saman í einu öflugu atvinnuvegaráðuneyti. Innan þess yrði stjórnsýsla og stefnumörkun fyrir atvinnulífið í heild færð til nútímanns. Stefnan yrði skýrari og áhrif sérhagsmuna minni.
    Fyrsta og mikilvægasta skrefið í endurskipulagningu og nútímavæðingu Stjórnarráðsins er því að mati Samfylkingarinnar að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt ráðuneyti.

Öflugri einingar – skilvirkara fjármagn.
    Fyrir utan aukna skilvirkni í stjórnsýslu og stóraukinn stuðning fyrir atvinnulífið sem fælist í einu, öflugu atvinnuvegaráðuneyti mundi stofnun þess fela í sér margvíslegt fjárhagslegt hagræði fyrir hið opinbera. Mikill sparnaður felst í því að sameina þrjú ráðuneyti í eitt og ráðast samhliða í að styrkja stofnanir með því að sameina þær og fækka. Einungis sparnaður vegna stjórnunarkostnaðar gæti numið háum fjárhæðum.
    Í upphafi þyrfti að skilgreina hvaða verkefnum er hægt að steypa saman, hvaða nefndir má leggja niður og hvaða stofnanir er hægt að sameina. Við slíka endurskoðun þarf einnig að skoða hvaða verkefnum væri hugsanlega betur komið hjá öðrum ráðuneytum. Landbúnaðarháskólinn, sem nú heyrir undir landbúnaðarráðuneytið, á að mati Samfylkingarinnar heima undir menntamálaráðuneytinu. Meginverkefni stofnana eins og Skógræktarinnar og Landgræðslunnar eiga heima í umhverfisráðuneytinu. Eins og rökstutt er síðar í greinargerðinni ætti eftirlit og mat á ástandi auðlinda ekki heima í hinu nýja atvinnuvegaráðuneyti og meginverkefni stofnunar á borð við Hafrannsóknastofnunina ætti því heima í öðru ráðuneyti, til dæmis umhverfisráðuneytinu. Hugsanlega má einnig skoða að gera þjónustusamninga um ákveðin minni verk sem gæti í senn sparað og einfaldað rekstur ríkisins.
    Margar stofnanir ríkisins eru allt of smáar þannig að sameining leiðir ekki aðeins til betri nýtingar fjármuna heldur verða til öflugri einingar. Nýtt atvinnuvegaráðuneyti, sem ekki er háð þeim múrum milli atvinnugreina sem felast í núverandi skiptingu í þrjú atvinnuvegaráðuneyti, skapar jafnframt meiri möguleika fyrir hið opinbera til að styðja dyggilega við nýjungar. Hvort tveggja mun geta skipt miklu máli fyrir vöxt sprota sem verða til í hefðbundnu greinunum.

Grunnregla gegn hagsmunaárekstri.
    Við uppstokkun stofnana ríkisins ber að hafa í heiðri þá grunnreglu að eftirlit, vöktun og mat á auðlindum verði ekki á hendi sama ráðuneytis og fer með ákvarðanir um nýtingu auðlindanna og stjórnsýslu sem henni fylgir. Í því er fólginn augljós hagsmunaárekstur sem veður uppi í stjórnkerfinu og brýnt er að útrýma. Þetta má skýra með því að taka dæmi af skógum: Ef sama ráðuneyti ber bæði ábyrgð á eftirliti með þróun og stærð skóga og ákveður jafnframt nýtingu þeirra felur það í sér árekstur milli sjónarmiða um nýtingu og verndun. Nákvæmlega sama gildir um fiskistofna. Við samruna ráðuneyta í öflugt atvinnuvegaráðuneyti þarf því að endurskilgreina allar stofnanir litlu ráðuneytanna þriggja með það fyrir augum að færa eftirlit með stöðu og þróun nytjastofna frá hinu nýja atvinnuvegaráðuneyti yfir til viðeigandi stofnana annarra ráðuneyta. Einungis stjórnsýsla, stefnumörkun og ákvörðun um nýtingu auðlindanna á að vera í atvinnuvegaráðuneytinu.

Fyrsta skrefið.
    Í þessari þingsályktunartillögu leggur Samfylkingin til að fyrsta skrefið að nútímavæðingu Stjórnarráðsins verði tekið með því að leggja hefðbundnu atvinnuvegaráðuneytin niður og stofna eitt nýtt, öflugt atvinnuvegaráðneyti sem tekur yfir alla stjórnsýslu atvinnulífsins. Í framhaldinu þarf að skoða önnur ráðuneyti og stofnanir með það fyrir augum að gera stjórnsýsluna einfaldari og styrkari og færari til að svara kröfum breyttra tíma. Markmiðið á að vera að fækka ráðuneytum og gera rekstur ríkisins skilvirkari með því að sameina ráðuneyti og stofnanir og færa saman verkefni.