Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 22. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 22  —  22. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Jóhanna Sigurðardóttir.



1. gr.

    Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Greiða skal orlofslaun af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var flutt á 130. löggjafarþingi en varð þá eigi útrætt. Það var sent félagsmálanefnd til umfjöllunar og fékk nefndin umsagnir bæði frá verkalýðshreyfingunni og samtökum atvinnurekenda. Allar umsagnir verkalýðshreyfingarinnar, þ.e. frá Starfsgreinasambandinu, BSRB og Kennarasambandi Íslands, voru mjög jákvæðar. Jafnframt kom fram að Alþýðusamband Íslands kvaðst mundu láta reyna á þetta mál fyrir dómstólum. Á hinn bóginn voru bæði Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins neikvæð gagnvart efni frumvarpsins. Hér um að ræða mikið réttlætismál og er brýnt að löggjafinn taki afstöðu til þess. Frumvarpið er því endurflutt óbreytt.
    Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, er ekki að finna ákvæði sem kveður á um að greiða skuli orlofslaun af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í úrskurði nr. 19/2003 staðfesti úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að reikna ekki orlofslaun á greiðslur vegna orlofstöku til kæranda í fæðingarorlofi. Í úrskurðinum segir m.a.: „Sá greinarmunur sem gerður er á rétti til orlofstöku og rétti til orlofslauna í framangreindum lögum styður þá niðurstöðu að í 2. mgr. 14. gr. ffl. felist fyrirmæli um áunninn rétt til orlofstöku en ekki rétt til orlofslauna.“
    Þetta hefur það í för með sér að einstaklingar í fæðingarorlofi fá ekki notið almennrar orlofstöku nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Í slíkum tilvikum grafa réttindi á einu sviði undan réttindum á öðru sviði.
    Þeirri lagabreytingu sem hér er gerð tillaga um er ætlað að tryggja að allir þeir sem nýta sér rétt til fæðingarorlofs eigi óskertan rétt í sumarorlofi.
    Fallinn er dómur í héraðsdómi þvert á yfirlýsingar sem þáverandi félagsmálaráðherra gaf í svari við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur veturinn 2002–2003 þar sem fullyrt var að Fæðingarorlofssjóði bæri að greiða foreldrum orlofslaun samkvæmt ákvæðum gildandi laga. Í ljósi alls þessa er nauðsynlegt að lögfesta þetta frumvarp og taka þannig af öll tvímæli um vilja löggjafans.