Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 27. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 27  —  27. mál.
Tillaga til þingsályktunarum eflingu starfsnáms og styttri námsbrauta.

Flm.: Björgvin G. Sigurðsson, Mörður Árnason, Katrín Júlíusdóttir,
Jóhann Ársælsson, Einar Már Sigurðarson, Anna Kristín Gunnarsdóttir,
Bryndís Hlöðversdóttir, Jón Gunnarsson, Ágúst Ólafur Ágústsson,
Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela starfshópi skipuðum fulltrúum þingflokkanna, Samiðnar, Samtaka iðnaðarins, Félags framhaldsskólanema, Félagi framhaldsskólakennara, Iðnnemasambandsins, Alþýðusamband Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Verslunarráðs Íslands og fulltrúa skólastjóra verknámsskólanna að vinna tillögur um átak til að efla starfsnám í framhaldsskólum og um stofnun nýrra, styttri starfsnámsbrauta, með það m.a. að markmiði að efla starfsnám verulega, draga úr brottfalli í framhaldsskólum, stofna styttri námsbrautir sem eru þeirrar gerðar að nemendur geta alltaf bætt nýju námi ofan á, eyða úreltri aðgreiningu milli verknáms og bóknáms, endurskoða samsetningu náms í grunnskólum með tilliti til verknáms, efla framhaldsskólastigið markvisst og tryggja nægjanlegt framboð verkmenntaðs fólks á vinnumarkaði. Með starfsnámi er átt við nám sem fellur undir iðn-, verk- og listnám í framhaldsskólum.
    Sérstaklega verði endurskoðað reiknilíkanið sem er notað til að deila út fjármagni til framhaldsskólanna með það að markmiði að starfsnámið fái framlög í samræmi við kostnað.

Greinargerð.


    Mikilvægt er að vinna að breytingum á íslensku skólakerfi til að taka sérstaklega á brottfalli úr framhaldsskóla og því mikla vandamáli sem það er fyrir einstaklinga og samfélagið allt enda er brottfall verulega mikið á Íslandi samanborið við önnur ríki á Norðurlöndum. Til þess að þau markmið náist verður m.a. að gera sérstakt átak í starfsnámi sem miðar að því að fjölgreind nemenda fái þroskast og gömlu skilin á milli bóknáms og verknáms máist út. Áríðandi er að nemendur eigi alltaf greiða leið aftur inn í skólana hafi þeir hætt námi tímabundið eða vilji bæta við fyrri menntun sína.
    Samkvæmt opinberum tölum útskrifast innan við 70% íslenskra framhaldsskólanema en meðaltalið er 82% innan OECD-ríkjanna og yfir 90% í Svíþjóð. Þetta mikla brottfall er einn stærsti vandi skólakerfis okkar og má rekja það að hluta til lítils framboðs á fjölbreyttu starfsnámi og styttri námsbrautum og lítillar kynningar á kostum verknámsins. Þá er mikilvægt að stórauka námsráðgjöf í framhaldsskólum en með því móti væri hægt að stemma verulega stigu við brottfallinu.
    Samhliða starfsnámsátakinu þykir flutningsmönnum tillögunnar rétt að fram fari öflugt kynningarátak á kostum starfsnáms og þeim möguleikum sem það opnar til frekari náms og fjölbreyttra og skemmtilegra starfa. Einnig er lögð áhersla á að það er mikilvægt framfaramál fyrir íslenskan iðnað og íslenska iðnaðarmenn að iðnmeistaranám verði endurskoðað svo að það verði sambærilegt við það sem best gerist erlendis og áhersla verði lögð á að samræma það á milli greina.

Styttri námsbrautir.
    Mikilvæg viðbót við framhaldsskólamenntun okkar væri fjölbreytt framboð styttri námsbrauta í hinum ýmsu starfsgreinum í þjónustu og öðrum störfum sem unnin eru og heyra ekki undir neinar fagreinar og eru miðaðar að því að leið fólks sé alltaf greið til að bæta við nýjum greinum. Það geti alltaf með greiðum og augljósum hætti bætt nýju námi við. Dyrnar í skólann þurfa alltaf að vera opnar og námið þannig sniðið að auðvelt sé að byggja ofan á það.
    Framboð á slíkum styttri námsbrautum mundi valda miklum breytingum fyrir marga unga og óráðna einstaklinga sem hvorki vilja binda sig við lengra hefðbundið starfsnám né hafa áhuga á stúdentsprófi eða aðstæður til þess.

Minnkandi aðsókn – skortur á iðnaðarmönnum.
    Starfsmenntunin á í vanda sem lýsir sér m.a. í því að aðsókn að mörgum greinanna hefur minnkað og blasir við mikill vandi og skortur á fagmönnum í einstökum greinum, t.d. járn- og málmiðnaði. Verknámið er að mörgu leyti hætt að kenna á landsbyggðinni og framboð á starfsmenntun hvers konar hefur minnkað í fjölbrautaskólum landsins. Skortur á iðnaðarmönnum kemur til með að standa íslenskum iðnaði fyrir þrifum á næstu árum. Sem dæmi um mikilvægi á starfsmenntuðu vinnuafli má nefna að iðnaðurinn skapar miklar tekjur og þrjár af hverjum tíu krónum í landsframleiðslunni verða til í ýmsum greinum iðnaðar: stóriðju, byggingariðnaði, matvælaiðnaði, trjávöruiðnaði, pappírsiðnaði, málmiðnaði, verktakastarfsemi, upplýsinga- og tækniiðnaði o.s.frv. eins og fram kemur í tölum Þjóðhagsstofnunar.

Vandi í reiknilíkaninu.
    Fjárhagsvandi starfsmenntunar á rætur í reiknilíkani sem notað er til dreifingar á fjármagni til framhaldsskólanna. Líkanið skilar starfsnámi ekki því sem eðlilegt er til að hægt sé að halda því úti með sómasamlegum hætti. Við þessu hefur ekki verið brugðist með þeim afleiðingum að aðsókn að einstökum greinum hefur minnkað, starfsnám hefur lagst af í mörgum skólum og lítil þróun hefur átt sér stað í stofnun nýrra, styttri námsbrauta.
    Ein mikilvægasta undirstaða nýsköpunar í atvinnulífinu er gott starfsnám sem svarar kröfum tímans og er eftirsótt af ungu fólki.
    Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt reiknilíkanið sem notað er við útdeilingu fjár til framhaldsskólanna harkalega og segja það ónothæft mælitæki á fjárþörf íslenskra framhaldsskóla, sérstaklega iðnskóla og verkmenntaskóla eins og fram kom í yfirlýsingu frá samtökunum í nóvember 2002. Reiknilíkanið er óviðunandi vegna þess að það tekur ekki nægjanlegt tillit til þess að starfsmenntun er kostnaðarsamari en bóknámið. Því leggja flutningsmenn tillögunnar mikla áherslu á það að samhliða átakinu fari fram gagnger endurskoðun á reiknilíkaninu.

Samsetning náms í grunnskólum.
    Það er áríðandi að grípa til markvissra aðgerða til að rétta hlut starfsnámsins samhliða því að tryggja því nauðsynlegt fjármagn. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt atvinnulíf ef hnignun starfsnámsins heldur áfram og ekki verður gripið til markvissra aðgerða til að snúa þessari þróun við. Samhliða átaki í kennslu og kynningu starfsnáms og fjölgun styttri námsbrauta þarf einnig að breyta uppbyggingu og samsetningu náms í grunnskólunum og gera list- og verknámsgreinum hærra undir höfði.
    Lítil verkleg kennsla á sér stað á grunnskólastiginu og fer því sáralítil kynning á kostum starfsnáms fram á því skólastigi þótt slíkt væri afar áríðandi enda grundvallaratriði að eyða þeim gamla greinarmun sem gerður var á bóknámi og starfsnámi. Sá greinarmunur á ekki lengur rétt á sér enda á flæðið þarna á milli að vera stöðugt og mikið. Til að skapa börnum jöfn tækifæri strax í grunnskóla þarf að byggja upp fjölbreyttara nám sem þroskar verkvitið samhliða bókvitinu.

Brottfallið stórt vandamál.
    Brottfall úr framhaldsskólum og réttindaleysi á vinnumarkaði hefur slæm áhrif á fólk og sálfræðilegar afleiðingar menntakerfis sem elur það af sér eru slæmar. Kerfið býr til áföll snemma á lífsleiðinni fyrir tæpan þriðjung hvers árgangs. Þetta er óviðunandi enda leggja flutningsmenn tillögunnar mikla áherslu á að koma í veg fyrir brottfallið, m.a. með þeim hætti að efla stórum starfsnámið við fjölbrautaskóla landsins.
    Í skýrslu menntamálaráðuneytisins um styttingu náms til stúdentsprófs frá 2003 kemur fram að „[a]f nemendum á fyrsta námsári í starfsnámi er stærsti hópurinn skólaárið 1997/1998, eða 2.579 einstaklingar, og sá minnsti skólaárið 1993/1994 eða 2.038 einstaklingar. Nemendur sem útskrifast með annað en stúdentspróf eru flestir skólaárið 1997/1998, eða 1.521 einstaklingar, og fæstir 1998/1999 eða 1.390 einstaklingar. Meðalfjöldi nemenda á fyrsta námsári eru 2.259 en 1.441 brautskráðir nemendur. Sýnir þetta mikinn mun á fjölda þeirra sem hefja starfsnám og ljúka því, eða mismun upp á 36% að meðaltali. Sambærilegur mismunur á fjölda nemenda sem hefja nám á stúdentsbrautum og öðrum bóknámsbrautum og ljúka stúdentsprófi er að meðaltali 58%.“ Þessar tölur tala sínu máli um það hve alvarlegt vandamál brottfall úr framhaldsskólum er og hve brýnt er að vinna gegn því.

Festast á jaðrinum.
    Þeir sem ekki eiga kost á mennta sig og auka færni sína eru líklegri en aðrir til að festast á jaðri þekkingarsamfélags framtíðarinnar og festast í fátækt. Menntakerfi framtíðarinnar verður því að bjóða upp á sífellda menntun, opinn skóla, þar sem fólk á kost á að þjálfa upp nýja hæfni til að verða gjaldgengt á vinnumarkaði. Þetta er afar brýnt, ekki síst þegar haft er í huga að hér á landi ljúka 40% hvers árgangs ekki framhaldsnámi samkvæmt rannsóknum við Háskóla Íslands. Færri Íslendingar stunda því nám á framhaldsskólastigi en annars staðar á Norðurlöndunum. Einungis 56% Íslendinga á aldrinum 25–65 ára hafa lokið framhaldsskólaprófi en þetta hlutfall er 78% annars staðar á Norðurlöndum. Með öflugri sókn í starfsmenntun og fjölgun styttri námsbrauta, sem auðvelt er að bæta við síðar, mun þetta breytast hratt og örugglega til hins betra.

Virðing fyrir starfsnáminu.
    Í kynningu á iðnnámi þarf að leggja megináherslu á að það er ekki andstæða langskólanáms og vinna þarf gegn því hvernig skorið er á milli iðn- og starfsnáms annars vegar og bóknáms hins vegar. Iðnnám þarf að kynna sem áfanga á leið, eftirsóknarverðan áfanga, sem opnar nýjar leiðir og skapar fjölmörg tækifæri á vinnumarkaði til fjölbreyttra og vel launaðra starfa og ekki síður fjölmargar leiðir til áframhaldandi náms, hvort heldur er tækni- eða háskólanáms.
    Það er eftirspurn eftir fólki með fjölbreytilega samsetningu náms og fjöldi starfa felur í sér blöndu af verklegri og bóklegri kunnáttu. En á meðan starfsnámið er fjársvelt, lítið kynnt og lítið kennt í grunnskólum mun því halda áfram að hnigna, samfélaginu öllu til mikils skaða.

Þarfir atvinnulífs skilgreindar.
    Til að byggja upp öflugt iðn-, verk- og listnám í framhaldsskólunum þarf að skilgreina vel þarfir atvinnulífsins sem og einstaklinganna og móta námskrána með þær að leiðarljósi. Fyrirtæki landsins verða hverju sinni að geta komið hæfniskröfum sínum inn í námskrána, verkmenntaskólarnir þurfa að hafa aðstöðu, tæki og hæfni til að geta kennt samkvæmt þessum námskrám og námsefni þarf að vera aðgengilegt en útgáfa á námsefni er fjarri því að vera í lagi vegna lítilla fjárframlaga til námsgagnagerðar. Árið 2002 var sú upphæð 18,2 millj. kr. í það heila fyrir alla framhaldsskólana í landinu. Iðnú fær ekki nema brot af því. Því leggja flutningsmenn tillögunnar á það ríka áherslu að endurskoðun námsefnis eigi sér stað samhliða átakinu til eflingar náminu.

Iðnmeistaranám endurskoðað.
    Um leið og starfsmenntun framhaldsskólanna er endurskoðuð og efld er mikilvægt að líta til iðnmeistaranámsins. Það er nauðsynleg viðbót við grunnmenntun í iðngreinum og aðgengi að því þarf að vera gott. Svo er ekki í öllum greinum nú og talsvert misræmi á milli meistaranáms í einstökum iðngreinum. Námstími er mjög misjafnlega langur og áríðandi að samræma hann eins og hægt er með sannfærandi hætti. Í núverandi ástandi felst sú hætta að nýliðun verði lítil og eftir ákveðinn tíma verði um alvarlegan skort á iðnmeisturum að ræða. Fyrst og fremst er þetta réttlætismál þar sem það er ósanngjarnt að námið sé miklu lengra, og þar með miklu dýrara, hér en annars staðar. Einnig þarf að horfa til samræmis á milli landa. Það er mikilvægt hagsmuna- og framfaramál fyrir íslenskan iðnað og íslenska iðnaðarmenn að meistaranám verði endurskoðað svo að það verði sambærilegt við það sem best gerist erlendis.