Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 30. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 30  —  30. mál.




Frumvarp til laga



um samkomudag Alþingis og starfstíma þess.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir,


Margrét Frímannsdóttir.



1. gr.

    Samkomudagur reglulegs Alþingis, sbr. 35. gr. stjórnarskrárinnar, skal vera 15. september ár hvert.

2. gr.

    Reglulegum störfum Alþingis skal ljúka 15. júní.

3. gr.

    Beri þær dagsetningar, sem tilgreindar eru í 1. og 2. gr., upp á laugardag eða sunnudag skal í 1. gr. miða við fyrsta almennan vinnudag eftir 15. september og í 2. gr. síðasta vinnudag fyrir 15. júní.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 15. september 2004.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á 130. þingi en fékkst eigi útrætt. Flutningsmenn eru fyrrverandi og núverandi þingflokksformenn Samfylkingarinnar og telja þeir að starfstími síðasta Alþingis hafi leitt í ljós úrelt starfsfyrirkomulag, sýnt að þörf sé á breyttri vinnutilhögun Alþingis og undirstrikað nauðsyn þess að frumvarp þetta nái fram að ganga.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að starfstími Alþingis verði lengdur, bæði að hausti og að vori. Haustþing hefjist hálfum mánuði fyrr en nú er, 15. september í stað 1. október, og þingstörfum á vorþingi ljúki um miðjan júní, í stað miðs maímánaðar eins og verið hefur að jafnaði undanfarin ár.
    Alþingismenn njóta fullra launa allt árið og þingmennska er fullt starf þeirra allra, eða nær allra, nú orðið. Áður fyrr fengu alþingismenn dagpeninga fyrir þann tíma sem Alþingi starfaði, og jafnframt var það svo um þorra alþingismanna að þeir gegndu öðrum störfum samhliða þingmennsku. Starfstími Alþingis var eigi að síður sá sami og hann er nú, þ.e. frá því í október og fram í maí. Hefur svo verið í meginatriðum frá stríðslokum. Í seinni tíð hafa breytingar orðið á starfskjörum alþingismanna sem taka mið af auknum verkefnum þeirra. Alþingismenn hafa notið fastra launa allt árið frá 1964 og frá því um 1970 hafa stöðugt færri alþingismenn gegnt störfum samhliða þingmennsku (a.m.k. yfir þingtímann). Því má segja að starfstími Alþingis hafi ekki fylgt þeim breytingum sem annars hafa orðið á starfskjörum og starfsháttum þingmanna.
    Með frumvarpinu þessu er ekki beinlínis stefnt að því að fjölga þingfundum eða lengja þá heldur fremur að gefa þinginu rýmri tíma til að fjalla um mál, einkum nefndum þingsins. Forsætisnefnd Alþingis gæfist meira svigrúm til að skipuleggja þinghaldið og tryggja ásættanlega umfjöllun allra þingmála, líka þingmannamála. Með því fyrirkomulagi sem nú viðgengst hefur ekki reynst unnt að taka á dagskrá þingmannamál né afgreiða þau. Ætla má að aflétt yrði þeim þrýstingi sem oft er á afgreiðslu stjórnarfrumvarpa þeirra sem koma seint fram en afgreiða á fyrir þinglok. Engin sérstök rök eru fyrir því að Alþingi skammti sér svo nauman tíma sem raun ber vitni til að fjalla um og afgreiða þau liðlega 100 frumvörp og 20–30 ályktanir sem venja hefur verið hingað til. Með breyttu fyrirkomulagi gefst jafnframt rýmri tími til umfjöllunar um fjárlagafrumvarpið og aukið svigrúm til afgreiðslu þeirra þingmála sem kunna að fylgja því. Með því að dreifa þingfundum á lengri tíma yfir veturinn og skipuleggja störf þingsins með nýjum hætti væri í senn hægt að gefa sér betri tíma til að athuga mál, svo og að gefa þingmönnum rýmri tíma og skipulegri til að hafa samband við kjósendur, ferðast um kjördæmin og halda fundi, m.a. meðan þing situr. Miklar breytingar hafa orðið á umhverfi þingmanna frá þeim tíma er starfstími Alþingis var settur í núverandi form og ekkert sem mælir með því að þingið sé sent heim um miðjan maí og komi ekki aftur saman fyrr en eftir fjóra og hálfan mánuð. Nægir að benda á bættar samgöngur, fjarskiptaþróun og tölvuvæðingu sem gjörbreytt hafa allri vinnutilhögun þingmanna. Oft heyrast gagnrýnisraddir hjá almenningi sem finnst hið langa sumarhlé Alþingis á skjön við starfsfyrirkomulag annarra stétta og er sú umræða orðin áberandi neikvæð. Þingmenn eru að störfum þó að sumarhlé sé hjá Alþingi en það er eðlilegra að dreifa ólíkum starfsþáttum þingmanna á lengri tíma eins og hér er lagt til.
    Vinnutími þingsins sem hér er lagt til að taka upp er áþekkur því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þingið komi saman 15. september. Í 35. gr. stjórnarskrárinnar segir að reglulegt Alþingi komi saman 1. október ár hvert en samkomudegi Alþingis megi breyta með lögum. Það hefur einu sinni verið gert eftir að stjórnarskránni var breytt 1991, en þingið 1992–1993 hófst 17. ágúst til þess að fjalla um og afgreiða hinn viðamikla EES-samning. Í eldri stjórnarskrárákvæðum (fram til 1991) var samkomudagurinn 15. febrúar, en sett höfðu verið lög um (samkvæmt sambærilegri heimild í stjórnarskránni) að samkomudagurinn yrði 10. október. Var svo fram til 1991.
    Í 2. gr. eru sett ákvæði um að reglubundnum störfum Alþingis skuli ljúka 15. júní. Ákvæði þetta hefur ekki sömu stöðu og 1. gr. því að Alþingi verður því aðeins frestað að fyrir liggi samþykki þess sjálfs, og slíkt samþykki er og skilyrði þess að ákvæði greinarinnar verði framfylgt. Forseti Íslands hefur að vísu rétt til að fresta fundum Alþingis tímabundið, en ekki hefur reynt á það ákvæði fram að þessu. Samkvæmt þessu ber fremur að líta á efni 2. gr. frumvarpsins sem stefnuyfirlýsingu þingsins sjálfs um hver hinn reglubundni starfstími þess skuli vera. Þannig má stuðla að meiri festu í þingstörfunum sem er til hagsbóta fyrir þingmennina, stjórnsýsluna og allan almenning. Eigi að síður verður Alþingi, að óbreyttum stjórnlögum, að samþykkja formlega þingfrestun, svo sem verið hefur fram að þessu.