Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 33. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 33  —  33. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, með síðari breytingum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson.1. gr.

    Síðari málsliður 1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo: Frá 1. apríl til 14. júlí má eigi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Mál þetta var flutt á 130. þingi, en varð ekki útrætt og er því flutt að nýju.
    Í 1. mgr. 20. gr. gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum er fjallað um nýtingu hlunninda og þar segir: „Frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert eru öll skot bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km nema brýna nauðsyn beri til. Á sama tíma má eigi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli.“
    Í athugasemdum við frumvarp til laganna voru þessi ákvæði skýrð svo:
    „Hlunnindi ýmiss konar hafa frá alda öðli verið mikilvægur þáttur í lífsafkomu Íslendinga og skipt sköpum fyrir sum byggðarlög. Flest þessara hlunninda skipta litlu máli fyrir afkomu manna nú á tímum. Þrátt fyrir það er ekki ástæða til að afnema rétt veiðirétthafa til þeirra, enda er ekkert sem bendir til þess að hefðbundin nýting hafi stefnt umræddum stofnum í hættu sé litið til landsins í heild þótt staðbundin vandamál vegna ofnýtingar kunni að vera til staðar.
    Í 1. mgr. er fjallað um friðlýst æðarvarp. Áður var gert ráð fyrir þeirri breytingu frá 9. gr. laga um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33/1966, að bannað væri, án leyfis varpeiganda, að leggja net nær friðlýstu æðarvarpi en ½ km frá stórstraumsfjörumáli en í lögunum er miðað við ¼ km. Í þessu frumvarpi er miðað við 250 m eins og áður. Í ljósi þeirra athugasemda, sem fram hafa komið, þykir rétt að láta ákvæði gildandi laga gilda áfram.“
    Augljóslega er með þessu verið að reyna að tryggja, með lögformlegum hætti, að nýting tvenns konar hlunninda, grásleppu og æðarfugls, geti gengið án árekstra. Í langflestum tilvikum gengur það vel. Ríkir oftast góður skilningur og virðing í samskiptum manna í millum. Einnig má þess geta að oft er það svo að æðarræktendur stunda enn fremur grásleppuveiðar. Undantekningar fyrirfinnast þó og því er reynt með löggjöf að semja sanngjarnar leikreglur, líkt og þær sem kveðið er á um í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum og vitnað er til hér að framan.
    Sú þróun hefur orðið að grásleppuveiðitímabilið hefur hafist fyrr en áður. Á sumum svæðum hefjast grásleppuveiðar nú 1. apríl í stað 15. eða 20. apríl áður og sums staðar enn fyrr. Þetta getur haft það í för með sér að hætta aukist á því að æðarfugl fari í net grásleppuveiðimanna. Tilgangur fyrrgreindra lagaákvæða er einmitt að koma í veg fyrir slíkt. Með því að grásleppuveiðitímabilið hefur færst framar þykir rétt að breyta sömuleiðis lögum sem kveða á um að ekki megi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli og kveða á um að slíkt megi ekki frá 1. apríl í stað 15. apríl eins og nú er.