Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 35. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 35  —  35. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með áorðnum breytingum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Össur Skarphéðinsson, Sigurður Kári Kristjánsson,


Magnús Stefánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ögmundur Jónasson, Drífa Hjartardóttir,
Guðjón A. Kristjánsson, Sólveig Pétursdóttir, Pétur H. Blöndal,
Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðjón Hjörleifsson.


1. gr.

Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda,
nr. 45/1987, með áorðnum breytingum.

    Við 2. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi brot einskorðast við að skila ekki réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein staðgreiðslu á lögmæltum tíma skal fésektarlágmark þessa ákvæðis ekki eiga við.

2. gr.

Breyting á lögum um virðisaukaskatt,
nr. 50/1988, með áorðnum breytingum.

    Við 1. mgr. 40. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi brot einskorðast við að skila ekki réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu á lögmæltum tíma skal fésektarlágmark þessa ákvæðis ekki eiga við.

3. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Mál þetta var flutt á 130. þingi en varð ekki útrætt og er því flutt að nýju.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að lágmarksfésekt við tilteknum skattalagabrotum sem lögfest var árið 1995 eigi ekki við þegar um svokölluð vanskil á vörslufé er að ræða og brotamaður hefur skilað réttilega skilagrein svo að ljóst má vera að ekki sé um að ræða tilraun til undanskots.
    Vanskil á vörslufé vegna greiðsluerfiðleika eru nokkuð ólík öðrum skattalagabrotum. Brotið hefur sjaldnast þau einkenni sem algengt er að fylgi skattsvikum, svo sem vanhöld á færslu bókhalds. Ekki er heldur fyrir að fara þeirri leynd sem að jafnaði einkennir skattsvik og önnur skattalagabrot. Oft eiga brotlegir sér einnig málsbætur umfram þá sem fremja önnur skattalagabrot en skýringa er ósjaldan að leita í því að forsvarsmenn fyrirtækja hafa lent í greiðsluerfiðleikum sem oft enda með gjaldþroti.
    Þótt vanskilin séu saknæm brot eru þau talsvert annars eðlis en hefðbundin skattsvik, en þá er átt við að tekjur séu vantaldar með sviksamlegum hætti og raunverulegri rekstrarafkomu leynt fyrir skattyfirvöldum. Þykir þetta mæla með því að þær lágmarksfésektir sem nú eru lögbundnar nái hvorki yfir einföld vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda né heldur vanskil á virðisaukaskatti þegar réttilega hefur verið gerð grein fyrir þeim skatti sem skila ber í skýrslum til skattyfirvalda.
    Tilgangur breytingarinnar er einnig sá að gefa dómstólum meira svigrúm til að ákveða refsingu, einkum með hliðsjón af málsbótum sem brotlegir kunna að hafa. Breytingarnar árið 1995 miðuðust fyrst og fremst við alvarleg skattalagabrot en undir þau falla vanskil alla jafna ekki nema þau nái yfir langt tímabil, um verulegar fjárhæðir sé að ræða eða ítrekað brot eða aðstæður auki saknæmi verknaðarins en þá varða brotin jafnframt við 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Falla þau þá fyrir utan lagabreytingarnar sem hér eru lagðar til.
    Það er ekki skilyrði þessa ákvæðis að gjaldskyldur lögaðili eða einstaklingur hafi bætt ríkissjóði eða öðrum rétthafa gjaldanna það tjón sem hann kann að hafa valdið, en slíkt kemur til skoðunar við mat á refsingu. Er það einnig í samræmi við meginreglu 74. gr. almennra hegningarlaga að tekið sé tillit til slíks við refsiákvörðun hjá aðila sem leitast við að bæta af sjálfsdáðum tjónið sem hann hefur valdið og með ákvæðunum sem hér eru lögð til væri tekið af skarið um að slík háttsemi skuli virt til refsilækkunar. Úr slíku tjóni verður aðeins bætt með því að greiða það sem vanrækt var greiðsla á.
    Leggja verður áherslu á að vextir og álag sem leggjast á vangoldna fjárhæð samkvæmt lögum teljast ekki til refsiverðra vanskila. Telja verður að vörslufé aukist ekki þótt því sé haldið tímabundið og því ekki ástæða til að lögfesta að vangreiddir vextir geti orðið grundvöllur refsingar.
    Það hefur verið venjubundin framkvæmd hérlendis í allmörg ár, bæði af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og í gengnum dómum, að ekki er höfðað refsimál vegna yfirstandandi rekstrartímabils þegar aðili fer í þrot enda verður ekki séð að greiðsluskylda hafi myndast þegar þannig stendur á. Sama á við um ógreidda útistandandi reikninga gjaldskylds aðila við gjaldþrot hans, enda er þá ekki unnt að vísa til vangoldins vörslufjár.
    Flutningsmenn telja að breytingin væri mikið réttlætismál fyrir forsvarsmenn atvinnustarfsemi í rekstrarerfiðleikum sem hafa leitt til vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti. Á hinn bóginn telja flutningsmenn að hafa beri í huga að á undanförnum árum hefur greinilegrar tilhneigingar orðið vart í þá átt að einstaklingar stofni ný fyrirtæki í kringum sama atvinnureksturinn. Æði oft eru einu breytingarnar á rekstrinum þá ný auðkenni og ný kennitala. Þegar þannig hefur háttað til er það oft vörslu- og innheimtufé, eins og staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur, sem er í vanskilum og verður eftir sem ógreiddar kröfur í þrotabúunum. Flutningsmenn telja að brýnt sé að sporna áfram við þeirri þróun með öllum ráðum. Endurtekin vanskil sömu rekstrareininga undir mismunandi kennitölu mundu dómstólar að öllum líkindum meta sem meiri háttar brot gegn lögunum og varða þá við 262. gr. almennra hegningarlaga. Fellur slík háttsemi því ekki undir breytingarnar sem hér eru lagðar til.