Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 36. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 36  —  36. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Halldór Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir,
Hjálmar Árnason, Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón A. Kristjánsson.


1. gr.

    Í stað „ 1/ 4“ í 2. málsl. 1. mgr. 97. gr. laganna kemur: 1/ 10.

2. gr.

    Á eftir 104. gr. laganna bætist við ný grein, 104. gr. a, er orðast svo:
    Hlutafélagi er óheimilt að kaupa eignir af hluthöfum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum félagsins eða félögum sem þessir aðilar eiga ráðandi hlut í nema áður hafi verið aflað sérfræðiskýrslu. Sama gildir um kaup félags á eignum af móðurfélagi þess og þeim sem tengdir eru aðilum skv. 1. málsl. á þann hátt sem lýst er í 2. málsl. 1. mgr. 104. gr. Um gerð og efni skýrslunnar gilda ákvæði 6. og 7. gr., eftir því sem við á.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2005.

Greinargerð.


    Mál þetta var flutt á 130. þingi, en varð ekki útrætt og er því flutt að nýju.
    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að treysta hag smærri hluthafa. Það að minnihlutavernd í hlutafélögum sé tryggð eins og kostur er, án þess þó að það verði fyrirtækjunum fjötur um fót, er mikilvæg forsenda þess að skapa gott viðskipaumhverfi og að hlutabréfamarkaðurinn styrkist og dafni.
    Með frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á hlutafélagalögum, nr. 2/1995.     Annars vegar er lagt til að samþykki 1/ 10 hluthafa í stað 1/ 4 skuli nægja til þess að fram fari sérstök rannsókn. Tilgangurinn með þessari breytingu er að auka möguleika smærri hluthafa á því að nýta sér þetta úrræði. Þá er meðal annars hægt að grípa til þess ef grunur vaknar um að stærri hluthafar hafi nýtt sér stöðu sína í félagi til þess að áskilja sér fjárhagslega hagsmuni á kostnað smærri hluthafa.
    Hins vegar er lagt til að hlutafélögum verði óheimilt að kaupa eignir af hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess eða aðilum sem eru þeim tengdir nema fram hafi farið mat óháðra aðila á verðmæti eignanna. Borið hefur á gagnrýni á að stærri hluthafar geti þvingað félög til þess að kaupa eignir af þeim á yfirverði, án þess að smærri hluthafar fái nokkuð við því gert. Er breytingunni stefnt gegn þessu ójafnvægi. Mikilvægt er að tryggja að hagur smærri hluthafa sé ekki fyrir borð borinn af þeim stærri.
    Við stofnun félaga er stofnendum að meginstefnu til gert að leggja fram stofnframlag sitt í peningum. Þeim er þó heimilt að leggja fram annars konar fjárverðmæti en félaginu er þá óheimilt að taka við þeim nema fyrir liggi sérfræðimat á verðmæti þeirra eigna, sbr. 5.– 7. gr. hlutafélagalaga. Svipaðar reglur gilda við hækkun hlutafjár, sbr. 37. gr. Bagalegt er að ekki gildi svipaðar reglur þegar félag kaupir eignir af aðilum sem ráða stjórnun þess eða aðilum þeim tengdum, enda eru afleiðingarnar hinar sömu fyrir aðra hluthafa, lánardrottna og félagið sjálft. Er því lagt til að hlutafélögum verði óheimilt að kaupa eignir af þessum aðilum nema fyrir liggi slíkt sérfræðimat. Er mælst til að ferlið við matið verði hið sama og við stofnun hlutafélaga.
    Þar sem viðskiptaumhverfið getur verið viðkvæmt fyrir breytingum er lagt til, verði frumvarpið að lögum, að í gildistökuákvæði verði ekki kveðið á um gildistöku þegar við samþykkt heldur verði gildistakan 1. ágúst 2005 sem gefur aðilum tækifæri til að kynna sér þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og aðlagast þeim.