Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 42. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 42  —  42. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum.

Flm.: Sigurjón Þórðarson.



1. gr.

    1. mgr. 34. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 33. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, er kveðið á um að allur kostnaður af starfsemi lögreglunnar greiðist úr ríkissjóði. Í 1. mgr. 34. gr. laganna er hins vegar að finna heimildarákvæði um að lögreglustjórar geti bundið skemmtanaleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað og jafnframt að leyfishafi greiði kostnað af þeirri löggæslu samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setji. Aðalreglan er því sú að allur kostnaður við löggæslu á skemmtistöðum og öðrum stöðum greiðist úr ríkissjóði.
    Hinn 8. ágúst 2001 skipaði dómsmálaráðherra starfshóp til að fara yfir gildandi lög og reglur um skemmtanahald á útihátíðum. Starfshópurinn skilaði ráðherra skýrslu um störf sín 11. júlí 2002. Í skýrslunni kemur m.a. fram að reglur um skemmtanir og skemmtanaleyfi byggist á ótraustum lagagrundvelli og að umboðsmaður Alþingis hafi oftar en einu sinni gert athugasemdir við gildandi fyrirkomulag. Bent er á að nauðsynlegt sé að setja skýrari lagaramma á þessu sviði.
    Helstu reglur um þessi atriði er að finna í reglugerð nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum, sem sett var í gildistíð laga um lögreglumenn, nr. 56/1972, sem lögreglulög, nr. 90/1996, leystu síðar af hólmi, og laga nr. 120/1947, um heimild til þess að marka skemmtunum og samkomum tíma. Skemmtana- og mótshald Íslendinga hefur breyst verulega síðan þessi ákvæði voru lögfest. Þá er að finna ákvæði í lögum nr. 36/1988, um lögreglusamþykktir, þess efnis að í lögreglusamþykkt skuli kveðið á um það sem varðar allsherjarreglu, svo sem að tryggja öryggi fólks, reglu og velsæmi á almannafæri, hvernig skemmtunum og öðrum samkomum skuli markaður tími o.fl. Jafnframt er kveðið á um að í lögreglusamþykkt skuli vera ákvæði um það hvernig greiða skuli þau útgjöld sem ákvæði hennar hafi í för með sér. Í lögreglusamþykktum er almennt ekki tekið á þátttöku almennings í löggæslukostnaði og reglugerð um lögreglusamþykktir hefur ekki verið sett þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 36/1988. Dómsmálaráðherra mun hins vegar hafa sett viðmiðunarreglur um leyfi fyrir útisamkomur.


Prentað upp.
....Sumarið 2003 var Ungmennafélag Íslands krafið um greiðslu fyrir löggæslu á íþróttamóti á Ísafirði sem haldið var um verslunarmannahelgina, þrátt fyrir að aðgangur væri ókeypis, en um var að ræða unglingalandsmót. Ungmennafélag Íslands telur innheimtuna óréttmæta og stefndi sýslumanninum á Ísafirði vegna innheimtu á löggæslukostnaðinum.
    Í sumar sem leið var mikil rekistefna út af innheimtu löggæslukostnaðar vegna landsmóta ungmennafélaganna á Sauðárkróki og lauk þeirri deilu með því að sýslumaðurinn á Sauðárkróki ákvað að innheimta ekki umrætt gjald. Nú er svo komið að ekki er nokkurt samræmi í innheimtu löggæslukostnaðarins og orðið löngu tímabært að fella úr gildi heimild sýslumanna til þess að innheimta hann og leysa með öðrum hætti óregluleg útgjöld lögregluembætta vegna íþróttamóta og skemmtanahalds.
    Grundvöllur kröfu lögreglustjóra um greiðslu fyrir löggæslukostnað virðist byggjast á því að um skemmtun sé að ræða sem skemmtanaleyfi þurfi fyrir og þá jafnframt að um „skemmtistað“ sé að ræða. Í lögunum er ekki skilgreint hvers konar skemmtanir þurfi skemmtanaleyfi eða hvað sé „skemmtistaður“ í skilningi laganna. Ákvæði reglugerðarinnar mæla svo fyrir um hvaða skemmtanir þurfi skemmtanaleyfi og teljist þar með gjaldskyldar samkvæmt lögunum.
....Lagaramminn um þátttöku í löggæslukostnaði er því mjög ótraustur og reglugerð nr. 587/1987 byggist vægast sagt á mjög hæpinni lagastoð. Dómsmálaráðherra hefur ekkert aðhafst til að gera nauðsynlegar breytingar þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar umboðsmanns Alþingis og niðurstöðu skýrslu starfshóps sem hann skipaði sjálfur fyrir tveimur árum. Nauðsynlegt er að eyða þeirri réttaróvissu sem ríkir á þessu sviði.
....Flutningsmaður frumvarpsins telur rétt að ríkið beri allan löggæslukostnað eins og aðalregla 33. gr. lögreglulaga gerir ráð fyrir og leggur því til að 1. mgr. 34. gr. laganna verði felld brott. Samkvæmt lögum er það íslenska ríkið sem á að halda uppi allsherjarreglu í landinu og lögreglustjórum er falið að meta hvað til þurfi hverju sinni. Af þeim sökum er rétt að ríkið beri eitt þann kostnað.
    Frumvarp til laga um breytingar á lögreglulögunum var áður flutt á 130. löggjafarþingi og var þá sent út til umsagnar. Frumvarpið var á þá leið að fella brott 34. gr. laganna, sem veitir heimild til innheimtu sérstaks löggæslukostnaðar.
    Almennt voru umsagnir um frumvarpið jákvæðar en þó voru uppi vissar efasemdir um að rétt væri að fella brott 2. mgr. 34. gr., sem veitir heimild til innheimtu löggæslukostnaðar vegna gæslustarfa við framkvæmdir á almannafæri og flutning á óvenjulegum eða hættulegum farmi þar sem lögreglustjóri telur nauðsynlegt að fyrirskipa slíka löggæslu. Nú þegar frumvarpið er endurflutt hefur verið tekið tillit athugsemda er varða 2. mgr. 34. gr. og ekki gerð tillaga um að hún verði felld brott.