Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 44. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 44  —  44. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á sölu Símans.

Flm.: Jóhann Ársælsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir,


Kristján L. Möller, Björgvin G. Sigurðsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða fyrirætlanir um sölu Símans með það að markmiði að tryggja eðlilega samkeppni á fjarskiptamarkaði og uppbyggingu á fjarskiptaneti landsins. Í þessu skyni verði grunnnet Símans skilið frá öðrum rekstri og tryggt að eignarhald þess verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu.

Greinargerð.


    Allt frá því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ákvað að stefna að sölu Símans hafa verið deilur um málið. Samfylkingin hefur stutt þá einkavæðingu á fjarskiptamarkaði sem í þessu felst, en sett það að skilyrði fyrir stuðningi við málið að grunnnet Símans yrði skilið frá öðrum rekstri og tryggt að eignarhald þess verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu. Yfirburðir Símans á fjarskiptamarkaði hljóta að fela í sér verulegan vanda þótt ekki bætist við að fyrirtækið hafi öll önnur fjarskiptafyrirtæki í greip sinn vegna eignarhalds á öllum mikilvægustu farvegum fjarskipta. Ríkisstjórnarflokkarnir skelltu skollaeyrum við aðvörunum um þær hættur sem falist gætu í því að einkavæða einokunaraðstöðu af þessu tagi og 4. september 2001 kynnti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að selja hlutafé í Símanum. Fyrst átti að selja 25% hlutafjár til kjölfestufjárfestis sem skyldi svo hafa rétt til að kaupa 10% til viðbótar, þ.e. 35% sem hefði verið ráðandi hlutur í fyrirtækinu. Einnig átti að selja 15% til almennra fjárfesta en engin skyldi þó mega kaupa yfir 5%. Þessar fyrirætlanir undir forystu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra fóru reyndar algerlega út um þúfur eins og frægt varð. Einungis seldust 5% til almennra fjárfesta og aðrar sölufyrirætlanir gufuðu upp.
    Nú, þremur árum síðar, hyggst fjármálaráðherrann Geir H. Haarde gera nýja tilraun. Ríkisstjórnin hefur ekki breytt fyrirætlunum sínum um að selja grunnnet Símanns með fyrirtækinu og ekki hefur frést að það mál hafi verði tekið til neinnar meðhöndlunar aftur þótt nægur tími hafi verið til þess. Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að á síðasta ári komust ríkisstjórnin og Alþingi að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að skilja flutningsnet raforkunnar frá annarri starfsemi orkufyrirtækjanna til að tryggja eðlilega samkeppni. Það er skoðun flutningsmanna þessarar tillögu að svipuð rök hljóti að gilda um grunnnet Símans og grunnnet raforkukerfisins. Nú þegar er ljóst af hræringum á fjarskiptamarkaði að verði grunnnet Símans selt með honum verða til a.m.k. tvö aðalgrunnnet í landinu og líklega fleiri. Slík uppbygging grunnneta mun kosta gríðarlega fjármuni sem notendur fjarskiptaþjónustu verða að borga í framtíðinni. Hér er því mikið í húfi. Stjórnvöld eru augljóslega á rangri leið í þessu máli en það er mögulegt að snúa af henni ef það verður gert áður en sala Símans fer fram. Það er því full ástæða til að láta reyna á hvort sá mikli stuðningur sem var á Alþingi við að skilja grunnnet raforkukerfisins frá öðrum rekstri í orkugeiranum er einnig til staðar hvað fjarskiptakerfið varðar.