Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 54. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 54  —  54. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson,
Björgvin G. Sigurðsson, Katrín Júlíusdóttir.


    Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að láta fara fram úttekt á fjárþörf Samkeppnisstofnunar. Úttekt og kostnaðargreining verði unnin af hlutlausum aðilum, sem falið verði að meta út frá reynslu síðustu tíu ára hver þörfin sé fyrir eftirlit samkeppnisyfirvalda með íslensku viðskiptalífi og hver áætlaður kostnaður af því eftirliti sé, þar á meðal af rannsókn mála sem nauðsynlegt er að stofnunin hafi sjálf frumkvæði að. Einnig verði kannaður áætlaður kostnaður við eftirlit sem Samkeppnisstofnun er ætlað að sinna á grundvelli annarra laga en samkeppnislaga.
    Niðurstaða verði lögð fyrir Alþingi í upphafi næsta þings og fjárveiting til Samkeppnisstofnunar taki mið af niðurstöðu úttektarinnar.

Greinargerð.


    Með þessari tillögu er gert ráð fyrir að úttekt og kostnaðargreining fari fram á starfsemi Samkeppnisstofnunar en hugmynd um slíka úttekt setti forstjóri stofnunarinnar fram í ársskýrslu hennar fyrir árið 2003. Á umliðnum árum hefur iðulega komið fram að Samkeppnisstofnun hefur verið illa í stakk búin til að sinna hlutverki sínu sökum manneklu og fjársveltis. Samkeppnislög hafa verið í gildi í rúmlega tíu ár. Á þeim áratug hafa orðið gífurlegar breytingar í atvinnulífinu og samkeppnisumhverfi í viðskiptalífinu og allt lagaumhverfi þess hefur tekið miklum breytingum, m.a. vegna alþjóðlegrar þróunar og skuldbindinga sem Íslendingar hafa undirgengist. Með auknu frelsi í viðskiptalífinu og aukinni samkeppni hafa verkefnin sem Samkeppnisstofnun sinnir á grundvelli samkeppnislaga því margfaldast, auk þess sem mörgum nýjum verkefnum hefur verið bætt á stofnunina með öðrum lögum eins og lögum um neytendalán, fjarskiptalögum o.fl.
    Samkeppnisstofnun hefur margsinnis, m.a. í síðustu ársskýrslu sinni, bent á að starfsmannahald hjá stofnuninni hafi ekki þróast í samræmi við aukin umsvif og verkefni. M.a. hefur stofnunin bent á að í upphafi árs 2003 hafi 80–90 samkeppnismál beðið úrlausnar og að á síðustu árum hafi kraftar samkeppnisyfirvalda farið í að sinna eftirliti og athugunum á samkeppnishindrandi samráði fyrirtækja og samkeppnishamlandi hegðun markaðsráðandi fyrirtækja. Umfangsmiklar rannsóknir eftirlitsaðila með markaðnum, sem vaxið hafa verulega á umliðnum árum, hafa tekið sífellt meiri tíma hjá stofnuninni og ná gögn sem rannsaka þarf í einstökum málum yfir allt að níu ára tímabil. Má þar t.d. nefna rannsóknina á vátryggingamarkaðnum sem tók mörg ár og lyktaði með því að samkeppnisyfirvöld töldu brot tryggingafélaganna alvarleg en sektuðu þau ekki vegna þess hve langan tíma rannsóknin tók. Sú rannsókn kostaði skattgreiðendur hátt í 40 millj. kr. sem eru rúmlega 20% af árstekjum Samkeppnisstofnunar.
    Með sívaxandi umsvifum fyrirtækja jafnt hérlendis sem erlendis og frelsi í viðskiptum er afar brýnt að starfsumhverfi eftirlitsstofnana sé öflugt og sterkt svo að það ráði við að veita markaðnum það aðhald sem nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir fákeppni og hringamyndun í viðskiptalífinu. Þar eiga almannahagsmunir að vera í fyrirrúmi en ekki sérhagsmunir og hagsmunir neytenda og alls almennings eiga að hafa forgang. Það verður best gert með öflugum eftirlitsstofnunum eins og Samkeppnisstofnun.
    Tillaga þessi felur í sér að ráðist verði þegar í stað í úttekt á þörf Samkeppnisstofnunar á fjármagni og mannskap til að hún geti sinnt hlutverki sínu í samræmi við samkeppnislög og ákvæði í öðrum lögum. Mikilvægt er að fá fram slíka kostnaðargreiningu unna af hlutlausum aðilum þar sem til grundvallar verði lögð reynsla síðustu tíu ára af starfi Samkeppnisstofnunar. Það mun auðvelda stjórnvöldum og löggjafarþingi að leggja mat á nauðsynleg fjárframlög til stofnunarinnar svo hún geti haldið uppi öflugu og virku eftirliti með viðskiptalífinu til hagsbóta fyrir allan almenning. Þeir fjármunir sem í það fara skila sér margfalt aftur í lægra vöruverði og betri þjónustu við neytendur.