Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 61. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 61  —  61. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu.

Flm.: Jóhann Ársælsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi verndaráætlun um að varðveita svæði sem eru ósýkt eru af sauðfjárriðu svo að þar megi ala líflömb fyrir svæði sem hafa sýkst.
    Reglur verndaráætlunarinnar geri bændum kleift að selja á markaði sauðfjárafurðir sem vottað er að séu frá slíkum verndarsvæðum. Sérstaklega verði kannað hvernig tryggja megi að slátrun fari fram innan verndarsvæðanna hvers og eins eða sameiginlega. Við gerð verndaráætlunarinnar skal endurmeta allar sauðfjárveikivarnareglur sem í gildi hafa verið.

Greinargerð.


    Riðuveiki í sauðfé er illvígur sjúkdómur sem hefur um langan tíma herjað víða um landið. Nokkur svæði eru þó ósýkt og hafa verið uppspretta líflamba fyrir önnur svæði. Innan fárra ára verður mögulegt að endurmeta svæði þar sem veikin hefur ekki komið upp lengi og taka þau inn í flokk ósýktra svæða.
    Sérstakt áhyggjuefni er nú að í þeirri miklu fækkun sláturhúsa sem yfir hefur gengið hefur það ástand myndast að sauðfé er flutt landshorna milli til slátrunar. Þótt ekki hafi verið flutt fé af riðuveikisvæðum inn á ósýkt svæði til slátrunar hafa sömu flutningatækin farið um sýkt og ósýkt svæði. Sjúkdómurinn er svo illvígur að þessi aðferð getur ekki talist örugg. Því þarf að tryggja að slátrun á þessum svæðum fari fram innan þeirra en huga mætti þó að þeim möguleika að fé yrði flutt milli ósýktra svæða til slátrunar ef sú aðferð stæðist þær öryggiskröfur sem settar yrðu.
    Eðlilegt markmið stjónvalda ætti að vera að tryggja með öllum tiltækum ráðum að ósýkt svæði verði varðveitt til framtíðar, a.m.k. þar til tekst að ráða niðurlögum veikinnar í öðrum landshlutum. Sérstök vernd svæðanna felur líka í sér möguleika til að markaðssetja sauðfjárafurðir frá þeim sérstaklega og vitað er að fyrirspurnir um hvort slíkt hafi verið í boði hafa komið erlendis frá. Sérstök verndaráætlun fyrir slík svæði gæti því aukið möguleika bænda til að selja vöru sína bæði hér og erlendis með sérstakri gæðavottun hvað þessa veiki varðar.
    Margvíslegar ráðstafanir hafa verið gerðar hér á landi til að hefta útbreiðslu sjúkdóma í sauðfé með ágætum árangri en þó hefur riðuveikin stungið sér niður víða um land og komið upp aftur á bæjum þar sem fé hefur verið skorið niður jafnvel mörgum árum síðar. Til dæmis voru 18 ár liðin frá því að skorið var niður á bæjum í Skagafirði og Jökuldal þar til veikin kom upp aftur. Í Vatnsdal eru dæmi um 14 ár og einnig að 20 ár hafi liðið frá niðurskurði þar til veikin kom upp aftur. Sérfræðingar telja að smitefni veikinnar hafi með einhverjum hætti lifað í umhverfinu. Afar erfitt er að viðhalda þekkingu almennings og skilningi á varúðarráðstöfunum sem nauðsynlegar eru til svo langvinnrar baráttu sem nauðsynleg er til að ráða niðurlögum sjúkdómsins. Til eru ný og gömul dæmi um skemmdir á varnargirðingum vegna utanvegaaksturs, notkun fjárhúsa á sýktum svæðum fyrir dýr sem svo hafa verið flutt til ósýktra svæða og ferðalög á hestum þar sem fóður af sýktum svæðum hefur verið með í för. Flutningar af ýmsu tagi, t.a.m. á búvélum eða búnaði, geta valdið því að veikin berist milli landshluta. Vitað er að að riða hefur borist milli landshluta vegna viðskipta með fóður. Ástæður þess að menn brjóta varúðarreglur eru oftast þekkingarleysi og það andvaraleysi sem smám saman vill verða vegna þess að svo langt er liðið frá því að veikin herjaði á viðkomandi svæðum. Það er hægara sagt en gert að viðhalda þeirri stöðugu árvekni sem þarf til að kveða þennan illvíga sjúkdóm endanlega niður. Þess vegna er að mörgu að huga ef fyrirbyggja á áratugum saman að veikin berist milli svæða. Ástæða er til að gera ráð fyrir langri baráttu við þennan sjúkdóm í landinu. Ósýktu svæðin ætti að vera auðveldara að verja ef þeirra verður sérstaklega gætt en ómælanlegur skaði yrði ef sjúkdómurinn kæmi upp á þeim og þess vegna er full ástæða til að huga alveg sérstaklega að vernd þeirra og góð rök fyrir að kosta þar nokkru til.
    Frumkvæði og stuðningur hins opinbera við verndaráætlun eins og hér er lagt til að verði til stofnað er að mati flutningsmanns þessarar ályktunar fyllilega réttlætanlegur. Það er hlutverk hins opinbera að verja með tiltækum ráðum auðlindir landsins. Íslenski fjárstofninn er ein þessara auðlinda. Tillagan er flutt í þeim tilgangi að verja hann fyrir þeim sjúkdómi sem erfiðast hefur verið að ná tökum á.



Fylgiskjal I.

Graphic file brriv~q0.gif with height 570 p and width 760 p Left aligned

Fylgiskjal II.

Staðfest riðutilfelli 1995–2004.

Hólf Fjöldi tilfella
1 1
16 3
17 10
18 3
19 1
20 7
22 3
25 2
26 2
27 1
28 7
36 5

Fylgiskjal III.

Sigurður Sigurðarson,
dýralæknir sauðfjársjúkdóma:


Riðuveiki eða riða í sauðfé og geitum.
(Birt á vef embættis yfirdýralæknis, 29. júlí 2004.)


Hvað er riðuveiki?
    Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé og geitum. Flestar kindur, sem veikjast eru 1½–5 ára. Þó eru dæmi um riðu hér á landi í 7 mánaða gömlu lambi og 14 vetra á. Veikin leiðir riðukind til dauða á fáum vikum, stundum á skemmri tíma. Riðan veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Riðubreytingar sjást stundum í heila kinda, sem finnast dauðar. Oftast eru þó kindur veikar í mánuði áður en þær deyja, en sjaldan lengur en eitt ár. Arfgengur breytileiki ræður því hve fljótt veikin kemur fram og hvort eða hve greiðlega kindur veikjast. Kindur geta gengið með riðu langa ævi án þess að nokkur viti og verið fargað einkennalausum. Veikin virðist geta legið niðri á sama bæ, geymst í umhverfinu eða í mótstöðumiklum fjárstofni í 1–3 kynslóðir kinda, kannske lengur. Byrjunareinkenni geta horfið eða dofnað um skeið við minna álag, t.d. ef kindur eru teknar úr hjörð. Riðuveiki hefur aldrei fundist í geitum hér á landi en þekkist erlendis. Sjúkdómar af sama toga og riða finnast í öðrum dýrum og fólki. Dæmi um það er hinn sjaldgæfi Creutzfeldt-Jakob sjúkdómur í fólki (CJD), sem finnst um allan heim, einnig hérlendis og kúariða (BSE), sem hefur sýkt meira en 180.000 nautgripi í Bretlandseyjum. Erlendis hefur hún borist í fólk með neyslu sýktra afurða og valdið nýju afbrigði af Creutzfeldt-Jakob í ungu fólki (nvCJD). Kúariða hefur aldrei fundist hér á landi. Í hreindýrum sem voru í nábýli við riðufé á Austurlandi fyrir nokkru sáust einkenni um riðu. Þau voru mjög glögg í einu þeirra. Sjúkdómur í sama flokki finnst í hjartardýrum í N-Ameríku (CWD). Það ætti því varla að koma á óvart, þótt hreindýr tækju riðuveiki. Riða hefur fundist í minkum (TME) og í köttum (FTE). Sauðfjárriða sýkir ekki fólk.

Smitefnið.
    Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur eðlilegt prótín, nefnt PRÍON eða PrP, sem hefur breytt lögun og við það orðið sjúklegt og með fádæmum lífseigt. Það tekur ekki þátt í eðlilegum efnaskiptum líkamans eins og heilbrigt príon gerir en hleðst fyrst upp í eitlavef, heila, mænu og taugum og skemmir þar út frá sér. Heilbrigt príon myndast í flestum vefjum dýra og er bundið við yfirborð fruma í líkamanum. Hlutverk þess er óljóst en talið að það skipti máli varðandi miðlun taugaboða, dægursveiflu og öldrun. Það hefur líklega hlutverki að gegna við efnaskipti kopars í taugafrumum. Riðusmitefnið, hið sjúklega prótín, sem borist hefur inn í kind, oftast um munn, breytir eftir sinni sjúklegu gerð heilbrigðu prótíni, sem það mætir í líkamanum og hið umbreytta príon aflagar svo enn önnur. Smitefninu fjölgar þannig með vaxandi hraða og skemmdirnar framkalla einkennin. Smitefnið þolir langa suðu og flestar dauðhreinsiaðferðir. Helst er það klór sem vinnur á smitefninu. Engin varnarlyf eru til við riðu, engin lyf til lækninga og engar aðferðir til að leita að smitberum. Riða virðist geta legið í landi árum saman. Ekki er víst ennþá, hvernig sjúkdómurinn lifir í umhverfinu. Hann getur komið upp aftur á sama stað eftir langan tíma, þrátt fyrir sótthreinsun og fjárskipti. Riðan er því einn erfiðasti sjúkdómur sem við er að fást. Óhreinsuð hús gætu verið hættuleg um árabil. Ráðlagt hefur verið að hreyfa ekki við stöðum þar sem riðukindur eru grafnar (urðaðar) og gróðursetja tré í þá. Æskilegt er að hnitasetja þá alla, skrá og merkja á kort. Það starf er byrjað. Landeigendur og kunnugir eru beðnir um að huga að þessu og merkja staðina, hver hjá sér.

Einkenni.
    Þegar fjárhópur er skoðaður með tilliti til riðu, þarf alltaf að hafa það í huga, að:
          Riða kemur naumast fram í yngri kind en 1½ árs. Einkenni koma oft fyrst fram í fullorðinni kind, þar sem veikin er að byrja. Þegar frá líður fer féð sem veikist að verða yngra. Þegar riða hefur herjað lengi verða kindurnar sem veikjast eldri.
          Fyrstu einkenni eru breytileg frá degi til dags, meira áberandi suma daga en aðra. Langt getur verið í að einkenni verði stöðug.
    Því getur þurft að skoða kind á þessu stigi oftar en einu sinni til að vera viss.
    Sjaldan koma öll einkenni riðuveiki fram í einni og sömu kindinni. Fyrstu einkennin eru mjög breytileg milli bæja og landsvæða, jafnvel milli kinda í sömu hjörð. Oft eru vanþrif fyrstu riðueinkenni þrálátur kláði sem ágerist, ótti eða taugaveiklun, tin (vagg) á höfði, tannagnístur, titringur. Kindur í góðum holdum geta sýnt merki um riðu svo sem stjórnleysi vöðva og lömun. Breytileiki þessi ræðst af því hvar skemmdir verða. Hann villir um og tefur greiningu veikinnar. Talað er um kláðariðu, hræðsluriðu eða lömunarriðu eftir því einkenni sem mest ber á. Eitt þessara einkenna getur verið áberandi frá upphafi, en einkennum fjölgar þegar sjúkdómurinn ágerist. Riðueinkenni koma oft fyrst fram við álag svo sem við flutning og rekstur eða við rúning. Rúningsmenn og þeir sem flytja fé, geta verið lykilmenn við að finna fyrstu tilfelli af riðu. Fái þeir slíkan grun er þeim skylt að tilkynna dýralækni það strax og skilja hlífðarföt og tæki eftir á bænum, þrífa og sótthreinsa í samráði við héraðsdýralækni. Gagnlegt er að reka grunaðan hóp til og frá og fylgjast með göngulagi og annarri hegðun. Öll óvanaleg einkenni skal taka alvarlega. Grunsamleg er sú kind, sem brokkar, slettist til eða hoppar að aftan, fleygir sér niður eða slengist um koll ef mishæð verður á vegi hennar. Sé tekið á grunsamlegri kind, t.d. við rúning og hún látin streitast á móti, finnst hárfínn titringur, sumar kindanna fá æði. Krampaköst koma fyrir. Eyrun lafa eftir álag. Fjárglöggir menn, sem þekkja kindur sínar sem einstaklinga, sjá atferlisbreytingarnar fyrst. Best er að virða fyrir sér kindurnar þaðan sem lítið ber á manni um leið og þær ganga að heyinu. Kindur sem veikin er að byrja í „leyna“ einkennum verði þær varar við að fylgst sé með þeim, en þola illa að þrengt sé að þeim, kippa sér frá, standa einar um stund en taka svo aftur til við átið. Stygg og hnarreist kind verður sljó og hengir jafnvel haus, spök kind verður stygg, óróleg eða fælin. Hún skimar eftir þeim, sem fara um húsin, dettur jafnvel niður við óvænt hljóð og hreyfingar. Algengur er fiðringur í húð og húðkippir og/eða þrálátur kláði um allan skrokk, einkum þó á höfði eða tortu. Riðukindur svara klóri í bak, bæra varir, kjamsa, sleikja útum, þótt þær klóri sér ekki sjálfar. Fyrir kemur að riðukindur sjái illa, þær gangi á og beri framfætur hátt. Augun eru oft útstæð og rennsli aukið frá augum, nösum og munni (slefa). Kindur með fyrstu einkenni riðu sperra dindilinn upp í loft þegar tekið er á þeim. Riðukindur hafa oftast góða lyst, jafnvel er til að þær éti og drekki með meiri áfergju en áður var. Samt leggja þær af. Veikin hefur áhrif á meltingarveginn. Það getur hjálpað við greiningu að spörð úr riðukindum eru, þó ekki alltaf, sérstök að útliti: dökk, smá, jöfn að stærð og perulaga með holu í annan enda en totu úr hinum. Þegar kláði fylgir riðu sjást blæðandi sár eða hrúður á húð, þófin og slitin ull, hárlausir blettir á síðum, andliti eða tortu, núin horn, merki eftir nudd, krafs með horni eða fæti eða nagsár innan á fótum upp í hnésbót að framan og upp í hækilbót að aftan. Þegar kláði er ekki eitt af einkennum riðunnar er lítið að sjá við skoðun eða við krufningu. Aukinn vökvi er þó alltaf í heilabúi og höfuðkúpan ekki eins hörð og í heilbrigðum kindum. Við smásjárskoðun á heila og mænu finnast hrörnunarskemmdir. Margar vökvabólur eru í taugafrumum og milli þeirra, einkum í heilastofni. Heilinn er svampkenndur. Þar af nafnið „spongiform“. Varla finnast vefjabreytingar í öðrum líffærum en heila, þótt smitefnið safnist víðar fyrir. Bólgubreytingar, merki um varnarviðbrögð og mótefni finnast ekki í heila en mikil aukning er á stjörnufrumum (astrocyt). Líkaminn greinir ekki smitefnið sem framandi.

Smitleiðir.
    Algengasta smitleiðin er um munn. Skepnurnar éta, drekka og sleikja smitefni með óhreinindum. Smitefnið sest í eitlavef aftast í görn, sem skiptir í sífellu um efstu frumulögin og framleiðir slím, er klínist í saur. Smit finnst í kokeitlum (hálskirtlum, Tonsilla), sem hafa náið samband við munnholið og það finnst í augum. Auk þess er smit í fósturhimnum, milti og í ýmsum eitlum og fleiri líffærum. Smithættan er trúlega mest við húsvist á sauðburði af hildum, sem kindur eta hver úr annarri, fósturvatni og slefu sem lendir í drykkjarílátum og í fóðri í sameiginlegri jötu, af vessa frá augum og af öllu saurmenguðu. Lömb smitast af mæðrum sínum, sem eru smitberar eða veikar. Smitun getur orðið um sár á húð, t.d. við rúning, af sprautunálum við mörkun og merkingu. Riðuveiki hefur komið fram í kind eftir burðarhjálp manns með óþvegnar hendur, nýkomnum frá því að hjálpa riðukind að bera. Smitið kann þá að hafa verið borið í skepnu um fæðingarveg. Unnt er að sýkja kindur í tilraunum á marga fleiri vegu. Blóðsýni úr riðukind var dælt í æðar heilbrigðra kinda á Keldum og fengu nokkrar þeirra riðu. Smitleiðir riðuveiki frá einum stað til annars og milli landshluta virðast margar en fæstar sannaðar vísindalega, þótt reynslan gefi eindregnar vísbendingar. Greiningaraðferðirnar eru ekki nógu fullkomnar ennþá. Smithætta er minni úti en inni, vex í þrengslum. Smithætta fylgir fyrst og fremst lifandi sauðfé og öllu sem óhreinkast af sauðfé s.s: óhreinar hendur manna og óhrein hlífðarföt, einkum skófatnaður. Hér má lesandinn sjálfur hugsa. Margt getur smitmengast af sauðfé og sauðataði, fósturvatni og hildum, hræjum sjálfdauðra kinda eða sláturúrgangi og borið smit milli staða, svo sem flutningabílar, vagnar, áhöld og efni hvers konar, landbúnaðartæki, torf og hey, fuglar, hundar, refir, meindýr. Sjaldgæft virðist að smit hafi borist milli kinda á afrétti. Ekki er víst hvernig smitefnið lifir á fjárleysistíma, hvað veldur því að riðuveiki kemur upp aftur og aftur, jafnvel eftir mörg ár. Oft hefur riðuveiki komið upp eftir kaup á heyi af sýktu svæði. Sú tilgáta var sett fram á Íslandi, að staðbundnir heymaurar geymdu í sér smitefni og gætu sýkt nýjan fjárstofn eftir langan tíma. Í þurru heyi geta verið hundruð þúsunda, jafnvel allt að 3 milljónir maura í hverju kílói, minna í rúlluheyi. Kenningin fékk byr í seglin þegar vísindamenn í New York staðfestu riðu í tilraunamúsum sem sprautaðar höfðu verið allt að 2 árum fyrr með lausn af heymaurum frá riðubæjum á Íslandi. Þessir bæir höfðu verið fjárlausir mánuðum saman. Endurteknar tilraunir styrktu þetta. Endanleg sönnun er þó ófengin. Hestar veikjast ekki af riðu en gætu borið með sér smitefni af sýktum svæðum t.d. undir hófum. Látið hesta aldrei í fjárhús. Svo að sigur vinnist gegn riðu, sem er verst af öllum pestum, þurfa hestamenn að standa með okkur. Við biðjum þá að fræðast um smithættu, huga að varnarlínum og hliðum fyrir ferðir sínar um landið, loka hliðum, flytja ekki með sér hey, kaupa það í áningarstöðum, fá leyfi til heyflutnings frá öruggum svæðum bæði í ferðum og til vetrarfóðurs. Vegna dreifingar á smiti um landið og vandasamrar sótthreinsunar ættu hestamenn ekki að flytja sauðfé eða hey á hestakerrum og ekki ætti að hafa sauðfé í hesthúsum.

Hvað hefur verið gert og hvað áunnist?
    Bannað var í upphafi skipulegra aðgerða gegn riðuveiki hér á landi árið 1978 og æ síðan að nota sláturúrgang og sjálfdauð dýr frá riðusvæðum til fóðurgerðar handa búfé. Grunsemdir höfðu þá vaknað um að kjöt- og beinamjöl hefði borið sjúkdóminn úr sauðfé eða nautgripum í minka, sem veiktust af hliðstæðum sjúkdómi í Bandaríkjunum. Þessi stefna, sem síðar þykir sjálfsögð um allan heim, var harðari en nokkur önnur lönd höfðu tekið upp þá og 10 árum fyrr á ferð en í Englandi, sem tók upp þessa stefnu, þegar kúariðan kom fram 1985–6. Með þessari hörku höfum við kannske afstýrt því að kúariða kæmi upp og yrði landlæg hér. Leitað er að riðu með skoðun á lifandi fé í réttum, heima á bæjum og um 10.000 heilasýnum úr sláturfé hvert ár. Alls hefur verið fargað um 150.000 fjár á sem næst 800 bæjum. Fimm hundruð hafa fengið nýjan fjárstofn af ósýktum svæðum. Á 400 þeirra hefur verið búið við nýjan stofn án riðu í meira en 10 ár en veikin hefur komið aftur í nýjan fjárstofn á rúmlega 5% bæjanna og á suma þeirra oftar en einu sinni. Þar sem sérstök vandvirkni hefur verið við sótthreinsun o.fl. vegna aðgerða gegn riðuveiki, virðist hún síður hafa komið aftur. Þegar aðgerðir hófust var virk riðuveiki í 25 varnarhólfum af 38. Nú er staðan sú, að riða hefur ekki fundist í 12 varnarhólfum, sem áður voru sýkt í 14 ár eða lengur. Riðuveiki er vonandi úr sögunni þar. Riða var þekkt á 104 bæjum við upphaf aðgerða, og fannst í allt að 700 kindum árlega, en finnst nú á 2–5 bæjum og 2–15 kindum árlega.

Hvað er gert þegar riða finnst?
    Þegar riðuveiki finnst á nýjum bæ er samið við eiganda og öllu fénu fargað strax. Féð er grafið djúpt á stað samþykktum af Umhverfisstofnun. Elta skal uppi hverja kind sem látin var til annarra bæja frá sýkta bænum, líka allar kindur frá öðrum bæjum sem hýstar voru á riðubænum yfir nótt eða lengur. Þar sem riða hefur náð að búa um sig og smitleið er ókunn getur þurft að farga á snertibæjum og jafnvel öllu fé á heilum svæðum. Héraðsdýralæknir metur hvað hægt er að hreinsa, hverju verður að eyða, og áætlar jarðvegsskipti við hús. Sömu kröfur um hreinsun og endurnýjun innréttinga eru gerðar á öllum niðurskurðarbæjum sýktum sem grunuðum. Að jafnaði þarf að fleygja einhverju og skipta um jarðveg en allt er breytilegt milli bæja. Fagmaður metur efni og jarðveg, sem fjarlægja þarf. Allt skal sótthreinsa. Hús, tæki og tól eru háþrýstiþvegin og sótthreinsað með hypoklórit (klór) og joði eða sviðið með loga. Hreinsun skal taka út áður en lokað er yfirborði á timbri með fúavarnarefni, á steini og járni með sterkri málningu. Notað er mauraeitur tvisvar sinnum, inni og við hús, vegna heymauranna. Jarðvegsskipti fara fram, síðan er sand- eða malborið (malbikað). Ef arfi vex umhverfis húsin á eftir hefur ekki verið nógu vel hreinsað. Smitefni getur lifað lengi í mold, síður í sandi. Heyjum frá riðutíma er eytt áður en nýr fjárstofn kemur. Bóndi kallar eftir staðfestingu héraðsdýralæknis um að hreinsun sé lokið og sendir hana. Það flýtir greiðslum bóta, ef strax er byrjað á hreinsun. Þinglýst er fjárleysi á jörðinni. Fjárlaust er haft í 2 ár eða lengur og lömb fengin af ósýktum svæðum að þeim tíma loknum. Um geitur gegnir sama máli og sauðfé. Nánari lýsing framkvæmda er afhent (rauða blaðið). Á heimasíðu yfirdýralæknis eru upplýsingar og reglur um framkvæmd fjárskipta (www.yfirdyralaeknir.is) og í reglugerð, sem nú er í endurskoðun, eru og verða nánari ákvæði um bótagreiðslur m.a.

Er hægt að útrýma riðuveiki?
    Já, það er hægt. Það vantar herslumuninn. Augljóst virðist af þeim árangri sem hefur náðst að unnt sé að uppræta riðuveiki, ef enginn bregst og allir fara eftir settum reglum. Til þess þarf hugarfarsbreytingu og skipulagt samstarf þeirra sem málið snertir. Þessi grein er ætluð til þess að fleiri þekki einkenni veikinnar. Veikin er lengi að búa um sig áður en hún kemur fram. Tafir geta orðið á greiningu hennar, menn átta sig ekki á breytilegum einkennum og kveikja ekki á peru, þar sem enginn á von á veikinni. Á meðan getur hún breiðst út. Menn ættu að huga að smitleiðum, hugsa ekki of skammt. Menn ættu alls staðar að hætta að versla með fullorðið fé. Það stuðlar að flakki og smitdreifingu. Verslun með fé til kynbóta (hrúta) ætti aðeins að fara fram með vitund og skriflegu samþykki héraðsdýralæknis á svæðum, sem eru laus við alvarlega smitsjúkdóma. Greitt er fyrir sæðingum til að létta á verslunarþörf. Menn ættu að hætta að hýsa afbæjarfé, hætta að fá hrúta að láni, hætta að nota ósótthreinsuð tæki og tól frá öðrum. Fullorðnar kindur, sem skera sig úr þyrftu allar að komast í hendur dýralækna til rannsókna eigendum að kostnaðarlausu, helst gegn greiðslu til eigenda. Ljóst virðist að riða kraumar undir hér og hvar ennþá og er jafnvel að tæra upp kindur á stöku stað án þess að menn átti sig á því. Baráttan gegn riðuveiki er sameiginlegt hagsmunamál okkar sem snertir álit landsins út á við. Hér þarf hver að gæta bróður síns og afstýra ógætni og lögleysu. Ný aðferð til leitar og greiningar á riðuveiki áður en að hún sést er fundin. Hana þurfum við að taka upp þótt dýr sé. Þar er lykillinn að lokaátakinu.