Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 75. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 75  —  75. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um veggjald í Hvalfjarðargöng.

Flm.: Guðjón Guðmundsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að fella niður eða lækka verulega veggjald í Hvalfjarðargöng.

Greinargerð.


    Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun 11. júlí 1998. Umferð um göngin hefur aukist jafnt og þétt og er miklu meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Umferðin hefur verið sem hér segir:
    
Tímabil Fjöldi bíla
Júlí 1998 til sept. 1998 233.329
Okt. 1998 til sept. 1999 1.001.952
Okt. 1999 til sept. 2000 1.108.884
Okt. 2000 til sept. 2001 1.222.302
Okt. 2001 til sept. 2002 1.265.928
Okt. 2002 til sept. 2003 1.311.986
Okt. 2003 til júní 2004 u.þ.b. 930.000
Samtals 7.074.381

    Gerð Hvalfjarðarganga var einkaframkvæmd. Spölur ehf. á og rekur göngin. Hluthafar eru:
    
Grundartangahöfn 23,5%
Sementsverksmiðjan 17,6%
Íslenska járnblendifélagið 14,7%
Skilmannahreppur 11,6%
Vegagerðin 11,6%
Akraneskaupstaður 8,7%
Smærri hluthafar 12,3%

    Veggjöld hafa staðið undir afborgunum, vöxtum og rekstrarkostnaði. Á veggjöldin leggst 14% virðisaukaskattur. Veggjöld og virðisaukaskattur hafa verið sem hér segir:


Tímabil
Veggjöld
í millj. kr.
Virðisaukaskattur
í millj. kr.
Júlí 1998 til sept. 1998 202,7 28,4
Okt. 1998 til sept. 1999 811,3 113,6
Okt. 1999 til sept. 2000 774,1 108,3
Okt. 2000 til sept. 2001 844,4 118,2
Okt. 2001 til sept. 2002 879,8 123,2
Okt. 2002 til sept. 2003 904,8 126,7
Okt. 2003 til júní 2004 574,2 80,4
Samtals 4.991,3 698,8

    30. júní 2004 námu langtímalán Spalar ehf. 5.353 millj. kr. Þar af var skuld við ríkissjóð 2.250 millj. kr. Innskattur virðisauka af framkvæmdum við göngin nam 937,6 millj. kr. Frá því að Hvalfjarðargöngin voru gerð hefur ríkið látið gera álíka löng göng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, verið er að grafa göng undir Almannaskarð og ákveðið hefur verið að hefja gangagerð milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Áður hafði ríkið staðið fyrir gerð Vestfjarðaganga. Þá hefur á undanförnum árum verið lagt mikið fjármagn í vegagerð, m.a. eru framkvæmdir hafnar við tvöföldun Reykjanesbrautar sem mun kosta u.þ.b. 4 milljarða kr. Sammerkt með öllum þessum samgöngumannvirkjum er að notkun þeirra er gjaldfrí að Hvalfjarðargöngum einum undanskildum. Það hlýtur að teljast sanngirnismál að landsmenn allir sitji við sama borð hvað þetta varðar. Stór hópur fólks fer daglega um Hvalfjarðargöng fram og til baka til skóla og vinnu og greiðir háar fjárhæðir fyrir notkun ganganna. Þannig greiðir einstaklingur, sem fer daglega um göngin til vinnu, rúmlega 200 þúsund kr. á ári í veggjald. Til að greiða þá upphæð þarf hann að hafa um 350 þús. kr. í laun þegar reiknað er með sköttum og lífeyrissjóðsgreiðslum. Það kom fram hjá formanni stjórnar Spalar ehf. nýlega að væntanlega þyrfti að innheimta veggjald næstu 12 árin til að greiða upp skuldir fyrirtækisins. Á þeim tíma þarf því einstaklingur, sem sækir vinnu um Hvalfjarðargöng, að þéna u.þ.b. 4,2 milljónir kr. til að standa undir gangagjöldum á sama tíma og notendur annarra ganga og samgöngumannvirkja greiða ekki eina krónu. Þannig mun t.d. íbúi Mosfellsbæjar, sem vinnur í stóriðjunni á Grundartanga, nota 350 þúsund kr. af árlegum tekjum sínum til að greiða fyrir notkun Hvalfjarðarganga á sama tíma og íbúi Fáskrúðsfjarðar, sem vinnur í stóriðjunni á Reyðarfirði, greiðir ekki eina krónu fyrir notkun Fáskrúðsfjarðarganga, íbúi á Flateyri, sem sækir vinnu til Ísafjarðar, greiðir ekki eina krónu fyrir notkun Vestfjarðaganga og íbúi á Siglufirði, sem mun sækja vinnu til Dalvíkur, mun ekki greiða eina krónu fyrir notkun Siglufjarðarganga. Þá er ekki gert ráð fyrir veggjöldum á Reykjanesbraut.
    Það er óviðunandi fyrir þá sem fara um Hvalfjarðargöng að þurfa einir notenda samgöngumannvirkja hér á landi að greiða gjald í þessi mannvirki. Því er hér lagt til að ríkisstjórninni verði falið að leita leiða til að fella niður eða a.m.k. lækka verulega veggjaldið í Hvalfjarðargöng, t.d. í tengslum við sölu Símans, en rætt hefur verið um að nota hluta söluandvirðis hans til samgöngumála.
    Mörg dæmi eru um að veggjaldið hafi dregið úr áhuga fyrirtækja á að setja upp starfsemi norðan Hvalfjarðar. Talið er að allt að 500 manns noti göngin daglega vegna vinnu og skóla. Það er því augljóst byggðamál að veggjaldið falli niður eða a.m.k. lækki verulega.