Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 174. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 174  —  174. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir.


1. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „4. mgr. 7. gr.“ í 2. mgr. 6. gr. a laganna kemur: 5. mgr. 7. gr.     

2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 7. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Á bætur sem greiddar eru vegna atvinnuleysis í desember skal greiða 30% uppbót.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er ætlunin að stíga það skref að lögfest verði ákvæði um sérstaka desemberuppbót til þeirra einstaklinga sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Markmið frumvarpsins er að bæta að þessu leyti stöðu þeirra einstaklinga sem heyra undir lög nr. 12/1997.
    Elli- og örorkulífeyrisþegar eiga jafnan rétt á 30% uppbót í desember á fjárhæðir tekjutryggingar og tekjutryggingarauka skv. 17. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og á fjárhæð heimilisuppbótar skv. 9. gr. laga nr. 118/1993. Hið sama gildir um þá sem starfa á almennum vinnumarkaði en þeir eiga almennt rétt á uppbót á laun sín í desembermánuði.
    Verði frumvarpið að lögum munu þeir sem eiga bótarétt samkvæmt ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar og fá greiddar bætur í desembermánuði eiga rétt á greiðslu sem svarar til 30% af þeirri fjárhæð sem þeir eiga rétt á samkvæmt ákvæðum laganna.
    Gera má ráð fyrir að kostnaður við þessa breytingu verði tæpar 150 millj. kr. Miðast sú
fjárhæð við greiddar atvinnuleysisbætur í desembermánuði árið 2003.