Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 175. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 175  —  175. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um íslenskun á ræðum æðstu embættismanna.

Flm.: Sigurjón Þórðarson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á þeirri almennu reglu að ræður sem forseti Íslands og ráðherrar flytja á erlendu tungumáli í embættis nafni verði íslenskaðar ef þess er óskað.

Greinargerð.


    Hinn 21. nóvember 2003 hafnaði skrifstofa forseta Íslands að þýða ræðu sem forsetinn flutti á ensku í Columbia-háskólanum í New York miðvikudaginn 12. nóvember 2003. Forsetaembættið skýrði synjun sína með því að vísa til vinnureglu opinberra aðila, svo sem ráðherra, auk þess sem það mundi leiða til umtalsverðs aukins kostnaðar ef ræður yrðu þýddar á íslensku. Þingsályktunartillaga þessi felur í sér að umræddri vinnureglu verði breytt á þann veg að ef upp kemur ósk um þýðingu ræðu af erlendu máli yfir á íslensku þá verði orðið við þeirri ósk og viðkomandi embætti dragi úr öðrum útgjöldum.
    Það ætti að vera fulltrúum þjóðarinnar kappsmál að láta þýða ræður sínar og rit á erlendum málum yfir á íslensku. Landsmenn þurfa að hafa greiðan aðgang að málflutningi æðstu embættismanna þjóðarinnar til þess að geta metið störf þeirra á opinberum vettvangi.