Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 183. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 183  —  183. mál.




Frumvarp til laga



um veðurþjónustu.


    (Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)


    1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja almenningi, atvinnulífi og stjórnvöldum nauðsynlegar upplýsingar um veður og veðurhorfur á Íslandi.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um opinbera veðurþjónustu og veðurfræðilega sérþjónustu.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
     1.      Almennar veðurhorfur: Yfirlitsspár um veðurlag á Íslandi til nokkurra vikna, mánaða eða lengri tíma eftir því sem aðstæður leyfa.
     2.      Almennar veðurspár: Svæðis- eða staðbundnar spár um veður og veðurbreytingar á Íslandi og nærliggjandi hafsvæði sem unnar eru reglulega, daglega eða oftar, ná til nokkurra daga og miðlað er til almennings, sbr. 8. gr.
     3.      Grunnkerfi: Söfnun grunnupplýsinga um veður og rekstur veðurstöðvakerfis, meðhöndlun og varðveisla athuganagagna í gagnagrunnum og rekstur þeirra. Gerð eða öflun tölvureiknaðra spágagna.
     4.      Grunnþjónusta: Miðlun rauntímagagna, vinnsla á almennum veðurspám og spám um almennar veðurhorfur, öryggisþjónusta og önnur veðurþjónusta sem Íslandi ber skylda til að veita samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum þar um.
     5.      Opinber veðurþjónusta: Grunnþjónusta og rekstur grunnkerfa.
     6.      Rauntímagögn: Mæli- og athuganagögn um veður eða einstaka veðurþætti sem nýtt eru vegna öryggisþjónustu eða miðlað til notenda eins fljótt og unnt er eftir að mæling hefur farið fram.
     7.      Sérþjónusta: Veðurþjónusta sem ekki fellur undir grunnþjónustu. Hér er átt við þjónustu við fyrirtæki, stofnanir eða einstaklinga sem felst í gagnaafhendingu, sérhæfðri vinnslu, ráðgjöf eða túlkun gagna.
     8.      Tölvuspár: Rafrænir útreikningar á ýmsum veðurþáttum sem settir eru fram myndrænt eða á stafrænu formi.
     9.      Veður: Ástand lofthjúpsins á hverjum tíma, þ.e. vindur, loftþrýstingur, úrkoma, skýjafar, skyggni, lofthiti og loftraki.
     10.      Veðurtengdir þættir: Ofanflóð, hafísútbreiðsla, sjólag, sjávarflóð, vatnsflóð, eldingar, dreifing gjósku í lofti, ókyrrð í lofti og ísing í lofti, á láði og á legi.
     11.      Öryggisþjónusta: Vöktun og viðvaranir eða ráðgjöf um yfirvofandi hættu af völdum veðurs eða veðurtengdra þátta sem miðar að því að vernda líf og eignir.

4. gr.
Yfirstjórn.

    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála sem lög þessi taka til. Veðurstofa Íslands er ráðherra til ráðgjafar.

5. gr.
Grunnkerfi.

    Veðurstofa Íslands skal reka grunnkerfi með því m.a. að starfrækja nauðsynlegan fjölda veðurathugunarstöðva í hverjum landshluta og með því að afla gagna frá erlendum veðurstofum. Enn fremur skal Veðurstofa Íslands afla annarra veðurfræðilegra gagna, svo sem fjarkönnunargagna, eftir því sem tök eru á. Markmið með rekstri grunnkerfa Veðurstofu Íslands er að auki að byggja upp, viðhalda og auka þekkingu á veðurfari landsins og orsökum veðurfarsbreytinga.
    Veðurstofa Íslands skal varðveita veðurupplýsingar þær sem fást úr rekstri grunnkerfa í aðgengilegum og áreiðanlegum gagnagrunnum.
    Veðurstofa Íslands skal beita sér fyrir samræmingu á grunnkerfum opinberra stofnana sem og fyrirtækja sem að einhverju leyti starfa á sviði veðurþjónustu.

6. gr.
Grunnþjónusta.

    Veðurstofa Íslands skal inna af hendi grunnþjónustu með því að:
     a.      veita öryggisþjónustu vegna veðurs á landi, í lofti og á legi,
     b.      sjá um að gerðar séu almennar veðurspár eins og þær eru skilgreindar á hverjum tíma fyrir Ísland og umhverfi þess,
     c.      veita veðurþjónustu fyrir flugvelli og flugumferð í samræmi við lög, fyrirmæli stjórnvalda og samkvæmt alþjóðlegum reglum og samþykktum,
     d.      veita öryggisþjónustu vegna veðurtengdra þátta,
     e.      veita aðra þá grunnþjónustu sem ráðherra ákveður eða samið er um í alþjóðlegum samningum.

7. gr.
Fjármögnun grunnkerfa og grunnþjónustu.

    Kostnaður við uppbyggingu, rekstur, þróun og viðhald grunnkerfa, svo og grunnþjónustu, greiðist úr ríkissjóði.

8. gr.
Miðlun veðurupplýsinga.

    Veðurstofa Íslands skal miðla upplýsingum um veður, almennar veðurspár, almennar veðurhorfur og veðurtengda þætti a.m.k. daglega til fjölmiðla og annarra miðla sem hafa almenna útbreiðslu og ná til notenda innan lands, hafsvæða umhverfis landið og flugstjórnarsvæðis sem stofnunin vaktar samkvæmt alþjóðlegum samningum eða skuldbindingum Íslands á alþjóðavettvangi.

9. gr.
Viðvaranir.

    Veðurstofu Íslands er skylt að gefa út viðvaranir um yfirvofandi hættu af völdum veðurs og veðurtengdra þátta eftir því sem tilefni er til hverju sinni og í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir. Þess skal gætt að viðvaranir séu settar fram á skýran og ótvíræðan hátt. Veðurstofan skal koma viðvörunum sínum tafarlaust á framfæri m.a. við fjölmiðla sem ná til landsins alls og staðbundinna miðla eftir því sem tilefni er til.

10. gr.
Sérþjónusta.

    Veðurstofa Íslands veitir veðurfræðilega sérþjónustu, svo sem að annast veðurspár, framkvæmd og túlkun veðurmælinga og ráðgjöf um veðurfræðileg og veðurfarsleg málefni gegn greiðslu, enda sé það gert á forsendum jafnræðis gagnvart einkareknum veðurþjónustufyrirtækjum og öðrum ríkisveðurstofum á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Starfsemi sérþjónustu Veðurstofu Íslands skal rekin sem sjálfstæð eining og vera fjárhagslega aðskilin frá annarri starfsemi stofnunarinnar.

11. gr.
Þjónustusamningar.

    Veðurstofa Íslands getur falið öðrum aðilum, stjórnvöldum sem einkaaðilum, að annast ákveðna verkþætti á starfssviði sínu með sérstökum samningi þar um.

12. gr.
Aðgangur að gögnum.

    Veðurstofu Íslands er skylt að afhenda gögn sem hún býr til eða aflar við rekstur grunnkerfa og grunnþjónustu gegn greiðslu þess kostnaðar sem hlýst af afhendingu þeirra, þó með þeim takmörkunum sem leiðir af aðild Íslands að fjölþjóðasamningum um meðferð veðurgagna og tölvuspáa í markaðsumhverfi. Ráðherra setur að fengnum tillögum Veðurstofu Íslands gjaldskrá um afhendingarkostnað vegna gagna sem afhent eru samkvæmt ákvæði þessu.

13. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um veðurþjónustu og veðurtengda öryggisþjónustu.

14. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Jafnframt verða eftirfarandi breytingar á 3. gr. laga um Veðurstofu Íslands, nr. 30/1985:
     a.      1. og 2. tölul. orðast svo:
                  1.      að sjá um rekstur grunnkerfa og annast grunnþjónustu á sviði veðurþjónustu, sbr. lög um veðurþjónustu,
                  2.      að annast verkefni á sviði ofanflóðavarna, sbr. lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.
     b.      3., 5. og 7. tölul. falla brott og breytist röð annarra liða samkvæmt því.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem skipuð var 3. október 2003 af umhverfisráðherra og var falið að semja frumvarp um veðurþjónustu þar sem skilgreint væri hver þáttur hins opinbera skyldi vera í almennri veðurþjónustu og veðurtengdri öryggisþjónustu, sbr. 1. gr. laga um Veðurstofu Íslands, nr. 30/1985. Jafnframt var það verkefni nefndarinnar að gera tillögur um það hvernig opinberri veðurþjónustu væri best komið fyrir.
    Í nefndinni áttu sæti: Einar Sveinbjörnsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra, formaður, Sigrún Ágústsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu, bæði skipuð án tilnefningar, Baldur Bjartmarsson, forstöðumaður hjá Siglingastofnun, tilnefndur af samgönguráðuneyti, Guðrún Johnsen hagfræðingur, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins, og Magnús Jónsson veðurstofustjóri, tilnefndur af Veðurstofu Íslands. Nefndin lauk störfum í febrúar 2004.
    Lög um Veðurstofu Íslands hafa staðið að mestu leyti óbreytt frá árinu 1985 en á sama tíma hafa flestir þeir málaflokkar aðrir sem undir umhverfisráðuneytið heyra verið endurskoðaðir. Tímabært þótti að skilgreina verkefni hins opinbera á sviði veðurþjónustu nánar í lögum en á undanförnum árum hafa risið upp ákveðin álitamál þar um.
    Einkaaðilar hafa á undanförnum árum boðið afmarkaða veðurfræðilega þjónustu og m.a. óskað eftir afnotum af gögnum sem Veðurstofa Íslands hefur framleitt eða aflað. Í árslok 2000 barst Samkeppnisstofnun erindi frá fyrirtækinu Halo ehf. sem sérhæft hafði sig í gerð og miðlun veðurspáa á netinu. Þess var óskað að Samkeppnisstofnun rannsakaði starfsemi Veðurstofu Íslands vegna meintra brota hennar á samkeppnislögum. Fór Halo ehf. fram á að Samkeppnisstofnun hlutaðist til um það sem kallað var misnotkun á markaðsráðandi stöðu Veðurstofunnar þar sem Veðurstofan taldi sig ekki hafa heimild til þess að afhenda Halo ehf. veðurgögn og tölvureiknaðar spár til frekari úrvinnslu. Halo ehf. óskaði auk þess eftir því að Samkeppnisstofnun setti almenn skilyrði sem tryggja ættu eðlilega samkeppni á veðurþjónustumarkaði. Niðurstaða samkeppnisráðs í máli þessu var sett fram í fimm liðum:
     1.      Stofnuð verði sérstök eining um rekstur þeirrar þjónustu sem er og verður á samkeppnismarkaði. Reiknishald þessarar þjónustueiningar skal vera sjálfstætt.
     2.      Gera skal sérstakan stofnefnahagsreikning. Eignir sem teljast til þjónustueiningarinnar skulu metnar á markaðsverði sé þess kostur en annars á endurkaupsverði.
     3.      Með skyldum þjónustueiningarinnar skulu teljast skuldbindingar sem tengjast starfsemi samkeppnisstarfseminnar.
     4.      Öll viðskipti milli þjónustueiningarinnar og annarra sviða Veðurstofu Íslands skulu verðlögð á markaðsverði eins og um viðskipti milli óskyldra aðila væri að ræða. Ef markaðsverð liggur ekki fyrir skal miðað við kostnaðarverð að viðbættri hæfilegri álagningu.
     5.      Gjaldskrá skal standa undir rekstrarkostnaði þjónustueiningarinnar auk hæfilegrar álagningar eins og um sjálfstæðan rekstur væri að ræða.
Í frumvarpi þessu er brugðist við niðurstöðu Samkeppnisstofnunar með þeim hætti að skilgreina þjónustu í markaðsumhverfi sérstaklega og kveða á um fjárhagslegan aðskilnað hennar frá annarri starfsemi Veðurstofu Íslands, sbr. 10 gr. frumvarpsins.
    Í ársbyrjun 2002 boðuðu ráðuneytisstjórar umhverfis- og samgönguráðuneyta til fundar um veðurþjónustu á vegum opinberra stofnana. Þar var ákveðið að stofna starfshóp til að vinna tillögur um samstarf þeirra opinberu stofnana sem annast rekstur á veðurstöðvum eða sinna veðurþjónustu með öðrum hætti. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum frá umhverfisráðuneyti, samgönguráðuneyti, Vegagerðinni, Siglingastofnun, Flugmálastjórn og Veðurstofunni, en veðurstofustjóri stýrði starfi hópsins. Tildrög skipunar þessa starfshóps voru þau að vegna aukinna krafna um greiðar og öruggar samgöngur á landi, í lofti og á sjó, sem almennt eru háðar veðri, höfðu stofnanir eins og Vegagerðin, Siglingastofnun og Flugmálastjórn aukið miðlun hvers kyns veðurupplýsinga sem aflað er með sjálfvirkum mælingum. Æskilegt þótti að þessar stofnanir ásamt Veðurstofu Íslands ykju samstarf sitt og samræmingu í meðhöndlun og miðlun veðurupplýsinga með það að markmiði að auka öryggi þeirra hópa sem þurfa á þessum upplýsingum að halda og eins það að tryggja hagkvæmni í þeirri starfsemi sem viðkomandi stofnanir eiga að sinna lögum samkvæmt. Starfshópurinn lagði m.a. til í tillögum sínum um mitt ár 2002 að skilgreint yrði og sett í lög hvað teldist almenn veðurþjónusta og veðurtengd öryggisþjónusta sem opinberir aðilar bæru ábyrgð á. Starfshópurinn lagði einnig til að þróuð yrði sameiginlega eða á hverri stofnun fyrir sig sérhæfð öryggis- og vöktunarþjónusta með þarfir einstakra markhópa í huga. Starfshópurinn lagði í þriðja lagi til að kerfi sjálfvirkra veðurathugunarstöðva þeirra opinberu stofnana sem hlut eiga að máli yrði samræmt eftir því sem unnt er.
    Samkvæmt 2. gr. laga um vitamál, nr. 132/1999, ber Siglingastofnun Íslands að sjá sjófarendum fyrir nauðsynlegum leiðbeiningum til öryggis í siglingum við Íslandsstrendur og á fiskimiðum í kringum landið. Til slíkra leiðbeininga teljast m.a. vitar og önnur föst merki á landi, fljótandi leiðarmerki, radíómerki til staðarákvörðunar og upplýsingar um veður og sjólag. Jafnframt skal Siglingastofnun, að beiðni Veðurstofu Íslands, annast veðurathuganir á vitastöðum. Ekki er kveðið á um veðurþjónustu í öðrum sérlögum. Það var mat þeirrar nefndar sem samdi frumvarp þetta að samræming veðurathuganakerfa opinberra stofnana væri afar æskileg og að henni yrði náð með samkomulagi eða samningum á milli Veðurstofu Íslands og annarra opinberra aðila sem stunda reglulegar veðurmælingar af einhverju tagi. Lagt er til að Veðurstofu Íslands verði falið að beita sér fyrir þeirri samræmingu, sbr. 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Að höfðu samráði við fulltrúa Vegagerðarinnar, Flugmálastjórnar og fleiri aðila þótti ekki ástæða til að kveða sérstaklega á um skyldur þeirra stofnana á sviði veðurþjónustu í frumvarpi þessu og er því eingöngu fjallað um þá öryggis- og vöktunarþjónustu sem Veðurstofa Íslands er ætlað að veita.
    Í júní 2003 lauk stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Veðurstofu Íslands, en hún hófst í nóvember 2002. Í inngangi hennar segir að við slíka endurskoðun sé reynt að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort gildandi lagafyrirmælum sé framfylgt. Í niðurstöðu stjórnsýsluúttektarinnar segir m.a. að mikilvægt sé að umhverfisráðuneytið endurskilgreini sem fyrst lagaramma Veðurstofunnar sem og hlutverk stofnunarinnar. Að því búnu þarf að taka skýra afstöðu til þess að hve miklu leyti veðurþjónusta verði skilgreind sem samkeppnisþjónusta og verðlögð í samræmi við það. Eins bendir Ríkisendurskoðun á það að full ástæða sé til þess að kannað verði gaumgæfilega hvaða leiðir séu færar til þess að samræma þá veðurþjónustu sem opinberar stofnanir sinna.
    Í frumvarpi þessu er brugðist við framangreindri niðurstöðu Ríkisendurskoðunar með því að skilgreina verksvið Veðurstofu Íslands hvað varðar veðurþjónustu með skýrum hætti, sbr. einkum 5. og 6. gr., svo og 10. gr. frumvarpsins. Litið er svo á að með þeim hætti verði grundvöllur fjárveitinga til stofnunarinnar skýrari, sbr. 7. gr. frumvarpsins.
    Á alþjóðavettvangi hefur á síðustu áratugum mikið verið unnið í að gera veðurþjónustu á breiðum grundvelli skilvirkari og ódýrari. Hlutverk ríkisins sem þjónustuaðila hefur verið til umfjöllunar síðustu árin hjá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO), en Ísland er eitt 185 aðildarríkja hennar. Þrettánda allsherjarþing WMO 1999 samþykkti stefnumarkandi yfirlýsingu, svokallaða „Genfaryfirlýsingu“, um veðurþjónustu og hlutverk og rekstur þjóðarveðurstofa. Á þeim grundvelli samþykkti framkvæmdaráð WMO árið 2003 yfirlýsinguna „Hlutverk og rekstur ríkisveðurstofa“ (e. The Role and Operation of National Meteorological Services). Í Genfaryfirlýsingunni segir m.a. að veður og veðurfar hafi áhrif á daglegt líf flestra jarðarbúa og að meira en aldarlöng reynsla hafi sýnt fram á mikla þjóðhagslega hagkvæmni skilvirkrar veðurþjónustu fyrir þjóðir sem reka hana og viðhalda henni. Fáar atvinnugreinar eða einstök fyrirtæki eru algjörlega óháð veðri og kostnaður vegna röskunar starfsemi af völdum veðurs verður seint ofmetinn. Í yfirlýsingunni er einnig fjallað um hlutverk veðurstofa á 21. öld, framtíð veðurþjónustunnar og þátt hennar fyrir samfélagið. Mikilvægasta hlutverk veðurstofa er talinn þáttur þeirra í öryggisþjónustu varðandi líf og eignir og sá þáttur sem þær eiga í að draga úr áhrifum náttúruhamfara. Stefnumörkun WMO er til í styttri íslenskri þýðingu og var stuðst við hana við samningu frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að á Veðurstofu Íslands verði tekin upp skipting starfsemi veðurþjónustu á sama hátt og lögð er til í Genfaryfirlýsingunni, þ.e. í grunnkerfi, grunnþjónustu og sérhæfða þjónustu. Tilhneiging hefur verið til að draga úr vægi hlutar hins almenna skattgreiðanda í fjármögnun veðurþjónustunnar, en auka á móti hlut sérstakra notenda. Því er æskilegt að greina á milli grunnkerfa og grunnþjónustu sem rekin er fyrir opinbert fé og síðan sérþjónustu sem notendur hennar greiða fyrir.
    Starfsumhverfi Veðurstofu Íslands og þarfir þeirra sem nota sér þjónustu hennar taka stöðugum breytingum. Veðurþjónusta hér á landi, eins og reyndar víðast annars staðar, er að mestu kostuð og starfrækt af opinberum aðilum. Auk Veðurstofu Íslands veita aðrar stofnanir eins og Vegagerðin, Siglingastofnun, Flugmálastjórn o.fl. veðurþjónustu í formi veðurmælinga og hefur miðlun þeirra upplýsinga þann tilgang að greiða fyrir og bæta öryggi í samgöngum. Sums staðar í nágrannalöndum okkar hafa einkaaðilar í vaxandi mæli boðið upp á virðisaukandi starfsemi á sviði veðurþjónustu, einkum við úrvinnslu og miðlun veðurupplýsinga og veðurspáa á ýmsu formi. Veðurmælingar, varsla veðurupplýsinga og ákveðin grunnþjónusta er þó yfirleitt á vegum ríkisins. Á síðustu árum hefur tækniþróun og alþjóðavæðing haft mikil áhrif á starfsemi veðurstofa í heiminum. Ekkert er alþjóðlegra en veðrið og því er fjölþjóðlegt samstarf forsenda árangursríkrar veðurþjónustu um allan heim. Mismunandi stefna stjórnvalda í hinum markaðsvædda heimi hefur hins vegar skapað umtalsverð vandamál í veðurþjónustunni. Má sem dæmi nefna kröfu stjórnvalda í Vestur-Evrópu um að ríkisstofnanir afli sértekna með sölu á tiltekinni þjónustu en ríkisstofnunum í Norður- Ameríku er almennt meinað að afla tekna á markaði með sölu á gögnum og þjónustu. Í Vestur-Evrópu hafa einkarekin fyrirtæki reynt fyrir sér á afmörkuðum sviðum veðurþjónustunnar auk þess sem markaðsreglur Evrópska efnahagssvæðisins gilda á vissum sviðum þjónustunnar. Þannig er samkeppni milli ríkisveðurstofanna á EES-svæðinu innbyrðis auk samkeppni milli einstakra ríkisveðurstofa og einkafyrirtækja í veðurþjónustu. Af þessum sökum hefur skapast óvissa hér á landi sem annars staðar þar sem skilgreiningar hefur skort um það hvaða þjónustu Veðurstofa Íslands ætti að veita án endurgjalds og hvaða þjónustu ætti að selja.
    Í reglugerð um starfsemi Veðurstofu Íslands, nr. 367/1996, er fjallað nánar um verkefni Veðurstofunnar á sviði veðurþjónustu og hefur hún auk þeirra gagna sem að framan eru rakin verið höfð til hliðsjónar við undirbúning frumvarps þessa.
    Verði frumvarp þetta að lögum verða ákveðnar breytingar á lögum um Veðurstofu Íslands í þá veru að vísað verður til laga um veðurþjónustu um verkefni stofnunarinnar á því sviði. Jafnframt er vísað til laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, en þar er ítarlega fjallað um verkefni stofnunarinnar á því sviði.
    Veðurstofa Íslands annast vöktun á jarðvá með margs konar mælingum á jarðskjálftum, þenslu í jarðskorpunni, hægfara hreyfingum hennar o.fl. og vinnur úr þessum gögnum. Einnig safnar stofnunin upplýsingum um eldgos og öskufall. Þessi verkefni tengjast ekki veðri, veðurfari eða veðurtengdum þáttum beinlínis. Þykir því ekki ástæða til að fjalla um þessi verkefni í sérlögum um veðurþjónustu. Í lögum um Veðurstofu Íslands er einnig kveðið á um að Veðurstofan skuli gera athuganir og mælingar á mengun í lofti og úrkomu. Mengunarmál heyra almennt undir Umhverfisstofnun. Mengun verður almennt ekki vegna veðurs þótt veður kunni að hafa áhrif á dreifingu mengunarinnar. Er því lagt til að þetta ákvæði verði óbreytt í þeim lögum þar sem það er ekki nema öðrum þræði tengt veðurþjónustu. Á fundi nefndarinnar með fulltrúa almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra kom fram ábending um geislavá og aðra sambærilega hættu, svo sem hættu vegna gastegunda. Nefndin sem samdi þetta frumvarp taldi að halda ætti þeim þætti fyrir utan frumvarp þetta þar sem svipað háttar til með slíka vá og mengunarvá. Geislavarnir ríkisins annast öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum samkvæmt lögum um geislavarnir, nr. 44/2002. Dæmi eru um það að hættulegt, náttúrulegt gas streymi úr jörðu bæði samfara eldgosum hér á landi og eins annars staðar frá en að mati nefndarinnar fellur slík hætta undir jarðvá.
    Nefndin sem samdi frumvarp þetta fékk á fund til sín eftirtalda samráðsaðila: Björn Ólafsson og Nikolai Jónasson frá Vegagerðinni, Brand Guðmundsson frá Flugmálastjórn, Hafþór Jónsson frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Sigurð Steinar Ketilsson, frá Landhelgisgæslunni, Sigurð Þ. Ragnarsson frá Stöð 2, Guðmund Hermannsson og Ingvar Hjálmarsson frá mbl.is og Kára Jónasson frá Ríkisútvarpinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er gildissvið frumvarpsins afmarkað efnislega. Ekki þykir þörf á að afmarka gildissvið frumvarpsins landfræðilega en í 1. gr. laga um Veðurstofu Íslands, nr. 30/1985, segir að hlutverk Veðurstofu Íslands sé að annast veðurþjónustu fyrir Ísland og umhverfi þess, svo og vinna að rannsóknum á sviði veðurfræði og annarra þeirra fræðigreina er falla undir starfssvið hennar. Gert er ráð fyrir að ákvæði þetta haldi gildi sínu verði frumvarp þetta að lögum. Samkvæmt samningum milli Íslands og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar ICAO frá 1948 veitir Veðurstofa Íslands veðurþjónustu á íslenska flugstjórnarsvæðinu (Reykjavík FIR) sem nær langt út fyrir efnahagslögsöguna. Frumvarp þetta fjallar um opinbera veðurþjónustu, þ.m.t. flugveðurþjónustu, veðurtengda þjónustu og veðurfræðilega sérþjónustu, og eru þetta fyrstu sérlögin á því sviði. Skilið er milli veðurþjónustu og veðurtengdrar þjónustu eins og nánar kemur fram í skilgreiningum og öðrum ákvæðum frumvarpsins.


Um 3. gr.

    Í ákvæðinu eru í fyrsta sinn skilgreind í lögum hugtök á sviði veðurs og veðurþjónustu. Mikilvægt þykir að hugtök frumvarpsins séu skýr þar sem tilgangur þess er m.a. að skilja á milli grunnþjónustu sem greidd er af almannafé og sérþjónustu sem veitt eftir því sem eftirspurn er eftir hverju sinni. Jafnframt er lögð áhersla á öryggisþjónustu vegna veðurs og veðurtengdra þátta. Litið er svo á að skýr hugtök geri öryggisþjónustuna markvissari. Sérstakt samspil er milli skilgreininga og 4. gr. frumvarpsins. Einnig eru tengsl milli skilgreininga innbyrðis.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um yfirstjórn málaflokksins og er ákvæðið í samræmi við ákvæði annarra laga er undir umhverfisráðuneytið heyra.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um rekstur grunnkerfa á sviði veðurs og veðurtengdra þátta. Veðurstofan rekur grunnkerfi veðurathugunarstöðva sem samanstendur af um 120 mönnuðum veðurstöðvum. Þar af eru um 45 skeytastöðvar, um 15 svokallaðar veðurfarsstöðvar en á hinum er aðeins mæld úrkoma. Þá rekur Veðurstofan um 90 sjálfvirkar athugunarstöðvar. Líklegt er, miðað við þróunina í nágrannaríkjum okkar, að mönnuðum veðurstöðvum muni fækka í náinni framtíð en sjálfvirkum stöðvum fjölga. Ýmsir opinberir aðilar, t.d. Vegagerðin, reka æ fleiri veðurathugunarstöðvar í því skyni að bæta öryggi á vegum landsins. Þá rekur Flugmálastjórn fullkomnar veðurstöðvar við helstu flugvelli landsins utan Keflavíkurflugvallar, og Siglingastofnun Íslands hefur sett upp stöðvar við marga vita landsins og eru þær reknar í nánu samstarfi við Veðurstofuna. Veðurathuganir gegna þrenns konar hlutverki. Þær mynda net veðurupplýsinga fyrir veðurspár og öryggisþjónustu. Í því skyni hefur lengi verið við lýði alþjóðlegt kerfi þar sem opinberar veðurstofur og stofnanir skiptast á veðurathugunum. Þá eru sumar veðurathugunarstöðvar sem mæla veðurþætti sem fyrst og fremst er ætlað að viðhalda og bæta þekkingu á veðurfari og veðurfarssögu landsins. Í sumum tilvikum koma þær ekki við sögu í daglegri veðurþjónustu. Í þriðja lagi er hlutverk veðurathugana eingöngu það að miðla rauntímagögnum til þeirra sem þær nýtast. Veðurathuganir Vegagerðarinnar, Flugmálastofnunar og Siglingastofnunar Íslands hafa þann megintilgang. Í greininni er enn fremur getið fjarkönnunargagna, en þeirra er aflað m.a. frá gervitunglum og veðurratsjám. Vægi fjarkönnunar í grunnkerfum hefur farið vaxandi og samvinna ríkja umfangsmikil á því sviði.
    Í 2. mgr. er kveðið á um gagnagrunna veðurathugana og annarra veðurupplýsinga. Gagnagrunnar veðurupplýsinga eru hluti grunnkerfa og gert er ráð fyrir því að þeir séu aðgengilegir og áreiðanlegir, en í því felst m.a. að veðurathuganir og mælingar hafi verið yfirfarnar og leiðréttar eftir því sem unnt er og gögnin geymd og sett fram á samræmdan hátt.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er fjallað um samræmingu milli grunnkerfa opinberra stofnana og fyrirtækja. Talið er eðlilegt að Veðurstofa Íslands hafi það hlutverk að beita sér fyrir samræmingu þessara kerfa. Vegagerðin, Siglingastofnun Íslands, Flugmálastjórn og Landsvirkjun eiga og reka fjölda sjálfvirkra stöðva. Veðurstofan nýtir þessi gögn til vöktunar og hluti þeirra er vistaður í gagnagrunnum stofnunarinnar.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um grunnþjónustu. Í fyrstu tveimur stafliðunum er kveðið á um grunnþjónustu vegna veðurs. Í c-lið er getið sérstaklega flugveðurþjónustu, ekki síst vegna víðtæks hlutverks Íslands í samningum við Alþjóðaflugmálastjórnina. Í d-lið er kveðið á um öryggisþjónustu vegna veðurtengdra þátta. Loks er í e-lið heimild ráðherra til að kveða á um ítarlegri grunnþjónustu, svo sem til að bregðast við sérstökum aðstæðum sem upp kunna að koma. Öllum þessum þáttum er nú sinnt af hálfu Veðurstofunnar. Talið er að grundvallarhlutverk ríkisrekinna veðurstofa sé að veita öryggisþjónustu vegna veðurs og veðurtengdra þátta í þágu almennings, samgangna og atvinnulífs.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að kostnaður við rekstur grunnkerfa og grunnþjónustu ásamt þróun kerfanna skuli greiddur úr ríkissjóði. Talið er að með skilgreiningum á grunnkerfum og grunnþjónustu verði grundvöllur fjárveitinga til málaflokksins skýrari. Framlag Alþjóðaflugmálastofnunarinnar nam um 17% af tekjum Veðurstofu Íslands árið 2002. Er því fjármagni ætlað að standa undir veðurþjónustu vegna flugs á alþjóðlegu hafsvæði sem Ísland hefur tekið að sér að sinna. Framlag ICAO rennur í ríkissjóð og þaðan til Veðurstofu Íslands. Þykir orðalag ákvæðisins því samræmast þessu fyrirkomulagi.
    Gert er ráð fyrir að önnur þjónusta sem Veðurstofan veitir verði verðlögð þannig að hún standi undir sér og verði fjárhagslega aðskilin frá grunnþjónustu og rekstri á grunnkerfum.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um skyldur Veðurstofunnar til að sjá um að miðla reglulega upplýsingum um veður, almennar veðurhorfur og veðurtengda þætti til fjölmiðla og annarra miðla. Ljóst er að upplýsingar um veður og veðurspár hafa litla þýðingu ef þeim er ekki komið á framfæri. Mikilvægt er því að koma grunnupplýsingum um veður og veðurtengda þætti á framfæri við fjölmiðla sem hafa almenna útbreiðslu eða aðrar upplýsingaveitur sem almenningur hefur frjálst aðgengi að.
    Á undanförnum árum og áratugum hefur orðið mikil breyting á því hvaða fjölmiðla almenningur notar mest til að nálgast veðurupplýsingar. Ríkisútvarpið og loftskeytastöðvar voru lengi eina miðlunarleið veðurfregna, síðan bættist Ríkissjónvarpið við og á síðustu 15–20 árum hafa bæst við margir aðrir miðlunarkostir, svo sem aðrir fjölmiðlar, jafnt dagblöð sem einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, textavarpið, símsvarar og síðast en ekki síst netið sem valdið hefur straumhvörfum í miðlun hvers kyns veðurupplýsinga. Rétt þykir að Veðurstofa Íslands meti það hverju sinni hvaða fjölmiðlunarleiðir eru skilvirkastar fyrir veðurfregnir og komi viðvörunum og veðurspám á framfæri við þá miðla. Starfssvæði stofnunarinnar nær til alls landsins, stórra hafsvæða umhverfis það og til alþjóðlegs flugsvæðis þar umfram samkvæmt alþjóðlegum samningum. Þeim veðurupplýsingum sem er ætlað að þjóna siglingum er komið á framfæri með útvarpi, loftskeytum og sjálfvirkri móttöku textaskeyta (NAVTEX) og upplýsingum vegna flugs er komið á framfæri eftir sérstöku fjarskiptakerfi flugmálayfirvalda.

Um 9. gr.

    Rétt þykir að Veðurstofan hafi það hlutverk að gefa út skýrar viðvaranir um yfirvofandi hættu vegna veðurs og veðurtengdra þátta eftir því sem tilefni er til og þannig leitast við að tryggja öryggi fólks í híbýlum sínum sem og öryggi sjófarenda, vegfarenda og flugsamgangna. Jafnframt er nauðsynlegt að koma þeim viðvörunum tafarlaust á framfæri við fjölmiðla svo að þær geti komið að gagni. Þetta ákvæði kemur hins vegar ekki í veg fyrir að aðrir en Veðurstofa Íslands geti varað við ýmsum þáttum er snerta veður.

Um 10. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að Veðurstofa Íslands geti veitt sérþjónustu á sviði veðurfræði, svo sem annast veðurspár, framkvæmd og túlkun veðurmælinga, ráðgjöf um veðurfræðileg og veðurfarsleg málefni gegn greiðslu, enda sé það gert á forsendum jafnræðis gagnvart einkareknum veðurþjónustufyrirtækjum og öðrum ríkisveðurstofum á Evrópska efnahagssvæðinu. Með þessu er sérþjónusta skilgreind sem þjónusta á markaði hvort sem á honum er virk samkeppni eða ekki. Lítið hefur verið um framboð einkaaðila af þjónustu af þessu tagi og þykir því rétt að tryggja það að þessi þjónusta verði á boðstólum ef óskað er eftir. Gera má ráð fyrir að einkaaðilar muni bjóða þjónustu á þessu sviði í vaxandi mæli í framtíðinni og hafa verður í huga að allar ríkisveðurstofur sem starfa á EES geta starfað á þessum markaði hér á landi samkvæmt ákveðnum reglum sem samkeppnisyfirvöld ESB hafa ákveðið að skuli gilda í veðurþjónustu á efnahagssvæðinu. Kveðið er á um það að starfsemi sérþjónustu Veðurstofunnar verði rekin sem sjálfstæð eining, fjárhagslega aðskilin frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Haft var samráð við Samkeppnisstofnun um orðalag ákvæðisins. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hefur hugtakið fjárhagslegur aðskilnaður fengið ákveðna mótaða túlkun á 11 ára gildistíma samkeppnislaga. Nánar er fjallað um hugtakið í ritinu Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri ríkisstofnana, stefna, greinargerð og leiðbeiningar sem fjármálaráðuneytið gaf út í nóvember 1997.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram að Veðurstofan getur falið öðrum aðilum, stjórnvöldum sem einkaaðilum, að annast fyrir sig ákveðna verkþætti á starfssviði stofnunarinnar með sérstökum samningi þar um. Á undanförnum árum hefur færst í aukana að einkaaðilum sé falið að annast einstaka þjónustuþætti fyrir hið opinbera og þykir því nauðsynlegt að slík heimild sé í lögum um veðurþjónustu.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu er að finna það nýmæli að Veðurstofunni er gert skylt að afhenda þau gögn sem framleidd eru eða aflað er af stofnuninni einungis gegn greiðslu þess kostnaðar sem hlýst af afhendingu þeirra með þeim takmörkunum sem leiðir af aðild Íslands að fjölþjóðasamningum sem fjalla um meðferð veðurgagna og tölvuspáa í markaðsumhverfi. Tekur ákvæðið mið af þeirri stefnu sem fram kemur í skýrslu nefndar sem fjármálaráðherra skipaði í febrúar árið 2001 og falið var að móta almenna stefnu um verðlagningu opinberra upplýsinga. Nefndin skilaði skýrslu sinni í desember 2002. Samstarf við ýmsar erlendar veðurstofur og aðrar erlendar stofnanir um gagnaafhendingu til Veðurstofu Íslands byggist m.a. á því að ákveðin gögn þeirra, svokölluð „viðbótargögn“, séu ekki afhent aðilum í markaðsstarfsemi nema gegn greiðslu samkvæmt gjaldskrá þeirra.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu er að finna reglugerðarheimild fyrir ráðherra. Í gildi er reglugerð um starfsemi Veðurstofu Íslands, nr. 367/1996, sem sett er á grundvelli laga um Veðurstofu Íslands, nr. 30/1985. Í þeirri reglugerð er kveðið á um ýmis atriði sem frumvarp þetta fjallar um. Verði frumvarp þetta að lögum þykir rétt að þau ákvæði reglugerðarinnar verði endurskoðuð. Er því nauðsynlegt að lög um veðurþjónustu hafi að geyma sérstaka reglugerðarheimild.

Um 14. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að felldir verði niður nokkrir töluliðir í 3. gr. laga um Veðurstofu Íslands sem ýmist er fjallað um með ítarlegum hætti í frumvarpi þessu eða lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um veðurþjónustu.

    Tilgangur frumvarpsins er að skilgreina betur en gert er í gildandi lögum hlutverk ríkisins í rekstri veðurþjónustu og draga skýrari línur milli grunnþjónustu, sem Veðurstofu Íslands er skylt að sinna og greiða skal úr ríkissjóði, og sérþjónustu sem veitt er samkvæmt ósk kaupanda og standa skal undir með tekjum af seldri þjónustu á markaðslegum forsendum.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð. Í því eru fyrst og fremst afmörkuð nákvæmar þau verkefni sem Veðurstofa Íslands sinnir nú. Ákvæði 10. gr. um sérþjónustu skýrir þó betur stöðu stofnunarinnar til sjálfstæðrar tekjuöflunar en sú starfsemi mun fara fram í samræmi við reglur á samkeppnismarkaði og óvíst er um áhrif hennar á sértekjur stofnunarinnar.