Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 180. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 211  —  180. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um kjarasamninga grunnskólakennara og lífeyrisskuldbindingar.

     1.      Hversu mjög má ætla að lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs aukist á samningstímanum vegna væntanlegra kjarasamninga launanefndar sveitarfélaga við stéttarfélög grunnskólakennara ef samið verður miðað við:
                  a.      tilboð launanefndar sveitarfélaga sem í fjölmiðlum hefur verið sagt ígildi 16,3% launahækkunar út samningstímann,
                  b.      kröfur stéttarfélaga grunnskólakennara sem í fjölmiðlum hafa verið sagðar ígildi 35% launahækkunar út samningstímann?

    Fjármálaráðuneytinu er ekki kunnugt um hvaða kröfur eða tilboð hafa gengið á milli aðila í viðræðum þeirra eða að hve miklu leyti þær tölur sem hafa birst í fjölmiðlum eiga við um heildarlaunakostnað eða hækkun dagvinnulauna. Hækkun lífeyrisskuldbindingar ákvarðast af hækkun dagvinnulauna þar sem eftirlaun ráðast af þeim.
    Áfallin heildarskuldbinding B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna grunnskólakennara var í árslok 2003 áætluð 64,3 milljarðar kr. Ef miðað er við að framangreindar forsendur um hækkun launa eigi við um föst laun kennara, þá mun 16,3% hækkun dagvinnulauna því valda 9–10 milljarða kr. hækkun skuldbindingarinnar. Hækkun launa um 35% mun með sama hætti valda 19–20 milljarða kr. hækkun skuldbindingarinnar. Hækkun dagvinnulauna grunnskólakennara hefur bein áhrif á skuldbindingu virkra grunnskólakennara. Sama gildir um skuldbindingu fyrrverandi grunnskólakennara sem eru komnir á lífeyri og miða lífeyri við eftirmann í starfi. Skuldbinding fyrrverandi grunnskólakennara sem komnir eru á lífeyri og og fá lífeyri sem tekur breytingum samkvæmt meðaltalsreglu og grunnskólakennara með geymd réttindi breytist í samræmi við hækkun vísitölu dagvinnulauna. Loks hefur hækkun dagvinnulauna grunnskólakennara óbein áhrif á lífeyrisskuldbindingu annarra sjóðfélaga í B-deild LSR sem taka lífeyri eftir meðaltalsreglu, þar sem hækkunin hefur áhrif á vísitölu dagvinnulauna. Er hér um að ræða hækkun áfallinnar skuldbindingar í heild á samningstímanum vegna áunninna réttinda í árslok 2003. Í útreikningunum er ekki tekið tillit til skuldbindingar vegna nýrra réttinda á samningstímanum, eða iðgjalda frá sveitarfélögum enda hafa þau ekki áhrif á fortíðina.
    Hér er reiknað með að aðeins föst laun breytist og að skipting skuldbindingarinnar á þá sem miða lífeyri við eftirmannsreglu og þá sem miða við meðaltalsreglu sé sú sama og hjá LSR í heild. Það fer að sjálfsögðu eftir niðurstöðu samninga hvort hluti launakostnaðarhækkana felst í breytingu á öðrum þáttum, svo sem yfirvinnu eða vinnutilhögun. Þá ber að geta þess að hluti af hækkun skuldbindingarinnar færist til gjalda á rekstrarreikningingi ríkissjóðs en sá hluti sem samsvarar meðalhækkun launa opinberra starfsmanna færist um efnahag. Í ríkisreikningi fyrir árið 2000 hækkaði skuldbindingin um 15,5 milljarða kr. vegna ákvæða í kjarasamningi við grunnskólakennara um hækkun launa í janúar og ágúst árið 2001, en þar af færðust 11,5 milljarðar kr. um gjaldahlið ríkissjóðs.

     2.      Hve mikið eykst verðmæti lífeyrisréttinda hvers starfandi grunnskólakennara að meðaltali skv. a- og b-lið 1. liðar?
    Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga voru stöðugildi kennara árið 2003 samtals 4.109. Til að reikna út hve mikið verðmæti lífeyrisréttinda hvers starfandi grunnskólakennara eykst þarf að ráðast í tryggingafræðilega útreikninga á meðalréttindum starfandi grunnskólakennara hjá B-deild. Sá fjöldi fólks sem á rétt til lífeyris sem grunnskólakennarar (þ.e. hafa einhvern rétt til lífeyris og eru nú í öðrum störfum, eru þegar komnir á eftirlaun eða eru enn í starfi sem kennarar) og stendur að baki áfallinni skuldbindingu er annar en fjöldi starfandi kennara.