Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 215. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 217  —  215. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum.

Flm.: Örlygur Hnefill Jónsson, Össur Skarphéðinsson, Jóhann Ársælsson,


Steingrímur J. Sigfússon, Jón Gunnarsson, Magnús Þór Hafsteinsson,


Kristján L. Möller, Hjálmar Árnason, Birkir J. Jónsson, Einar K. Guðfinnson.



I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 57/1996.

1. gr.

    2. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
    Við fyrsta brot skal sekt eigi nema hærri fjárhæð en 4.000.000 kr. eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekað brot skal sekt eigi nema hærri fjárhæð en 8.000.000 kr., sömuleiðis eftir eðli og umfangi brots.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 38/1990.

2. gr.

    2. mgr. 25. gr. laganna orðast svo:
    Við fyrsta brot skal sekt eigi nema hærri fjárhæð en 4.000.000 kr. eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekað brot skal sekt eigi nema hærri fjárhæð en 8.000.000 kr., sömuleiðis eftir eðli og umfangi brots.

III. KAFLI


Breyting á lögum nr. 79/1997.


3. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Brot gegn öðrum ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt lögum þessum eða ákvæðum leyfisbréfa varða sektum sem eigi skulu nema hærri fjárhæð en 4.000.000 kr. eftir eðli og umfangi brots.

IV. KAFLI


Breyting á lögum nr. 151/1996.


4. gr.

    1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Brot gegn öðrum ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt lögum þessum eða ákvæðum leyfisbréfa varða sektum sem eigi skulu nema hærri fjárhæð en 4.000.000 kr. eftir eðli og umfangi brots.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með setningu laga nr. 57/1996 voru sett þau ströngu refsi- og viðurlagaákvæði sem hér er lagt til að breytt verði á þann hátt að neðri mörk viðurlaganna verði felld niður. Í V. kafla þeirra var jafnframt lögfest breyting á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Eldri viðurlagaákvæði laga nr. 38/1990 voru í 19. gr. þeirra og vörðuðu sektum, nema þyngri refsing lægi við samkvæmt öðrum lögum. Í 19. gr. var enginn refsirammi markaður eins og er nú í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 57/1996 og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 38/1990. Þá var með 17. gr. laga nr. 79/1997 og 14. gr. laga nr. 151/1996 settar sömu lágmarkssektir, 400.000 kr., en ekki er fjallað um ítrekuð brot í þeim.
    Ekki er því í móti mælt að sett séu viðurlög við brotum á þeim lögum sem hér er um fjallað og viðurlögin samræmd í þessum helstu lagabálkum um stjórnun fiskveiða og umgengni um nytjastofna, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og fiskveiðar utan lögsögunnar. Þjóð sem byggir afkomu sína í jafnríkum mæli á veiðum og vinnslu sjávarfangs eins og við Íslendingar þarf að stuðla að því að farið sé að reglum varðandi þessa starfsemi. Hins vegar er engin þörf að ákvarða refsirammann svo sem gert er í þessum lögum en sérstaklega eru neðri mörkin há. Líta verður til þess að líkast til er hvergi um annað eins regluverk að ræða og það sem byggist á fiskveiðilöggjöfinni, í formi reglugerða, reglna og stjórnvaldsfyrirmæla.
    Regluverk þetta mælir meira og minna svo fyrir að brot gegn ákvæðum þess varði við refsiákvæði laga nr. 38/1990, laga nr. 57/1996, laga nr. 79/1997 eða laga nr. 151/1996. Stöðugt eru því þegnunum settar reglur af hálfu framkvæmdarvaldsins, þær koma aldrei til skoðunar Alþingis en varða þeim þungu viðurlögum sem hér er lagt til að verði breytt.
    Eðli máls samkvæmt geta brot á regluverki um fiskveiðar og sjávarnytjar innan fiskveiðilandhelginnar og utan lögsögu Íslands verið alvarleg og stórfelld og af ásetningi framin. En hitt er einnig til að brot þessi séu smávægileg eða af gáleysi sem ekkert réttlætir að sæti viðurlögum að lágmarki 400.000 kr.
    Þetta er ekki í neinu samræmi við aðrar atvinnugreinar, eða aðra háttsemi þegnanna, þar sem kveðið er á um sektir og eru dómstólar fullfærir um að kveða á um sektir, eins og hér er lagt til að refsiramminn verði. Að óbreyttri löggjöf geta dómstólar ekki hnikað frá lágmarkssekt að fjárhæð 400.000 kr. og er það óásættanlegt. Líta verður til þess að þeir sem hafa atvinnu sína af sjómennsku og fiskveiðum eru fæstir það fjáðir að ekki muni um 400.000 kr. í rekstri. Einyrkjar sem róa smábát án mikilla aflaheimilda finna þungt fyrir lögbundnum viðurlögum ef þeir teljast sekir um brot, hvort heldur er af ásetningi eða gáleysi. Ætíð verður það þó svo að dómari sem dæmir í máli getur litið til alvarleika brots og hagsmuna sem það varðar þegar hann ákveður viðurlög. Er því tilgangur þessarar lagabreytingar að koma í veg fyrir að smávægilegar yfirsjónir kosti viðkomandi 400.000 kr. heldur geti dómstólar litið á hvert mál fyrir sig og ákveðið viðurlög innan rýmri refsiramma en nú er heimilt.