Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 236. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 242  —  236. mál.




Frumvarp til laga



um rannsóknarnefnd umferðarslysa.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

    Ákvæði laga þessara taka til slysa og atvika sem tengjast umferð ökutækja og sem í lögum þessum eru nefnd umferðarslys.
    Rannsóknir umferðarslysa samkvæmt lögum þessum skulu ná til rannsókna einstakra umferðarslysa og til flokka umferðarslysa eða umferðarslysa sem teljast af sama tagi.
    Samgönguráðherra skal í reglugerð tilgreina nánar hvað fellur undir umferðarslys í lögum þessum.

2. gr.

    Rannsóknir umferðarslysa samkvæmt lögum þessum skulu aðeins miða að því að leiða í ljós orsakir umferðarslyss til að koma í veg fyrir að sams konar umferðarslys verði aftur og stuðla með því að auknu öryggi í umferðinni.
    Rannsókn umferðarslysa samkvæmt lögum þessum er óháð rannsókn umferðarslysa samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

II. KAFLI
Skipulag umferðarslysarannsókna.
3. gr.

    Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal starfa sjálfstætt og óháð stjórnvöldum.
    Í rannsóknarnefnd umferðarslysa eiga sæti þrír menn sem samgönguráðherra skipar til fimm ára í senn og skal einn skipaður formaður. Að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum. Samgönguráðherra skipar varamenn til sama tíma.
    Allur kostnaður við starfsemi rannsóknarnefndar umferðarslysa greiðist úr ríkissjóði.

4. gr.

    Samgönguráðherra skipar nefndinni forstöðumann til fimm ára í senn.
    Forstöðumaður ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar og gætir þess að hann sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma.
    Forstöðumaður ræður til nefndarinnar annað starfsfólk.

5. gr.

    Þeir sem skipaðir eru í rannsóknarnefnd umferðarslysa skulu hafa menntun eða starfsreynslu á þeim sviðum sem sérstaklega nýtast við umferðarslysarannsóknir.
    Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

6. gr.

    Forstöðumaður rannsóknarnefndar umferðarslysa er jafnframt rannsóknarstjóri hennar og stýrir rannsóknarverkefnum á vegum nefndarinnar. Rannsóknarnefnd umferðarslysa er heimilt að tilnefna staðgengil rannsóknarstjóra.
    Forstöðumaður skal hafa sérmenntun eða starfsreynslu á sviði umferðarmála eða umferðarslysarannsókna.
    Um sérstakt hæfi forstöðumanns fer eftir því sem segir í 2. mgr. 5. gr.

III. KAFLI
Tilkynning um umferðarslys. Framkvæmd rannsóknar.
7. gr.

    Verði umferðarslys, sbr. 1. gr., skal vaktstöð samræmdrar neyðarsímsvörunar, eða lögreglan, svo fljótt sem verða má koma boðum um umferðarslysið til rannsóknarstjóra. Rannsóknarstjóri skal tilkynna vaktstöð eða lögreglu svo fljótt sem kostur er hvort hann hyggist koma á vettvang slyssins.

8. gr.

    Rannsóknarstjóri, rannsóknarnefnd umferðarslysa og aðrir starfsmenn nefndarinnar skulu hafa óhindraðan aðgang að vettvangi umferðarslyss.
    Rannsóknarstjóri skal við vettvangsrannsókn hafa rétt til að óska aðstoðar lögreglu.
    Rannsóknarstjóri skal hafa rétt til skýrslutöku og gagnasöfnunar á vettvangi þegar sérstaklega stendur á.
    Rannsóknarstjóri skal við vettvangsrannsókn hafa samráð við lögreglu rannsaki lögregla vettvang.

9. gr.

    Óski rannsóknarstjóri þess á vettvangi skal hvorki hreyfa né flytja á brott ökutæki eða hrófla við ummerkjum slyssins uns rannsókn er lokið, nema að svo miklu leyti sem slíkt er talið nauðsynlegt til verndar veigameiri hagsmunum.
    Rannsóknarstjóra er heimilt að taka til vörslu ökutæki eða hluta þess og annað ef ætla má að geti haft þýðingu við rannsókn.
    Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal svo fljótt sem verða má láta af hendi ökutæki, hluta þess eða annað það sem nefndin hefur tekið í sína vörslu.
    Hafi lögregla tekið ökutæki, hluta þess eða önnur gögn sem tengjast umferðarslysi í sínar vörslur á grundvelli laga um meðferð opinberra mála er rannsóknarstjóra heimilt að krefjast þess að slíkt verði ekki afhent eiganda eða lögmætum rétthafa nema að höfðu samráði við rannsóknarstjóra.

10. gr.

    Rannsóknarnefnd umferðarslysa er heimilt við rannsókn mála að leita eftir upplýsingum varðandi ökutæki, ökumenn, farþega, vitni og annað sem kann að skipta máli varðandi rannsóknina. Heimild þessi nær til öflunar upplýsinga og gagna hjá stjórnvöldum og öðrum, þar á meðal lögreglu, vátryggingafélögum, læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki.
    Rannsóknarstjóra og rannsóknarnefnd umferðarslysa er heimilt að taka skýrslur af ökumanni, farþegum og hverjum öðrum sem ætla má að kunni að geta veitt vitneskju er stuðli að því að leiða í ljós orsök slyss.
    Rannsóknarstjóra og rannsóknarnefnd umferðarslysa er heimilt að hljóðrita skýrslur aðila og vitna. Skýrslur aðila og vitna teljast réttar nema gerðar séu athugasemdir við þær.
    Rannsóknarnefnd umferðarslysa getur leitað aðstoðar rannsóknastofnana og stofnana sem starfa á sviði umferðarmála, innlendra sem erlendra, eftir því sem nauðsynlegt er við rannsókn umferðarslyss. Innlendum aðilum er skylt að veita nefndinni þessa aðstoð.
    Rannsóknarnefnd umferðarslysa er heimilt að kalla til starfa með nefndinni sérfræðinga á tilteknum sviðum telji hún það nauðsynlegt.

11. gr.

    Rannsóknarnefnd umferðarslysa, starfslið hennar og aðrir sem starfa í þágu nefndarinnar skulu virða þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verða kunn vegna starfa fyrir nefndina. Tekur þetta til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum í þágu nefndarinnar.
    Um aðgang að rannsóknargögnum og öðrum gögnum fer samkvæmt ákvæðum IV. kafla.

IV. KAFLI
Skýrslur um rannsóknir umferðarslysa. Aðgangur að gögnum.
12. gr.

    Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal gefa út og birta skýrslu um störf sín ár hvert. Í skýrslunni skal m.a. vera að finna yfirlit yfir helstu störf nefndarinnar á yfirstandandi starfsári, tölfræðilegar samantektir auk almennra tillagna um öryggisúrbætur á sviði umferðarmála.
    Þegar rannsókn einstaks máls er lokið skv. 1. gr. getur rannsóknarnefnd umferðarslysa samið sérstaka skýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar, telji hún tilefni til. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir orsök eða sennilegri orsök slyssins auk þess sem þar skulu gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum eða draga úr afleiðingum þeirra. Skal skýrslan gerð opinber svo fljótt sem verða má.
    Rannsóknarnefndin getur beint tilmælum til viðeigandi aðila um úrbætur í umferðaröryggismálum eftir því sem rannsókn gefur tilefni til og skulu þeir sem tillögum er beint til taka tilhlýðilegt tillit til tilmæla í öryggisátt sem fram koma og hrinda þeim í framkvæmd ef við á. Rannsóknarnefndin getur að liðnum þremur mánuðum frá því að tilmæli voru gefin út krafist upplýsinga um hvernig brugðist hafi verið við tilmælunum.
    Við skýrslugerð samkvæmt ákvæði þessu skal rannsóknarnefnd umferðarslysa gefa aðilum þeim sem sérlega ríkra hagsmuna hafa að gæta að mati nefndarinnar kost á, með þeim hætti sem rannsóknarnefnd umferðarslysa ákveður hverju sinni, að tjá sig um drög að skýrslu nefndarinnar innan tilskilins frests, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.
    Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal fella úr skýrslum sínum um einstök mál skv. 2. mgr. beina tilvísun til trúnaðargagna sem hún aflar í tengslum við rannsókn máls, svo og gagna sem aflað hefur verið hjá lögreglu, sé rannsókn opinbers máls ekki lokið, nema að því leyti sem óhjákvæmilegt er talið vegna greiningar á orsökum umferðarslyss. Nöfn aðila er tengjast umferðarslysi skulu jafnframt afmáð úr skýrslu nefndarinnar.
    Í skýrslum rannsóknarnefndar umferðarslysa skal ekki leitast við að skipta sök eða ábyrgð.

13. gr.

    Óheimilt er rannsóknarnefnd umferðarslysa að veita aðgang að trúnaðargögnum þeim sem nefndin aflar í tengslum við rannsókn einstakra mála, nema að því marki sem slíkt reynist nauðsynlegt vegna umsagna aðila um skýrslur rannsóknarnefndar umferðarslysa. Eru slík gögn undanþegin ákvæðum upplýsingalaga, nr. 50/1996.
    Til trúnaðargagna í skilningi 1. mgr. teljast m.a. heilsufarslegar upplýsingar, álitsgerðir sem aflað hefur verið í tengslum við rannsókn máls og skýrslur vitna og annarra aðila.
    Umsagnaraðilar og þeir sem starfa í þeirra þágu, sbr. 12. gr., skulu virða þagnarskyldu um hvaðeina það sem þeim verður kunnugt vegna aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæði þessu. Er umsagnaraðilum óheimilt að veita öðrum en þeim sem starfa í þeirra þágu við að veita umsögn upplýsingar um eða aðgang að slíkum gögnum.

14. gr.

    Skýrslum rannsóknarnefndar umferðarslysa um rannsókn einstakra slysa skal hvorki beitt sem sönnunargögnum í opinberum málum né einkamálum.

V. KAFLI
Endurupptaka mála o.fl.
15. gr.

    Rannsóknarnefnd umferðarslysa getur endurupptekið mál þótt rannsókn nefndarinnar sé lokið, sbr. 12. gr., ef fram koma ný og mikilvæg gögn að hennar mati.
    Þegar sérstaklega stendur á getur samgönguráðherra falið rannsóknarnefnd umferðarslysa að rannsaka nánar tiltekið umferðarslys eða sérstök atriði sem tengjast umferðarslysi ef ný gögn eða upplýsingar koma fram eftir að rannsókn rannsóknarnefndarinnar er lokið.

VI. KAFLI
Reglugerðarheimild. Gildistaka.
16. gr.

    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um skilgreiningu umferðarslysa skv. 1. gr., meðferð og vörslu málsgagna, persónuskilríki með upplýsingum um réttarstöðu nefndarmanna, rannsóknarstjóra og annarra starfsmanna og heimildir þeirra í störfum, nauðsynlegan útbúnað, tæki og þjálfun nefndarinnar til vettvangsrannsókna, um fyrirkomulag á birtingu skýrslna nefndarinnar og aðra þætti málsmeðferðar hjá nefndinni.

17. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2005. Jafnframt fellur úr gildi ákvæði 115. gr. a umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 83/2002 og 132/2003.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Skipunartíma rannsóknarnefndar umferðarslysa skv. 115. gr. a umferðarlaga, nr. 50/1987, lýkur við gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Frumvarp þetta er samið á vegum samgönguráðuneytisins. Markmið þess er að kveða á um starfsemi sérstakrar rannsóknarnefndar á sviði umferðarmála, rannsóknarnefndar umferðarslysa, sem hafi það hlutverk að rannsaka tildrög umferðarslysa og koma með tillögur um úrbætur í öryggisátt á sviði umferðarmála. Er markmiðið því fyrst og fremst að stuðla að auknu öryggi varðandi umferð ökutækja hér á landi. Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að nein breyting verði á núverandi fyrirkomulagi á rannsóknum lögreglu á umferðarslysum samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, sbr. nánar ákvæði 2. gr. frumvarpsins.
    Við samningu frumvarpsins hefur, eftir því sem við á, verið tekið mið af lögum um rannsóknir á öðrum sambærilegum sviðum, svo sem varðandi rannsóknir flugslysa og sjóslysa, sbr. til hliðsjónar lög nr. 35/2004, um rannsókn flugslysa, og lög nr. 68/2000, um rannsókn sjóslysa. Rökin fyrir því eru fyrst og fremst þau að með hliðsjón af eðli og markmiðum rannsóknarnefndar umferðarslysa er óhjákvæmilegt að væntanleg löggjöf taki að nokkru leyti til áþekkra þátta og fjallað er um í lögum um rannsóknir flugslysa og eftir atvikum rannsóknir sjóslysa. Hér má jafnframt nefna að í Finnlandi hafa verið sett sérstök lög um rannsóknir umferðarslysa sem byggjast í veigamiklum atriðum á sömu grundvallarþáttum og efnisatriðum og er að finna í lögum nr. 35/2004, um rannsókn flugslysa, að breyttu breytanda. Við gerð frumvarpsins hefur jafnframt verið höfð hliðsjón af skýrslu rannsóknarnefndar umferðarslysa frá febrúar 2002, sem hefur að geyma yfirlit um uppbyggingu rannsóknarnefnda umferðarslysa í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku, vinnulagi nefndanna og rannsóknaraðferðum. Að auki hefur verið höfð hliðsjón af reglugerð nr. 681/1998 um rannsóknarnefnd umferðarslysa.
    Umfjöllun athugasemda með frumvarpi þessu er tvískipt. Í fyrri hluta þeirra er að finna stutt yfirlit yfir gildandi lagaumhverfi hér á landi, sbr. kafla II. Seinni hlutinn hefur síðan að geyma stutt yfirlit yfir efnisatriði frumvarpsins og athugasemdir við einstök ákvæði þess, sbr. nánar kafla III, og helstu breytingar á gildandi rétti í því sambandi.

II.

    Hér á landi er ekki að finna heildstæða löggjöf um rannsóknir umferðarslysa í formi almennra laga. Í 115. gr. a umferðarlaga, nr. 50/1987, ásamt síðari breytingum, er þó kveðið á um að ráðherra geti skipað sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa. Er gert ráð fyrir því að nefndarmenn skuli hafa sérfræðiþekkingu, svo sem að því er varðar umferðarlöggjöf, löggæslu, slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðatækni eða vátryggingar. Jafnframt er kveðið á um að ráðherra ákveði fjölda nefndarmanna og setji nánari reglur um starfsemi nefndarinnar.
    Í reglugerð nr. 681/1998 er fjallað um rannsóknarnefnd umferðarslysa. Skv. 2. gr. reglugerðarinnar er hlutverk nefndarinnar að rannsaka umferðarslys og starfar hún sjálfstætt og óháð öðrum stjórnvöldum og rannsóknaraðilum. Rannsóknir hennar skulu miða að því einu að koma í veg fyrir að sams konar umferðarslys verði aftur og stuðla að því að umferðaröryggi megi aukast. Nefndin skal gera tillögur til úrbóta um umferðaröryggi til viðeigandi stjórnvalda eftir því sem rannsóknir á orsökum umferðarslysa gefa tilefni til. Nefndarmenn skulu vera þrír og skipaðir af samgönguráðherra, sbr. 3. gr. Hann skipar einnig formann og varaformann nefndarinnar. Nefndarmenn skulu hafa sérfræðiþekkingu, svo sem varðandi umferðarlöggjöf, löggæslu, slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðatækni eða vátryggingar. Nefndin getur ráðið sér starfsmenn að höfðu samráði við samgönguráðuneytið og getur hún einnig leitað aðstoðar sérfróðra einstaklinga eða rannsóknarstofnana ef þörf krefur. Skv. 4. gr. reglugerðarinnar ákveður nefndin hvenær efni eru til rannsóknar umferðarslyss í samræmi við hlutverk og markmið nefndarinnar. Skal tilkynna lögreglu um hvaða flokka slysa nefndin hefur til rannsóknar á hverjum tíma. Verði umferðarslys í flokki sem nefndin hefur ákveðið að rannsaka skal lögreglan tafarlaust tilkynna Neyðarlínunni um slysið sem kemur boðum til nefndarinnar. Eftir atvikum skulu einn eða fleiri nefndarmenn eða starfsmenn nefndar fara í rannsóknarskyni á vettvang. Lögreglan skal vernda verksummerki slyss eins og kostur er fram að þeim tíma er nefndin kemur á slysstað þótt lögreglan hafi áður lokið vettvangsrannsókn sinni. Skv. 5. gr. skal samgönguráðuneytið láta nefndarmönnum og starfsmönnum nefndarinnar í té skilríki til sönnunar um störf þeirra. Nefndin skal hafa aðgang að slysstað í samráði við lögreglu og ber lögreglunni að veita nefndinni aðstoð við rannsóknarstörf á slysstað eftir því sem hún hefur tök á. Nefndinni er heimilt að leita eftir upplýsingum varðandi ökutækið, ökumann, farþega, vitni og annað er kann að skipta máli varðandi rannsóknina. Þá er nefndinni heimilt að leita eftir upplýsingum um atvik frá ökumanni, farþegum og hverjum öðrum sem ætla má að kunni að geta veitt vitneskju er stuðli að því að leiða í ljós orsök slyssins. Nefndin getur óskað eftir því við lögregluna að hún taki í sínar vörslur ökutæki eða hluta þess sem rannsóknin beinist að. Rannsókn umferðarslyss skal teljast lokið þegar fram hafa komið allar þær upplýsingar sem nefndin telur nauðsynlegar um viðkomandi umferðarslys. Nefndin getur, af sjálfsdáðum eða samkvæmt tilmælum ráðherra, endurupptekið áður rannsakað mál ef fram koma ný gögn sem haft geta verulega þýðingu fyrir rannsóknina, sbr. 6. gr. Skv. 8. gr. getur nefndin sett sér starfsreglur sem samgönguráðherra staðfestir. Í 9. gr. er kveðið á um að nefndin skuli gefa út yfirlitsskýrslu um störf sín í byrjun hvers árs. Í skýrslunni skal gera tillögur um úrbætur í umferðaröryggismálum og þar skal vera yfirlit um hvernig fyrri tillögum hefur verið framfylgt.
    Að mati samgönguráðuneytisins er talið rétt að skjóta frekari stoðum undir lagagrundvöll starfsemi rannsóknarnefndar umferðarslysa og skapa henni þannig réttarstöðu til samræmis við aðrar rannsóknarnefndir á sviði slysa og ófara, svo sem flugslysa og sjóslysa. Ljóst er þó að ekki er hér um sambærilegar rannsóknir að ræða að öllu leyti, og er í frumvarpi þessu að nokkru vikið frá því fyrirkomulagi sem t.d. er mælt fyrir um í lögum nr. 35/2004, um rannsókn flugslysa, auk þess sem skilgreining verkefna nefndanna er með nokkuð ólíkum hætti.

III.

    Efnisatriði frumvarpsins lúta að eftirfarandi atriðum:
          Hlutverki og markmiðum rannsóknarnefndarinnar.
          Skipulagi nefndarinnar.
          Framkvæmd rannsókna af hálfu nefndarinnar.
          Samningu skýrslna í tengslum við störf nefndarinnar.
          Aðgangi að gögnum hjá nefndinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að hlutverk nefndarinnar sé að rannsaka umferðarslys. Er lagt til að lögin taki til slysa og atvika sem tengjast umferð ökutækja og sem í lögunum eru nefnd umferðarslys. Rannsóknir umferðarslysa skulu bæði ná til rannsókna einstakra umferðarslysa svo og til flokka umferðarslysa eða umferðarslysa sem teljast af sama tagi. Með flokki umferðarslysa er átt við afmarkaðar tegundir umferðarslysa sem hafa tiltekin einkenni, svo sem banaslys. Einnig gæti flokkun náð til aftanákeyrslna, veltna o.s.frv. Með slysum af sama tagi er hins vegar t.d. átt við öll slys sem verða á einhverjum tilteknum gatnamótum eða tiltekinni tegund gatnamóta á ákveðnu tímabili. Gert er ráð fyrir að samgönguráðherra tilgreini síðan í reglugerð nánar hvað falli undir umferðarslys samkvæmt lögunum.

Um 2. gr.

    Samkvæmt markmiðsyfirlýsingu þeirri sem fram kemur í greininni skulu rannsóknir nefndarinnar miða að því einu að leiða í ljós orsakir umferðarslyss til að koma í veg fyrir að sams konar umferðarslys verði aftur og stuðla að því að umferðaröryggi megi aukast. Í samræmi við það er lagt til að rannsókn umferðarslyss samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála sé óháð rannsókn umferðarslyss samkvæmt þessum lögum. Markmið rannsókna nefndarinnar er skilgreint með áþekkum hætti í reglugerð nr. 681/1998. Áhersla skal lögð á að ekki er ætlunin með frumvarpi þessu að hagga því fyrirkomulagi sem nú er á rannsókn lögreglu á umferðarslysum.

Um 3. gr.

    Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal starfa sjálfstætt og óháð stjórnvöldum. Verður að telja þetta fyrirkomulag nauðsynlegt til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með störfum nefndarinnar. Þannig er t.d. mikilvægt þegar nefndin gerir tillögur að úrbótum í tilefni slyss að hún sé óháð öðrum innlendum stjórnvöldum sem kunna að bera ábyrgð á einstökum þáttum sem tengst geta umferðarslysi með einum eða öðrum hætti, svo sem stjórnvöldum á sviði bifreiða- og vegamála.
    Lagt er til að skipulag nefndarinnar verði með nokkuð áþekkum hætti og hjá rannsóknarnefnd flugslysa, að breyttu breytanda, sbr. nú lög nr. 35/2004. Í nefndinni skulu því eiga sæti þrír menn sem samgönguráðherra skipar til fimm ára í senn og skal einn þeirra skipaður formaður. Jafnframt skal samgönguráðherra skipa varamenn til sama tíma. Allur kostnaður vegna nefndarinnar skal greiðast úr ríkissjóði.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til samgönguráðherra skipi nefndinni sérstakan forstöðumann sem ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar ásamt því að vera rannsóknarstjóri hennar, þ.e. að hafa umsjón með rannsóknarverkefnum á vegum nefndarinnar, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Forstöðumaðurinn verði skipaður til fimm ára í senn. Forstöðumaður nefndarinnar skal hafa sérmenntun eða starfsreynslu á sviði umferðarmála eða umferðarslysarannsókna, sbr. einnig 6. gr. frumvarpsins. Með því að fela sérstökum forstöðumanni að annast daglegan rekstur verða störf nefndarinnar markvissari en ella. Að auki er slíkt fyrirkomulag talið tryggja betur sjálfstæði nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að forstöðumaður geti ráðið til nefndarinnar annað starfsfólk. Í reglugerð nr. 681/1998 um rannsóknarnefnd umferðarslysa er ekki með beinum orðum gert ráð fyrir forstöðumanni. Aðeins er gert ráð fyrir að nefndin ráði sér starfsmenn að höfðu samráði við samgönguráðuneytið. Hefur rannsóknarnefnd umferðarslysa ráðið sér sérstakan framkvæmdarstjóra, en ekki er kveðið á um verkaskiptingu hans og nefndarinnar í reglugerð nr. 681/1998.

Um 5. gr.

    Að því er hæfiskröfur varðar er lagt til að þeir sem skipaðir eru í nefndina hafi menntun eða starfsreynslu á þeim sviðum sem sérstaklega nýtast við umferðarslysarannsóknir. Í 115. gr. a núgildandi umferðarlaga, nr. 50/1987, með síðari breytingum, er tiltekið sérstaklega að nefndarmenn skuli hafa sérþekkingu, svo sem varðandi umferðarskipulag, slysalækningar og ökutækni. Ekki er talin ástæða til að tilgreina þetta sérstaklega í frumvarpi þessu, enda er eingöngu um tilgreiningu í dæmaskyni að ræða. Reikna má þó með að slík þekking, eða önnur sem talin er nýtast í þessu sambandi, verði höfð til hliðsjónar við skipun í nefindina. Gert er ráð fyrir að um sérstakt hæfi nefndarmanna fari eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um að forstöðumaður nefndarinnar sé jafnframt rannsóknarstjóri hennar og stýri rannsóknarverkefnum á vegum nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að forstöðumaður hafi sérþekkingu eða starfsreynslu á sviðum sem sérstaklega tengjast umferðarmálum, þ.e. á sviði umferðarmála eða umferðarslysarannsókna. Jafnframt er gert ráð fyrir því að rannsóknarnefndin geti tilnefnt staðgengil forstöðumanns, svo sem vegna forfalla, leyfa eða sambærilegra atvika. Gert er ráð fyrir að staðgengill rannsóknarstjóra komi t.d. úr hópi starfsmanna nefndarinnar, ef þeim er til að dreifa. Um sérstakt hæfi forstöðumanns fari jafnframt eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. tilvísun greinarinnar til niðurlagsákvæðis 5. gr.

Um 7. gr.

    Verði umferðarslys sem fellur undir verksvið nefndarinnar er lagt til að vaktstjórn samræmdrar neyðarsímsvörunar, eða lögreglan, skuli svo fljótt sem verða má koma boðum um umferðarslysið til rannsóknarstjóra. Jafnframt er gert ráð fyrir að rannsóknarstjóri tilkynni viðkomandi aðila, vaktstöð eða lögreglu, sem komið hefur boðum til hans um atvik, hvort hann muni koma á vettvang. Hyggist hann ekki koma kemur t.d. ekki til ráðstafana sem mælt er fyrir um í 8. og 9. gr. frumvarpsins varðandi aðgerðir lögreglu og rannsóknarstjóra á vettvangi.

Um 8. gr.

    Í greininni er fjallað um aðgang rannsóknarnefndar umferðarslysa að slysavettvangi. Rannsóknarstjóri, rannsóknarnefnd umferðarslysa og aðrir starfsmenn nefndarinnar skulu hafa óhindraðan aðgang að vettvangi umferðarslyss. Skal rannsóknarstjóri við vettvangsrannsókn hafa rétt til að óska aðstoðar lögreglu. Þá er lagt til að rannsóknarstjóri skuli hafa rétt til skýrslutöku og gagnasöfnunar á vettvangi þegar sérstaklega stendur á, en almennt er gert ráð fyrir að lögregla annist skýrslutöku á vettvangi en að skýrslutökur á vegum nefndarinnar fari fram á síðari stigum, sbr. 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Rannsaki lögregla vettvang skal rannsóknarstjóri við vettvangsrannsókn hafa samráð við lögreglu. Rétt er að ítreka að rannsókn rannsóknarnefndar umferðarslysa fer fram óháð rannsókn lögreglu samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Í 4. mgr. er kveðið á um að við vettvangsrannsókn skuli rannsóknarstjóri hafa samráð við lögreglu rannsaki lögregla vettvang. Í þessu felst jafnframt að vettvangsstjórn er í höndum lögreglu fari slík lögreglurannsókn fram samhliða. Neyti rannsóknarstjóri lögbundinna rannsóknarheimilda sinna á vettvangi skal slíkt því vera í samráði við lögreglu, rannsaki hún vettvang.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að óski rannsóknarstjóri þess á vettvangi skuli hvorki hreyfa né flytja á brott ökutæki né hrófla við ummerkjum slyssins uns rannsókn er lokið, nema að svo miklu leyti sem slíkt er talið nauðsynlegt til verndar veigameiri hagsmunum. Í því sambandi er miðað við að nauðsynlegt geti verið að afmá að einhverju leyti ummerki eða fjarlægja ökutæki þegar svo stendur á, að hjá því verði ekki komist til að afstýra umtalsverðu tjóni eða vernda umtalsverða hagsmuni. Jafnframt er lagt til að rannsóknarstjóra sé heimilt að taka til vörslu ökutæki eða hluta þess eða annað, ef ætla má að geti haft þýðingu við rannsókn máls. Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal svo fljótt sem verða má láta af hendi tæki sem nefndin hefur tekið í sína vörslu, en mikilvægt er að rannsókn við slíkar aðstæður sé hraðað sem frekast er kostur. Hafi lögregla tekið ökutæki, hluta þess eða önnur gögn sem tengjast umferðarslysi í sínar vörslur á grundvelli laga um meðferð opinberra mála er rannsóknarstjóra heimilt að krefjast þess að slíkt verði ekki afhent eiganda eða lögmætum rétthafa nema að höfðu samráði við rannsóknarstjóra. Er hér miðað við að telji lögregla ástæðu til að leggja hald á ökutæki eða annað á umferðarslysavettvangi geti rannsóknarstjóri beint tilmælum til lögreglu um að það sem haldlagt hefur verið verði ekki afhent eiganda eða rétthafa nema að höfðu samráði við rannsóknarstjóra, en slíkt gefur honum færi á að krefjast þess að fá ökutæki eða hluta þess eða önnur gögn til rannsóknar á grundvelli ákvæðis þessa. Í þessu felst jafnframt að haldlagning lögreglu á grundvelli 78. gr. laga nr. 19/1991 gengur framar rétti nefndarinnar til að taka í sínar vörslur ökutæki, hluta þeirra eða önnur gögn sem tengjast rannsókn umferðarslysa.

Um 10. gr.

    Lagt er til að við rannsókn mála sé rannsóknarnefndinni heimilt að leita eftir upplýsingum varðandi ökutækið, ökumann, farþega, vitni og annað er kann að skipta máli varðandi rannsóknina, en sambærilegt ákvæði er að finna í reglugerð nr. 681/1998. Lagt er til að þess verði sérstaklega getið að heimild þessi nái til öflunar upplýsinga og gagna hjá stjórnvöldum og öðrum aðilum, svo sem lögreglu, vátryggingafélögum, læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Ákvæði þess efnis er ekki að finna í gildandi reglugerð, en ákvæði í svipaða veru er að finna í lögum um rannsókn flugslysa þótt uppbygging þess sé með nokkuð öðrum hætti. Lögin verða að þessu leyti sérlög gagnvart ákvæðum annarra laga sem kveða á um þagnarskyldu, svo sem ákvæðum lögreglulaga, laga um vátryggingastarfsemi og læknalaga.
    Þá er lagt til að nefndinni sé heimilt að taka skýrslur af hverjum þeim aðila sem ætla má að kunni að geta veitt vitneskju er stuðli að því að leiða í ljós orsök slyss. Til slíkra aðila teljast t.d. ökumenn, farþegar eða starfsmenn stjórnvalda. Jafnframt er lagt til að rannsóknarstjóra og rannsóknarnefndinni skuli vera heimilt að hljóðrita slíkar skýrslutökur í þágu rannsóknarinnar. Þá er lagt til að við rannsókn sína geti nefndin leitað til rannsóknastofnana, innlendra sem erlendra, eftir því sem nauðsynlegt er, svo og til annarra stofnana sem starfa á sviði umferðarmálefna, svo sem Umferðarstofu og Vegagerðarinnar. Skal innlendum aðilum þá skylt að veita þessa aðstoð. Að auki er gert ráð fyrir því að nefndinni sé heimilt að kalla til starfa með nefndinni sérfræðinga á tilteknum sviðum telji hún það nauðsynlegt. Ákvæði í svipaða veru er að finna í gildandi reglugerð og lögum um rannsókn flugslysa.

Um 11. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um trúnaðarskyldu þeirra sem starfa í rannsóknarnefndinni eða í hennar þágu. Rannsóknarnefnd umferðarslysa, starfslið hennar og aðrir sem starfa í þágu nefndarinnar skulu virða þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verða kunn vegna starfa fyrir nefndina. Tekur þetta til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna. Sérstaklega er kveðið á um að þagnarskylda haldist þótt látið sé af störfum fyrir nefndina.

Um 12. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir að nefndin gefi út og birti skýrslu um störf sín ár hvert sem hefur að geyma yfirlit yfir helstu störf nefndarinnar á yfirstandandi starfsári, tölfræðilegar samantektir, almennar tillögur um öryggisúrbætur eða þvíumlíkt. Þá er lagt til að þegar rannsókn einstaks máls er lokið skv. 1. gr. laganna geti rannsóknarnefnd umferðarslysa samið sérstaka skýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar telji hún tilefni til. Eru þá fyrst og fremst höfð í huga þau tilvik þegar einstakt slys gefur t.d. sérstakt tilefni til athugasemda í umferðaröryggisátt. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir orsök eða sennilegri orsök slyssins auk þess sem þar skulu gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum, eða draga úr afleiðingum þeirra. Skýrsluna skal birta opinberlega svo fljótt sem verða má.
    Í greininni er gert ráð fyrir að nefndin geti gert tillögur til viðeigandi aðila um úrbætur í umferðaröryggismálum eftir því sem rannsókn nefndarinnar gefur tilefni til. Sérstaklega er gert ráð fyrir að þeir sem slíkum tilmælum er beint að bregðist við tilmælunum eftir því sem ástæða er til. Jafnframt getur nefndin, að tilteknum tíma liðnum, óskað upplýsinga um hvernig staðið hefur verið að úrbótum þeim sem hér um ræðir.
    Við skýrslugerð skal rannsóknarnefnd umferðarslysa gefa aðilum þeim sem sérlega ríkra hagsmuna hafa að gæta að mati nefndarinnar kost á, með þeim hætti sem rannsóknarnefnd umferðarslysa ákveður hverju sinni, að tjá sig um drög að skýrslu nefndarinnar innan tilskilins frests, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Er hér bæði átt við skýrslur nefndarinnar um einstök slys sem og hina árlegu skýrslu nefndarinnar. Sem dæmi mætti hugsa sér að í hinni árlegu skýrslu nefndarinnar væru gerðar athugasemdir við fyrirkomulag gatnakerfis í tilteknu sveitarfélagi. Væri þá eðlilegt að viðkomandi sveitarfélag ætti þess kost að tjá sig um afstöðu nefndarinnar til þess.
    Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal fella úr skýrslum sínum um einstök mál beina tilvísun til trúnaðargagna sem hún aflar í tengslum við rannsókn máls, nema að því leyti sem nauðsynlegt er talið vegna greiningar á orsökum umferðarslyss. Á sama hátt er gert ráð fyrir að nefndin felli úr skýrslum sínum beina tilvísun til gagna sem aflað hefur verið hjá lögreglu, enda hafi rannsókn opinbers máls þá ekki verið lokið. Þetta gildir þó ekki ef slík tilvísun er óhjákvæmileg til greiningar á orsökum umferðarslyss. Nöfn aðila er tengjast umferðarslysi skulu jafnframt afmáð úr skýrslu nefndarinnar. Þá er lagt til að það verði sérstaklega tekið fram að ekki skuli leitast við að skipta sök eða ábyrgð í skýrslum rannsóknarnefndar umferðarslysa, enda slíkt andstætt markmiðum þeim sem búa að baki störfum nefndarinnar.

Um 13. gr.

    Lagt er til hér að ekki verði veittur aðgangur að trúnaðargögnum þeim sem nefndin aflar í tengslum við rannsókn einstakra mála, nema að því leyti sem slíkt er nauðsynlegt vegna umsagna aðila um skýrslur nefndarinnar, sbr. 4. mgr. 12. gr. frumvarpsins. Til trúnaðargagna teljast m.a. heilsufarslegar upplýsingar, álitsgerðir sem aflað hefur verið í tengslum við rannsókn máls og skýrslur vitna og annarra aðila. Er jafnframt lagt til að kveðið verði sérstaklega á um að slík gögn séu undanþegin ákvæðum upplýsingalaga, nr. 50/1996. Eru lögin því að þessu leyti sérlög gagnvart ákvæðum upplýsingalaga, og því ekki unnt að óska aðgangs á grundvelli þeirra laga. Með þessu er m.a. leitast við að tryggja að þeir aðilar sem afhenda nefndinni gögn í tengslum við rannsókn hennar, eða bera t.d. vitni um tiltekin atriði, geti treyst því að þessar upplýsingar verði ekki hagnýttar í öðrum tilgangi en að greina orsakaþætti umferðarslyss til að koma í veg fyrir að sambærileg slys verði.

Um 14. gr.

    Með hliðsjón af eðli og markmiðum rannsóknarnefndar umferðarslysa er lagt til að skýrslum nefndarinnar um rannsókn einstakra slysa verði hvorki beitt sem sönnunargögnum í opinberum málum né einkamálum, svo sem skaðabótamáli í tilefni umferðarslyss. Er með því ítrekað að tilgangur rannsókna á vegum nefndarinnar er ekki annar en sá að stuðla að umferðaröryggi og koma með ábendingar sem geta leitt til þess að sambærileg slys verði ekki. Tilgangurinn er hins vegar ekki að afla sönnunargagna eða gefa álit til notkunar í einka- eða opinberum málum, og miðast málsmeðferðin ekki við slíka gagnaöflun eða álitsgjöf.

Um 15. gr.

    Í greininni er lagt til að löggjöfin hafi að geyma ákvæði um heimild rannsóknarnefndarinnar til að endurupptaka mál þótt rannsókn hennar sé lokið, komi fram ný og mikilvæg gögn að mati nefndarinnar. Jafnframt er gert ráð fyrir að samgönguráðherra sé heimilt að fela rannsóknarnefndinni að rannsaka nánar tiltekið umferðarslys eða sérstök atriði sem tengjast umferðarslysi ef ný gögn eða upplýsingar koma fram eftir að rannsókn nefndarinnar er lokið. Rökin fyrir þessu ákvæði eru þau að upp geta komið tilvik þar sem þess er farið á leit við samgönguráðherra, sem yfirmann umferðarmála hér á landi, að leitað verði nánari skýringa eða aflað frekari gagna um tiltekið umferðarslys, og þykir þá eðlilegt að ráðherra geti falið nefndinni að rannsaka eða kanna frekar umferðarslys sem rannsókn er lokið á, eða að rannsakað verði frekar tiltekið atriði varðandi umferðarslys, án þess að sú rannsókn þurfi að taka til allra þeirra þátta sem fyrri rannsókn tók til.
    Í reglugerð nr. 681/1998 um rannsóknarnefnd umferðarslysa er gert ráð fyrir því að rannsóknarnefnd umferðarslysa geti af sjálfsdáðum, eða samkvæmt tilmælum ráðherra, endurupptekið áður rannsakað mál ef fram koma ný gögn sem haft geta verulega þýðingu fyrir rannsóknina.

Um 16. gr.

    Hér er lagt til að ráðherra verði fengin sérstök heimild til að setja nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna, þar á meðal um skilgreiningu umferðarslysa, meðferð og vörslu málsgagna, persónuskilríki með upplýsingum um réttarstöðu nefndarmanna og annarra starfsmanna og heimildir þeirra í störfum, nauðsynlegan útbúnað, tæki og þjálfun nefndarinnar til vettvangsrannsókna, um fyrirkomulag á birtingu skýrslna nefndarinnar og aðra þætti málsmeðferðar hjá nefndinni.

Um 17. gr. og ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um rannsóknarnefnd umferðarslysa.

    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að samgönguráðherra skipi þrjá menn í rannsóknarnefnd umferðarslysa. Jafnframt er gert ráð fyrir að skipaður verði forstöðumaður nefndarinnar sem annist daglegan rekstur hennar og að hann verði einnig rannsóknarstjóri umferðarslysa.
    Í kostnaðarmati frá samgönguráðuneytinu er gert ráð fyrir að kostnaður verði 10 m.kr. á ári verði frumvarpið að lögum. Að mati fjármálaráðuneytisins á sá kostnaður að rúmast innan fjárheimilda samgönguráðuneytisins.