Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 248. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 266  —  248. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stuðning stjórnvalda við íslenska matreiðslumenn.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipa í samráði við landbúnaðarráðherra starfshóp er fái það hlutverk að gera tillögur um hvernig stjórnvöld geti stutt íslenska matreiðslumenn í þeirri viðleitni að auka útflutning á þekkingu þeirra og matargerðarlist en auka um leið útflutning á íslenskum landbúnaðarafurðum, svo sem kjöti, grænmeti og mjólkurafurðum, en einnig fiski og fiskafurðum og fullunnum matvælum. Verkefni starfshópsins verði að:
     1.      Leggja mat á árangur sem íslenskir matreiðslumenn hafa þegar náð á erlendri grund og hvernig hann hefur náðst.
     2.      Leggja mat á hvort stjórnvöld geta stuðlað að frekari árangri á þessu sviði og gera tillögur um hvernig auka má útflutning á þekkingu og færni íslenskra matreiðslumanna.
     3.      Gera tillögur um hvernig auka megi útflutning íslensks hráefnis og fullunninna matvæla í tengslum við framangreint.
    

Greinargerð.


    Íslenskir matreiðslumenn hafa sýnt það og sannað að þeir eru fagmenn á heimsmælikvarða, um það bera fjölmörg alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar vitni. Góður árangur þeirra getur orðið íslensku þjóðinni mikils virði ef rétt er á haldið. Með honum hefur hugsanlega verið lagður grunnur að nýjum landvinningum þeirra og auknum útflutningi á íslensku hráefni og unnum matvörum. Starf þeirra hefur einnig mikið gildi af því að hluti af ferðamennsku nútímans er að njóta matarins í viðkomandi löndum. Íslenskt hráefni er í sérflokki, hvort heldur um er að ræða fisk, kjöt, mjólkurafurðir eða grænmeti, og ef hráefnið er meðhöndlað af snilld margfaldar það gildi sitt.
    Benda má á að íslenskir matreiðslumeistarar geta unnið uppeldis- og forvarnastarf og lagt á ráðin um hollt mataræði. Athyglisverðir sjónvarpsþættir voru gerðir í samstarfi matreiðslumanna og ríkissjónvarpsins þar sem ungu fólki var kennd matreiðsla. Sömuleiðis má nefna mikilvægt starf bænda og samvinnu þeirra við matreiðslumenn við framleiðslu á landbúnaðarvöru, hvort heldur er hefðbundna, vistvæna eða lífræna.
    Klúbbur matreiðslumeistara tekur þátt í víðtæku alþjóðasamstarfi á Norðurlöndum, í Evrópu og á alþjóðavísu.
    Flutningsmaður tillögu þessarar hvetur stjórnvöld, framleiðendur, ferðaþjónustuaðila og forsvarsmenn annarra fyrirtækja til að gefa gaum mikilvægu starfi þessara samtaka að eflingu og kynningu á Íslandi og matvælum sem eru í sérflokki hvað gæði og hreinleika snertir.