Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 249. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 267  —  249. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um könnun á áhrifum breyttra hlutfalla aldurshópa eftir árið 2010.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason.


    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að koma á fót vinnuhópi sérfræðinga sem kanni áhrif fyrirsjáanlegra breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar eftir árið 2010 á eftirlauna- og lífeyrismál og á heilbrigðiskerfið. Nefndin skili áliti innan árs.

Greinargerð.


    Frá árinu 1970 til 1995 fjölgaði Íslendingum 65 ára og eldri úr 5,9% þjóðarinnar í 11,3%. Í spá, sem gerð hefur verið um hlutfall þessa aldurshóps til ársins 2030, kemur fram að veruleg fjölgun verður frá árinu 2010 og árið 2030 verður þetta hlutfall orðið 19%. Þessi fjölgun hefur miklar þjóðfélagsbreytingar í för með sér. Ætla má að kostnaður heilbrigðiskerfisins aukist verulega og útgjöld vegna eftirlauna og lífeyris hækki umtalsvert. Þá fækkar mjög í hópi vinnandi fólks.
    Af þessum sökum hafa víða á Vesturlöndum verið gerðar miklar rannsóknir á þeim breytingum á aldursskiptingu sem eru fyrirsjáanlegar næstu áratugi og stafa af því að sífellt fleiri ná háum aldri, m.a. vegna framfara í læknisfræði og betri aðbúnaðar, og ber að sjálfsögðu að gleðjast yfir því.
    Umræðan um vandamál er fylgja breyttri aldursskiptingu þjóðarinnar snertir ýmsa viðkvæma þætti í lífi aldraðra. Enginn má skilja þá umræðu svo að verið sé að hnýta í aldraða. Miklu heldur er tillaga þessi lögð fram til þess að tryggja afkomu aldraðra og þjónustu samfélagsins við þá. Flestir eiga fyrir höndum að ná háum aldri og þurfa að gera sér grein fyrir þeim breytingum á eigin lífi og í þjóðfélaginu sem fram undan eru. Vaxandi kostnaður heilbrigðisþjónustunnar og lífeyriskerfisins er vandi þjóðarinnar allrar. Umræðan um framtíðina þarf að miða að því að leita sameiginlegra lausna eins og aðrar þjóðir hafa reynt. Að vísu virðist vera nokkuð djúpt á lausnum, en þó hafa komið fram ýmsar tillögur sem vert er að gaumgæfa.
    Sú staðreynd blasir við meðal margra auðugra þjóða að þeir sem komast á eftirlaunaaldur 65 ára geta búist við að lifa áfram í 15–20 ár. Fyrir 100 árum hefðu fæstir náð þeim aldri sem eftirlaun eru nú miðuð við.
    Þrátt fyrir stöðugt hærri meðalaldur verður ekki hjá því komist að líkaminn slitni með aldrinum, sama hvað við reynum að lifa skynsamlega og hversu góð heilbrigðisþjónustan er. Kvillarnir herja mismikið á fólk og eftir því sem það nær hærri aldri aukast líkurnar á þörf fyrir samfélagslega aðstoð. Kostnaður þjóðfélagsins við þá aðstoð verður meiri eftir því sem fjölgar í þeim hópi sem nær háum aldri, og eins og horfur eru nú í flestum vestrænum löndum mun háöldruðum fjölga gífurlega á næstu árum og áratugum.
    Á síðari hluta þessarar aldar hefur verið stefnt að því að lækka eftirlaunaaldurinn og stundum talið eftirsóknarvert að komast á eftirlaun. Eftirlaunakerfið hefur hins vegar reynst nokkuð dýrt og stjórnvöld hafa víða borið sig illa. Flestum er ljóst að kostnaðurinn á eftir að aukast gífurlega. Á næstu 30–40 árum munu hlutföll aldurshópa breytast æ meir sökum hærri lífaldurs og færri barnsfæðinga. Ekki verður undan því vikist að skoða áhrif þess á eftirlauna- og heilbrigðiskerfi víða um heim. Reiknað hefur verið út að árið 2030 geti staðan orðið þannig í iðnvæddum ríkjum að aðeins verði tveir vinnandi menn fyrir hvern eftirlaunaþega, aldurshópar komi til með að takast á um skiptingu fjármagns og öll fjármögnun félagslegrar aðstoðar verði erfið. Einnig hefur verið bent á að breyttri aldursskipan fylgja pólitískar breytingar. Aldraðir hafa víða styrkt mjög stöðu sína með hvers konar félagsstarfsemi sem hefur það meginmarkmið að hafa áhrif á ákvarðanir löggjafarvaldsins í málefnum aldraðra og er það vel.
    Ýmsir vilja draga úr alvarlegum afleiðingum breyttrar aldursskiptingar sem verður áberandi fljótlega eftir aldamót, en svartsýnar spár hafa haft þau jákvæðu áhrif að stjórnvöld og einstaklingar eru farin að skoða áhrif breytinganna og leita leiða til að bregðast við þeim.
    Þegar þess er gætt að íbúar auðugra landa lifa nú 20–30 árum lengur en fyrir einni öld verður að huga að breytingum á lífeyris- og heilbrigðismálum langt fram í tímann, en forsenda fyrir því að það sé hægt er að sjá áhrifin fyrir og gera viðeigandi ráðstafanir. Því er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að koma á fót vinnuhópi sem kanni þessi mál. Það hlýtur að vera skylda komandi kynslóða að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.