Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 280. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 302  —  280. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Bjarni Benediktsson,


Björgvin G. Sigurðsson, Drífa Hjartardóttir, Einar K. Guðfinnsson,
Einar Már Sigurðarson, Guðmundur Hallvarðsson, Guðrún Ögmundsdóttir,
Helgi Hjörvar, Hjálmar Árnason, Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir,
Lúðvík Bergvinsson, Mörður Árnason, Sigurjón Þórðarson,
Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. skulu 1,25% af innheimtu áfengisgjaldi renna í Forvarnasjóð næstu þrjú ár eftir gildistöku laga þessara.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.

Greinargerð.


    Þetta frumvarp er flutt í tengslum við frumvarp um breytingu á áfengislögum þess efnis að aldursmörk til kaupa og neyslu á léttvíni og bjór verði færð úr 20 ára aldri niður í 18 ára aldur. Mikilvægt er að efla allar forvarnir í áfengismálum og er eðlilegt að það verði gert samfara lækkun á áfengiskaupaaldri.
    Samkvæmt 7. gr. laga um gjald af áfengi og tóbaki rennur 1% af áfengisgjaldi til Forvarnasjóðs. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004 er gert ráð fyrir að framlag til Forvarnasjóðs af innheimtu áfengisgjaldi nemi um 73 millj. kr. Hér er lagt til að hlutdeild sjóðsins verði aukin um 0,25% til þriggja ára en það ætti að auka ráðstöfunarfé hans í um 91 millj. kr. á ári. Í ár nema úthlutanir Forvarnasjóðs 44.600.000 kr., þar af fara 10 millj. kr. til áfangaheimila. Um 60% af ráðstöfunarfé sjóðsins hefur verið varið til verkefna og áfangaheimila ár hvert.
    Flutningsmenn leggja áherslu á að viðbótarframlagið verði nýtt með skipulegum hætti til forvarna og þá einkum til forvarna í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum. Þegar úthlutanir fyrir árin 2003 og 2004 eru skoðaðar er ljóst að verkefni tengd skólum fá innan við 10% þess fjár sem úthlutað er.
    Árið 2002 voru umsóknir til Forvarnasjóðs 130 talsins og heildarfjárhæð þeirra um 200 millj. kr. Af þessu er ljóst að fjárþörf Forvarnasjóðs er töluvert meiri en fjárframlög til hans. Með auknu fjárframlagi vegna tímabundinnar hækkunar á hlut Forvarnasjóðs á innheimtu áfengisgjaldi ætti að vera hægt að styrkja fleiri umsækjendur ár hvert og styrkja mikilvæg verkefni myndarlega.
    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2005 og þarf þá að taka tillit til þess við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2005.
Fylgiskjal.

Lýðheilsustöð:

Úthlutun úr Forvarnasjóði 2004.
(Birt á heimasíðu Lýðheilsustöðvar.)

    
Verkefni Styrkur
Samráðshópur bindindisfélaganna 10.000.000
Vertu til – Sveitarfélagaverkefni 4.500.000
Saman hópurinn – „Undir sama(n) þaki?“ Hvatning og stuðningur til foreldra 1.500.000
Ný leið ráðgjöf – „Lífslistin“, þróunarverkefni fyrir 15–18 ára. Námskeið í listum og lífsleikni 1.000.000
UMFÍ – Unglingalandsmót UMFÍ 2004 á Sauðárkróki 1.000.000
Vímulaus æska – Stuðningsmeðferð fyrir unglinga sem lokið hafa langtímameðferð 1.000.000
Fjölsmiðjan – „Upp með sjálfstraustið“ 800.000
Rauðu skórnir, sviðslistarhópur – Leiksýning fyrir elstu nemendur grunnskóla og framhaldsskólanemendur 800.000
Sumarheimili templara – Bindindismótið í Galtalækjarskógi 2004 800.000
Jafningjafræðslan Hitt húsið 700.000
Hafnarfjarðarbær – Eftirfylgdarþjónusta vegna brottfalls úr framhaldsskóla 600.000
Austur-Hérað – „Inn í hlýjuna“ fyrir aldurshópinn 16–20 ára 500.000
Bindindisfélag ökumanna – Átak gegn ölvunarakstri 500.000
Elísabet Karlsdóttir og Jóhanna Rósa Arnardóttir – Könnun á viðhorfum ungs fólks til forvarna 500.000
Félagsmiðstöðin Vitinn Hafnarfirði – Foreldraskóli 500.000
Hildigunnur Ólafsdóttir – Rannsókn á áfengisneyslu, veitingahúsum og menningu 500.000
Menntasmiðjan á Akureyri – Fyrir 17–26 ára sem ekki eru í vinnu eða skóla 500.000
SÁÁ – Útihátíð 500.000
Skógarmenn KFUM í Vatnaskógi – Sæludagar í Vatnaskógi 2004 500.000
Stýrihópur um forvarnir f.h. Bessastaðahrepps – Uppbyggingarstefna 500.000
Vímulaus æska – „Börn eru líka fólk“ 500.000
Vímulaus æska – Fjölskylduráðgjöfin 500.000
„Hættu áður en þú byrjar“ – Mat á verkefninu 400.000
Áhugafélagið Húsið – Menningar- og kaffihús fyrir ungt fólk í Vestmannaeyjum 400.000
Miðborgarstarf KFUM og KFUK 400.000
Bindindissamtökin IOGT – Barnablaðið Æskan 300.000
Bindindisfélag ökumanna – Hvatning til neyslu óáfengra drykkja 300.000
Fjölskyldumiðstöð – Kynning á ráðgjöf 300.000
Forvarnanefnd Garðabæjar – „Strax“ fyrir 13–18 ára unglinga sem ratað hafa í afbrot og vímuefnaneyslu 300.000
Hósanna-hópurinn – Götu-hjálparstarf 300.000
SAMFÉS – Helgarsmiðjur fyrir unglinga 13–16 ára 300.000
SAMFOK – Styrkja foreldra og efla foreldrarölt 300.000
Átak í forvörnum í Skagafirði – Geymsla, unglingahús 200.000
Félagsmiðstöðin Hraunið, Hafnarfirði – Unglingar á batavegi, drengir 13–18 ára 200.000
Félagsmiðstöðin Ný-ung, Egilsstöðum – „Sterkar stelpur“ 200.000
Forvarnanefnd Hafnarfjarðarbæjar og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar – Fjölskyldan saman, gaman 200.000
Gamla apótekið – Menningar- og kaffihús fyrir ungt fólk á Ísafirði 200.000
Hættu áður en þú byrjar – Fíkniefnafræðsla fyrir nemendur 8. bekk og foreldrar þeirra 200.000
Hættu áður en þú byrjar – Fíkniefnafræðsla fyrir nemendur 9. bekk og foreldrar þeirra 200.000
Hættu áður en þú byrjar – Eftirfylgd, nemendur og foreldrar barna í 10. bekk 200.000
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands – Siðfræði þjálfarans 200.000
KFUM og KFUK – Tveggja hæða strætisvagn 200.000
Róda/Hrósa – „Þegar mamma og pabbi drekka“ 200.000
Stýrihópur um forvarnir í Húnaþingi vestra – SOS-hjálp fyrir foreldra 200.000
Tollstjórinn í Reykjavík – Fræðslufyrirlestur tollvarðar ásamt fíkniefnaleitarhundi 200.000
Tún – Menningar- og kaffihús fyrir ungt fólk á Húsavík 200.000
Listauki – Listahátíð ungs fólks í Vestmannaeyjum 100.000
Samráðshópur um miðbæjarathvarf – Fræðslubæklingur 100.000
Lindaskóli-Hjallaskóli – Klúbbar fyrir nemendur sem eru án vímuefna 100.000
Styrkir til verkefna samtals 34.600.000
Áfangaheimili
Dyngjan 2.500.000
Risið 2.500.000
Stoðbýlið Samhjálp 1.000.000
Takmarkið 1.000.000
Vernd fangahjálp 1.000.000
12 spora húsið, líknarfélagið Skjöldur 1.000.000
Byrgið 500.000
Krossgötur 500.000
Styrkir til áfangaheimila samtals 10.000.000
Samtals úthlutað styrkjum 2004 44.600.000