Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 284. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 307  —  284. mál.




Frumvarp til laga



um afnám laga nr. 26/1976, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, um stofnun Norræna fjárfestingarbankans.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, um stofnun Norræna fjárfestingarbankans, nr. 26/1976, eru felld úr gildi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að lögin er veittu ríkisstjórn Íslands heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun Norræna fjárfestingarbankans verði felld úr gildi.
    Norræni fjárfestingarbankinn var stofnaður árið 1975 sem sameiginleg alþjóðleg fjármálastofnun Norðurlanda til að styrkja norræna samvinnu og efnahag landanna með því að veita lán og ábyrgðir með bankakjörum til að örva fjárfestingar á Norðurlöndum og efla útflutning. Til grundvallar lá samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun Norræna fjárfestingarbankans sem gerður var í Kaupmannahöfn 4. desember 1975. Samningurinn öðlaðist gildi 1. júní 1976, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 12/ 1976, og fengu ákvæði hans þá jafnframt lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 26/1976, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda samninginn.
    Árið 1998 heimilaði Alþingi með þingsályktun (297. mál 123. löggjafarþings) ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd nýjan samning milli Norðurlandanna um Norræna fjárfestingarbankann sem gerður var í Ósló 23. október 1998. Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna kom fram að skv. 1. gr. laga nr. 98/1992, um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana, væri ekki þörf á að lögfesta hinn nýja samning eins og gert var með áðurnefndum lögum nr. 26/1976, að því er eldri samninginn varðaði. Síðarnefndi samningurinn mundi falla úr gildi við gildistöku nýja samningsins og þá þyrfti að fella lög nr. 26/1976 úr gildi. Lögin hafa ekki verið felld úr gildi og er þess vegna lagt til í frumvarpinu að sú lagahreinsun fari fram.
    Þriðji samningurinn um Norræna fjárfestingarbankann var undirritaður af fulltrúum ríkisstjórna Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna þann 11. febrúar 2004. Gert er ráð fyrir að samningurinn öðlist gildi 1. janúar 2005 enda hafi öll aðildarríkin fullgilt hann a.m.k. mánuði áður. Unnið er að fullgildingu samningsins af Íslands hálfu á grundvelli laga nr. 98/1992. Við gildistöku hans mun samningurinn frá 1998 falla úr gildi.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um afnám laga nr. 26/1976, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, um stofnun Norræna fjárfestingarbankans.

    Með frumvarpinu er lagt til að felld verði úr gildi lög sem veittu ríkisstjórn Íslands heimild til að fullgilda saming um stofnun Norræna fjárfestingarbankans. Hér er um að ræða lagahreinsun sem hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.