Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 300. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 327  —  300. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna orðast svo: Verðbréf skv. 1., 2., 5., 6., 8. og 9. tölul. 1. mgr. skulu hafa skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að gerð verði breyting á 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þar sem fjallað er um skilyrði fjárfestinga lífeyrissjóða. Samkvæmt greininni skulu tilteknir eignaflokkar sem tilgreindir eru í 1. mgr. 36. gr. hafa skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Í núgildandi lögum er m.a. vísað til 7. tölul. 1. málsl. 36. gr., en eignir í þeim flokki eru hlutdeildarskírteini eða hlutir verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða samkvæmt lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Fram kemur í umræddum 7. tölul. að verðbréfasafni að baki skírteinunum eða hlutunum skuli skipt á aðra töluliði 1. mgr. 36. gr. laganna, þ.e. aðra eignaflokka, með tilliti til takmarkana sem gerðar séu í 2.–6. mgr. 36. gr. Samkvæmt framansögðu er eignasafn lífeyrissjóðs skilgreint út frá því hvaða eignir liggja að baki hlutdeildarskírteinum eða hlutum í verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðum.
    Í framkvæmd hafa vaknað spurningar um túlkun framangreindra ákvæða og þá einkum um hvort að í ákvæðunum felist sú kvöð að lífeyrissjóðum sé ekki heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum eða hlutum verðbréfasjóða eða fjárfestingarsjóða, á grundvelli 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna, nema viðkomandi hlutdeildarskírteini eða hlutir hafi skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Í ljósi reglu 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. um uppskiptingu eigna verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða hefur verið bent á að ákvæði 2. mgr. 36. gr. sé uppfyllt hafi verðbréfasafn að baki skírteinum verðbréfasjóðs skráð kaup- og sölugengi óháð því hvort hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs séu skráð á markaði. Til að taka af allan vafa um skilyrði ákvæðisins er í frumvarpi þessu lagt til að tilvísun í 7. tölul. í 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. verði felld niður. Samkvæmt því er tekinn af allur vafi um að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í óskráðum hlutdeildarskírteinum eða hlutum verðbréfasjóða eða fjárfestingarsjóða.
    Í umfjöllun um túlkun framangreindra ákvæða hefur verið bent á að gagnstæð túlkun feli í sér að um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði gildi tvöfalt skráningarkerfi, þ.e. að bæði viðkomandi sjóður og undirliggjandi eignir hans skuli vera skráð á markaði. Nauðsyn þess verður ekki séð. Þá má enn fremur benda á að hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða hafa almennt ekki skráð kaup- og sölugengi hérlendis þrátt fyrir skráningu í kauphöll, þó að slíkt sé ekki útilokað, en viðskipti með hlutdeildarskírteini fara almennt ekki fram í kauphöll hérlendis.
    Þá verður ekki séð hvaða sérstöku réttaráhrif og verndarsjónarmið eru fólgin í því að skrá verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði á markaði. Í því efni má t.d. benda á að verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir eru undir eftirliti stjórnvalda og þeim er skylt að gefa út útboðslýsingar óháð því hvort þeir eru skráðir á markaði eða ekki. Jafnframt er í lögum nr. 30/2003 og reglugerð nr. 792/2003 kveðið á um hvernig innlausnarvirði verðbréfasjóða skuli reiknað út daglega og um opinbera birtingu þess auk reglna um innlausnarskyldu.
    Hér skal enn fremur tekið fram að löggjöf um verðbréfasjóði hefur ekki gert ráð fyrir að hlutdeildarskírteini skuli vera skráð á markaði til þess að almenningi sé heimilt að fjárfesta í þeim. Má benda á að við setningu laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, var fallið frá slíkum hugmyndum í þinglegri meðferð með þeim rökum að heppilegra væri að skráning hlutdeildarskírteina ykist samkvæmt þróun en ekki lögboði. Því síður verður séð að nauðsynlegt sé að gera slíka kröfu um skráningu þegar um fagfjárfesta á borð við lífeyrissjóði er að ræða sem hafa á að skipa sérhæfðu starfsfólki til fjárfestinga.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerð verði breyting á skilyrðum fyrir fjárfestingum lífeyrissjóða sem felur í sér að þeim verði heimilt að fjárfesta í tilteknum eignaflokkum, einkum í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða, þótt þeir hafi ekki skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.