Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 309. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 337  —  309. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, og lögum um aðför, nr. 90/1989 (sektarinnheimta o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



I. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991,
með síðari breytingum.

1. gr.

    20. gr. laganna orðast svo:
    1. Ákærur, fyrirköll, kvaðningar og aðrar tilkynningar í opinberum málum skulu birtar af einum lögreglumanni eða öðrum starfsmanni lögreglustjóra, fangaverði eða öðrum starfsmanni Fangelsismálastofnunar eða stefnuvotti, nema þær séu birtar á dómþingi eða á annan hátt af dómara. Birting á ákæru og fyrirkalli skal fara fram fyrir þeim manni sjálfum sem í hlut á ef þess er kostur, en ella lögmanni hans samkvæmt umboði eða öðrum lögráða manni sem hefur fengið skriflegt umboð frá honum til að taka við birtingu. Kvaðningar og aðrar tilkynningar má birta á heimili eða dvalarstað þess sem þeim er beint að ef hann hittist ekki sjálfur fyrir. Sá sem birtingu annast vottar hana með áritun á skjal. Þeim sem tekur við birtingu skal afhent endurrit af því skjali í heild sinni sem birt er.
    2. Ef óvíst er um dvalarstað ákærða, en mál sætir þó lögsögu íslenskra dómstóla, má birta ákæru og fyrirkall í Lögbirtingablaði með ákvörðun um stað og stund til þinghalds og með hæfilegum fyrirvara.
    3. Þegar birta þarf dóm skv. 3. mgr. 133. gr. skal hann birtur ákærða sjálfum á dómþingi, en ella verjanda hans eða talsmanni samkvæmt umboði. Ef svo stendur á, sem í 2. mgr. segir, má þó birta dóm í Lögbirtingablaði.

2. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „50.000 kr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 115. gr. a laganna kemur: 100.000 kr.

3. gr.

    Á eftir 115. gr. a laganna kemur ný grein, 115. gr. b, sem orðast svo:
    1. Nú stendur lögregla mann að broti sem hann gengst skýlaust við, skilyrði eru til að ljúka máli samkvæmt því sem segir í 115. gr. og lögregla telur að hæfileg viðurlög við brotinu séu einvörðungu sekt sem fari ekki fram úr 50.000 kr. Ákveður þá lögregla viðurlög við broti samkvæmt reglugerð sem dómsmálaráðherra setur skv. 1. mgr. 115. gr. Lögregla gerir sakborningi ljós þau viðurlög sem við broti liggja og afleiðingar þess að sekt sé ekki greidd með því að afhenda honum skýrslu þar sem fram kemur stutt lýsing á broti, hvar og hvenær það er framið, þau refsiákvæði sem það varðar við, hvaða sekt og vararefsing liggur við broti og að unnt sé að krefjast fjárnáms ef sekt greiðist ekki eða honum kunni að vera gert að afplána vararefsingu. Ef því er að skipta skal jafnframt kynna sakborningi og tiltaka í skýrslunni hversu mörgum punktum brotið varði samkvæmt reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota. Sakborningur undirritar skýrsluna og fær afhent afrit hennar. Lögregla getur boðið sakborningi að ljúka þegar máli með greiðslu sektar á vettvangi. Geri sakborningur það ekki skal honum settur tiltekinn frestur í skýrslunni til að greiða hana.
    2. Sekt sem ákveðin er skv. 1. mgr. má fullnægja með aðför eftir því sem segir í 2. mgr. 115. gr.

4. gr.

    3. mgr. 133. gr. laganna orðast svo:
    3. Ákærði skal kvaddur til að vera viðstaddur uppsögu héraðsdóms sé þess kostur. Sæki ákærði eða verjandi hans eða talsmaður samkvæmt umboði þing telst dómur þá birtur fyrir ákærða. Nú verður dómur ekki birtur á þann hátt á dómþingi og ákærða eru þar gerð önnur viðurlög en sekt eða upptaka eigna ásamt greiðslu sakarkostnaðar og skal þá ákærandi láta birta honum dóm skv. 20. gr. Ella þarf ekki að birta dóm þótt ekki sé sótt þing af hálfu ákærða við uppkvaðningu hans.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 151. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þegar annars er þörf á að birta dóm skal sá sem birtir annast þetta.
     b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ákærði skal lýsa yfir áfrýjun dóms í bréflegri tilkynningu til ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, þegar birtingar hefur verið þörf skv. 3. mgr. 133. gr., en ella innan þess tíma frá uppkvaðningu hans.

6. gr.

    168. gr. laganna orðast svo:
    1. Í dómi eða úrskurði, ef máli lýkur án dóms, skal ef það á við kveða á um skyldu ákærða til að greiða sakarkostnað sem tiltekinn er með ákveðinni heildarfjárhæð í dómi. Þar af skal sérstaklega greina þóknun verjanda og réttargæslumanns með tiltekinni fjárhæð.
    2. Ákærandi skal taka saman yfirlit yfir þau útgjöld sem hlotist hafa af málinu og teljast til sakarkostnaðar. Skal það yfirlit lagt fram á dómþingi áður en mál er tekið til dóms.

II. KAFLI
Breyting á lögum um aðför, nr. 90 1. júní 1989.
7. gr.

    1. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
    Gerðarþola skal tilkynnt með hæfilegum fyrirvara að beiðni sé komin fram um aðför hjá honum og um meginefni hennar og afleiðingar þess ef hann sinnir ekki boðun. Honum skal um leið tilkynnt hvar aðför muni byrja og sem nánast á hvaða tíma tiltekins dags. Sýslumaður getur lagt fyrir gerðarbeiðanda að annast þessa tilkynningu.

8. gr.

    Við 62. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Þó má að kröfu gerðarbeiðanda ljúka fjárnámi án árangurs á starfstofu sýslumanns hafi gerðarþoli sannanlega verið boðaður til gerðar og gerðarbeiðandi hefur engar upplýsingar um eignir gerðarþola, enda hafi skýrt verið tekið fram í boðunarbréfi til gerðarþola að ljúka megi gerð með þessum hætti falli mæting niður hjá honum án lögmætra forfalla.

9. gr.

    Við 1. mgr. 67. gr. laganna bætist nýr töluliður er orðast svo: ef gerðarþoli hefur ekki verið við gerðina og fjárnámi hefur verið lokið án árangurs en gerðarþoli telur sig geta bent á eignir til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda.

III. KAFLI
Gildistaka.
10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara breytist 4. mgr. 54. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 82/1998, þannig að á eftir orðinu „lögreglustjóra“ kemur: eða lögreglumanni.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Meginefni þess snýr að breytingum er varða sektarinnheimtu og birtingu sektardóma. Auk þess er lagt til að heimiluð verði svokölluð útivistarfjárnám. Undanfari tillagna frumvarpsins er skýrsla starfshóps sem dómsmálaráðherra skipaði í september 2003 til að vinna að endurskoðun sektarinnheimtu og leita leiða til að einfalda vinnu lögreglu við sektarinnheimtu sem og við birtingar sem sektarinnheimtunni fylgja. Átti starfshópurinn jafnframt að huga að laga- og reglugerðarbreytingum í þessu sambandi. Í starfshópinn voru skipuð Hildur Njarðvík, deildarstjóri sektadeildar lögreglustjórans í Reykjavík, Hafdís Guðmundsdóttir, skrifstofustjóri hjá Fangelsismálastofnun, Sólmundur Már Jónsson, framkvæmdastjóri hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, Stefán Haraldsson, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs Reykjavíkur, og Elín Vigdís Hallvarðsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, sem var jafnframt formaður starfshópsins.
    Vinna starfshópsins leiddi í ljós að sektarinnheimta getur haft í för með sér afar mikla vinnu lögreglu við margs konar birtingar, auk þess sem heimilisfang sektarþola er ekki ávallt þekkt. Skiptir þá engu hvort fjárhæð sektar er há eða lág, og má sem dæmi nefna að við innheimtu tiltölulega lágrar sektar getur lögregla meðal annars þurft að birta ítrekað sektarboð ef póstinum tekst ekki að birta það, birta áritað sektarboð, hafa uppi á og handtaka sektarþola sem mætir ekki til fjárnámsgerðar hjá sýslumanni, birta bréf um afplánun vararefsingar og um möguleika á samfélagsþjónustu, birta bréf um synjun eða samþykkt á afplánun vararefsingar með samfélagsþjónustu, birta bréf um boðun til afplánunar og birta úrskurð Fangelsimálastofnunar um sakarkostnað. Auk þess getur komið til birtingar ákæru, fyrirkalls og dóms ef mál fer í ákærumeðferð.
    Af framansögðu má vera ljóst að mikið hagræði er fólgið í því að leysa lögreglu undan hluta þessara verkefna, bæði með því að einfalda sektarinnheimtuna og að fela öðrum tilteknar birtingar, sbr. I. kafla frumvarpsins. Ávallt verður þó að tryggja réttaröryggi sektarþola og gera því tillögur frumvarpsins ráð fyrir því að fyrirkomulag sektarinnheimtu verði aðeins breytt í einföldustu málum, þ.e. einungis hvað varðar sektir allt að 50.000 kr. og þegar sektarþoli gengst skýlaust við broti sínu, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Á þetta einkum við um umferðarlagabrot. Hafa tillögurnar þannig í för með sér að ítrekuð sektarboð verða óþörf og birting áritaðra sektarboða einnig.
    Þá er lagt til í 4. gr., sbr. 1. gr., að ekki þurfi að birta dóm þar sem ákærða eru ekki gerð önnur viðurlög en sekt eða upptaka eigna, sé dómþing ekki sótt af hálfu ákærða við uppkvaðningu hans. Dómþola er á þessu stigi máls kunnugt um að það sé til meðferðar og hann fær vitneskju um sektina við innheimtu hennar. Breytingin mundi hafa í för með sér að lögregla þarf ekki að birta dóma þar sem dómþoli er dæmdur til greiðslu sekta eða upptöku eigna sérstaklega fyrir dómþola en tekið skal fram að þetta á ekki við þegar dómþoli er dæmdur til fangelsisvistar. Um tillögur frumvarpsins er varða ákvörðun sakarkostnaðar og önnur atriði vísast til athugasemda við einstakar greinar þess.
    Breyting sú, sem lögð er til í II. kafla frumvarpsins á lögum um aðför, nr. 90 1. júní 1989, og sem kemur fram í skýrslu framangreinds starfshóps um sektarinnheimtu, á rætur að rekja til tillagna sýslumannsins í Reykjavík og tollstjórans í Reykjavík. Lýtur hún að því að útivistarfjárnám verði heimiluð og felst í því að heimilt verði að ljúka fjárnámi án árangurs á starfstofu sýslumanns án nærveru gerðarþola að vissum skilyrðum uppfylltum. Þar með verði óþarft að lögregla handtaki menn og færi til sýslumanns vegna árangurslauss fjárnáms.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér eru lagðar til tvær breytingar á 20. gr. laganna. Annars vegar er lagt til að 1. mgr. 20. gr. verði breytt þannig að fleiri en lögreglumenn og stefnuvottar geti birt ákærur, fyrirköll, kvaðningar og aðrar tilkynningar í opinberum málum og hins vegar er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein um birtingu dóma.
    Nýmæli er að auk lögreglumanna og stefnuvotta geti nú aðrir starfsmenn lögreglustjóra, fangaverðir og aðrir starfsmenn Fangelsismálastofnunar birt ákærur, fyrirköll, kvaðningar og aðrar tilkynningar í opinberum málum. Helstu rökin að baki þessari tillögu eru að oft getur verið erfitt að hafa upp á þeim sem birta skal fyrir, en hann mætir hjá starfsmanni lögreglustjóra eða starfsmanni Fangelsismálastofnunar vegna annarra erinda. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að viðkomandi starfsmaður geti birt það skjal sem birta á í stað þess að leita uppi þá lögreglumenn, jafnvel í öðrum umdæmum, sem falið hefur verið að sjá um birtinguna. Sömu röksemdir eiga við ef sá sem birta skal fyrir situr í fangelsi, en þá verður að teljast eðlilegt að fangaverðir geti birt fyrir viðkomandi ákæru, fyrirkall, kvaðningu eða aðrar tilkynningar í opinberum málum.
    Með 3. mgr. 1. gr. er lagt til að ný málsgrein bætist við 20. gr. um birtingu dóma, sbr. athugasemdir við 4. gr. frumvarpsins hér á eftir.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að hámark þeirrar fjárhæðar sem miðað er við í 1. málsl. 1. mgr. 115. gr. a verði hækkað úr 50.000 kr. í 100.000 kr. Ákvæði 115. gr. a var bætt við lög um meðferð opinberra mála með lögum nr. 31/1998 og í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að tilgangur ákvæðisins sé að gera meðferð minni háttar sakamála markvissari og ná bættum árangri í sektarinnheimtu. Reynslan af beitingu ákvæðisins hefur verið góð og hefur heimildin leitt til verulegrar einföldunar í sektarinnheimtu. Með reglugerð nr. 575/2001 voru sektir vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim hækkaðar talsvert. Þykir í samræmi við það og í ljósi jákvæðrar reynslu af beitingu ákvæðis 115. gr. a rétt að hækkuð verði sú fjárhæð, sem heimild lögreglustjóra til að gefa sakborningi kost á að ljúka máli með greiðslu sektar miðast við, úr 50.000 kr. í 100.000 kr. Áréttað er að það eru aðeins minni háttar brot, einkum brot á umferðarlögum, sem eru afgreidd í samræmi við 115. gr. a. Ef sakborningur hefur uppi andmæli er máli ekki lokið með þessum hætti, heldur tekin ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum, sbr. 2. mgr. 115. gr. a.

Um 3. gr.

    Lagt er til að nýju ákvæði, 115. gr. b, verði bætt við lögin. Ákvæðið gerir ráð fyrir að lögregla geti boðið sakborningi að ljúka máli með greiðslu sektar á vettvangi að þremur skilyrðum uppfylltum. Í fyrsta lagi er skilyrði að sakborningur gangist skýlaust við broti og verður máli því ekki lokið með þessum hætti hafi sakborningur uppi mótmæli. Í öðru lagi verða að vera fyrir hendi skilyrði til að ljúka máli skv. 115. gr. laganna. Í þriðja lagi er það skilyrði til að máli verði lokið á þennan máta að hæfileg viðurlög við broti séu einvörðungu sekt sem fari ekki fram úr 50.000 kr. Gert er ráð fyrir að lögreglumaður á vettvangi ákveði viðurlög við broti í samræmi við reglugerð sem dómsmálaráðherra setur skv. 1. mgr. 115. gr., og jafnframt vararefsingu við broti skv. 54. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Hér er í raun um að ræða fyrir fram gefnar töflur um annars vegar fjárhæð sekta og hins vegar tímalengd vararefsinga sem ekki hafa í för með sér matskennda ákvörðun viðkomandi lögreglumanns. Lögregla skal fylla út og afhenda sakborningi skýrslu þar sem fram kemur stutt lýsing á broti, hvar og hvenær það er framið, þau refsiákvæði sem það varðar við, hvaða sekt og vararefsing liggur við broti og að unnt sé að krefjast fjárnáms ef sekt greiðist ekki eða að honum kunni að vera gert að afplána vararefsingu. Með því móti er tryggt að sakborningi séu ljós þau viðurlög sem við broti liggja og afleiðingar þess að sekt sé ekki greidd. Ef sakborningur lýkur ekki máli með greiðslu sektar á vettvangi skal setja honum tiltekinn frest til að greiða hana í skýrslunni.
    Með þessu móti er ferill máls að öllu leyti birtur á vettvangi brots og hefur breytingin því í för með sér að ekki verður þörf á birtingu ítrekaðra sektarboða eða bréfaskriftum og birtingum vegna vararefsinga. Helsti ókostur núgildandi álagningar- og innheimtukerfis, sem tekið var upp árið 1998, er að greiði sakborningur ekki sekt þá getur tekið mikinn tíma og kostað mikla fyrirhöfn að birta viðkomandi ýmsa þætti málsins og geta slíkar birtingar hlaupið á nokkrum tugum við innheimtu á t.d. umferðarsektum. Slíkum birtingum fylgir mikil vinna lögreglumanna og einnig skrifstofufólks hjá lögreglustjóra og Fangelsismálastofnun. Jafnframt má ætla að breytingin hafi í för með sér visst hagræði fyrir sektarþola sjálfan þar sem ætla má að margir muni kjósa að ljúka máli með greiðslu sektar á vettvangi.
    Með breytingunni er stefnt að því að draga úr fjárhagslegum kostnaði og vinnukostnaði sem felst í núgildandi sektarinnheimtukerfi. Þannig verður aðeins um eina birtingu að ræða þegar lögregla stendur mann að broti og uppfyllt eru önnur skilyrði ákvæðisins og leiðir breytingin því til verulegrar hagræðingar og einföldunar á sektarinnheimtuferlinu. Þá hefur umrætt fyrirkomulag, eins og að framan greinir, bæði í för með sér fjárhagslegan sparnað og vinnusparnað þar sem Íslandspóstur og eftir atvikum lögregla munu ekki þurfa að birta ítrekuð sektarboð og jafnframt mun sparast vinna hjá öðru starfsfólki lögreglustjóra og Fangelsismálastofnunar.

Um 4. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 133. gr. laganna um birtingu dóma. Samkvæmt gildandi rétti telst dómur birtur fyrir ákærða sæki hann þing, en annars lætur ákærandi birta dóm skv. 20. gr. laganna.
    Með breytingunni er lagt til að sæki ákærði eða verjandi hans eða talsmaður samkvæmt umboði þing teljist dómur birtur fyrir ákærða. Sæki enginn framangreindra aðila þing og ákærða eru gerð önnur viðurlög en sekt eða upptaka eigna ásamt greiðslu sakarkostnaðar er gert ráð fyrir því að ákærandi láti birta ákærða dóm skv. 20. gr. laganna. Í því felst að lögreglu eða stefnuvotti er falið að birta ákærða dóm, en sé óvíst um dvalarstað hans má þó birta dóm í Lögbirtingablaði. Ef ákærða eru ekki gerð önnur viðurlög en sekt eða upptaka eigna þarf hins vegar ekki að birta dóm þótt ekki sé sótt þing af hálfu ákærða við uppkvaðningu hans og felst í því helsta breytingin sem lögð er til á reglum laganna um birtingu dóma.
    Meginhagræðið af þessari breytingu felst í að lögregla eða stefnuvottar þurfa ekki að hafa uppi á dómþola til að birta honum dóm þegar honum eru ekki gerð önnur viðurlög en sekt eða upptaka eigna. Slíkar birtingar hafa reynst tímafrekar og leiðir breytingin bæði til sparnaðar á kostnaði og vinnu. Rétt er að taka fram að ákærða hefur verið birt ákæra í samræmi við 20. gr. laganna og er því kunnugt um málshöfðun. Þá fær hann fljótlega eftir að dómur hefur verið kveðinn upp sendan gíróseðil vegna innheimtu á þeirri sekt sem dæmd hefur verið og ætti því ekki að líða langur tími þar til honum er kunnugt um dómsniðurstöðu. Áréttað er að hér er aðeins um að ræða dóma þar sem ákærða eru ekki gerð önnur viðurlög en sekt eða upptaka eigna og munu skilorðsbundnir jafnt sem óskilorðsbundnir fangelsisdómar eftir sem áður vera birtir ákærða í samræmi við 20. gr. laganna. Þá má nefna að samkvæmt lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, er ekki þörf á að birta dóm sérstaklega fyrir málsaðilum mæti þeir ekki við uppkvaðningu hans. Loks er rétt að taka fram að flestir þeirra dóma þar sem ákærða er gert að greiða sekt eða að sæta eignaupptöku eru endanlegir þar sem áfellisdómi verður aðeins áfrýjað með leyfi Hæstaréttar ef ákærða er þar hvorki ákveðin frelsissvipting né sekt eða eignaupptaka sem er hærri en áfrýjunarfjárhæð í einkamálum sem er í dag 420.000 kr., sbr. 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð einkamála og 2. mgr. 150. gr. laga um meðferð opinberra mála. Það að upphaf áfrýjunarfrests miðast við uppkvaðningu dóms ef birtingar hefur ekki verið þörf, sbr. 5. gr. frumvarpsins, getur því sjaldnast leitt til réttarspjalla fyrir ákærða.

Um 5. gr.

    Hér eru lagðar til orðalagsbreytingar á 2. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 151. gr. laganna til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í 4. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Lagt er til að 168. gr. laganna verði breytt þannig að dómarar kveði á um endanlegan sakarkostnað í dómum í stað þess að Fangelsismálastofnun úrskurði þar um. Samkvæmt gildandi lögum kveður dómari á um skyldu ákærða til að greiða sakarkostnað án ákvörðunar fjárhæðar og er málið sent til Fangelsismálastofnunar sem úrskurðar um fjárhæð sakarkostnaðar. Þann úrskurð þarf lögregla að birta viðkomandi dómþola. Með framangreindri breytingu mun endanlegur sakarkostnaður liggja fyrir við uppkvaðningu dóms og verður því ekki þörf á aðkomu Fangelsismálastofnunar eða birtingu á úrskurði um sakarkostnað.
    Með því að dómari dæmi sjálfur um tiltekna fjárhæð sakarkostnaðar um leið og kveðinn er upp dómur er tryggt að sakarkostnaður fái faglega umfjöllun dómsins og um leið verjanda sakbornings. Þá er innheimta sakarkostnaðar einfaldari sé hann uppkveðinn og birtur í dómi í stað þess að sakarkostnaður sé reiknaður út og birtur löngu eftir að dómur fellur. Ýmis önnur rök mæla með þessari breytingu og má þar nefna að réttaröryggi dómþola eykst þar sem strax við uppkvaðningu dóms er ljóst hvaða fjárhæð honum ber að greiða í sakarkostnað. Þá hefur breytingin í för með sér talsverðan vinnusparnað hjá lögreglu og starfsmönnum Fangelsismálastofnunar, auk þess sem breytingin mun leiða til hraðari og skilvirkari innheimtu.

Um 7. gr.

    Hér er lagt til að bætt verði við 1. mgr. 21. gr. laga um aðför fyrirmælum um að í boðun til gerðarþola um að mæta til aðfarargerðar verði teknar fram afleiðingar þess að hann sinni ekki boðun. Þessi grein tengist þeirri breytingu sem lögð er til í 8. gr. frumvarpsins og vísast til athugasemda við þá grein.

Um 8. gr.

    Lagt er til að nýrri málsgrein verði bætt við 62. gr. laganna. Tillagan felur í sér að heimilt verði að ljúka fjárnámi að kröfu gerðarbeiðanda, án árangurs, á starfstofu sýslumanns án nærveru gerðarþola að þremur skilyrðum uppfylltum. Í fyrsta lagi þarf gerðarþoli að hafa verið sannanlega boðaður til gerðarinnar og í öðru lagi er skilyrði að gerðarbeiðandi hafi engar upplýsingar um eignir gerðarþola. Í þriðja lagi er sett það skilyrði að skýrt hafi verið tekið fram í boðunarbréfi til gerðarþola, sbr. þær breytingar sem lagðar eru til í 7. gr. frumvarpsins, að ljúka megi gerð með þessum hætti falli mæting niður hjá honum án lögmætra forfalla
    Samkvæmt gildandi rétti er ekki unnt að ljúka fjárnámi án árangurs nema gerðaþoli hafi sjálfur verið staddur við gerðina eða málsvari hans, eða hann hvorki finnst né neinn sem málstað hans getur tekið. Mikil vandkvæði hafa skapast vegna þess hve erfitt er að ljúka fjárnámi sem árangurslausu þegar gerðarþoli mætir ekki, eins og algengt er, og engar upplýsingar um eignir hans liggja fyrir. Við slíkar aðstæður getur sýslumaður gripið til þriggja úrræða. Hann getur ítrekað fjárnámsboðun, leitað aðstoðar lögreglu við að boða gerðarþola til að mæta til gerðarinnar eða færa hann til hennar eða farið með fulltrúa gerðarbeiðanda í svokallað útifjárnám á heimili gerðarþola. Þessi úrræði hafa öll vissa ókosti og hafa ekki reynst skilvirk í framkvæmd. Ítrekun á fjárnámsboðun leiðir sýnilega ekki til þess að mál leysist, útifjárnám eru kostnaðarsöm og tímafrek og þá hefur lögregla ekki getað veitt aðstoð í þeim mæli sem þörf hefur verið á. Í kjölfar þessa hafa fjárnámsbeiðnir hlaðist upp og hefur það leitt til óánægju gerðarbeiðanda og mikils vinnuálags hjá starfsfólki sýslumannsembætta.
    Með því fyrirkomulagi sem felst í framangreindri tillögu er stefnt að því að sá kostnaður, tími og fyrirhöfn sem fylgir því að fulltrúi sýslumanns þurfi að fara í útifjárnám ásamt fulltrúa gerðarbeiðanda eða fá lögreglu til að færa gerðarþola til gerðar minnki til muna. Þessar tvær leiðir munu þó enn þá vera til staðar ef gerðarbeiðandi óskar þess að reynt sé að hafa upp á gerðarþola í stað þess að ljúka gerðinni sem árangurslausri án nærveru hans. Ekki verður séð að það horfi til réttarspjalla fyrir gerðarþola að gerð verði lokið án árangurs hafi hann haft vitneskju um að gerð geti lokið með þeim hætti mæti hann ekki til hennar, en eins og að framan greinir er gert ráð fyrir að gerðarþola verði með skýrum hætti í boðunarbréfi kynnt hvað það geti haft í för með sér að mæta ekki til fyrirtöku hjá sýslumanni. Þá má nefna að í ljósi þeirra áhrifa sem árangurslaust fjárnám hefur á lánstraust gerðarþola má ætla að vitneskja gerðarþola um að unnt sé að ljúka gerð sem árangurslausri án nærveru hans auki líkurnar á að hann mæti við gerðina og bendi á eignir til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda sé einhverjum slíkum eignum á annað borð til að dreifa.
    Rétt er að taka fram að það leiðir af 65. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., að lánardrottinn getur ekki krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslauss fjárnáms samkvæmt þessari málsgrein. Er því ekki hætta á að heimild til að ljúka fjárnámi sem árangurslausu án nærveru skuldara hafi í för með sér aukinn fjölda beiðna um gjaldþrotaskipti fyrir dómstólum.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að nýjum tölulið verði bætt við 67. gr. laganna svo að heimilt verði að endurupptaka fjárnám, sem lokið hefur verið sem árangurslausu án nærveru gerðarþola, ef gerðarþoli telur sig geta bent á eignir til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 19/1991,
um meðferð opinberra mála, og lögum nr. 90/1989, um aðför.

    Frumvarp þetta miðar að því að einfalda framkvæmd sektarinnheimtu og birtingu sektardóma og draga úr kostnaði lögregluembætta við slík verkefni. Helstu breytingarnar í þessu skyni eru í fyrsta lagi að lagt er til að lögreglu verði heimilt að bjóða sakborningi að ljúka máli, einkum vegna umferðarlagabrota, með greiðslu sektar á vettvangi að því tilskildu að sektin sé undir 50.000 kr. og að gengist hafi verið skýlaust við brotinu. Í slíkum tilvikum verður þá komist hjá því að senda ítrekuð sektarboð. Í annan stað er lagt til að lögregla þurfi ekki að birta sektardóm sérstaklega fyrir dómþola hafi hann ekki verið viðstaddur uppkvaðninguna þegar viðurlög eru ekki önnur en sekt eða upptaka eigna. Loks gerir frumvarpið ráð fyrir að svokölluð útivistarfjárnám verði heimiluð en það felur í sér að lögregla þarf þá ekki að handtaka menn og færa til sýslumanns í tengslum við árangurslaus fjárnám. Dómsmálaráðuneytið áætlar að þessar breytingar geti leitt til margvíslegs hagræðis og vinnusparnaðar hjá lögregluembættum og Fangelsismálastofnun þannig að kostnaður vegna þessara mála lækki samtals um 20 m.kr. á ári. Hefur þegar verið gert ráð fyrir þeirri lækkun útgjalda í einu lagi á liðnum 06-390-1.10 Ýmis löggæslumál í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 en á vegum dómsmálaráðuneytisins er nú unnið að mati á útgjaldalækkuninni hjá einstökum embættum.