Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 318. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 347  —  318. mál.
Frumvarp til lagaum kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)1. gr.

    Verkfall Kennarasambands Íslands fyrir hönd Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands og félagsmanna þeirra gagnvart launanefnd sveitarfélaga fyrir hönd þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að launanefndinni, svo og verkföll, verkbönn og aðrar aðgerðir sem er ætlað að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimil frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms skv. 2. gr., ef til hans kemur. Þó er aðilum heimilt að semja um breytingar en eigi má knýja þær fram með vinnustöðvun.

2. gr.

    Hafi aðilar skv. 1. gr. ekki gert með sér kjarasamning fyrir 15. desember 2004 skal Hæstiréttur Íslands tilnefna þrjá menn í gerðardóm sem skal fyrir 31. mars 2005 ákveða kaup og kjör félagsmanna Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands hjá þeim sveitarfélögum sem aðild eiga að launanefnd sveitarfélaga. Ákvarðanir gerðardómsins skulu vera bindandi sem kjarasamningur á milli aðila frá og með 15. desember 2004 og gilda þann tíma sem gerðardómurinn ákveður. Endanlegt uppgjör launa skal fara fram 30. apríl 2005.
    Hæstiréttur kveður á um hver hinna þriggja gerðardómsmanna skuli vera formaður dómsins og kallar hann dóminn saman.
    Gerðardómurinn setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og getur krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim aðilum sem gerðardómurinn telur nauðsynlegt. Aðilar skulu eiga rétt á að gera gerðardómnum grein fyrir sjónarmiðum sínum. Skal gerðardómurinn ætla þeim hæfilegan tíma í því skyni.
    Gerðardómnum skal séð fyrir viðunandi starfsaðstöðu. Gerðardómurinn getur kvatt sérfróða menn til starfa í þágu dómsins og til ráðuneytis um úrlausn mála.
    Kostnaður af starfi gerðardómsins greiðist úr ríkissjóði.

3. gr.

    Gerðardómurinn skal, við ákvörðun samkvæmt lögum þessum, hafa hliðsjón af almennri þróun á vinnumarkaði frá gerð síðasta kjarasamnings deiluaðila að því leyti sem við á. Við ákvarðanir um laun félagsmanna skv. 1. gr. og önnur starfskjör þeirra skal gerðardómurinn einnig hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.
    Komi aðilar vinnudeilunnar sér saman um einhver efnisatriði í deilunni, án þess að vilja gera um það dómsátt, skal gerðardómurinn taka mið af því við ákvörðun sína en hefur þó frjálsar hendur um tilhögun mála.
    Heimilt er gerðardómi að beita sér fyrir samkomulagi eða dómsátt á milli aðila sem hafi sömu réttaráhrif og ákvarðanir gerðardómsins, hvort sem er um einstök ákvæði eða heildarsamning þeirra í milli, og tekur þá gerðardómurinn ekki ákvörðun um þau atriði sem svo háttar til um.

4. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Verkfall grunnskólakennara hefur staðið frá 20. september sl. en kjaraviðræður kennara og skólastjóra í grunnskólum við launanefnd sveitarfélaga höfðu þá staðið yfir án árangurs um nokkurra mánaða skeið hjá embætti ríkissáttasemjara. Boðað hafði verið til verkfallsins í kjölfar allsherjaratkvæðagreiðslu sem fram fór 2. og 3. júní sl. meðal grunnskólakennara og skólastjórnenda.
    Samningar Kennarasambands Íslands vegna grunnskólakennara og skólastjóra runnu út hinn 31. mars sl. Höfðu viðræður hafist nokkru fyrr, eða 2. febrúar sl., en síðan þá hafa deiluaðilar komið saman formlega á 71 fundi hjá ríkissáttasemjara, auk þess sem þeir hafa ótal sinnum ræðst við óformlega á vegum embættisins.
    Hinn 28. október, þegar verkfall hafði staðið í fimm vikur, lagði ríkissáttasemjari fram miðlunartillögu að höfðu samráði við deiluaðila og var verkfalli þá frestað þar til úrslit atkvæðagreiðslu lægju fyrir. Miðlunartillagan var felld með 93% greiddra atkvæða kennara og hófst því verkfall að nýju í grunnskólum landsins þriðjudaginn 9. nóvember. Ríkissáttasemjari boðaði þá til samningafunda að nýju en að morgni miðvikudagsins 10. nóvember var ljóst að enn bæri mikið í milli og raunar var fullyrt að deiluaðilar hefðu, ef eitthvað væri, fjarlægst hvor annan. Ákvað ríkissáttasemjari þá að slíta fundi og boða ekki til nýs fundar fyrr en eftir hálfan mánuð, enda taldi hvorugur aðili tilefni til þess. Lét hann þess jafnframt getið að engin ástæða væri til bjartsýni um að eitthvað nýtt kæmi fram eftir þann tíma sem orðið gæti til þess að leysa þessa erfiðu kjaradeilu.
    Forsætisráðherra barst þann 9. nóvember sl. bréf frá Þórhildi Líndal, umboðsmanni barna, þar sem lýst er þungum áhyggjum af stöðu mála og horfum í deilunni. Í bréfi umboðsmanns barna segir:
     „Yfirstandandi verkfall grunnskólakennara hefur fyrst og fremst bitnað á þeim, sem síst skyldi, þ.e. börnum þessa lands, og hætta er á því að mörg þeirra muni bíða ómetanlegt tjón ef það dregst enn frekar á langinn.
    Grunnskólinn er vinnustaður barna og því er með öllu óþolandi að þeim sé haldið frá vinnu sinni svo að vikum skiptir. Réttur barna til skólagöngu er þar með fyrir borð borinn þrátt fyrir lögboðna skyldu hins opinbera til að sjá þeim fyrir almennri menntun og fræðslu.
    Í ljósi þeirrar stöðu, sem nú er upp komin í samningaviðræðum sveitarfélaga og samtaka kennara, þar sem engin lausn virðist í sjónmáli, beini ég, sem umboðsmaður barna, þeirri eindregnu áskorun til ríkisstjórnarinnar að beita sér nú þegar fyrir lausn á þessari kjaradeilu í samráði við deiluaðila til þess að endi verði bundinn á þetta ófremdarástand sem allra fyrst.“

    Í frumvarpi þessu er kveðið á um friðarskyldu milli deiluaðila og bann við verkfalli frá því að frumvarpið tekur gildi og samningsaðilum gefinn frestur til 15. desember nk. til þess að ljúka samningum sín í milli. Hafi það ekki tekist fyrir þann tíma skipar Hæstiréttur þrjá menn í gerðardóm sem skal skera úr um kjaramál grunnskólakennara og skólastjóra. Skal gerðardómur ljúka störfum fyrir 31. mars 2005 enda hafi aðilar ekki gert með sér kjarasamning fyrir þann tíma. Ljóst er að friðarskylda milli deiluaðila er á þessu stigi máls eina úrræði ríkisstjórnarinnar til að koma skólastarfi í landinu aftur í eðlilegt horf án frekari tafa. Ákvæði um gerðardóm er að dómi ríkisstjórnarinnar til þess fallið að koma með nýja nálgun í viðræður deiluaðila en engu að síður er þeim gefinn kostur á að ná samningum sín í milli fram til 15. næsta mánaðar áður en ákvæði um gerðardóm taka fullnaðargildi. Aukinheldur eru í lagafrumvarpi þessu ákvæði þess efnis að komi deiluaðilar sér saman um einhver efnisatriði í deilunni skuli gerðardómurinn taka mið af því við ákvörðun sína en hafi þó frjálsar hendur um tilhögun mála. Þá er og ákvæði um að heimilt sé gerðardómi að beita sér fyrir sátt milli aðila sem hafi sömu réttaráhrif og ákvarðanir hans, hvort sem er um einstök ákvæði eða heildarsamning þeirra í milli, og taki gerðardómur þá ekki ákvörðun um þau atriði sem svo háttar um.
    Meðan á kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaga hefur staðið hefur ríkisstjórnin ítrekað lýst því yfir að það sé skylda samningsaðila að ná saman um kjarasamning á eigin forsendum og að lagasetning á kjaradeilur sé aðeins algjört neyðarúrræði sem ekki megi grípa til nema í undantekningartilfellum. Nú er svo komið að ríkisstjórnin telur sig ekki lengur geta setið aðgerðarlaus á meðan 45.000 skólabörn fá ekki þá lögmætu kennslu sem þeim ber. Þrátt fyrir langt verkfall og stíf fundahöld eru deiluaðilar engu nær og hafa eins og áður sagði að því er virðist heldur fjarlægst síðustu daga. Má því færa fyrir því gild rök að svo ríkir almannahagsmunir standi til þess að starf í grunnskólum landsins geti hafist að nýju svo fljótt sem auðið er að lög sem fela í sér bann við verkfallinu eigi rétt á sér við núverandi aðstæður.
    Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að fylgja aðhaldssamri efnahagsstefnu til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum þrátt fyrir aukin umsvif vegna stóriðjuframkvæmda. Þetta á bæði við um stefnuna í peningamálum og fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Í þessu samhengi er brýnt að launastefna ríkis og sveitarfélaga komi ekki af stað víxlhækkunum verðlags og launa sem aftur hefði í för með sér aukna verðbólgu og rýrnun kaupmáttar. Þessu frumvarpi er ætlað að stuðla að framgangi þessara markmiða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um friðarskyldu milli deiluaðila frá því að frumvarpið fær lagagildi og á gildistíma ákvarðana gerðardómsins. Vinnustöðvanir deiluaðila, sem og hvers konar verkföll, verkbönn og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en frumvarpið gerir ráð fyrir, eru samkvæmt því óheimilar. Gildir í því sambandi einu hvort aðgerðir hafa hafist áður en frumvarpið fær lagagildi. Aðilum er heimilt að semja um aðra skipan kjaramála, en þeim er óheimilt að beita framangreindum úrræðum til að knýja fram þá skipan.

Um 2. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að samningsaðilum verði gefinn frestur til 15. desember nk. til að ljúka samningum sín á milli, eins og æskilegast er. Hafi það ekki tekist fyrir þann tíma kveður greinin á um að Hæstiréttur Íslands tilnefni þrjá menn í gerðardóm er skuli skera úr um kjaramál grunnskólakennara og skólastjórnenda. Gerðardómurinn skal hafa lokið störfum sínum fyrir 31. mars 2005. Gert er ráð fyrir því að ákvarðanir gerðardómsins verði bindandi sem kjarasamningur á milli aðila frá og með 15. desember 2004 og gildi jafnframt þann tíma sem gerðardómurinn ákveður. Þá er tekið fram í greininni að endanlegt uppgjör launa samkvæmt hinum nýju ákvörðunum skuli fara fram 30. apríl 2005.
    Hæstarétti er ætlað skv. 2. mgr. að ákveða hver hinna þriggja gerðardómsmanna skuli vera formaður dómsins. Það er síðan formannsins að kalla dóminn saman.
    Gerðardómnum er sjálfum ætlað að setja sér starfsreglur og afla nauðsynlegra gagna og getur hann krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim aðilum sem gerðardómurinn telur nauðsynlegt. Þá er kveðið á um rétt aðila til að koma sjónarmiðum sínum að við umfjöllun gerðardómsins, hvort sem er munnlega eða skriflega, og skal gerðardómurinn ætla þeim hæfilegan frest í því skyni.
    Ætla má að starf gerðardómsins krefjist verulegrar gagnaöflunar. Nauðsynlegt er að gerðardómurinn hafi viðunandi starfsaðstöðu og er lagt til að ríkið sjái gerðardómnum fyrir henni. Einnig er gert ráð fyrir að gerðardómurinn þurfi að afla upplýsinga og álita hjá sérfróðum mönnum og er gerðardómi heimilað að efna til kostnaðar sem því fylgir.
    Allur kostnaður við störf gerðardómsins greiðist úr ríkissjóði.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um þau viðmið sem gerðardómurinn skal hafa til hliðsjónar við ákvörðun sína og störf. Hann skal í því efni líta til almennrar þróunar á vinnumarkaði frá gerð síðasta kjarasamnings deiluaðila, kjara þeirra sem sambærilegastir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og gæta þess jafnframt að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga verði ekki raskað með niðurstöðu gerðardómsins. Miklu skiptir að gerðardómurinn taki á þessum þáttum með sanngirni og gæti samhliða að þjóðarhag í efnahagslegu tilliti.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að aðilar geti sameiginlega beint óskum til gerðardómsins um að tilteknum atriðum verði hagað í úrskurði með þeim hætti sem aðilar óska. Gerðardómurinn er þó ekki bundinn af þessum tilmælum.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að aðilar geti, með milligöngu gerðardómsins, gert með sér bindandi samkomulag eða sátt um tiltekin atriði, sem eru þá fullnaðarlyktir á þeim með aðilum og bindandi fyrir gerðardóminn. Gerðardómurinn úrskurðar þá um önnur atriði en þau sem samkomulag eða sátt hefur tekist um. Getur þetta flýtt mjög vinnu gerðardómsins og er hvatning til deiluaðila að leggja sitt af mörkum við lausn deilunnar.
    Lögin koma að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að aðilar geti gert með sér kjarasamning þótt gerðardómur hafi tekið til starfa.

Um 4. gr.

    Grein þessi þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um kjaramál kennara
og skólastjórnenda í grunnskólum.

    Með frumvarpinu er lagt til að settur verði á laggirnar þriggja manna gerðardómur tilnefndur af Hæstarétti Íslands hafi aðilar að kjaradeilu grunnskólakennara og skólastjórnenda annars vegar og launanefndar sveitarfélaga hins vegar ekki gert með sér kjarasamning fyrir 15. desember 2004. Skal gerðardómurinn þá ákveða kaup og kjör skólastjórnenda og grunnskólakennara hjá sveitarfélögum og afla til þess nauðsynlegra gagna. Kostnaður af starfi gerðardómsins greiðist úr ríkissjóði. Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að kostnaður ríkisins verði á bilinu 5–10 m.kr. sem felst í þóknunum, aðkeyptri sérfræðivinnu o.fl.