Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 318. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 349  —  318. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bolla Þór Bollason frá forsætisráðuneyti, Jón Sveinsson hrl. og Garðar Garðarsson hrl., Guðmund Árnason og Val Árnason frá menntamálaráðuneyti, Ragnhildi Arnljótsdóttur og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Ásmund Stefánsson ríkissáttasemjara, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson og Birgi Björn Sigurjónsson frá launanefnd sveitarfélaga, Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Eirík Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Hönnu Hjartardóttur frá Skólastjórafélagi Íslands, Hannes Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins og Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Elínu Thorarensen frá Heimili og skóla landssamtökum foreldra, Bergþóru Valsdóttur frá Samtökum foreldra og kennara, Samfok, og Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna . Umsagnir bárust frá samninganefnd launanefndar sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambandi Íslands. Jafnframt barst nefndinni ályktun frá stjórn Kennarasambands Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að bann verði lagt við verkfalli grunnskólakennara, þ.e. Kennarasambands Íslands fyrir hönd Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands og félagsmanna þeirra. Kjarasamningar kennara við launanefnd sveitarfélaga hafa verið lausir frá 31. mars sl. Verkfallið hófst 20. september og stóð óslitið á sjöttu viku, eða til 28. október, en þá var því frestað vegna fram kominnar miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Þegar úrslit atkvæðagreiðslu sem felldi miðlunartillöguna lágu fyrir hófst verkfall að nýju 9. nóvember.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samningsaðilar hafi frest til 15. desember nk. til að ljúka samningum. Ef samningar nást ekki fyrir þann tíma segir í frumvarpinu að Hæstiréttur skuli tilnefna þrjá menn í gerðardóm sem skuli fyrir 31. mars 2005 ákveða kaup og kjör félagsmanna Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands hjá þeim sveitarfélögum sem aðild eiga að launanefnd sveitarfélaga. Ákvarðanir gerðardómsins verði bindandi sem kjarasamningur milli aðila frá og með 15. desember 2004 og gilda þann tíma sem gerðardómurinn ákveður. Þá skuli endanlegt uppgjör launa fara fram 30. apríl 2005.
     Meiri hlutinn leggur áherslu á að þótt það sé grundvallarregla að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín í milli getur til þess komið þegar brýna nauðsyn ber til að íhlutun ríkisvaldsins sé réttlætanleg. Eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu er nú svo komið að ríkisstjórnin telur sig ekki lengur geta setið aðgerðalaus á meðan 45.000 skólabörn fá ekki þá lögmætu kennslu sem þeim ber. Þar segir jafnframt að þrátt fyrir langt verkfall og stíf fundahöld séu deiluaðilar engu nær og hafi að því er virðist heldur fjarlægst. Á fundum nefndarinnar hefur þessi staða málsins verið staðfest enn frekar og þeir aðilar sem að deilunni standa og ríkissáttasemjari hafa lýst því yfir að ekkert bendi til að frekari viðræður muni leiða til niðurstöðu á næstu vikum eða jafnvel mánuðum. Frumvarpinu er því ætlað að höggva á þann hnút sem deiluaðilar hafa sagt óleysanlegan. Skólastarf hefur legið niðri svo vikum skiptir og meiri hlutinn tekur undir það mat ríkisstjórnarinnar að ekki verði lengur við unað, en leggur jafnframt áherslu á að samningsaðilar geti eftir sem áður hvenær sem er gert kjarasamning óbundnir af gerðardómi. Í þessu sambandi vísast til þess sem segir í lokamálsgrein athugasemda við 3. gr. frumvarpsins að lögin komi að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að aðilar geti gert með sér kjarasamning þótt gerðardómur hafi tekið til starfa.
     Í samtölum nefndarinnar við gesti var mikið rætt um þá tímaramma sem settir eru fram í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Sú umræða snerist annars vegar um dagsetninguna 15. desember, þ.e. þann frest sem aðilar hafa til að ljúka samningum áður en gerðardómur tekur til starfa sem verður þá jafnframt gildistökudagur niðurstöðu gerðardóms, og hins vegar dagsetningarnar 31. mars og 30. apríl, þ.e. þann frest sem gerðardómur hefur til að ljúka störfum og þann dag þegar endanlegt uppgjör launa skal fara fram. Ákvæði frumvarpsins um að aðilar hafi frest til 15. desember til að ljúka samningum áður en gerðardómur tekur til starfa helgast af tilmælum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um nauðsyn þess að gefa deiluaðilum nægilegt svigrúm til að ná sáttum og gera kjarasamninga. Með þessu tímamarki 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins var ætlunin að koma til móts við þessi tilmæli. Á fundi nefndarinnar með deiluaðilum og í skriflegum umsögnum þeirra kom hins vegar ótvírætt fram að þeir teldu þennan frest of rúman og teldu ástæðulaust að halda honum óbreyttum. Í þessu sambandi má aftur vísa til lokamálsgreinar athugasemda við 3. gr. frumvarpsins þess efnis að lögin komi að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að aðilar geti gert með sér kjarasamning þótt gerðardómur hafi tekið til starfa. Að teknu tilliti til þessara sjónarmiða leggur meiri hlutinn því til að sá tími sem aðilum verði gefinn til að reyna til þrautar að ná samningum fyrir skipun gerðardóms verði styttur frá 15. desember í 20. nóvember nk. Meiri hlutinn leggur einnig til að ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. verði breytt á þann veg að í stað þess að ákvarðanir gerðardómsins verði bindandi sem kjarasamningur milli aðila frá og með 15. desember 2004 skuli hann vera bindandi frá gildistöku laganna. Með því er tryggt að sú breyting sem verður á kjörum kennara mun gilda frá og með þeim degi þegar þeir taka aftur til starfa.
    Þá leggur meiri hlutinn jafnframt til að gerðardómur skuli ljúka störfum svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 28. febrúar 2005 í stað 31. mars 2005 eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Meiri hlutinn vísar í þessu sambandi til laga nr. 34/2001, um kjaramál fiskimanna og fleira, en þar var gerðardómi markaður mun styttri tíma til ákvarðanatöku en hér er. Í framhaldi af því er lagt til að endanlegt uppgjör launa skuli fara fram eigi síðar en fjórum vikum eftir að niðurstaða gerðardóms liggur fyrir í stað 30. apríl 2005 eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Í dómi Hæstaréttar frá 14. nóvember 2002 er fjallað um gerðardóm sem skipaður var með lögum nr. 34/2001, um kjaramál fiskimanna og fleira, sem bundu enda á verkfall fiskimanna vorið 2001. Þar segir að í lögunum hafi ekki verið skýr fyrirmæli um gildistíma ákvarðana gerðardómsins. Honum hafi því aðeins verið settar skorður af því almenna ákvæði 3. gr. laganna að gerðardómurinn skyldi við ákvörðun sína hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hefðu verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við ætti og almenna þróun kjaramála. Þá segir í dóminum að í raun hafi þetta þýtt að gerðardómurinn skyldi ákveða gildistíma ákvarðana sinna með hliðsjón af gildistíma kjarasamninga sem gerðir hefðu verið mánuðina áður en hann starfaði. Það svigrúm sem gerðardómnum hefði verið gefið til að ákveða gildistíma ákvarðana sinna væri óheppilega mikið en fæli þó ekki í sér óhæfilega skerðingu á réttindum stefnanda. Þætti gerðardómurinn hafa farið hóflega með þetta vald sitt.
    Í ljósi framangreinds hæstaréttardóms telur meiri hlutinn rétt að taka fram að með því að marka gerðardómnum engar reglur um það hversu langur samningstíminn skv. 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins skuli vera er leitast við að skapa gerðardómnum hæfilegt svigrúm til starfa og draga úr áhrifum þess inngrips á samningssvið deiluaðila sem lagasetningin er. Meiri hlutinn bendir þó á að miðað við aðdraganda málsins og tilgang frumvarpsins þurfi gildistíminn að vera skemmri en lengri, þó þannig að nægileg ró og stöðugleiki geti skapast á vinnumarkaði og í grunnskólum landsins áður en sest verður að samningaborði á nýjan leik. Það er eftir sem áður hlutverk gerðardóms að meta hæfilegan gildistíma, komi til þess að hann verði skipaður og ljúki.
    Loks leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingar á 1. og 2. gr. frumvarpsins sem lúta eingöngu að fyrirkomulagi samningsumboða launanefndar sveitarfélaga. Meiri hlutinn leggur jafnframt til breytingu á 1. mgr. 1. gr. til að taka af allan vafa um að með orðunum að gera með sér kjarasamning sé átt við að kjarasamningur hafi verið undirritaður.
         Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem raktar eru hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. nóv. 2004.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Kjartan Ólafsson.



Birgir Ármannsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.