Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 321. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 357  —  321. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Samningar aðildarsamtaka vinnumarkaðarins um málsmeðferð í ágreiningsmálum, um hvort laun og ráðningarkjör starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga, skulu hafa sama almenna gildi og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör, sbr. 1. gr., með þeim takmörkunum sem í samningunum felast.
    Þegar settar eru á fót samráðsnefndir til úrlausnar ágreiningsmála á grundvelli samninga skv. 1. mgr. og atvinnurekandi, sem er málsaðili, á ekki aðild að samtökum atvinnurekenda er honum heimilt að tilnefna einn fulltrúa sem tekur sæti eins fulltrúa samtaka atvinnurekenda í nefndinni. Hið sama gildir um launamann sem er málsaðili og á ekki aðild að stéttarfélagi en fulltrúi hans tekur sæti eins fulltrúa samtaka launafólks í nefndinni. Ákveði málsaðili að tilnefna fulltrúa skal tilnefningin fara fram fyrir upphaf málsmeðferðar hjá samráðsnefndinni.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að samningar samtaka aðila vinnumarkaðarins um málsmeðferð í ágreiningsmálum, um hvort laun og ráðningarkjör starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga, öðlist sama almenna gildi og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með þeim takmörkunum sem í samningunum felast. Rekja má tilurð frumvarpsins til samkomulags Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði frá 7. mars 2004. Samkvæmt bókun við þetta samkomulag var þeim tilmælum beint til félagsmálaráðherra að veita því almennt gildi þannig að það næði til allra erlendra starfsmanna er starfa á íslenskum vinnumarkaði.
    Fyrirkomulag 1. gr. laganna um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda byggist á þeirri viðteknu venju að aðilar vinnumarkaðarins semja um kaup og kjör launafólks sem og önnur vinnuskilyrði í frjálsum kjarasamningsviðræðum. Hafa þeir samningar gilt sem lágmarkskjör hér á landi fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgreinum á þeim svæðum er samningarnir taka til. Þannig hafa atvinnurekendur þurft að taka mið af kjarasamningum aðilanna við ákvörðun launa og annarra starfskjara þeirra sem kjósa að standa utan félaga en sérstaklega er tekið fram að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.
    Með hliðsjón af framangreindri meginreglu á íslenskum vinnumarkaði hefur enn fremur verið litið svo á að eftirlit með að kjarasamningar skuli haldnir sé einnig á ábyrgð aðilanna sjálfra. Þar af leiðandi hefur hvorki tíðkast að opinberir aðilar hafi viðhaft sérstakt eftirlit með því að atvinnurekendur haldi gerða kjarasamninga né hvort efni þeirra brjóti hugsanlega í bága við innlenda löggjöf. Verður það því að teljast eðlilegt að aðilarnir semji jafnframt um það í frjálsum samningaviðræðum hvernig eftirliti með launum og öðrum starfskjörum launafólks skuli háttað telji þeir sérstaka þörf á því. Þykir ekki síður mikilvægt að slíkir samningar hafi almennt gildi eins og samningar þeirra um kaup og kjör launafólks svo launamenn og atvinnurekendur sjái sér engan hag í að segja sig úr aðildarsamtökum á vinnumarkaði í þeim tilgangi einum að komast undan samningum þeirra um þetta efni. Þannig er jafnframt komið í veg fyrir að launamenn verði fyrir þrýstingi af hálfu atvinnurekanda til að segja sig úr stéttarfélögum sínum í framangreindum tilgangi.
    Sú tegund samkomulags aðildarsamtaka vinnumarkaðarins sem fjallað er um í frumvarpi þessu getur tekið til allra launamanna eða tiltekinna hópa launamanna sem að mati aðilanna standa verr að vígi í samanburði við aðra hópa á innlendum vinnumarkaði. Er því áfram gert ráð fyrir að mat á því hvort ástæða sé til að semja sérstaklega um hvernig haga skuli málsmeðferð í ágreiningsmálum um hvort laun og ráðningarkjör starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga, til hvaða hópa launafólks slíkir samningar skuli taka til og gildistíma þeirra sé alfarið í höndum aðila vinnumarkaðarins. Slíkir samningar koma þó ekki í veg fyrir að málsaðilar geti leitað beint með ágreiningsefni sín til Félagsdóms eða almennra dómstóla eftir atvikum.
    Í fyrrnefndu samkomulagi aðilanna frá 7. mars 2004 er tekið fram að það sé hlutverk trúnaðarmanna stéttarfélaga á vinnustað að gæta þess að gerðir kjarasamningar séu haldnir gagnvart starfsfólki, sbr. 9. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Í tilvikum þar sem rökstuddur grunur er um brot gegn viðkomandi kjarasamningi eða lögum sem varða starfskjör erlends launafólks hefur trúnaðarmaður á grundvelli samkomulagsins rétt á að yfirfara gögn um laun eða önnur starfskjör viðkomandi atvinnurekanda og eftir því sem við á um starfsréttindi þeirra sem eru í störfum sem slíkra réttinda er krafist. Sé trúnaðarmaður ekki á vinnustað hefur fulltrúi viðkomandi stéttarfélags sömu heimildir og trúnaðarmaður til að yfirfara gögn og ber sömu skyldur. Kveðið er á um ákveðnar vinnureglur sem viðhafa skal við framkvæmdina.
    Hafi ekki tekist að leysa ágreining sem kann að rísa á grundvelli samkomulagsins er heimilt að vísa þeim ágreiningi til sérstakrar samráðsnefndar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Nefndin skal skipuð fjórum fulltrúum, tveimur skipuðum af Alþýðusambandinu og því landssambandi sem málið varðar og tveimur fulltrúum skipuðum af Samtökum atvinnulífsins. Nefndin hefur heimildir til að krefjast nauðsynlegra gagna frá viðkomandi atvinnurekanda um laun og önnur starfskjör þeirra erlendu starfsmanna sem málið varðar og eftir því sem við á um starfsréttindi þeirra. Sérstaklega er kveðið á um trúnaðarskyldu samráðsnefndarinnar og er nefndarmönnum óheimilt að afhenda eða greina þriðja aðila frá efni þeirra upplýsinga sem aflað er frá atvinnurekanda, trúnaðarmanni eða fulltrúa stéttarfélags. Skal niðurstaða nefndarinnar síðan kynnt málsaðilum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að þeir samningar sem samtök aðila vinnumarkaðarins gera sín á milli um málsmeðferð í ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ætlaðra brota á gildandi kjarasamningum í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningur tekur til hafi almennt gildi. Með orðunum „með þeim takmörkunum sem í samningunum felast“ er verið að vísa til þess að ekki er gert ráð fyrir að samningar þeir sem falla undir ákvæði þetta skuli í öllum tilvikum gilda um alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til eins og 1. gr. laganna gefur til kynna heldur geta einstakir samningar gilt um ákveðna hópa launafólks á íslenskum vinnumarkaði óháð félagsaðild þeirra. Dæmi um þetta er samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Sá samningur nær því einungis til erlendra starfsmanna í viðkomandi starfsgreinum á þeim svæðum sem samningurinn tekur til en ekki annarra launamanna enda þótt þeir starfi í sömu starfsgreinum og á sömu svæðum. Ástæða þessa samnings er meðal annars að það að ákveðnar breytingar eru að verða á samsetningu vinnuafls vegna fjölgunar útlendinga á íslenskum vinnumarkaði á ekki að leiða til röskunar á gildandi fyrirkomulagi um ákvörðun launa og annarra starfskjara launafólks með kjarasamningum. Enn fremur er tekið fram í forsendum samningsins að í tilvikum þegar kjarasamningar eru ekki virtir grafi það undan starfsemi annarra fyrirtækja, spilli forsendum eðlilegrar samkeppni og dragi úr ávinningi alls samfélagsins af traustu og heilbrigðu atvinnulífi.
    Þrátt fyrir hið almenna gildi samninganna sem hér er lagt til er engu síður gert ráð fyrir að þegar sérstakar samráðsnefndir hafa verið settar á fót þar sem fulltrúar hlutaðeigandi aðildarsamtaka taka sæti þá sé ófélagsbundnum aðila máls, hvort sem um er að ræða atvinnurekanda eða launamann, heimilt að tilnefna sinn fulltrúa er tekur sæti eins fulltrúa hlutaðeigandi samtaka. Eigi samtök aðila vinnumarkaðarins hvort um sig fleiri en einn fulltrúa í nefndinni taka þeir sem eftir sitja þátt í afgreiðslu málsins. Samtök aðilanna sem í hlut eiga ákveða sjálf hvaða fulltrúi muni víkja sæti fyrir fulltrúa hins ófélagsbundna aðila þegar samtökin eiga fleiri en einn fulltrúa í nefndinni. Kjósi hinn ófélagsbundni aðili að tilnefna sérstakan fulltrúa sinn í nefndina er lagt til að hann tilkynni nefndarmönnum þar um áður en nefndin tekur málið til efnislegrar meðferðar. Er þetta lagt til svo koma megi í veg fyrir að aðilar tilnefni fulltrúa eftir að nefndin hefur byrjað að fjalla um málið.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980,
um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að samningar aðildarsamtaka vinnumarkaðarins um málsmeðferð í ágreiningsmálum, um hvort laun og ráðningarkjör starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga, skuli hafa sama almenna gildi og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör. Þá er gert ráð fyrir að málsaðilar sem ekki eiga aðild að samtökum aðila vinnumarkaðarins tilnefni sjálfir fulltrúa í sérstakar samráðsnefndir sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um að leysa skuli úr ágreiningsmálum er kunna á rísa á grundvelli samninga.
    Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi umtalsverð áhrif á útgjöld ríkissjóðs.