Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 335. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 374  —  335. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Allar fasteignir skulu bera fast auðkenni, fasteignanúmer, sem Fasteignamat ríkisins úthlutar við forskráningu. Númerið er hlaupandi raðtala og felur ekki í sér aðrar upplýsingar. Undir fasteignanúmer fellur:
     1.      Landnúmer, sem er auðkenni landskika.
     2.      Heitinúmer, sem er auðkenni fasteignaheita.
     3.      Fastanúmer, sem er auðkenni eignarhluta í mannvirki eða mannvirkja í heild sinni, ásamt lóðarréttindum.
    Auk fasteignanúmers ber hver fasteign heiti samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar eða samkvæmt lögum um bæjanöfn o.fl.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um heiti fasteigna, annarra en þeirra sem falla undir lög um bæjanöfn o.fl.

2. gr.

    13. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Við 30. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nýtt matsverð skal þegar skrá í Landskrá fasteigna og gildir með þeim almennu breytingum sem á því geta orðið eða þar til því er hrundið með nýju mati.

4. gr

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Til þess að standa straum af kostnaði Fasteignamats ríkisins við að halda og þróa Landskrá fasteigna skulu húseigendur greiða til þess sérstakt umsýslugjald á árunum 2005–2008. Skal gjald þetta nema 0,1‰ (prómilli) af brunabótamati hverrar húseignar. Skal vátryggingafélag innheimta gjaldið samhliða innheimtu brunatryggingariðgjalda og skila umsýslugjaldi til Fasteignamats ríkisins eigi síðar en 45 dögum eftir gjalddaga.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Tilgangur frumvarps þessa um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, er að skýra reglur um auðkennisnúmer fasteigna, styrkja stjórnsýslu við framkvæmd fasteignamats og marka fjárhagsgrundvöll Fasteignamats ríkisins til að halda og þróa Landskrá fasteigna.
    Mikilvægt er að fasteignir séu auðkenndar með glöggum, einföldum og óvefengjanlegum hætti. Auðkenni fasteigna samkvæmt lögunum hafa verið fastanúmer og landnúmer. Auk þessara númera hefur verið notað svokallað heitinúmer. Það hefur valdið vandkvæðum í framkvæmd að hafa ekki skýrt samheiti þessara númera, sem hér er lagt til að verði fasteignanúmer, þar sem það fer eftir stöðu og eðli fasteignar hvert fasteignanúmer hennar er.
    Fasteignamat er mikilvægur skattstofn fyrir sveitarfélög og ríkissjóð. Ætla má að á árinu 2004 nemi skatttekjur sem byggðar eru á fasteignamati rúmum 20 milljörðum króna. Í árslok 2003 nam fasteignamat á landinu öllu 1.969 milljörðum króna. Mikilvægt er að málsmeðferð við ákvörðun fasteignamats sé vönduð og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Lagt er til að stjórnsýslan verði styrkt með því að kveða skýrt á um að ákvörðun um fasteignamat sem tekin er á grundvelli skráningarupplýsinga um nýjar og breyttar fasteignir taki gildi strax við skráningu í Landskrá fasteigna en sú tilhögun er í samræmi við núverandi framkvæmd. Nýja matsverðið gildi síðan með þeim almennu breytingum sem á því geta orðið eða þar til því er hrundið með nýju mati.
    Umsýslugjald sem nam 0,025 prómillum af brunabótamati var lögfest árið 1994 í tengslum við að Fasteignamati ríkisins var falið að halda brunabótamatsskrá og annast framkvæmd brunabótamats að hluta. Stofnunin tók síðan alfarið við framkvæmd brunabótamats árið 1999. Þegar stofnuninni var falið að mynda og halda Landskrá fasteigna frá 1. janúar 2001 var lögfest að umsýslugjaldið yrði 0,1 prómill af brunabótamati en félli niður í árslok 2004.
    Landskrá fasteigna er ein skrá í fimm hlutum um fasteignir og fasteignaréttindi til nota fyrir öll stjórnvöld og hagsmunaaðila. Þegar skráin var lögfest greindist hún í fjóra hluta. Í stofnhluta eru heiti, auðkenni og afmörkun fasteigna. Í mannvirkjahluta eru byggingarfræðileg atriði um fasteignir og notkun þeirra eða einstaka hluta þeirra eftir því sem við á. Í fasteignamatshluta eru matsgögn ásamt fasteigna- og brunabótamati. Í þinglýsingarhluta eru þinglýstir eigendur og eignarhlutur þeirra skráðir ásamt þinglýstum veðböndum, kvöðum og öðru er þinglýsingabók heldur. Um þinglýsingarhluta skrárinnar og upplýsingar er hann geymir fer eftir ákvæðum þinglýsingalaga. Með jarðalögum, nr. 81/2004, sem gengu í gildi 1. júlí 2004 var fimmti hluti skrárinnar lögfestur, jarðahluti, þar sem fram eiga að koma upplýsingar um nöfn jarða og annars lands, sveitarfélög, eigendur, fyrirsvarsmenn ef fleiri eigendur eru að jörð, ábúendur, leigutaka, ræktun, mannvirki, nýtingu, hvort félagsbú er á jörðinni og önnur atriði sem landbúnaðarráðuneytið ákveður nánar í reglugerð. Jafnframt er kveðið á um að Fasteignamat ríkisins skuli í þessum tilgangi leggja til skráningarsvæði fyrir framangreindar upplýsingar án sérstaks kostnaðar fyrir landbúnaðarráðuneytið.
    Síðan Landskrá fasteigna var stofnuð hefur Fasteignamat ríkisins, í náinni samvinnu við sveitarfélög og sýslumannsembætti, unnið að því að bæta og samræma upplýsingar í skránni og einstökum hlutum hennar. Upplýsingar í stofnhluta hafa verið bættar með því að nýjar fasteignir eru nú stofnaðar með sérstöku stofnskjali auk þess sem undirbúningur er hafinn að skráningu hnita fasteigna í stofnhlutann til að skráin nýtist sem stoðgagn í landupplýsingakerfum, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Unnið er að því að bæta upplýsingar í mannvirkjahluta skrárinnar með því að staðla og endurskilgreina þær upplýsingar sem notaðar eru við skráningu mannvirkja og einkum koma fram í skráningartöflu, eignaskiptayfirlýsingu og byggingarlýsingu. Mikil vinna hefur verið lögð í að bæta matshluta skrárinnar. Árið 2001 var brunabótamat allra brunabótamatsskyldra húseigna endurmetið og var það í fyrsta sinn sem húseignir um land allt voru metnar brunabótamati með samræmdri aðferð. Samtímis fór fram endurmat fasteignamats íbúðarhúsnæðis um allt land og nokkurra annarra tegunda fasteigna. Við þessa matsaðgerð var einnig notuð samræmd aðferð sem byggðist á tölvuvæddu fjöldamati og tölfræðilegum aðferðum. Í undirbúningi er endurmat jarða, sumarbústaða og lands utan þéttbýlis. Undirbúningur að myndun jarðahluta skrárinnar er hafinn í samvinnu landbúnaðarráðuneytisins og Fasteignamats ríkisins. Sá undirbúningur felst einkum í samræmingu á hugtakanotkun, kerfishönnun, forritun og kerfisprófun og síðar í skráningu upplýsinga í jarðahlutann og leiðréttingu á misræmi á skráningu einstakra jarða.
    Myndun þinglýsingarhluta skrárinnar felst í að samræma upplýsingar um fasteignir í þinglýsingabókum, fasteignamatsskrá Fasteignamats ríkisins og fasteignaskrám sveitarfélaga. Mun víðtækara misræmi hefur reynst vera á milli upplýsinga um fasteignir í hinum ýmsu skrám en gert var ráð fyrir eins og fjármálaráðherra gerði grein fyrir í skriflegu svari við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur sem lagt var fram á Alþingi 19. apríl 2002. Greiða þarf úr slíku misræmi áður en eign er staðfest í Landskrá fasteigna enda varðar það mikilvæga hagsmuni fasteignaeigenda að skráning sé rétt og ótvíræð. Þetta misræmi varðar meðal annars eignarhald, staðsetningu, gerð, stærð, eiginleika og notkun fasteignar eða að fasteign er ekki skráð eða hefur verið skráð en er ekki lengur til. Mikil og vandasöm vinna mun standa yfir næstu ár við að greiða úr misræmi vegna þeirra fasteigna sem skráning er ekki hafin á eða ekki hefur reynst unnt að ljúka skráningu á.
    Eins og fram kemur í eftirfarandi töflu voru liðlega 160 þúsund fasteignir skráðar í fasteignamatsskrá Fasteignamats ríkisins í lok september 2004. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættum er áætlað að um 158 þúsund fasteignir hafi verið skráðar í þinglýsingabækur. Af þeim voru í september 2004 um 124 þúsund fasteignir fullskráðar í Landskrá fasteigna. Skráningu var þá ólokið eða hún ekki hafin á um 34–36 þúsund fasteignum.
    Í meðfylgjandi töflu koma fram upplýsingar um fjölda fasteigna miðað við september 2004, sundurliðað eftir sýslumannsembættum.
    Árið 2000 þegar Landskrá fasteigna var stofnuð lagði meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að eftir 2004 yrði Landskránni markaður annar tekjustofn. Þrátt fyrir að mikil vinna hafi verið lögð í að færa og bæta Landskrána hefur verkefnið eins og að framan er greint reynst viðameira og tímafrekara en upphaflega var gert ráð fyrir. Því er lagt til með frumvarpi þessu að núverandi fyrirkomulag fjármögnunar verði framlengt enn um sinn.
Sýslumannsembætti Fjöldi fasteigna í
fasteignamatsskrá
Áætlaður fjöldi
fasteigna í
þinglýsingabókum
Fullskráðar
fasteignir í
Landskrá fasteigna
Fasteignir þar sem
skráning í Landskrá
fasteigna er ekki
hafin eða er ólokið
Sýslumaðurinn á Akranesi 2.687 2.641 2.583 58
Sýslumaðurinn í Keflavík 7.869 7.833 6.961 872
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði 13.971 14.134 11.987 2.147
Sýslumaðurinn í Kópavogi 12.093 11.347 10.347 1.000
Sýslumaðurinn á Akureyri 10.784 10.312 9.212 1.100
Sýslumaðurinn á Blönduósi 2.303 2.051 1.959 92
Sýslumaðurinn á Ólafsfirði 615 549 513 36
Sýslumaðurinn í Borgarnesi 5.732 5.779 4.779 1.000
Sýslumaðurinn á Selfossi 13.535 12.294 11.229 1.065
Sýslumaðurinn á Húsavík 3.107 2.612 2.562 50
Sýslumaðurinn í Vík 890 899 702 197
Sýslumaður Snæfellinga 2.689 2.569 2.089 480
Sýslumaðurinn í Reykjavík 60.946 65.910 46.910 19.000
Sýslumaðurinn í Búðardal 646 570 480 90
Sýslumaðurinn á Hvolsvelli 3.049 2.671 2.221 450
Sýslumaðurinn á Sauðárkróki 2.617 2.458 1.811 647
Sýslumaðurinn í Bolungarvík 676 572 458 114
Sýslumaðurinn á Höfn 1.226 1.055 775 280
Sýslumaðurinn á Ísafirði 3.115 2.441 1.796 645
Sýslumaðurinn á Siglufirði 1.067 1.116 612 504
Sýslumaðurinn á Seyðisfirði 3.099 2.725 1.586 1.139
Sýslumaðurinn á Eskifirði 2.930 1.658 1.342 316
Sýslumaðurinn á Hólmavík 763 596 176 420
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum 2.238 1.600 397 1.203
Sýslumaðurinn á Patreksfirði 1.435 1.233 223 1.010
Samtals 160.082 157.625 123.710 33.915

Tafla: Fjöldi fasteigna í september 2004.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að efni 12. og 13. gr., sem fjalla um auðkenni fasteigna, fastanúmer og landnúmer, verði einfaldað, sameinað og betur skilgreint. Auk tveggja framangreindra númera er um að ræða annað auðkennisnúmer sem nú er ekki getið í lögum, svokallað heitinúmer. Það hefur valdið vandkvæðum í framkvæmd að hafa ekki skýrt samheiti þessara númera, sem hér er lagt til að verði fasteignanúmer, en það fer eftir stöðu og eðli fasteignar hvert fasteignanúmer hennar er. Meðan afmarkaður landskiki er óbyggður er fasteignanúmerið landnúmer. Aftur á móti er það heitinúmer ef fyrirhugað er að fleiri en ein fasteign, hver með sitt heiti, rísi á einni óbyggðri lóð og eignaskiptayfirlýsing lóðar er fyrirliggjandi. Þá er fastanúmer mannvirkis fasteignanúmer, t.d. fastanúmer einbýlishúss á lóð eða íbúðar í fjölbýli. Landnúmer er t.a.m. fasteignanúmer bújarðar, sem verður ætíð ein fasteign og eitt veðandlag, óháð fjölda mannvirkja á jörðinni.

Um 2. gr.

    Það þykir vera til einföldunar að um auðkenni fasteigna sé fjallað í einni og sömu lagagreininni og því er lagt til að 13. gr. falli niður.

Um 3. gr.

    Lagt er til að skýrt verði kveðið á um það í lögum að ákvörðun um fasteignamat sem tekin er á grundvelli skráningarupplýsinga um nýjar og breyttar fasteignir taki gildi strax við skráningu í Landskrá fasteigna en sú tilhögun er í samræmi við núverandi framkvæmd. Eiganda er í slíkum tilvikum send tilkynning um breytinguna ásamt upplýsingum um rétt til þess að krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðuninni og um heimild hans til að krefjast endurmats. Breytt skráning á fasteignaupplýsingum sem leiðir til ákvörðunar fasteignamats er í þessum tilvikum grundvölluð á beiðni eiganda fasteignar um samþykki sveitarstjórnar, t.d. á eignaskiptayfirlýsingu, umsókn um byggingarleyfi á íbúðarhúsi, umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu, umsókn um breytta notkun húsnæðis o.fl. Árið 2003 framkvæmdi Fasteignamat ríkisins um 28 þúsund breytingar á fasteignamati. Nýja matsverðið gildir síðan með þeim almennu breytingum sem á því geta orðið, sbr. 35. gr. sem fjallar um árlegan framreikning fasteignamats miðað við 31. desember, og þar til því er hrundið með nýrri ákvörðun um fasteignamat.

Um 4. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða ákvæði III til bráðabirgða í lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, sem sett var með lögum um breytingu á lögum um brunatryggingar, nr. 40/2000, nema hvað ákvæðið varðar tímabilið 2005–2008 en ákvæðið í framangreindum lögum varðaði tímabilið 2000–2004. Ákvæðið felur í sér að til þess að standa straum af kostnaði Fasteignamats ríkisins við að halda og þróa Landskrá fasteigna skuli húseigendur greiða til þess sérstakt umsýslugjald sem nemi 0,1‰ (prómilli) af brunabótamati hverrar húseignar á árunum 2005–2008. Eðlilegt þykir að þetta ákvæði sé frekar í lögum um skráningu og mat fasteigna en lögum um brunatryggingar þar sem ákvæði um Landskrá fasteigna, Fasteignamat ríkisins og rekstur þess er að finna í lögum um skráningu og mat fasteigna en ekki lögum um brunatryggingar. Að loknum þeim tíma mun umræddur tekjustofn verða tekinn til endurskoðunar.

Um 5. gr.

    Lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. janúar 2005.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2001,
um skráningu og mat fasteigna.

    Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 48/1994, um brunatryggingar, skulu húseigendur greiða umsýslugjald sem nemur 0,1‰ (prómilli) af brunabótamati hverrar húseignar á árunum 2000–2004. Umsýslugjaldinu hefur verið varið til að standa straum af hluta kostnaðar Fasteignamats ríkisins við að byggja upp og halda Landskrá fasteigna. Samkvæmt ákvæðinu fellur umsýslugjaldið niður í lok yfirstandandi árs. Staða verkefnisins og framhald þess hefur verið til skoðunar að undanförnu og liggur fyrir að ennþá er talsvert verk óunnið, svo sem samræming á upplýsingum úr ýmsum eldri skrám og fullskráning rúmlega 30 þúsund fasteigna af um 160 þúsund fasteignum í landinu. Frumvarp þetta miðar að því að fjármögnun verkefnisins verði framlengd um fjögur ár, eða til ársins 2008, með sömu gjaldtöku og í núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir að tekjur af núgildandi umsýslugjaldi nemi um 1 milljarði króna til loka þessa árs og hafa þær farið hækkandi samhliða hækkandi stofni brunabótamats. Áætlað er að tekjur af gjaldinu verði um 280 m.kr. á þessu ári. Má því ætla að tekjur og útgjöld Fasteignamats ríkisins verði um 1,1 milljarði króna meiri næstu fjögur árin miðað við núverandi brunabótamat fasteigna verði fjármögnunin framlengd með lögfestingu þessa frumvarps.