Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 390  —  76. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2004.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004 er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um rúma 6,3 milljarða kr. Enn fremur liggja fyrir tillögur frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar um aukin útgjöld sem nema tæpum 3 milljörðum kr. Samtals liggja því fyrir tillögur um tæpa 9,3 milljarða kr. aukningu á fjárlögum ársins 2004 í því frumvarpi til fjáraukalaga sem hér liggur fyrir.
    Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í 43. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, segir að ef þörf krefur skuli í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir. Engin skilyrðislaus skylda hvílir á ríkisstjórn að leggja fjáraukalagafrumvarp fyrir hvert reglulegt þing heldur fer það eftir þörfinni hverju sinni. Í reyndinni er aukafjárveitinga þörf á hverju ári enda getur ýmislegt breyst í tekjöflun eða útgjöldum ríksins og stofnana þess á heilu ári. Í 44. gr. laga um fjárreiður ríkisins kemur fram hvenær er heimilt að greiða úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum. Þar segir að valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þurfi til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skuli leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Undanfarin ár hafa mörg hver þau fjárútlát sem fjáraukalagafrumvarp hefur kveðið á um, svo sem vegna mennta- og heilbrigðismála, verið fyrirsjáanleg við gerð fjárlaga og því átt heima í fjárlagafrumvarpi þess árs. Þrátt fyrir að í þessu frumvarpi hafi dregið úr slíku þá er enn að finna dæmi um að kveðið sé á um fjárútlát sem áttu heima í fjárlagafrumvarpi ársins 2004 af því að þau voru fyrirsjáanleg.

Framhaldsskólar.
    Í frumvarpi til fjáraukalaga og breytingartillögum frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar er lagt til að fjárveiting til framhaldsskóla verði aukin um 450 millj. kr. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2004 lá fyrir að fjárveiting til framhaldsskóla væri vanáætluð. Bent var á þetta í umræðum um frumvarpið enda lágu gögn fyrir sem sýndu fram á það. Minna má t.d. á að stjórn Félags framhaldsskólakennara gagnrýndi þessa vanáætlun nemenda. Í framhaldi af þessari vanáætlun ríkisstjórnarinnar, sem allir sáu nema hún, skapaðist vandræðaástand í þjóðfélaginu sl. sumar þegar margir nemendur gátu ekki fengið skólavist vegna fjársveltis framhaldsskólanna. Þegar ljóst var að í fullt óefni var komið samþykktu stjórnvöld að setja meiri fjármuni til framhaldsskólanna svo hægt væri að taka á móti fleiri nemendum. Enn vantar þó um 200 millj. kr. til framhaldsskólanna á árinu til þess að þeir geti fjármagnað skólastarfið og mætt auknum fjölda nemenda. Svona vinnubrögð eru afleit. Auk þessa sitja framhaldsskólar eftir með óuppgerðan halla frá fyrri árum. Þetta er skýrt dæmi um að öll gögn lágu fyrir þegar fjárlög voru samþykkt á sl. ári, og ljóst var að vanáætlað væri en samt sem áður var ekkert gert fyrr en síðar og aukafjárveiting síðan sótt í fjáraukalagafrumvarpi.

Héraðsdómstólar.
    Í frumvarpinu er kveðið á um aukningu á fjárveitingu til héraðsdómstóla um 35 millj. kr. Vanáætlun í fjárveitingum til héraðsdómstólanna er ekki eitthvað sem á að koma stjórnvöldum á óvart. Fulltrúar héraðsdómstólanna sendu erindi til fjárlaganefndar um að það fjármagn sem þeim væri ætlað í fjárlögum fyrir árið 2004 væri af svo skornum skammti að þeir gætu ekki haldið uppi eðlilegri málsmeðferð og vinnslu mála eins og þeim bæri skylda til lögum samkvæmt.

Landspítali – háskólasjúkrahús.
    Í frumvarpinu er lögð til um 668 millj. kr. fjárveiting til Landspítala – háskólasjúkrahúss. Draga má í efa að þessi upphæð dugi svo sjúkrahúsið geti staðið með eðlilegum hætti að þeirri þjónustu sem við viljum að það veiti. Fulltrúar sjúkrahússins bentu á við fjárlagagerðina sl. haust að þessa upphæð vantaði inn og reyndar gott betur til að endar næðu saman og haldið yrði óbreyttri þjónustu. Jafnframt bentu þeir á að fjárveitingar til reksturs spítalans á föstu verðlagi hafa nánast staðið í stað á árunum 1999–2004.

Sveitarfélög.
    Fjárhagur margra sveitarfélaga hefur verið erfiður undanfarin ár. Mörg sveitarfélögin hafa verið rekin með halla frá 1990 en samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga bendir til að um 2,8 milljarða kr. halli verði á rekstri sveitarfélaganna árið 2003. Þá tók eftirlitsnefnd sveitarfélaga nýlega til sérstakrar athugunar reikningsskil 47 af 101 sveitarfélagi sem sent höfðu inn gögn. Í framhaldi af þeirri skoðun var ákveðið að skrifa 23 sveitarfélögum sérstaklega til að krefja þau um nánari skýringar. Skattabreytingar ríkisstjórnarinnar hafa jafnframt kostað sveitarfélögin stórfé. Fjölgun einkahlutafélaga hefur t.d. kostað sveitarfélögin 1.000–1.200 millj. kr. á ársgrundvelli. Verkefni hafa verið flutt til sveitarfélaganna án þess að tekjustofnar fylgdu á fjölmörgum sviðum.
    Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var í byrjun nóvember sl. var ítarlega gerð grein fyrir fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og hvernig stöðugt hefði hallað á þau í samskiptum við ríkisvaldið. Var þar kynnt að sveitarfélögin mundu fara fram á 700–1.000 millj. kr. aukaframlag í ár til að létta stöðu sveitarfélaganna. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu leggja fram tillögu um að aukaframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði 700 millj. kr. í stað 400 millj. kr. sem meiri hlutinn leggur til.
    Í breytingartillögum frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar er gerð tillaga um 400 millj. kr. framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að koma til móts við sveitarfélög í sérstökum fjárhagsvanda, t.d. vegna fækkunar íbúa og erfiðra ytri aðstæðna. Félagsmálaráðherra mun ákveða úthlutun fjárins í samráði við ráðgjafarnefnd sjóðsins og að fengnum tillögum tekjustofnanefndar. Spurning er þó hvernig ríkisstjórnin og meiri hluti fjárlaganefndar komust að þeirri niðurstöðu að 400 millj. kr. væri sú upphæð sem til þyrfti því forustumenn sveitarfélaganna höfðu kynnt þörf fyrir mun hærri upphæð. Fara þarf miklu betur yfir þetta mál, t.d. hvernig á að skipta þessum fjármunum. Jafnframt þarf að taka á þessum málum til framtíðar svo ekki þurfi að koma til svona björgunaraðgerða sem þó má velta fyrir sér hvort nægjanlegar eru. Það þarf að fara yfir tekjustofna sveitarfélaga.

Háskóli Íslands.
    Beiðni hefur komið frá Háskóla Íslands um aukafjárveitingu upp á rúmar 223 millj. kr. Ástæðu beiðninnar má rekja til þess að skólinn hefur ekki fengið greitt fyrir alla nemendur. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að standa vörð um Háskóla Íslands. Háskóli Íslands er langstærsta kennslu- og rannsóknastofnun landsins. Háskólinn er þjóðskóli og á sem slíkur að vera öllum opinn sem uppfylla skilyrði til að geta hafið nám við skólann. Stjórnvöld mega ekki þrengja svo að skólanum að hann verði að takmarka aðgang. Vinstri hreyfingin – grænt framboð styður því þessa beiðni Háskólans.

Opinberar framkvæmdir.
    Vanda þarf betur kostnaðaráætlanir við verklegar framkvæmdir. Allt of oft er verið að samþykkja auknar fjárveitingar vegna framúrkeyrslu við opinberar framkvæmdir. Í frumvarpi til fjáraukalaga sem nú liggur fyrir er meðal annars óskað eftir auknum fjárveitingum vegna framkvæmda við Alþingishús, Gljúfrastein og Þjóðminjasafnið. Sérstaka athygli vekur fjárveiting til Þjóðminjasafns Íslands þar sem farið er fram á 20 millj. kr. aukafjárveitingu í tilefni af opnun safnsins. Fjárveiting er vegna uppsetninga á sýningum og vegna kynningarmála. Athygli vekur að ekki var gert ráð fyrir þessu í fjárlögum ársins. Það hlýtur að hafa legið fyrir að það hefði kostnað í för með sér að setja upp sýningu. Þetta er enn eitt dæmið um lélega áætlanagerð þar sem hlutirnir eru gerðir upp í fjáraukalögum.
    Fleiri stofnanir og verkefni á vegum ríkisins búa við fjárskort vegna vanáætlunar útgjalda en fá hann ekki bættan í fjáraukalögum. Aftur virðist gæluverkefnum ríkisstjórnarinnar hampað, svo sem eflingu sérsveita lögreglunnar sem virðast á leið með að verða vísir að íslenskum her. Þá er aukið framlag um 100 millj. kr. til svokallaðra friðargæslustarfa sem er í raun hervæðing íslenskra ríkisborgara við hlið hersveita Bandaríkjamanna og Nató.

Breytt vinna við fjárlagagerð.
    Til að bæta vinnulagið og tryggja að farið sé að lögum hefur flutningsmaður nefndarálits þessa tvívegis mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fjárreiður ríkisins. Þær fela í sér að þegar svo ber undir skuli fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til fjáraukalaga fyrir Alþingi að vori og aftur að hausti. Þingið samþykkir lög fyrri hluta árs en þau geta haft í för með sér fjárskuldbindingar á sama ári. Ýmsar forsendur geta einnig breyst, eins og dæmin sanna, og bregðast þarf við þeim. Það hlýtur því að liggja beint við að fjárlaganefnd tæki þau mál til meðferðar og legði fram fjáraukalagafrumvarp sem yrði afgreitt fyrir þinglok að vori. Önnur fjáraukalög væri hægt að afgreiða í byrjun október og síðan kæmu lokafjárlög. Með þessum hætti gæti Alþingi fylgt eftir ábyrgð sinni, stýrt útgjöldum og brugðist við breyttum forsendum. Þannig yrði einnig komið í veg fyrir að efnt væri til útgjalda án heimildar Alþingis nema í algjörum undantekningar- og neyðartilvikum, eins og lög um fjárreiður ríkisins kveða á um. Slíkt fyrirkomulag hefði t.d. komið sér vel síðastliðið vor svo hægt hefði verið að samþykkja auknar fjárveitingar til framhaldsskóla þannig að skólar hefðu strax getað svarað nemendum um það hvort þeir fengju skólavist. Í staðinn þurftu margir nemendur að bíða í óvissu um hvort þeir fengju skólavist eður ei.
    Enn fremur hefur flutningsmaður lagt til að vinnunni við fjárlagagerðina verði breytt. Nú hefst undirbúningur að fjárlagavinnu hvers árs á fyrri hluta ársins á undan, þ.e. í apríl. Vegna þessa væri rétt að ríkisstjórnin legði fram frumvarp eða ramma að fjárlögum næsta árs fyrir þinglok og það yrði rætt áður en vorþingi lyki. Í raun yrði þar samþykktur ramminn sem unnið yrði eftir við undirbúning fjárlaga næsta árs. Eftir slíka meðferð þingsins gæti framkvæmdarvaldið síðan haldið áfram að undirbúa fjárlagafrumvarpið sem fjármálaráðherra legði síðan fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í upphafi haustþings. Með þessu móti væri frumvarpið og fjárlögin unnin í meiri samvinnu við Alþingi en nú er og á eðlilegri ábyrgð þess.
    Pétur Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 18. nóv. 2004.



Jón Bjarnason.





Fylgiskjal I.


Steingrímur J. Sigfússon
og Jón Bjarnason:


Sveitarfélögin svelt til hlýðni.
(Morgunblaðið, 29. september 2004.)


    Sveitarfélögin á Íslandi hafa lengi búið við óviðunandi afkomu og fer fjarri að það ástand sé bundið við minnstu sveitarfélögin. Taprekstur og skuldasöfnun er veruleiki sveitarfélaga af öllum stærðum og gerðum. Aukning skulda hefur að undanförnu verið á bilinu 3–5 milljarðar á ári, t.d. tæpir 8 milljarðar samtals sl. tvö ár. Er það nokkuð í takt við aukningu heildarskulda sveitarfélaganna uppá um 35 milljarða samtals sl. 11 ár. Varðandi samanburð milli ára ber þó að hafa í huga að reikningsskilaaðferðum var breytt upp úr 2000.
    Þingmenn vinstri-grænna hafa ítrekað reynt að vekja athygli á þessum vanda og lagt til úrbætur í þeim efnum, því miður með litlum árangri. Gætt hefur ótrúlegs tómlætis um afkomu sveitarfélaganna, ekki síst í ljósi þess að á undanförnum árum hafa veigamiklir velferðarmálaflokkar færst þangað.

Lengt í hengingarólinni.
    Í stað aðgerða hefur gætt tilhneigingar af hálfu ríkisvaldsins til að hvetja menn til að lengja í hengingarólinni með sölu eigna. Enginn vafi er á því að um meðvitaða pólitík er að ræða. Einkavæðingarsinnar líta til þess með velþóknun að sveitarfélögin sjái iðulega engin önnur úrræði en að selja verðmætar félagslegar eignir sem þó eru sveitarfélaginu bráðnauðsynlegar til að veita undirstöðuþjónustu. Þetta lagar bókhaldið tímabundið en verður svo dýrara og þar með staðan verri til lengri tíma litið.
    Við nýjar framkvæmdir eru aðstæður yfirleitt þannig að aðeins er um tvennt að ræða; viðbótarlántöku til að fjármagna fjárfestingarnar eða semja um að þær fari fram í svokallaðri einkaframkvæmd. Þ.e. að einkaaðili byggi, reki og jafnvel eigi um aldur og ævi viðkomandi eign og sveitarfélagið borgi síðan árlega leigu. Yfirgnæfandi líkur eru á því að einkaframkvæmd reynist dýrari leið þegar upp er staðið. Fyrir því er sú einfalda meginástæða að í einkarekstrinum ætla menn sér arð sem þeir taka út árlega. Ekki er þó síður alvarlegt að þessi aðferð bindur sveitarfélagið á klafa langtímasamninga sem hafa að lokum í för með sér aukinn kostnað og geta einnig kostað erfiðleika við að ná fram ýmsum félagslegum og faglegum markmiðum.
    Fyrir nokkru áttu sveitarfélög á Vestfjörðum í miklum erfiðleikum. Þá datt ríkisstjórninni það snjallræði í hug að kaupa af þeim verðmætustu sameiginlegu eign þeirra, Orkubú Vestfjarða, vel rekna og þarfa stofnun sem sá Vestfirðingum fyrir rafmagni á hagstæðu verði. Í batnandi og sterkum fjárhag Orkubúsins gátu verið fólgnir miklir framtíðarmöguleikar fyrir Vestfirðinga. Þeir urðu engu að síður að sjá á eftir þessu gulleggi sínu til að fleyta sér áfram. Svipuðu máli gegnir víðar. Má nú síðast nefna Vestmannaeyinga sem fyrir stuttu seldu veitur sínar og eru nú lagðir af stað í aðra umferð eignasölu, þ.e. sölu fasteigna bæjarins til utanaðkomandi eignarhaldsfélags. Ekki höfum við þá trú að það sé einlægur vilji forsvarsmanna Vestmannaeyjakaupstaðar heldur þvert á móti að neyðin hreki menn út í aðgerðir af þessu tagi. Það er umhugsunarefni að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna skuli taka slíkar aðgerðir góðar og gildar. Er opinberri eftirlitsnefnd stætt á því að leggja slík skammtímasjónarmið til grundvallar starfi sínu? Hvernig réttlætir nefndin það að leggja blessun sína yfir aðgerðir til meintrar lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélaga sem þýða að eftir 15–20 ár, jafnvel fyrr, verður afkoman að öðru óbreyttu enn þá verri en ella?

Pólitíkin undir, yfir og allt um kring.
    Ofan í fyrrgreindar aðstæður er nú farin í gang opinber áætlun um stórfellda sameiningu sveitarfélaganna. Nátengd eru áform um að færa yfir til þeirra enn aukin og mjög útgjaldafrek verkefni, s.s. á sviði heilbrigðismála og umönnunar aldraðra. Minna heyrist af þeim tekjum sem sveitarfélögin eiga að fá til að mæta hinum nýju verkefnum. Minnst hefur þó heyrst af aðgerðum til að lagfæra núverandi stöðu þeirra sem auðvitað er brýnasta verkefnið. Furðu sætir hversu þögulir og þolinmóðir sveitarstjórnarmenn hafa verið við þessar aðstæður.
    Enginn vafi er að óviðunandi afkoma sveitarfélaganna skapar stórfellda hættu hvað snertir framtíðarhorfur samábyrgs velferðarsamfélags á Íslandi. Þá er ljóst að bág afkoma sveitarfélaganna er einn mesti Akkilesarhællinn í byggðalegu tilliti. Félagshyggjufólk og áhugafólk um jafnvægi í byggðaþróun verður að láta þessa hluti til sín taka. Skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar koma svo eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Sé ríkissjóður aflögufær um skatttekjur, sem verulega má efast um, væri þá ekki nær að þær tekjur færðust a.m.k. að verulegu leyti yfir til sveitarfélaganna til að bæta afkomu þeirra? Ætla sveitarstjórnarmenn ekki að minna á tilveru sína í tengslum við þessa skattaumræðu, eða hvað?
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun hafa það eitt af sínum forgangsverkefnum á komandi þingi að knýja fram umræður og vonandi aðgerðir til úrbóta í fjármálum sveitarfélaganna. Við núverandi ástand verður ekki lengur unað.


Fylgiskjal II.


Félag íslenskra framhaldsskóla
og Skólameistarafélag Íslands:


Fjárhagsstaða framhaldsskólanna.
Minnisblað með athugasemdum og ábendingum.

(10. nóvember 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.