Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 348. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 394  —  348. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Háskóla Íslands, nr. 41/1999, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „32.500 kr.“ í 3. mgr. 13. gr. laganna kemur: 45.000 kr. fyrir heilt skólaár.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í forsendum frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2005 eru kynnt áform um að hækka skrásetningargjöld í ríkisháskólum úr 32.500 kr. í 45.000 kr. Er það í samræmi við óskir ríkisháskólanna og við það miðað að fjárhæð skrásetningargjaldanna renni óskipt til þeirra. Ekki er gert ráð fyrir því í forsendum fjárlagafrumvarpsins að innheimta gjaldanna komi til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum.
    Eins og áður er skráningargjaldinu ætlað að mæta kostnaði af margvíslegri þjónustu sem stúdentum er veitt á námstímanum. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3805/2003, sem varðaði gjaldtöku vegna inntökuprófa í læknadeild Háskóla Íslands, er bent á að af gildandi lögum um Háskóla Íslands eða lögskýringargögnum verði ekki ráðið að skráningargjaldið lúti beinlínis sömu lögmálum og þjónustugjald. Þannig komi fram í athugasemdum við frumvarpið er varð að lögum nr. 41/1999 að gjaldið komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Þá segi þar að gjaldið sé bókfært hjá yfirstjórn háskólans í samræmi við fjárlög og standi undir hluta kostnaðar við háskólastarfið. Þar megi sem dæmi nefna margvíslega þjónustu sem stúdentum sé veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda, svo sem skráningu þeirra í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um námsferil þeirra, upplýsingar um námsferil sem sendar séu stúdentum þrisvar á hverju háskólaári, auglýsingu og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, kennsluskrá, stúdentaskírteini og þjónustu nemendaskrár, skrifstofu kennslusviðs, deildarskrifstofa, alþjóðaskrifstofu, upplýsingastofu um nám erlendis, námsráðgjafar og bókasafns, og afnot af tölvupósti og prenturum háskólans. Bendir umboðsmaður á að löggjafinn hafi ákveðið að nemendur greiði við skráningu til náms sérstakt gjald sem sæti breytingum við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Í fylgiskjali I með frumvarpi þessu er að finna yfirlit frá Háskóla Íslands yfir þá þjónustu sem gjaldinu er ætlað að ná til.
    Ákvæði gildandi laga um skrásetningargjaldið er skýrt að því marki að ljóst er til hverra það nær og fjárhæðin er einnig ljós. Þegar fjárhæð gjalds er fastákveðin með þessum hætti og gjaldskylda er að öðru leyti skýr er að öðru jöfnu ekki ástæða til að gera greinarmun á því hvort um skatt eða þjónustugjald er að ræða. Hins vegar verður að gera kröfu til þess að skýrar gangi fram í lögunum sjálfum hversu oft gjaldið er kræft og á hvaða tímabilum þar sem lögin heimila sérstakt álag á gjaldið utan auglýstra skrásetningartímabila. Því gerir 1. gr. frumvarpsins ráð fyrir því að skýrt verði kveðið á um í 3. mgr. 13. gr. laganna að skrásetningargjaldið nái til heils skólaárs. Skólaárið er frá 1. júlí til jafnlengdar næsta ár og skiptist það í tvö kennslumissiri: haustmissiri frá 20. ágúst til 21. desember og vormissiri frá 7. janúar til 15. maí sem hefst í ágúst og lýkur í júní. Það leiðir til þess að hefji nemendur nám á vormissiri greiða þeir einungis helming skrásetningargjaldsins.
    Lagt er til að frumvarp þetta, verði það að lögum, öðlist gildi 1. janúar 2005 í samræmi við gildistökudag fjárlaga 2005.



Fylgiskjal I.


Bókfærður kostnaður vegna skrásetningar og tengdrar þjónustu
við stúdenta í Háskóla Íslands.

Heildargjöld
2005
framreiknuð
m.v. 2003
(í þús. kr.)
Gjald 2005
á hvern
nemenda
(m.v. 8.700
greiðendur)
Heildargjöld
2003
(í þús. kr.)
1. Skráning stúdenta í námskeið og próf
    – bókfærð gjöld, Nemendaskrá 24.412 2.806 22.854
    – önnur gjöld (reiknuð), 20% af rekstri deildarskrifstofa 61.489 7.068 57.564
2. Nemendakerfi
    – bókfærð gjöld, nemendakerfi 24.234 2.786 22.687
3. Upplýsingamiðlun og námsráðgjöf
    – bókfærð gjöld, námskynningar og námsráðgjöf 27.129 3.118 25.397
4. Skipulag kennslu og prófa
    – bókfærð gjöld, prófgæsla 19.508 2.242 18.263
5. Framlög til samtaka og stofnana stúdenta
    – bókfærð gjöld 2003, framlag til SHÍ o.fl. 16.521 1.899 15.466
    – bókfærð gjöld 2003, framlag til FS 38.139 4.384 35.704
    – önnur gjöld reiknuð 9.998 1.149 9.360
6. Skrifstofa kennslusviðs
    – reiknuð gjöld 30% af rekstri skrifstofu kennslusviðs 7.559 869 7.076
7. Þjónusta Alþjóðaskrifstofu
    – bókfærð gjöld, Alþjóðaskrifstofa 31.479 3.618 29.469
8. Aðgangur að bókasafni og lesaðstöðu
    – bókfærð gjöld 2003, lesaðstaða í Þjóðarbókhlöðu 14.167 1.628 13.263
    – önnur gjöld reiknuð, aðgangur að gögnum 12.017 1.381 11.250
9. Aðgangur að tölvum, prenturum o.fl.
    – bókfærð gjöld, rekstur tölvuvera 37.361 4.294 34.976
    – önnur gjöld reiknuð 50% af alm. rekstri Reiknistofnunar 52.679 6.055 49.316
10. Aðstaða og stjórnun
    – reiknuð gjöld 12% af liðum 1–9 45.203 5.196 42.317
Samtals kostnaðarliðir skrásetningargjalds 421.896 48.494 352.645
    – þar af sérstaklega bókfærð gjöld 232.950 26.776 218.079
    – þar af reiknuð hlutdeild í öðrum bókfærðum gjöldum 188.945 21.718 176.883
Innheimt skrásetningargjöld 2003 273.424
    – þar af til Félagsstofnunar stúdenta 35.704
Mismunur (kostnaðarliðir – innheimt 2003) 79.221



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Háskóla Íslands,
nr. 41/1999, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að hámarksfjárhæð skrásetningargjalds verði hækkuð úr 32.500 kr. í 45.000 kr. á heilu skólaári. Útgjaldaheimild skólans í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 byggist á þeirri forsendu að skólinn nýti sér heimildina og afli 100 m.kr. meiri tekna sem renni óskertar til hans.