Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 270. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 404  —  270. mál.
Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um diplómatavegabréf.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða reglur gilda um íslensk diplómatavegabréf? Hverjir hafa slík vegabréf og hversu margir?
     2.      Hvaða reglur gilda um diplómatavegabréf annars staðar á Norðurlöndum og eru þingmenn þar og annars staðar í Evrópu með slík vegabréf?


    1. Gildandi reglur um diplómatísk vegabréf, nr. 55/2004, voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda og segir þar í 2. grein:
    Þessir aðilar einir geta fengið diplómatísk vegabréf:
     1.      Forseti Íslands.
     2.      Fyrrverandi forsetar Íslands.
     3.      Forseti Alþingis.
     4.      Hæstaréttardómarar.
     5.      Ráðherrar.
     6.      Biskupinn yfir Íslandi.
     7.      Starfsmenn utanríkisþjónustunnar skv. 1.–5. flokki 8. gr. laga nr. 39/1971 og þeir aðrir starfsmenn hennar sem reglur ráðuneytisins kveða á um.
     8.      Ráðuneytisstjórar.
     9.      Aðstoðarmenn forsætis- og utanríkisráðherra.
     10.      Umboðsmaður Alþingis.
     11.      Ríkisendurskoðandi.
     12.      Ríkissaksóknari.
     13.      Ríkissáttasemjari.
     14.      Ríkislögreglustjóri.
     15.      Ríkislögmaður.
     16.      Aðalbankastjórar Seðlabankans.
     17.      Nánustu fylgdarmenn forseta Íslands, þegar þeir eru í fylgd með forseta.
     18.      Þeir sem gegna meiri háttar trúnaðarstörfum fyrir Ísland, í fjölþjóðlegum ríkjasamtökum.
     19.      Þeir listamenn sem um langt skeið hafa skarað fram úr á alþjóðavettvangi og öðlast hafa heimsfrægð. Ákvörðun er háð samþykki utanríkisráðherra.
     20.      Fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherrar.
     21.      Fyrrverandi starfsmenn utanríkisþjónustunnar úr 1. og 2. flokki, sbr. 8. gr. laga nr. 39/1971, sem látið hafa af störfum fyrir aldurs sakir.
     22.      Makar þeirra sem taldir eru í 1.–21. tölul. og börn þeirra sem taldir eru upp í 7. tölul. en þó að því tilskildu að þau hafi ekki náð 20 ára aldri.
    Alls hafa 465 einstaklingar diplómatavegabréf samkvæmt þessum lista.

    2. Á Norðurlöndum gilda sömu reglur og hér, þ.e. að forsetar þinganna fá diplómatavegabréf, í Noregi og Svíþjóð einnig varaforsetar. Í Svíþjóð fá fulltrúar í utanríkismálanefnd einnig diplómatavegabréf og í Danmörku fá þau einnig þeir þingmenn sem sitja mikið af fundum erlendis, t.d. í Brussel, og þeir sem fara til ríkja þar sem ástand má teljast varhugavert. Aðrir þingmenn fá þjónustuvegabréf (í Noregi sérvegabréf).
    Í Frakklandi, Ítalíu, Bretlandi og Hollandi fá þingmenn ekki diplómatavegabréf. Í Frakklandi munu formenn utanríkismálanefndar og hermálanefndar þó fá diplómatavegabréf og einnig geta franskir þingmenn fengið diplómatavegabréf tímabundið, í undantekningartilvikum.
    Í Grikklandi, Írlandi, Portúgal, Albaníu, Búlgaríu, Serbíu og Svartfjallalandi eiga þingmenn rétt á diplómatavegabréfum. Þingmenn frá Möltu fá ekki diplómatavegabréf nema þeir sem sitja á Evrópuþinginu. Á Spáni geta þingmenn sótt um diplómatavegabréf, en fæstir munu kjósa að gera það.