Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 420  —  1. mál.
Nefndarálitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2005.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.    Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf 27. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.
    Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 32 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila. Fulltrúar frá fjármálaráðuneyti komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfi dags.12. október sl. óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um þá þætti frumvarpsins sem varða málefnasvið hverrar um sig. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umræðu nema samtals 1.741,4 m.kr. til hækkunar á sundurliðun 2.
    Hér verður fyrst gerð grein fyrir meginbreytingum sem varða tekjuhlið frumvarpsins. Þá er gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á sundurliðunum. Að lokum er gerð grein fyrir breytingum sem lagt er til að verði gerðar á 5. gr. frumvarpsins, um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir.
    Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði um 306,4 milljarðar kr. sem er 575,0 m.kr. hækkun frá frumvarpinu. Tekjujöfnuður verður 10.054,6 m.kr. sem er lækkun um 1.166,4 m.kr.
    Meiri hlutinn þakkar fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytis. Einnig hafa einstök ráðuneyti veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

        Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 58,7 m.kr.
201     Alþingi.
        1.01
Alþingiskostnaður. Gerð er tillaga um að veita 4,7 m.kr. framlag til leiðréttingar á verðgrunni þingfararkaups.
        1.04
Alþjóðasamstarf. Gerð er tillaga um 2 m.kr. tímabundna fjárveitingu fyrir hálft stöðugildi á alþjóðasviði í tilefni af óvenjumiklu álagi við alþjóðastarf árið 2005. Alþingi leggur tímabundið til ritara fyrir Norðurskautsnefndina til næstu áramóta og hefur verið ákveðið að framlengja það starf fyrir árið 2005. Ráðstefnuhald verður mikið á næsta ári, m.a. þing Norðurlandaráðs og NATO-þing.
        1.10
Rekstur fasteigna. Gerð er tillaga um 3 m.kr. fjárveitingu til þess að taka á leigu 250 m² geymsluhúsnæði fyrir skjalasafn Alþingis en safnið býr nú við þröngan kost í kjallara í Vonarstræti 8 og fleiri kjöllurum eldri húsa Alþingis þar sem aðstæður eru slæmar.
        6.01
Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til endurgerðar upplýsingakerfa sem upphaflega var fyrirhugað að ljúka að mestu á árinu 2004. Umfang verksins hefur reynst meira en reiknað var með og hefur tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert að tryggja samhæfni nýju kerfanna við gömul kerfi og gömul gögn. Einnig var vinna við nýja tækni við útgáfu þingskjala, birtingu skjala á vef og sjálfvirka útgáfu Alþingistíðinda vanmetin. Nú má búast við að gerð kerfisins ljúki ekki að fullu fyrr en árið 2006 en unnið er að endurmati á verkefninu. Gera má ráð fyrir að setja þurfi 25–35 m.kr. í það árið 2005 til þess að nýta það starf sem unnið hefur verið. Lagt er til að hluti kostnaðarins á árinu 2005 verði fjármagnaður með frestun á fyrirhugaðri endurnýjun annars tölvubúnaðar hjá Alþingi.
             Að auki er gerð tillaga um 9 m.kr. tímabundið framlag til endurnýjunar á tölvum þingmanna.
620     Ríkisendurskoðun.
        1.01
Ríkisendurskoðun. Gerð er tillaga um 25 m.kr. framlag vegna lækkunar sértekna og hækkunar á öðrum rekstrarkostnaði hjá embættinu.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 731,5 m.kr.
201     Háskóli Íslands.
        1.02
Rannsóknir og önnur verkefni. Gerð er tillaga um 4 m.kr. fjárveitingu til Rannsóknastofnunar í næringarfræði sem áætlað er að stofna samkvæmt drögum að samningi Háskóla Íslands, Landspítala – háskólasjúkrahúss og menntamálaráðuneytis. Rannsóknastofa í næringarfræði við HÍ og LSH fékk fjárveitingu á fjárlögum til rannsókna á kúamjólk árin 2001–2004 og var stofan byggð upp kringum rannsóknarverkefni prófessors í næringarfræði.
             Þá er gerð tillaga um 1 m.kr. fjárveitingu til áframhaldandi uppbyggingar fjarnáms í opinberri stjórnsýslu og ýmissar fræðsluþjónustu á sviði opinberrar stjórnsýslu fyrir opinberar stofnanir og sveitarfélög úti um land hjá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við stjórnmálafræðiskor félagsvísindadeildar HÍ.
225     Viðskiptaháskólinn á Bifröst.
        1.02
Rannsóknir og önnur verkefni. Gerð er tillaga um 5 m.kr. framlag til rannsókna við Viðskiptaháskólann á Bifröst.
319     Framhaldsskólar, almennt.
        1.33
Myndlistarskólinn Akureyri. Gerð er tillaga um 2 m.kr. hækkun framlags til Myndlistarskólans á Akureyri.
        1.37
Tónlistarnám. Gerð er tillaga um 37 m.kr. tímabundið framlag í eitt ár vegna kostnaðar ríkissjóðs við tónlistarnám nemenda í framhaldsskólum sem fá tónlistarnámið metið til eininga. Samkvæmt samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga tekur ríkissjóður að sér verkefnið af sveitarfélögunum og verða verkefni sem nema kostnaðinum flutt frá ríki til sveitarfélaga fyrir árslok 2006.
451     Símenntun og fjarkennsla.
        Lagt er til að framlag til símenntunarstöðva á landsbyggðinni verði hækkað og hækka því eftirfarandi níu liðir um 0,5 m.kr. hver:
        1.21 Símenntunarstöð á Vesturlandi.
        1.22
Fræðslumiðstöð Vestfjarða.
        1.23
Farskóli Norðurlands vestra.
        1.24
Símenntunarstöð Eyjafjarðar.
        1.25
Fræðslumiðstöð Þingeyinga.
        1.26
Fræðslunet Austurlands.
        1.27 Fræðslunet Suðurlands.
        1.28
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.
        1.29
Fræðslu- og símenntunarstöð Vestmannaeyja.
872     Lánasjóður íslenskra námsmanna.
        1.01
Lánasjóður íslenskra námsmanna. Gerð er tillaga um 300 m.kr. hækkun á framlögum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna með vísan til kostnaðarmats á frumvarpi til nýrra laga um sjóðinn. Kostnaðurinn felst í því að árleg endurgreiðsla af námslánum lækkar úr 4,75% af útsvarstekjum lántaka í 3,75% af útsvarstekjum og fjármagnstekjum.
901     Fornleifavernd ríkisins.
        1.01
Fornleifavernd ríkisins. Gerð er tillaga um 2 m.kr. tímabundið framlag til að gera úttekt á gagnagrunnum með hliðsjón af þeim kröfum sem Fornleifavernd setur um fornleifaskráningu. Verkefnið er á vegum Fornleifaverndar en staðsett hjá minjaverði Norðurlands vestra á Sauðárkróki.
902     Þjóðminjasafn Íslands.
        1.10
Byggða- og minjasöfn. Gerð er tillaga um 11,5 m.kr. hækkun á liðnum vegna fjögurra verkefna. Í fyrsta lagi er lagt til að Minjasafninu á Akureyri verði veitt 5 m.kr. tímabundið framlag til þverfaglegra rannsókna og kynningar á Gásakaupstað í Eyjafirði. Áætluð verklok eru árið 2006.
             Þá er gerð tillaga um að veita Byggðasafni Skagfirðinga 5 m.kr. tímabundið framlag til verkefnisins „Kolkuós – Kolbeinsárós, höfn og verslunarstaður á miðöldum“.
             Í þriðja lagi er gerð tillaga um að veita Byggðasafni Skagfirðinga 1 m.kr. tímabundið framlag til að koma upp geymslu og rannsóknaraðstöðu í Minjahúsinu á Sauðárkróki þar sem fyrirhugað er að varðveita muni safnsins, forverja þá, rannsaka og skrá. Verkefnið felst í átaki fyrri hluta árs 2005 og verklok eru áætluð í desember sama ár.
             Loks er gerð tillaga um að veita Hinu þingeyska fornleifafélagi 0,5 m.kr. tímabundið framlag til nýsköpunar í ferðaþjónustu og fornleifarannsókna í Suður-Þingeyjarsýslu.
905     Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.
        1.01
Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Gerð er tillaga um 2 m.kr. framlag vegna stofnunar sérstaks stjórnmálasögusafns innan handritadeildar Landsbókasafns – Háskólabókasafns.
909     Blindrabókasafn Íslands.
        1.01
Blindrabókasafn Íslands. Gerð er tillaga um tímabundið 5 m.kr. framlag til Blindrabókasafns Íslands til þess að yfirfæra hljóðbókakost þess á hið stafræna Daisy- hljóðbókaform. Í því er hægt að fletta upp t.d. eftir efnisyfirliti og spila efni hraðar eða hægar eftir þörfum. Safnið hljóðritar nú allt efni sitt á Daisy-formi en flytja þarf eldri hljóðrit safnsins á þetta form. Áætluð verklok eru árið 2007.
919     Söfn, ýmis framlög.
        1.11
Nýlistasafn. Gerð er tillaga um að hækka framlag til Nýlistasafnsins um 3 m.kr.
        1.41
Galdrasýning á Ströndum. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til áframhaldandi uppbyggingar Galdrasýningar á Ströndum. Fyrir liggur að ljúka öðrum áfanga sýningarinnar að Klúku í Bjarnarfirði og opna hann sumarið 2005.
        1.90
Söfn, ýmis framlög. Gerð er tillaga um nýjan safnlið með 10 m.kr. framlagi og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        6.90
Söfn, ýmis stofnkostnaður. Gerð er tillaga um 20,5 m.kr. hækkun á liðnum og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
969     Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður.
        6.21
Endurbætur menningarstofnana. Gerð er tillaga um 5 m.kr. hækkun liðarins og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartilllögum meiri hlutans.
979     Húsafriðunarnefnd.
        6.10
Húsafriðunarsjóður. Gerð er tillaga um 96 m.kr. hækkun á framlögum til Húsafriðunarsjóðs. Þar af eru 86 m.kr. tímabundið framlag til eftirfarandi verkefna:
                  Norska húsið í Stykkishólmi         5 m.kr.
                   Vatneyrarbúð á Patreksfirði         5 m.kr.
                   Duus-hús í Reykjanesbæ         5 m.kr.
                  Borgarkirkja á Mýrum         4 m.kr.
                  Eyrardalsbærinn í Súðavík         4 m.kr.
                  Vélsmiðjan á Þingeyri         4 m.kr.
                  Gamli spítali, Gudmanns Minde, á Akureyri         4 m.kr.
                  Faktorshúsið á Djúpavogi         4 m.kr.
                  Húsavíkurkirkja         4 m.kr.
                  Riis-hús á Borðeyri         4 m.kr.
                   Gamla prestsseturshúsið á Brjánslæk         4 m.kr.
                  Friðbjarnarhús á Akureyri         4 m.kr.
                  Gamla kaupfélagshúsið á Breiðdalsvík         4 m.kr.
                  Framtíðin á Djúpavogi         3 m.kr.
                  Skjaldborgarbíó á Patreksfirði         3 m.kr.
                  Gufubaðið og Smíðahúsið á Laugarvatni         2 m.kr.
                  Neðra pakkhúsið í Englendingavík í Borgarnesi         2 m.kr.
                  Hraunsrétt í Aðaldal         2 m.kr.
                  Herhúsið á Siglufirði         2 m.kr.
                  Skjaldbreið, gömul hlaða við Kálfatjörn         2 m.kr.
                  Brydebúð í Vík         2 m.kr.
                  Kaupvangur á Vopnafirði         2 m.kr.
                  Þingeyrarkirkja í Dýrafirði         2 m.kr.
                  Tryggvaskáli á Selfossi         2 m.kr.
                  Einarshús í Bolungarvík         1 m.kr.
                  Smiðjan á Bíldudal         1 m.kr.
                  Gamla prestssetrið að Útskálum         1 m.kr.
                  Hákarlahjallur í Hamarsbæli á Selströnd         1 m.kr.
                  Kaldilækur í Ólafsvík         1 m.kr.
                  Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson         1 m.kr.
                  Bryggjuhús á Seyðisfirði         1 m.kr.
982     Listir, framlög.
        1.27
Tónlist fyrir alla. Gerð er tillaga um 1 m.kr. hækkun á liðnum.
        1.29
Íslenska tónverkamiðstöðin. Gerð er tillaga um 2 m.kr. tímabundið framlag til skönnunar tónverkasafns miðstöðvarinnar. Verkefnið er komið nokkuð áleiðis, búið er að yfirfæra tæplega 2.000 af ríflega 6.000 verkum á stafrænt form, og með því er tryggð betri geymsla frumgagna með minnkandi umgengni, auðveldari vinnslu og mun auðveldara aðgengi að tónverkum íslenskra tónskálda fyrir áhugasama, hvar sem þeir eru í heiminum. Útlit er fyrir að verkið taki tvö og hálft ár í viðbót.
         1.90 Listir. Gerð er tillaga um 11,7 m.kr. hækkun safnliðarins og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        1.98
Listir, ýmis framlög menntamálaráðuneytis. Gerð er tillaga um að fella liðinn brott.
983     Ýmis fræðistörf.
        1.11
Styrkir til útgáfumála. Gerð er tillaga um 5 m.kr. hækkun liðarins og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        1.23
Hið íslenska bókmenntafélag. Gerð er tillaga um að veita Hinu íslenska bókmenntafélagi 3 m.kr. tímabundið framlag til útgáfu rits Harðar Ágústssonar um Laufásstað við Eyjafjörð. Þetta rit er fyrra bindið af sögu staðarins og fjallar um staðinn sjálfan. Seinna bindið mun fjalla um kirkjur í Laufási.
        1.51
Fræða- og þekkingarsetur. Gerð er tillaga um að veita Þekkingarsetri Þingeyinga 3 m.kr. framlag.
988     Æskulýðsmál.
        1.10
Æskulýðsráð ríkisins. Lagt er til að framlög til Æskulýðsráðs ríkisins hækki um 1 m.kr.
         1.12 Ungmennafélag Íslands. Gerð er tillaga um 12 m.kr. hækkun á framlagi til UMFÍ. Þar af eru 8 m.kr. vegna starfsmanna við þjónustumiðstöðvar á landsbyggðinni.
        1.90
Æskulýðsmál. Gerð er tillaga um 1,6 m.kr. hækkun safnliðarins og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        1.98
Æskulýðsmál, ýmis framlög menntamálaráðuneytis. Lagt er til að liðurinn verði felldur brott.
989     Ýmis íþróttamál.
        1.21 Skáksamband Íslands. Gerð er tillaga um 4 m.kr. hækkun framlaga til Skáksambands Íslands, en sambandið hefur ekki getað staðið við ýmsar mikilvægar skuldbindingar á síðustu árum vegna fjárskorts. Áætlaður kostnaður sambandsins næsta ár er um 30 m.kr. en ný stjórn þess stefnir að því að stórauka styrki frá fyrirtækjum og stofnunum í stað þess að reiða sig alfarið á fjármagn frá hinu opinbera.
             Jafnframt er gerð tillaga um 1 m.kr. tímabundið framlag til átaksverkefnisins „Gerpluskák 2005“ sem ætlað er að byggja upp skákiðkun íslenskra stúlkna og kvenna.
        1.30
Bridgesamband Íslands. Gerð er tillaga um að veita Bridgesambandi Íslands 2,5 m.kr. tímabundið framlag til að taka þátt í Ólympíumóti í bridge sem fram fer í Istanbúl. 1.90 Ýmis íþróttamál. Gerð er tillaga um 6 m.kr. hækkun safnliðarins og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        1.98
Íþróttamál, ýmis framlög menntamálaráðuneytis. Gerð er tillaga um að fella safnliðinn brott.
        6.52
Skíðasvæðið í Tungudal við Skutulsfjörð. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til frekari framkvæmda á skíðasvæði Ísfirðinga í Tungudal.
        6.54
Gaddstaðir. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til áframhaldandi framkvæmda við uppbyggingu á Gaddstaðaflötum á Rangárvöllum.
        6.56
Skíðamannvirki í Skarðsdal, Siglufirði. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til framkvæmda í skíðalandi Siglfirðinga í Skarðsdal.
        6.57
Sparkvellir. Gerð er tillaga um að veita Knattspyrnusambandi Íslands 25 m.kr. tímabundið framlag til þess að ljúka sparkvallaátaki sem hófst á þessu ári. Knattspyrnusamband Evrópu lagði fram 1 milljón svissneskra franka (um 57 m.kr.) til verksins og 30 m.kr. voru veittar á fjárlögum fyrir árið 2004, auk þess sem fjögur fyrirtæki lögðu samtals til 50 m.kr.
999     Ýmislegt.
        1.43
Skriðuklaustur. Gerð er tillaga um 1 m.kr. tímabundið framlag til fornleifarannsókna á Skriðuklaustri. Rannsóknir hafa staðið yfir í þrjú ár, m.a. með styrk úr Kristnihátíðarsjóði. Rústirnar eru umfangsmeiri og betur varðveittar en talið var í fyrstu og ljóst að framlögin úr Kristnihátíðarsjóði nægja ekki til þess að ljúka rannsókninni innan þess tímaramma sem settur hefur verið.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 41,2 m.kr. hækkun safnliðarins og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        1.98
Ýmis framlög menntamálaráðuneytis. Gerð er tillaga um 36,5 m.kr. hækkun safnliðarins.
        6.90
Ýmis stofnkostnaðarframlög. Gerð er tillaga um stofnkostnaðarlið með 101,4 m.kr. fjárveitingu og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.

03 Utanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði aukin um 242,0 m.kr.
101     Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Yfirstjórn. Gerð er tillaga um 8 m.kr. framlag vegna stöðu fulltrúa Íslands í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Gert er ráð fyrir að framlagið lækki í 5 m.kr. í fjárlögum fyrir árið 2006.
        1.02
Varnarmálaskrifstofa. Gerð er tillaga um 8 m.kr. fjárveitingu vegna tímabundinnar ráðningar sérfræðings á varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins. Fjárveitingin er til tveggja ára og lækkar hún í 4 m.kr. seinna árið.
190     Ýmis verkefni.
        1.15
Heimssýning í Aichi í Japan. Lagt er til að veitt verði 57 m.kr. tímabundið framlag til að fjármagna hlut Íslands í heimssýningunni sem haldin verður í Aichi í Japan á næsta ári. Ákveðið hefur verið að Norðurlöndin standi saman að þátttöku í sýningunni og nemur hlutur Íslendinga í kostnaðinum 4%, eða 22 m.kr. Því til viðbótar er 25 m.kr. kostnaður vegna íslenskrar menningarkynningar sem áformuð er á Íslandsdegi heimssýningarinnar 15. júlí 2005. Þar sem lagt verður í talsverðan kostnað við flutninga og ferðir til Japans er ráðgert að nýta tækifærið til að halda menningarkynningu í fleiri borgum þar. Loks er áætlað að kostnaður utanríkisráðuneytisins vegna undirbúnings og framkvæmdar á sýningunni verði um 10 m.kr.
        1.23 Mannréttindamál. Lagt er til að heiti viðfangsefnisins 1.23 breytist úr Mannréttindaskrifstofa Íslands í Mannréttindamál.
201     Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli.
        1.10
Tollgæsla á Keflavíkurflugvelli og 1.20 Löggæsla á Keflavíkurflugvelli. Þau mistök voru gerð í frumvarpinu að setja auknar sértekjur á tvö viðfangsefni, 26,4 m.kr. á viðfangsefnið 1.10 Tollgæsla á Keflavíkurflugvelli og 98,6 m.kr. á viðfangsefnið 1.20 Löggæsla á Keflavíkurflugvelli. Hér er lagt til að þessar auknu sértekjur, 125 m.kr., verði sameinaðar á einu viðfangsefni, 1.30 Öryggisverkefni. Öryggisverkefni eru fjármögnuð með auknum tekjum sem fylgja nýjum loftferðalögum og samningi sýslumannsins við Flugmálastjórn í Keflavík.
        1.30
Öryggisverkefni. Lagt er til að heiti viðfangsefnisins 03-201-1.30 Fíkniefnaeftirlit verði breytt í Öryggisverkefni. Á þetta viðfangsefni er nú færð velta vegna útseldrar þjónustu embættisins við öryggismál til Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Þá er lagt til að millifærðar verði 125 m.kr. sértekjur af viðfangsefnum 201-1.10 og 201-1.20 eins og að framan greinir.
             Lagt er til að útgjaldaheimild embættisins hækki um 125 m.kr. eða um sömu fjárhæð og nemur hækkun sértekna í frumvarpinu, en þar láðist að gera ráð fyrir hækkun útgjalda á móti auknum tekjum. Með breytingum á loftferðalögum sem gerðar voru á sl. vorþingi voru lögð á hærri gjöld til að standa straum af öryggismálum og fleiri þáttum í starfsemi Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Flugmálastjórn verji hluta af þessum mörkuðu skatttekjum sínum, eða 125 m.kr., til að kaupa öryggisþjónustu af embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli samkvæmt sérstökum samningi og kemur sú fjárhæð fram sem auknar sértekjur embættisins. Kostnaðurinn er einkum launakostnaður vegna sólarhringsvaktar í þjónustuhliði, sprengjuleitar í flugvélum, sérstaks starfsmannainngangs auk annars kostnaðar, m.a. við akstur, þjálfun, einkennisfatnað o.fl.
390     Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
        1.11
Þróunaraðstoð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir verulegri hækkun framlaga til þróunarmála í samræmi við sérstaka samþykkt ríkisstjórnarinnar. Lagt er til að fjárveiting til þróunaraðstoðar verði aukin um 22 m.kr. til viðbótar þar sem ákveðið hefur verið að miða þá aukningu við íslenskar krónur fremur en forsendur um gengi erlendrar myntar.
391     Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi.
        1.90
Þróunarmál og hjálparstarfsemi, óskipt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir verulegri hækkun framlaga til þróunarmála í samræmi við sérstaka samþykkt ríkisstjórnarinnar. Lagt er til að fjárveitingin verði aukin um 22 m.kr. til viðbótar þar sem ákveðið hefur verið að miða þá aukningu við íslenskar krónur fremur en forsendur um gengi erlendrar myntar.

04 Landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 58,1 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 9,5 m.kr. hækkun safnliðarins og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
233     Yfirdýralæknir.
        1.01
Yfirdýralæknir. Gerð er tillaga um 2 m.kr. framlag til stöðu dýralæknis á Þórshöfn.
271     Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal.
        1.01
Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal. Gerð er tillaga um 3 m.kr. framlag til Guðbrandsstofnunar við Hólaskóla. Hún er rannsókna- og fræðastofnun sem stofnuð var í júní 2004 en að henni standa Hólaskóli, embætti vígslubiskups á Hólum f.h. þjóðkirkjunnar og Háskóli Íslands. Markmið stofnunarinnar er að treysta þekkingu á sviði ýmissa fræðigreina sem tengjast Hólum og hún hyggst í fyrstu leggja áherslu á að veita fræði- og listamönnum aðstöðu til að stunda rannsóknir, vinna að list sinni og miðla henni á Hólastað.
311     Landgræðsla ríkisins.
        1.90
Fyrirhleðslur. Gerð er tillaga um 11,6 m.kr. hækkun á fjárveitingum til fyrirhleðslna og er sundurliðun sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
331     Héraðsskógar.
        6.41
Gagnagrunnur um skógrækt. Gerð er tillaga um 2 m.kr. tímabundið framlag til gerðar gagnagrunns um skógrækt sem unnið hefur verið að síðustu þrjú ár í samstarfi við önnur landshlutabundin skógræktarverkefni, Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Íslands. Gagnagrunnurinn mun nýtast til skipulagningar og skráningar allra skógræktarframkvæmda í landinu.
891     Sérstakar greiðslur í landbúnaði.
        1.14
Átak í hrossarækt. Gerð er tillaga um 25 m.kr. tímabundið framlag til fimm ára til að vinna að þróunarverkefni í hrossarækt og hestamennsku, en tilgangur verkefnisins er að efla markaðssókn og ræktun íslenska hestsins. Með verkefninu er fyrirhugað að fylgja eftir þeim mikla árangri sem náðst hefur á undanförnum árum í aukinni fagmennsku í hrossarækt og þjálfun íslenska hestsins.
996     Íslenska upplýsingasamfélagið.
        6.51
Íslenska upplýsingasamfélagið. Gerð er tillaga um 5 m.kr. fjárveitingu á liðnum vegna verkefnisins Upplýsingatækni í dreifbýli sem er átaksverkefni á vegum landbúnaðarráðuneytisins um tölvu- og tæknivæðingu til sveita. Árleg velta verkefnisins er rúmlega 20 m.kr.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 3,0 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.21
Fiskifélag Íslands, sjóvinnukennsla. Gerð er tillaga um 3 m.kr. framlag til sjóvinnukennslu nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla á landinu öllu.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 47,3 m.kr.
102     Stjórnartíðindi.
        1.01
Stjórnartíðindi. Lagt er til að fjármögnunarliðurinn Greitt úr ríkissjóði hækki um 11,1 m.kr. Þetta er leiðrétting á framsetningu sem hefur ekki áhrif á fjárheimild Stjórnartíðinda. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sértekjur útgáfunnar verði 11,1 m.kr. umfram útgjöld þar sem kostnaður lækkar við það að efni verður miðlað á netinu og prentun verður hætt. Í frumvarpinu hefur tekjuafgangurinn jafnframt verið færður sem greiðsla í ríkissjóð en sá liður hefði átt að standa óbreyttur og er tillagan gerð til að leiðrétta það. Við það breytist framsetningin þannig að fram kemur viðskiptahreyfing hjá útgáfunni á meðan greiddur verður niður halli fyrri ára og stofnkostnaður við rafræna miðlun. Að því loknu er fyrirhugað að gjaldskrá fyrir birtingu efnis í Stjórnartíðindum verði lækkuð þannig að tekjur og gjöld verði í jafnvægi.
190     Ýmis verkefni.
        1.27
Slysavarnafélagið Landsbjörg. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til stækkunar og eflingar björgunarskipaflota Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
        1.46
Íslenskukennsla fyrir útlendinga. Lagt er til að veitt verði 5 m.kr. tímabundið framlag í eitt ár til að móta kröfur um námskeið í íslensku fyrir útlendinga sem sækja um búsetuleyfi samkvæmt lögum um útlendinga. Verkefnið tekur m.a. til námsefnis, námskrár, kennslufyrirkomulags og fræðslu fyrir íslenskukennara og verður unnið í samvinnu við menntamálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og stofnanir á þeirra vegum.
        1.82
Biblíuþýðingar. Gerð er tillaga um að veita Hinu íslenska biblíufélagi 2 m.kr. tímabundið framlag til nýrrar Biblíuþýðingar.
303     Ríkislögreglustjóri.
        1.01
Ríkislögreglustjóri. Lagt er til að veitt verði tímabundið framlag að fjárhæð 19,5 m.kr. til vinnslu og endurskoðunar viðbragðsáætlana vegna hugsanlegs goss í Mýrdals- eða Eyjafjallajökli. Rannsóknir síðustu mánaða, sem byggjast á sérstakri fjárveitingu frá sumrinu 2003, benda til að óhjákvæmilegt sé að breyta hættumati og marka nýtt áhættusvæði. Ekki eru taldar miklar líkur á að flóð vegna eldgoss í Kötlu fari niður Markarfljót og til sjávar, en þó eru möguleikar á því samkvæmt rannsóknunum. Viðbragðsáætlanir eru ekki til vegna slíkra flóða og er talið brýnt að bæta úr því. Heildarkostnaður við gerð viðbragðs- og rýmingaráætlana, kynningu, þjálfun o.fl. er áætlaður 44 m.kr. og þar af falla til 19,5 m.kr. á næsta ári.
325     Neyðarsímsvörun.
        1.10
Neyðarsímsvörun. Lagt er til að veittar verði 2,3 m.kr. til Neyðarlínunnar vegna endurnýjunar samnings um þjónustu þyrlulækna. Landspítali – háskólasjúkrahús sagði upp samkomulagi við dómsmálaráðuneytið um umsjón og stjórn þyrluvaktar lækna, símaráðgjöf fyrir sjófarendur og læknisfræðilega forsjá Neyðarlínu í upphafi þessa árs. Í kjölfarið var ráðist í endurskoðun á skipulagi og þjónustu á þessu sviði.
395     Landhelgisgæsla Íslands.
        1.90
Landhelgisgæsla Íslands. Lagt er til að veittar verði 7 m.kr. til Landhelgisgæslu Íslands vegna endurnýjunar samnings um þjónustu þyrlulækna. Landspítali – háskólasjúkrahús sagði upp samkomulagi við dómsmálaráðuneytið um umsjón og stjórn þyrluvaktar lækna, símaráðgjöf fyrir sjófarendur og læknisfræðilega forsjá Neyðarlínu í upphafi þessa árs. Í kjölfarið var ráðist í endurskoðun á skipulagi og þjónustu á þessu sviði.
432     Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum.
        1.40
Tollgæsla. Gerð er tillaga um 1 m.kr. framlag til fíkniefnavarna í Vestmannaeyjum.
701     Þjóðkirkjan.
        1.15
Kirkjumiðstöðvar. Gerð er tillaga um 1 m.kr. framlag til reksturs kirkjumiðstöðvar á Akureyri sem hugsuð er sem alhliða þjónustumiðstöð kirkjunnar fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Þingeyjarsýslu.
        6.23
Hóladómkirkja. Gerð er tillaga um 2,3 m.kr. hækkun framlaga til að standa undir nauðsynlegum endurbótum og viðhaldi á mannvirkjum Hóladómkirkju.
        6.26
Auðunarstofa. Lagt er til að 10,8 m.kr. framlag til Auðunarstofu verði fellt niður þar sem meginframkvæmdum við hana er lokið.
        6.28
Þingeyraklausturskirkja. Gerð er tillaga um 3 m.kr. framlag til byggingar þjónustuhúss við Þingeyraklausturskirkju. Framkvæmdir eru ekki hafnar vegna síðbúins frágangs á teikningum en verkið er nú í útboði.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 587,4 m.kr.
331     Vinnueftirlit ríkisins.
        1.01
Vinnueftirlit ríkisins. Gerð er tillaga um 35 m.kr. viðbótarfjárheimild til Vinnueftirlits ríkisins. Með breytingunni verða framlög úr ríkissjóði jafnmikil og markaðar tekjur af hlutdeild í tryggingagjaldi til Vinnueftirlitsins, en þær tekjur voru afnumdar um síðustu áramót. Útgjöld Vinnueftirlitsins hafa aukist vegna framkvæmda á Austurlandi og hefur fjölgað um tvö störf hjá stofnuninni vegna þess. Þá hafa verkefni við skráningu og úrvinnslu gagna um vinnuslys og atvinnusjúkdóma aukist auk eftirlits með vélum, tækjum og hættulegum efnum.
703     Málefni fatlaðra, Vesturlandi.
        1.30
Dagvist og verndaðir vinnustaðir. Gerð er tillaga um 1 m.kr. framlag til Fjöliðjunnar á Akranesi.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.10
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir 45 m.kr. hækkun á fjárheimild í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðin framlög af skatttekjum og útsvarsstofni árið 2005. Spáin miðast við að skatttekjur verði 273.057 m.kr. á næsta ári.
989     Fæðingarorlof.
        1.11
Fæðingarorlofssjóður. Lagt er til að framlag til Fæðingarorlofssjóðs hækki um 480 m.kr. frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um þróun útgjalda það sem af er árinu 2004. Með nýjum lögum um starfsemi Fæðingarorlofssjóðs er gert ráð fyrir að útgjöld sjóðsins hækki ekki eins mikið og á þessu ári.
        1.13
Foreldrar utan vinnumarkaðar. Lagt er til að framlag til Fæðingarorlofssjóðs vegna greiðslna til foreldra utan vinnumarkaðar hækki um 21 m.kr. frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Útgjöld hafa verið endurmetin í ljósi þróunar útgjalda það sem af er árinu 2004.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.31
Félagasamtök, styrkir. Gerð er tillaga um 3,1 m.kr. lækkun safnliðarins.
        1.41
Stígamót. Lagt er til að framlög til Stígamóta hækki um 2 m.kr.
        1.48
Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum. Lagt er til að Fjölmenningarsetri á Vestfjörðum verði veitt 2 m.kr. framlag til þess að hægt verði að halda áfram upplýsingaþjónustu setursins í síma á pólsku, serbnesku/króatísku og taílensku. Þjónustan var í upphafi fjármögnuð með styrkjum og var stærsti styrkurinn úr Sérverkefnasjóði Rauða kross Íslands.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 6,5 m.kr. hækkun safnliðarins og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        1.98
Ýmis framlög félagsmálaráðuneytis. Gerð er tillaga um 2 m.kr. lækkun safnliðarins.


08
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 56,6 m.kr.
209     Sjúklingatryggingar.
        1.11
Sjúklingatryggingar. Lagt er til að framlag til sjúklingatrygginga hækki um 30 m.kr. en í frumvarpinu er gert ráð fyrir 28,1 m.kr. útgjöldum. Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2004 er gert ráð fyrir að útgjöld sjúklingatrygginga verði um 50 m.kr. Tilkynntum málum hefur farið ört fjölgandi en þau voru tæplega 50 árið 2003 og stefna í 100 á þessu ári. Nokkur óvissa er um útgjöldin frá ári til árs vegna breytinga á fjölda mála og bótafjárhæðum.
305     Lýðheilsustöð.
        1.01
Lýðheilsustöð. Lagt er til að 10 m.kr. fjárveiting vegna Geðræktar verði millifærð yfir til Lýðheilsustöðvar af lið 08-399-1.98. Framlagið kom inn við 2. umræðu um fjárlög fyrir árið 2004. Verkefnið átti upphaflega að standa yfir í þrjú ár, frá október 2000 til jafnlengdar 2003. Áformað er að festa verkefnið í sessi, en það er samstarfsverkefni landlæknisembættisins, heilsugæslunnar í Reykjavík og geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss.
373     Landspítali – háskólasjúkrahús.
        1.01
Landspítali – háskólasjúkrahús. Lagt er til að 76 m.kr. verði millifærðar af fjárlagalið 08-379 Sjúkrahús, óskipt á þennan lið til reksturs sérhæfðrar öryggisgeðdeildar fyrir alvarlega geðsjúka. Að tillögu sérfræðinga á þessu sviði hefur verið ákveðið að sérhæfð öryggisgeðdeild verði staðsett á Kleppi. Miðað er við að rekstur deildarinnar hefjist 1. janúar 2005. Áætlað er að rekstur hennar kosti 76 m.kr. á ári og er lagt til að sú fjárhæð verði millifærð á þennan fjárlagalið þar sem ákvörðun um staðsetningu öryggisgeðdeildarinnar lá ekki fyrir á fyrri stigum fjárlagagerðar.
379     Sjúkrahús, óskipt.
        1.01
Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa. Gerð er tillaga um 20 m.kr. hækkun á liðnum.
             Einnig er lagt til að 76 m.kr. verði millifærðar af þessum lið á fjárlagalið 08-373 Landspítali – háskólasjúkrahús til reksturs sérhæfðrar öryggisgeðdeildar fyrir alvarlega geðsjúka eins og að framan greinir.
        6.50 Stofnframkvæmdir vegna endurskipulagningar. Gerð er tillaga um að millifæra 55 m.kr. af þessum lið á lið 08-381 Sjúkrahús og læknisbústaðir.
381     Sjúkrahús og læknisbústaðir.
        6.90
Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Gerð er tillaga um að millifæra 55 m.kr. á þennan lið af liðnum 08-379-6.50. Sundurliðun liðarins er sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi.
        1.15
Nefnd um gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði. Lagt er til að 25 m.kr. fjárheimild nefndar um gerð og starfsrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði verði felld niður þar sem verkefni nefndarinnar er lokið. Jafnframt eru felldar niður jafnháar rekstrartekjur á tekjuhlið ríkissjóðs.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 18,9 m.kr. hækkun safnliðarins um leið og liður 399-1.98 lækkar um sömu fjárhæð. Sundurliðun er sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        1.98
Ýmis framlög heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Lagt er til að 10 m.kr. fjárveiting vegna Geðræktar verði millifærð af þessum lið yfir til Lýðheilsustöðvar. Framlagið kom inn við 2. umræðu um fjárlög fyrir árið 2004. Verkefnið var í upphafi ætlað til þriggja ára frá október 2000 til jafnlengdar 2003. Áformað er að festa verkefnið í sessi, en það er samstarfsverkefni landlæknisembættisins, heilsugæslunnar í Reykjavík og geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss.
             Jafnframt er lagt til að safnliðurinn lækki um 18,9 m.kr. og að liður 399-1.90 hækki um sömu fjárhæð.
401     Hjúkrunarheimili, almennt.
        1.01
Hjúkrunarheimili, almennt og 1.83 Greiðslur frá vistmönnum. Lagt er til að framlag í fjárlögum og þátttaka vistmanna í daggjaldi hjúkrunarheimila verði hækkuð um 60 m.kr. til samræmis við greiðslur vistmanna. Áformað er að nýta framlagið til að fjölga hjúkrunarrýmum og rýmum fyrir hvíldarinnlagnir. Breytingin hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem tekjur og gjöld hækka. Fjárheimildin færist á viðfangsefnið 1.01 Hjúkrunarheimili, almennt en sértekjurnar frá vistmönnum færast á viðfangsefnið 1.83 Greiðslur frá vistmönnum.
491     Reykjalundur, Mosfellsbæ.
        1.10
Reykjalundur, Mosfellsbæ. Gerð er tillaga um 31,6 m.kr. hækkun framlags vegna leiðréttingar á útreikningi verðbóta samkvæmt þjónustusamningi við Reykjalund.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði lækkuð um 237,5 m.kr.
402     Fasteignamat ríkisins.
        1.01
Fasteignamat ríkisins. Lagt er til að framlag til reksturs stofnunarinnar hækki um 52,5 m.kr. tímabundið næstu fjögur árin. Framlagið er fjármagnað með umsýslugjaldi. Samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, er gert ráð fyrir að umsýslugjald verði framlengt til ársins 2008. Er hækkun útgjalda háð framlengingu gjaldsins. Bein greiðsla úr ríkissjóði lækkar hins vegar um 127,5 m.kr. þar sem gert er ráð fyrir áframhaldandi tekjum af umsýslugjaldi.
        6.02
Landskrá fasteigna. Lagt er til að veitt verði 100 m.kr. framlag tímabundið næstu fjögur árin til áframhaldandi uppbyggingar Landskrár fasteigna, en tímabundið framlag til landskrárinnar var fellt niður í frumvarpinu. Samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, sem hefur verið lagt fram Alþingi, er gert ráð fyrir áframhaldandi álagningu umsýslugjalds til ársins 2008. Er hækkun útgjalda háð framlengingu gjaldsins.
811     Barnabætur.
        1.11
Barnabætur. Gerð er tillaga um 170 m.kr. hækkun á fjárheimild til greiðslu barnabóta. Framlög til barnabóta hafa verið endurskoðuð í ljósi útgjalda á þessu ári og áætlana um þróun tekna og bóta á næsta ári. Leiðir sú endurskoðun til 170 m.kr. hækkunar og er áætlað að barnabætur nemi samtals 5.600 m.kr. á næsta ári.
989     Launa- og verðlagsmál.
        1.90
Launa- og verðlagsmál. Gert er ráð fyrir að fjárheimild til að mæta breytingum á almennum forsendum frumvarpsins eftir afgreiðslu þess lækki um 560 m.kr. og verði 2.140 m.kr.

10 Samgönguráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 16,8 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.35
Átak í umferðaröryggismálum. Lagt er til að forgangsröðun í frumvarpinu verði breytt þannig að 100 m.kr. verði færðar tímabundið í eitt ár frá Hafnabótasjóði, 10-336- 6.70 Hafnamannvirki, á þennan lið til viðbótar 50 m.kr. í frumvarpinu. Samgönguráðuneytið hyggst nota framlagið til þess að gera átak í umferðaröryggismálum með samræmdum aðgerðum Umferðarstofu og Vegagerðarinnar, ásamt embætti ríkislögreglustjóra. Gert er ráð fyrir að hluti þessa fjármagns renni til kaupa á tæknibúnaði.
        1.42
Gestastofur, söfn og markaðsstarf. Gerð er tillaga um 7 m.kr. hækkun á óskiptum lið og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        6.42
Ferðamannaaðstaða við ferjuhafnir. Gerð er tillaga um 6 m.kr. framlag til framkvæmda við bílastæði við ferjuhöfnina á Seyðisfirði.
335     Siglingastofnun Íslands.
        1.01
Yfirstjórn og 6.01 Tæki og búnaður. Lagt er til að 15 m.kr. fjárheimild verði færð af tækja- og búnaðarkaupalið Siglingastofnunar yfir á rekstur vegna aukinna verkefna.
336     Hafnabótasjóður.
        6.70
Hafnamannvirki. Lagt er til að forgangsröðun í frumvapinu verði breytt þannig að 100 m.kr. verði færðar tímabundið í eitt ár af þessum lið á fjárlagalið 10-190-1.35 Átak í umferðaröryggismálum, eins og að framan greinir.
        6.74
Lendingabætur. Gerð er tillaga um 1 m.kr. hækkun á liðnum en sundurliðun hans er sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
471     Rekstur Flugmálastjórnar.
        1.81
Framlag Íslands vegna samnings við Alþjóðaflugmálastofnunina, ICAO. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna Alþjóðaflugþjónustunnar hækki milli ára og því er gert ráð fyrir að 5% kostnaðarhlutdeild hækki um 2,8 m.kr., úr 93,7 m.kr. í 96,5 m.kr.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 53,0 m.kr.
201     Iðntæknistofnun Íslands.
        1.01
Iðntæknistofnun Íslands. Lagt er til að millifærð verði 1,6 m.kr. fjárheimild af liðnum 11-299-1.50 Nýsköpun og markaðsmál til Iðntæknistofnunar vegna aukins kostnaðar við húsaleigu Impru á Akureyri.
251     Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.
        1.10
Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Lögð er til tímabundin hækkun að fjárhæð 50 m.kr. á framlagi til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Veitt hafa verið vilyrði fyrir endurgreiðslum sem nema hærri fjárhæð en nemur fjárheimild í frumvarpinu. Er því lagt til að framlagið hækki úr 75 m.kr. í 125 m.kr. sem á að nægja, ásamt eftirstöðvum frá fyrri árum, til að staðið verði við þau vilyrði.
299     Iðja og iðnaður, framlög.
        1.50
Nýsköpun og markaðsmál. Gerð er tillaga um þrjár millifærslur af þessum lið sem nema alls 19,5 m.kr. Í fyrsta lagi er lagt er til að millifærðar verði 1,6 m.kr. á liðinn 11- 201-1.01 Iðntæknistofnun vegna aukins kostnaðar við húsaleigu Impru á Akureyri.
             Þá er lagt til að millfærðar verði 2,1 m.kr. á liðinn 11-301-1.01 Orkustofnun vegna aukins húsnæðiskostnaðar á Akureyri.
             Loks er lagt að millifærðar verði 15,8 m.kr. á nýjan lið, 11-399-1.22 Vistvænir orkugjafar. Er ætlunin að halda áfram að vinna að nýtingu vetnis sem orkugjafa og að Ísland geti verið þar í fararbroddi.
301     Orkustofnun.
        1.01
Almennur rekstur. Lagt er til að millifærðar verði 2,1 m.kr. til Orkustofnunar af liðnum 11-299-1.50 Nýsköpun og markaðsmál vegna aukins húsnæðiskostnaðar Orkustofnunar á Akureyri.
371     Orkusjóður.
        1.23
Notendur utan samveitna. Lagt er til að liðurinn 11-399-1.18 Hitaveitur á köldum svæðum verði felldur niður og 5 m.kr. fjárheimild flutt á þennan lið. Notendur utan samveitna og verður fjárveiting á þeim lið þá samtals 7 m.kr. Er fjárhæðin ætluð til notenda á Hólsfjöllum en kostnaður vegna rafstöðva hefur aukist þar á sl. árum. Er svo komið að safnast hefur skuld hjá Rarik, alls um 12 m.kr., vegna þessa. Ætlunin er að nýta fjárheimildina til greiðslu skuldarinnar, sem og til að aðstoða við að leysa vanda íbúanna til langframa, t.d. með virkjun.
399     Ýmis orkumál.
        1.18
Hitaveitur á köldum svæðum. Lagt er til að liðurinn verði felldur niður eins og að framan greinir og 5 m.kr. fjárheimild flutt á liðinn 11-371-1.23 Notendur utan samveitna .
        1.22
Vistvænir orkugjafar. Lagt er til að millifærðar verði 15,8 m.kr. af liðnum 11-299- 150 Nýsköpun og markaðsmál á þennan nýja lið. Er ætlunin að nýta fjárheimildina til að halda áfram að vinna að nýtingu vetnis sem orkugjafa og að Ísland geti verið þar í fararbroddi.
411     Byggðastofnun.
        1.11
Atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni. Gerð er tillaga um 3 m.kr. framlag til atvinnufulltrúa Þingeyinga.

12 Viðskiptaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild viðskiptaráðuneytis verði aukin um 5,0 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.15
Fastanefndir. Lagt er til að veitt verði 5 m.kr. tímabundið framlag í eitt ár vegna vinnu áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Úrskurði samkeppnisráðs í máli olíufélaganna hefur verið áfrýjað til nefndarinnar og er ljóst að starf hennar mun verða umfangsmikið. Ætlunin er m.a. að ráða starfsmann til nefndarinnar tímabundið í þrjá mánuði.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 119,5 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.61
Úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál. Gerð er tillaga um 6 m.kr. fjárveitingu til að styrkja rekstrargrunn úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál. Viðvarandi rekstrarhalli hefur verið á nefndinni á umliðnum árum. Nauðsynlegt er að hún geti haldið óbreyttum starfsmannafjölda til að mál fái afgreiðslu innan eðlilegs tíma. Umboðsmaður Alþingis hefur átalið hve langan tíma það hefur tekið að fá úrskurði frá nefndinni og hefur mælst til þess að á því verði ráðin bót. Gert er ráð fyrir að uppsafnaður halli á þessu ári verði gerður upp í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004.
        1.90
Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 4,5 m.kr. tímabundna hækkun safnliðarins og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
202     Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn.
        1.01
Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn. Gerð er tillaga um hækkun framlaga vegna þess að 3,0 m.kr. sértekjur stöðvarinnar við Mývatn falla niður. Þar sem Kísiliðjan hættir rekstri fellur námagjald vegna kísilgúrtöku í vatninu niður. Námagjaldið hefur runnið að hluta til stöðvarinnar og staðið undir helmingi kostnaðar við vöktun Mývatns.
211     Umhverfisstofnun.
        1.01
Umhverfisstofnun. Lagt er til að veitt verði tímabundin 15 m.kr. fjárveiting til fjögurra ára vegna náttúruverndaráætlunar 2004–2008 og til friðlýsingar á þeim 14 svæðum sem áætlunin tekur til. Með náttúruverndaráætluninni er lagður grundvöllur að markvissari verndun náttúru Íslands en áður hefur tíðkast. Markar hún fyrsta skrefið í þá átt að koma á fót skipulögðu neti verndarsvæða hér á landi sem byggist annars vegar á vísindalegum gagnagrunni um náttúru Íslands og hins vegar á faglegu mati á verndargildi þeirra.
             Jafnframt er gerð tillaga um tímabundna 6 m.kr. fjárveitingu til Umhverfisstofnunar til að gera verndaráætlun fyrir Mývatn, Laxá og nálæg votlendissvæði og Skútustaðahrepp ásamt því að hefja undirbúning að friðlýsingu þeirra landsvæða sem mikilvægt er að vernda. Er það í samræmi við lög nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, sem leysa af hólmi eldri lög um verndun þessara svæða.
        5.41
Þjóðgarðar og friðlýst svæði. Gerð er tillaga um tímabundna 25 m.kr. fjárveitingu til þriggja ára til uppbyggingar á miðstöðvum í Þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.
310     Landmælingar Íslands.
        1.01
Landmælingar Íslands. Gerð er tillaga um 14 m.kr. framlag til Landmælinga Íslands til að viðhalda IS 50V kortagrunni sem gerður hefur verið af öllu Íslandi. Ríkisstjórnin ákvað árið 1998 að hrinda IS 50V verkefninu af stað vegna mikilvægis þess fyrir kortagerð af landinu. Gerð kortagrunnsins hefur verið stærsta verkefni stofnunarinnar í sex ár og er hann nú hryggsúlan í allri kortagerð stofnunarinnar. Fjárveitingar til stafræna kortagrunnsins voru í upphafi ákveðnar til fimm ára en stafrænn kortagrunnur er þess eðlis að ef honum er ekki haldið við með nýjum upplýsingum þá tapast fjárfestingin á stuttum tíma.
401     Náttúrufræðistofnun Íslands.
        1.02
Setur í Reykjavík. Lagt er til að Náttúrufræðistofnun Íslands verði veitt 5 m.kr. tímabundið framlag til gerðar jarðfræði- og vistgerðakorta af landinu.
403     Náttúrustofur.
        
Gerð er tillaga um að veita sérhverri af eftirfarandi náttúrustofum 5 m.kr. tímabundið framlag til rannsóknarverkefna:
        1.10
Náttúrustofa Neskaupstað.
        1.11
Náttúrustofa Vestmannaeyjum.
        1.12
Náttúrustofa Bolungarvík.
        1.13
Náttúrustofa Stykkishólmi.
        1.14
Náttúrustofa Sauðárkróki.
        1.15
Náttúrustofa Sandgerði.
        1.16
Náttúrustofa Húsavík.
410     Veðurstofa Íslands.
        1.01
Almenn starfsemi. Lögð er til 6 m.kr. hækkun á fjárveitingu til Veðurstofu Íslands vegna vöktunar á Mýrdalsjökli og við eldstöðina Kötlu. Kemur fjárveitingin til viðbótar 11 m.kr. framlagi í frumvarpinu og verður samtals 17 m.kr. Er þá meðtalinn kostnaður annarra stofnana sem taka þátt í vöktuninni, en Veðurstofan hefur umsjón með verkefninu.SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGU
VIÐ SUNDURLIÐUN 4 (C-HLUTA)


42 Menntamálaráðuneyti

872    Lánasjóður íslenskra námsmanna.
        Lögð er til breyting á fjármögnun Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Framlag úr ríkissjóði hækkar um 300 m.kr. en á móti lækka innheimtar afborganir veittra lána um sömu fjárhæð. Er tillagan í samræmi við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem lagt hefur verið fram á Alþingi.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGU VIÐ 5. GR.

    Lagt er til að ríkissjóður fái heimild til að endurlána allt að 150 m.kr. til Alþjóðaflugþjónustunnar vegna framkvæmda og reksturs árið 2005 sem láðist að taka tillit til við undirbúning frumvarpsins. Í fjárlögum fyrir árið 2004 er heimild til 200 m.kr. lántöku, en Alþjóðaflugþjónustan var flutt úr B-hluta fjárlaga í A-hluta í fjárlagafrumvarpinu.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 22. nóv. 2004.Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Drífa Hjartardóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Birkir J. Jónsson.


Birgir Ármannsson.Fylgiskjal I.Álit

um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2005, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, hefur nefndin fjallað um 1. gr. fjárlagafrumvarps fyrir árið 2003, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.
    Til að ræða tekjugrein frumvarpsins fékk nefndin Fjólu Agnarsdóttur frá fjármálaráðuneytinu á sinn fund. Áður hafði nefndin fengið fleiri gesti frá ráðuneytinu til að ræða þjóðhagsspá og aðrar forsendur fjárlaga.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 eru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 293.411 milljarðar kr. á greiðslugrunni og 305.807 milljarðar kr. á rekstrargrunni. Við athugun nefndarinnar á tekjugrein frumvarpsins kom fram að nú er gert ráð fyrir hækkun á henni sem nemur samtals 575 millj. kr. Þessi breyting verður að teljast innan skekkjumarka. Umsýslugjald til Fasteignamatsins verður framlengt samkvæmt frumvarpi um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, sem fjármálaráðherra hefur lagt fram. Áformað er að tekjur af gjaldinu verði 280 millj. kr. og þær notaðar til áframhaldandi uppbyggingar Landsskrár fasteigna hjá Fasteignamati ríkisins. Tekjur af bifreiðagjöldum og ýmsum aukatekjum ríkissjóðs hækka skatta á vörur og þjónustu um 320 millj. kr. Gjald vegna eftirlits með starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði, sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu, verður fellt niður þar sem verkefninu er lokið. Fjárveiting til verkefnisins á gjaldahlið frumvarpsins sem fjármögnuð er með gjaldinu fellur jafnframt niður. Þetta lækkar ýmsar tekjur um 25 millj. kr.
    Spá um þjóðhagsforsendur hefur ekki verið breytt frá framlagningu frumvarpsins.
    Við meðferð málsins var rætt að nefndin ætti líkt og aðrar fastanefndir að taka til athugunar þá kafla frumvarpsins sem fjalla um málefnasvið hennar. Samþykktu nefndarmenn að sú meðferð málsins verði skoðuð í samvinnu við fjárlaganefnd fyrir næsta þing.
    Minni hlutinn óskaði eftir að tekjugrein fjárlagafrumvarpsins yrði send til umsagnar hjá aðilum utan þingsins. Mun minni hlutinn láta gera það ásamt því sem nefndin í heild mun fara nánar yfir forsendur þjóðhagsspár óháð þessu áliti.
    Meiri hlutinn gerir ekki aðrar athugasemdir við greinina fyrir 2. umræðu málsins.

Alþingi, 23. nóv. 2004.Pétur H. Blöndal, form.


Þórarinn E. Sveinsson.


Birgir Ármannsson.


Drífa Hjartardóttir.


Siv Friðleifsdóttir.


Fylgiskjal II.


     Álit


um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2005, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Minni hlutinn átelur þau vinnubrögð sem höfð hafa verið uppi í nefndinni við afgreiðslu á tekjugrein fjárlagafrumvarpsins og telur að miklu ítarlegri skoðun verði að fara fram á tekjugreininni en tekjugreinin var fyrst tekin til umræðu í nefndinni í dag, 23. nóvember. Minni hlutinn hefur farið fram á að tekjugreinin verði send Seðlabanka Íslands, Hagdeild ASÍ og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til umsagnar. Þá telur minni hlutinn það annmarka á fjárlagagerðinni að ný þjóðhagsspá liggi ekki fyrir við endanlega afgreiðslu málsins og leggur til að í það minnsta tekjugrein frumvarpsins verði skoðuð nánar fyrir 3. umræðu í ljósi nýrra forsendna sem kunna að koma fram í spá Seðlabanka Íslands í byrjun desember nk. Einnig þarf að skoða nánar nýtt skattalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og áhrif þess á tekjuhliðina.
    Minni hlutinn mun skila framhaldsáliti til fjárlaganefndar fyrir 3. umræðu fjárlaga þegar framangreind álit liggja fyrir.
    Einar Már Sigurðarson sat fund nefndarinnar við afgreiðslu málsins í stað Lúðvíks Bergvinssonar og skrifar hann undir álit þetta með fyrirvara þar sem hann á sæti í fjárlaganefnd.
    Gunnar Örlygsson sem situr fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi lýsir sig samþykkan áliti þessu.
    Minni hlutinn býðst til að koma fyrir fjárlaganefnd og skýra sjónarmið sín fyrir 3. umræðu en telur ekki forsendur til að koma fyrir nefndina á þessu stigi.

Alþingi, 23. nóv. 2004.Jóhanna Sigurðardóttir,


Einar Már Sigurðarson,     með fyrirvara.


Álfheiður Ingadóttir.


Össur Skarphéðinsson.Fylgiskjal III.Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (01 Forsætisráðuneyti og 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. október 2004.
    Á fund nefndarinnar komu Óðinn H. Jónsson frá forsætisráðuneyti og Stefán Eiríksson og Ásdís Ingibjargardóttir frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Heildargjöld forsætisráðuneytis árið 2005 eru áætluð um 1.160 millj. kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð tæpar 26 millj. kr. en þær nema 2,2% af heildargjöldum ráðuneytisins. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 651 millj. kr. og lækka um 10 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs, en um 30,4 millj. kr. að frátöldum launa- og verðlagsbótum. Heildargjöld dóms- og kirkjumálaráðuneytis árið 2005 eru áætluð um 16.509 millj. kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 668 millj. kr. en þær nema um 4% af heildargjöldum ráðuneytisins. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 12.438 millj. kr. og hækka um 633,7 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs, en þar af eru launa- og verðlagshækkanir um 403 millj. kr. Mest munar um 147,5 millj. kr. hækkun vegna eflingar sérsveitar.
    Í þeim kafla frumvarpsins sem fjallar um dóms- og kirkjumálaráðuneyti er sérstakur kafli helgaður Landhelgisgæslunni. Eins og í sambærilegu áliti allsherjarnefndar til fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004 fagnar 1. minni hluti því átaki sem gert hefur verið í að bæta rekstur Landhelgisgæslunnar og þeim árangri sem náðst hefur.
    Í frumvarpinu er greint frá áformum um bættan rekstur Lögbirtingablaðs og Stjórnartíðinda með tilkomu rafrænnar útgáfu þeirra í stað prentaðrar. Samkvæmt frumvarpi því sem fjallar um þetta efni og vísað hefur verið til allsherjarnefndar mun þetta hafa í för með sér sparnað og hagræðingu. Jafnframt er gert ráð fyrir lækkun á gjaldskrá fyrir birtingu í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum þegar jafnvægi hefur náðst í rekstri þeirra sem áætlað er að verði innan fárra ára.
    Þá er gert ráð fyrir 17,7 millj. kr. hækkun fjárveitingar til héraðsdómstóla til viðbótar við launa- og verðlagsbreytingar. Í sambærilegu áliti allsherjarnefndar til fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004 benti nefndin á að tryggja þyrfti nægilegt fjármagn samhliða auknum verkefnum dómstóla. 1. minni hluti fagnar því þeirri viðbótarfjárveitingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Bjarni Benediktsson og Drífa Hjartardóttir skrifa undir álit þetta með þeim fyrirvara að þau eiga sæti í fjárlaganefnd.

Alþingi, 9. nóv. 2004.

Bjarni Benediktsson, form., með fyrirvara.
Jónína Bjartmarz.
Birgir Ármannsson.
Drífa Hjartardóttir, með fyrirvara.
Fylgiskjal IV.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (01 Forsætisráðuneyti og 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.


    Áður en hafin er umfjöllun um málefni frumvarps til fjárlaga sem heyra undir nefndina vill 2. minni hluti koma á framfæri áhyggjum sínum af því hversu illa gengur að standa við samþykkt fjárlög.
    Ljóst er að áætlanir ríkisstjórnarinnar vegna ríkisútgjalda hinna ýmsu stofnana dóms- og kirkjumálaráðuneytisins eru oft mjög vanmetnar samanborið við raunveruleikann eins og hann birtist síðan í ríkisreikningi. Þetta vanmat virðist stundum vera gert með fullri vitund ráðuneytisins og má þar nefna t.d. fyrirséð útgjöld vegna gjafsóknar og vegna embættis forseta Íslands. Sé litið til fjárlaga ársins 2003 kemur í ljós að fyrir opinbera réttaraðstoð, þ.e. gjafsókn, var gert ráð fyrir um 87 millj. kr. kostnaði en ríkisreikningur sama árs sýnir að kostnaðurinn hafi verið um 150 millj. kr. Útlendingastofnun fékk samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2003 149 millj. kr. en ríkisreikningur ársins sýndi 161 millj. kr. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2003 fékk embætti ríkislögreglustjóra 640 millj. kr. en niðurstaða ársins varð 650 millj. kr. Sömu sögu er að segja þegar framlög til héraðsdómstóla, sýslumannsembætta og Fangelsismálastofnunar eru skoðuð, niðurstaða í ríkisreikningi sýnir að þau voru stórlega vanmetin. 2. minni hluti átelur þessi vinnubrögð og telur þau ekki bera vott um trausta áætlanagerð og góða fjármálastjórn.

Gjafsókn vanmetin.
    Það er ljóst að kostnaður vegna gjafsóknar er stórlega vanmetinn í frumvarpinu og staðfestu fulltrúar ráðuneytisins það á fundi með allsherjarnefnd. Samkvæmt ríkisreikningi árið 2003 fóru tæplega 150 millj. kr. í opinbera réttaraðstoð en í fjárlagafrumvarpinu er einungis gert ráð fyrir um 110 millj. kr. Hér er ekki gert ráð fyrir þeim sparnaði sem hlýst af framkomnu frumvarpi dómsmálaráðherra sem skerðir gjafsókn í málum sem hafa almenna þýðingu. Staðfestu fulltrúar dómsmálaráðuneytisins fyrir allsherjarnefnd að liðurinn væri vanmetinn.
    Annar minni hluti lýsir auk þess yfir áhyggjum af fjárhagsstöðu dómstólanna þrátt fyrir viðbótarfjárveitingu til þeirra upp á 17,7 millj. kr. Sjálfstæði dómstóla er grundvallaratriði í réttarríki og forsenda þess er að þeir búi við viðunandi aðstöðu og nægilegt fjármagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

Sérsveit lögreglunnar.
    Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir mikilli aukningu fjármuna til málefna sérsveitar lögreglunnar. Núna er 21 einstaklingur í sérsveitinni og er stefnt að því að fjölga þeim í 55 á næstu árum. Það er ljóst að ríkisstjórnin stefnir að því að auka verulega framlög til sveitarinnar á næstu árum á kostnað almennrar löggæslu í landinu. Á sama tíma og ríkisstjórnin eflir sérsveitina svo um munar hefur Landhelgisgæslan, sem sinnir mikilvægum öryggis- og björgunarstörfum, búið við fjárskort. 2. minni hluti er ekki sammála þessari forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Fangelsismál.
    Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 16,5 millj. kr. í aukin meðferðarúrræði og til að mæta sveiflum í fjölda fanga. Á fundi allsherjarnefndar var ekki hægt að fá sundurliðun á þessari upphæð frá fulltrúum ráðuneytisins sem er miður. Það er ljóst að löngu er tímabært að fjölga meðferðarúrræðum í íslenskum fangelsum og taka þarf fjármagn frá til þess.
    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna fyrirhugaðs fangelsis við Hólmsheiði en í þó nokkurn tíma hefur staðið til að ráðast í byggingu nýs fangelsis. Vegna skipulagsmála er ljóst að loka þarf kvennafangelsinu í Kópavogi en fulltrúar ráðuneytisins gátu ekki svarað hvað tæki við í málefnum kvenfanga. 2. minni hluti telur því ljóst að útgjöld til málaflokksins muni að öllum líkindum ekki aukast á næstunni.

Mannréttindamál.
    Annar minni hluti lýsir yfir mikilli óánægju með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hætta að veita sérmerkta fjárhæð upp á 4 millj. kr. til Mannréttindaskrifstofu Íslands. 2. minni hluti telur að tryggja eigi Mannréttindaskrifstofu Íslands tekjur frá ríkissjóði með sama hætti og hefur verið gert undanfarin ár enda hefur reynslan sýnt að full þörf er á starfsemi skrifstofunnar.
    Annar minni hluti telur ástæðu til að fylgjast grannt með framkvæmd nýs samnings ráðuneytisins við Reykjanesbæ um umönnun hælisleitenda. Áður hafði Rauði kross Íslands gert slíkan samning við ráðuneytið en þó fyrir talsvert lægri fjárhæðir.

Umboðsmaður Alþingis.
    Annar minni hluti ítrekar það sem komið hefur fram hjá umboðsmanni Alþingis, og allsherjarnefnd tók undir í áliti sínu frá í fyrra, um nauðsyn þess að embættinu verði gert kleift að vinna frekar úr þeim upplýsingum sem liggja í álitum og reifunum þess í því skyni að ná utan um þann þekkingarbrunn sem þar er fyrir hendi allt frá stofnun embættisins. Þessi vinna hefur þegar hafist og er mikilvægt að tryggja fjármuni til þess að henni megi ljúka. Loks bendir 2. minni hluti á mikilvægi þess að umboðsmaður Alþingis og starfsfólk hans eigi kost á að miðla þeirri reynslu og þekkingu á efnis- og formreglum stjórnsýsluréttar sem er til staðar hjá embættinu.
    Að lokum vill 2. minni hluti áskilja sér fullan rétt til að koma að fleiri athugasemdum við afgreiðslu fjárlaga.
    Kolbrún Halldórsdóttir er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hún samþykk áliti þessu.

Alþingi, 8. nóv. 2004.

Ágúst Ólafur Ágústsson.
Bryndís Hlöðversdóttir.
Guðrún Ögmundsdóttir.
Sigurjón Þórðarson.
Fylgiskjal V.


Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá 1. minni hluta menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og tvö bréf fjárlaganefndar frá 12. og 18. október.
    Nefndin fékk til sín á fund Örlyg Geirsson, Gísla Þór Magnússon og Auði Björgu Árnadóttur frá menntamálaráðuneyti. Þau fóru yfir þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar og svöruðu spurningum nefndarmanna. Á fundinum óskaði nefndin eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um rannsóknarframlög til háskóla og í rannsóknarsjóði, heildaryfirliti yfir rannsóknir á landsvísu og samningi um sparkvelli auk frekari upplýsinga um framlög til háskóla- og framhaldsskólastigsins. Umbeðin gögn bárust nefndinni 8. nóvember.
    Heildargjöld menntamálaráðuneytis árið 2005 eru áætluð um 38.986 millj. kr. á rekstrargrunni sem er 8% hækkun frá áætlun fjárlaga fyrir árið 2004. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 3.036 millj. kr. en þær nema 7,8% af heildargjöldum ráðuneytisins.
    Með hliðsjón af yfirferð fulltrúa ráðuneytisins telur 1. minni hluti ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar.

Alþingi, 10. nóv. 2004.


Gunnar Birgisson, form.
Dagný Jónsdóttir, með fyrirvara.
Böðvar Jónsson.
Einar Oddur Kristjánsson, með fyrirvara.
Fylgiskjal VI.Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá 2. minni hluta menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og tvö bréf fjárlaganefndar frá 12. og 18. október. Nefndin fékk til sín á fund Örlyg Geirsson, Gísla Þór Magnússon og Auði Björgu Árnadóttur frá menntamálaráðuneyti
    Annar minni hluti stendur ekki að áliti 1. minni hluta af mörgum ástæðum. 2. minni hluti telur afar brýnt að fjárframlög til skólamála endurspegli þróun nemendafjölda og launaþróun. Þess er ekki gætt í frumvarpinu.

Framhaldsskólarnir.
    Fjárhagsstaða flestra framhaldsskóla er slæm. Hallarekstur er viðvarandi ár eftir ár og talið að uppsafnaður vandi þeirra nemi allt að 600 millj. kr. Reiknilíkanið sem skammtar fé til framhaldsskólanna er enn gallað, þrátt fyrir nokkrar tilraunir til endurbóta, og mikilvægt að endurskoðun þess ljúki sem allra fyrst. Það þarf að fara fram nákvæm úttekt á raunverulegri fjárþörf framhaldsskólanna þar sem allt er tekið inn í myndina, tölvur, tækni, húsakostur og launamál, og leiðréttingar gerðar í samræmi við niðurstöður slíkrar úttektar.
    Undanfarin ár hafa stjórnvöld neitað að samþykkja áætlanir framhaldsskólanna um fjölda ársnema. Ársnemar 2004 verða að öllum líkindum 1.000 fleiri en fjárlög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi þyrfti að auka framlögin um allt að 500 millj. kr. til að mæta fjölguninni. Þetta er allt hægt að sjá við upphaf skólaárs, en þar sem áætlanir skólanna eru ekki samþykktar fyrir fram fá skólarnir ekki bættan útgjaldaauka vegna fjölgunar nemenda fyrr en eftir á og lenda þar af leiðandi í því að hafa ekki nægilegt rekstrarfé stóran hluta úr árinu.
    Í frumvarpinu er þessum vanda mætt að hluta en fjarri því að fullu og vantar líklega um 400 nemendur inn í áætlanirnar til að nemendafjöldi sé rétt metinn. Sér í lagi verður að skoða þann hluta reiknilíkansins sem snýr að grunnrekstrarliðum og er háður nemendafjölda. Þetta getur komið sér illa fyrir t.d. framhaldsskóla úti á landi þar sem atvinnuástand og aðrir ytri þættir hafa veruleg áhrif á stærðir árganga.
    Margt bendir til þess að Ísland hafi dregist aftur úr öðrum löndum í framlögum til framhaldsskólastigsins og leggur 2. minni hluti ríka áherslu á að staðan verði metin og vandanum mætt með auknum fjárframlögum.

Opinberir háskólar.
    Fjárþörf háskólastigisns er ekki rétt metin í frumvarpinu og að mati 2. minni hluta er mikilvægt að bætt verði úr því. Ríkisháskólarnir búa við alvarlegt fjársvelti sem kemur m.a. fram í harkalegum fjöldatakmörkunum og nú er skólunum gert að mæta fjárþörfinni að hluta með 40% hækkun innritunargjalda. Þeirri hækkun mótmælir 2. minni hluti og telur að hér sé verið að stíga fyrsta skrefið í átt að innheimtu skólagjalda í opinberum háskólum. Þá væri mun heiðarlegra að stjórnvöld nefndu gjaldtökuna réttu nafni og svöruðu fyrir hana sem slíka. Það er mat 2. minni hluta að fjárhagsvanda opinberra háskóla eigi að leysa með því að auka fjárveitingar til skólanna þannig að rekstur þeirra gangi eðlilega fyrir sig án fjöldatakmarkana eða með því að velta ábyrgðinni af fjármögnuninni yfir á stúdentana.
    Auka þarf fjárveitingar til rannsókna sérstaklega. Hlutfall fjárveitinga til rannsókna í Háskóla Íslands var 67% af kennsluframlagi á árinu 1999 en verður komið í 46% árið 2005 aukist fjárveitingar ekki. Afleiðingarnar eru t.d. þær að stöðugt hærra hlutfall kennslu er í höndum stundakennara án rannsóknarskyldu. Á árunum 1999–2004 hefur skráðum nemendum við Háskóla Íslands fjölgað um 50% en kennurum í fullu starfi með rannsóknarskyldu hefur hins vegar ekki fjölgað nema um 1%. Þetta er fráleit staða sem verður að breyta.
    Önnur aukaverkun er sú að þeir skólar sem lítið fé fá til rannsókna missa af meistara- og doktorslærðum kennurum vegna ónógs rannsóknarfjár til að halda þeim.
    Skólaárið 2003–2004 voru virkir nemendur í Háskóla Íslands 5.697 en skólinn fær samkvæmt fjárlögum ársins 2004 einungis greitt fyrir 5.200 virka nemendur og er áætlaður rekstrarhalli skólans það ár 240 millj. kr. Brýnt er að fjárframlög til skólans verði með þeim hætti að hann geti tekið við þeim nemendum sem inngöngu óska og hafa til þess tilskilda menntun. Þá er mjög áríðandi að gera upp við skólann fyrir undanfarin ár þar sem ekki hefur verið greitt fyrir þann fjölda nemenda sem stundað hefur nám við skólann. Fyrsta árið eftir að kennslusamningurinn var gerður, fjárhagsárið 2000, fékk Háskóli Íslands að fullu greitt fyrir fjölgun nemenda úr 3.885 í 4.176, alls 166 millj. kr.
    Árið 2001 varð nokkuð mikil hækkun á launum umfram forsendur fjárlaga. Við uppgjör vegna ársins óskaði Háskóli Íslands eftir 198 millj. kr. leiðréttingu á fjárveitingu sem skiptist þannig:
     a.      Vegna fjölgunar virkra nemenda í 4.365, 123,7 millj. kr.
     b.      Vegna launahækkana kennara umfram forsendur launabóta, 26,7 millj. kr.
     c.      Vegna leiðréttinga á framsetningu fjárlaga, 48,4 millj. kr.
    Ekki var gert upp á árinu 2001 en árið 2002 fékkst 101 millj. kr. vegna nemendauppgjörs ársins 2001. Eftir stóðu að mati Háskóla Íslands 97 millj. kr. það ár. Á árinu 2002 voru virkir nemendur 4.667 og óskaði Háskóli Íslands eftir 175 millj. kr. vegna uppgjörs á nemendafjölda. Einungis voru greiddar 40 millj. kr. upp í uppgjörið. Eftir stóðu að mati Háskóla Íslands 135 millj. kr. það ár.
    Á árinu 2003 voru virkir nemendur 5.256. Ráðherra hafði lofað að greiða fyrir 4.950 nemendur og var greitt fyrir þá með uppgjöri sem nam 214 millj. kr. Eftir stóð að ekki var greitt fyrir 306 nemendur. Eftir stóðu að mati Háskóla Íslands 175 millj. kr. það ár.
    Á árinu 2004 er áætlað að virkir nemendur verði um 5.800 en í fjárlögum er aðeins gert ráð fyrir 5.200 nemendum. Mismunurinn samkvæmt kennslulíkani gæti því numið rúmlega 300 millj. kr.
    Fyrir tímabilið 2001–2004 hefur Háskóli Íslands orðið af rúmlega 700 millj. kr. vegna vanáætlana við fjárlagagerð.
    Í skýrslu um „forsendur útreikninga nemendaframlaga í reiknilíkani um kennslu við háskóla“ sem starfshópur á vegum menntamálaráðuneytis skilaði af sér í mars á þessu ári kemur m.a. fram um launahlið líkansins að það vanti 10,5% upp á að launastikan endurspegli meðallaunahækkanir í háskólum. Hefur verið áætlað að á árunum 2001–2003 hefði fjárveiting til kennslu í ríkisháskólunum átt að vera um 1 milljarði kr. hærri en raun varð á. Það er því ljóst að þennan þátt þarf að endurskoða og gera upp við háskólana vegna þessa.
    Lagfæra verður launastikuna fyrir afgreiðslu fjárlaga. Samkvæmt niðurstöðum fyrrnefnds starfshóps menntamálaráðherra um hvort þróun einingaverðs sé í samræmi við ákvæði samnings um kennslu í mars 2002 er hægt að draga þá ályktun að hefði fullt tillit verið tekið til launahækkana hefði fjárveiting til Háskóla Íslands þurft að vera a.m.k. 300 millj. kr. hærri á árinu 2004. Áhrifin fyrir árið 2005 eru hátt í 400 millj. kr. Brýnt er að fjárlaganefnd taki á þessu og leiðrétti launastikuna áður en frumvarpið verður afgreitt frá nefndinni.

Safnliðir.
    Kolbrún Halldórsdóttir gerir alvarlegar athugasemdir við afgreiðslu safnliða þetta árið. Hennar álit er að þótt handahófskennd afgreiðsla safnliða hafi verið harðlega gagnrýnd undanfarin ár hljóti það að teljast fráleitt að hverfa aftur til þess tíma er fagnefndin var útilokuð frá því að sjá styrkumsóknir þær sem fjárlaganefnd bárust til ýmissa menningartengdra verkefna.
    Úr því að fjárlaganefnd treysti sér ekki til að koma úthlutun af safnliðum ráðuneytisins í faglegan farveg innan ráðuneytisins og stofnana þess telur Kolbrún að betra hefði verið að halda afgreiðslunni með þeim hætti sem verið hefur undanfarin ár. Hún hefði t.d. gjarnan viljað fylgja eftir stuðningi sínum við verkefni á borð við Nýsköpunarsjóð tónlistar, sem Tónskáldafélag Íslands hefur leitað eftir stuðningi við, og Leikminjasafn Íslands, svo eitthvað sé nefnt, sbr. álit menntamálanefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004.

Íslensk tunga o.fl.
    Annar minni hluti saknar þess í fjárlagafrumvarpinu að brugðist sé við aðstæðum sem kynnu að veikja íslensku sem þjóðtungu á Íslandi. Þar má m.a. nefna að fjárveiting til tungutækni (02-995 í fjárlögum fyrir árið 2004) er felld niður með sérstakri tilvísun til yfirlýsingar um að hugbúnaður á íslensku skuli njóta forgangs í verkefni sem kennt er við upplýsingasamfélag. Þessi tilvísun lýsir grundvallarmisskilningi á inntaki tungutækni og gagnsemi hennar fyrir íslenskt samfélag í framtíðinni. Þá er afnám framlaga til tungutækni fullkomlega á skjön við áætlanir á þessu sviði hjá grannþjóðum okkar sem fámennar teljast, en þó margfalt fjölmennari en íslenska málsvæðið.
    Þá telur 2. minni hluti mikilvægt að tryggja fjármuni til viðhalds menningarhúsa.

Alþingi, 10. nóv. 2004.

Björgvin G. Sigurðsson.
Katrín Júlíusdóttir.
Kolbrún Halldórsdóttir.
Mörður Árnason.
Fylgiskjal VII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá utanríkismálanefnd.    Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa og bréf fjárlaganefndar frá 12. október.
    Nefndin fékk á sinn fund Sturlu Sigurjónsson, Pétur Ásgeirsson og Katrínu Einarsdóttur frá utanríkisráðuneyti. Þá óskaði nefndin eftir viðbótarupplýsingum frá utanríkisráðuneyti, m.a. yfirliti yfir þróun helstu útgjaldaliða ráðuneytisins undanfarin fimm ár.
    Gert er ráð fyrir að fjárlagarammi utanríkisráðuneytisins hækki um 1.140 millj. kr. miðað við fjárlög fyrir árið 2004. Skýring á aukinni fjárþörf ráðuneytisins er að stærstum hluta aukin framlög til þróunarmála, þ.m.t. friðargæslumála, alþjóðlegrar hjálparstarfsemi og alþjóðastofnana. Ef litið er til þróunar stærstu útgjaldaliðanna undanfarin ár hafa framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hækkað úr 294 millj. kr. árið 2000 í 696 millj. kr. árið 2005, framlög til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi úr 164 millj. kr. árið 2000 í 399 millj. kr. árið 2005, framlög til þróunarsjóðs EFTA hafa hækkað úr 98 millj. kr. árið 2000 í 499 millj. kr. árið 2005 og framlög til íslensku friðargæslunnar hafa aukist úr 136 millj. kr. árið 2002 í 463 millj. kr. árið 2005. Þá hefur kostnaður við öryggiseftirlit á Keflavíkurflugvelli aukist en öryggiskröfur í flugstöðinni hafa verið hertar verulega, m.a. vegna alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Nefndin styður eflingu friðargæslunnar og fagnar auknum framlögum til þróunarmála en þau munu verða um 0,21% af vergri landsframleiðslu á árinu 2005 og hafa framlög til þróunarmála þannig nær þrefaldast á fimm árum. Stefnt er að enn frekari aukningu á næstu árum.
    Nefndin vekur athygli fjárlaganefndar á því að á fundi með fulltrúum utanríkisráðuneytisins kom fram að vegna misskilnings hefðu tekjur af öryggisgjaldi á Keflavíkurflugvelli verið færðar til lækkunar á fjárframlögum í fjárlagafrumvarpinu um 138,4 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk á umrætt gjald að standa undir auknum verkefnum í samræmi við breytingar á loftferðalögum.
    Guðmundur Árni Stefánsson, Guðjón A. Kristjánsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir rita undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 4. nóv. 2004.

Sólveig Pétursdóttir, form.
Guðmundur Árni Stefánsson, með fyrirvara.
Siv Friðleifsdóttir.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðjón A. Kristjánsson, með fyrirvara.
Einar K. Guðfinnsson.
Dagný Jónsdóttir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara.

Fskj.

Utanríkisráðuneyti:

Yfirlit yfir fjárveitingar til helstu útgjaldaliða ráðuneytisins
á tímabilinu 2000–2005.

2000 2001 2002 2003 2004 2005
Utanríkisráðuneytið 630,8 629,9 737,8 780,0 811,3 834,9
Sýslumaður á Keflavíkurflugvelli 376,7 472,0 493,5 507,7 529,2 418,7
Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli 442,4 418,6 539,9 589,5 591,5 917,7
Sendiráð Íslands 2.121,0 1.258,5 1.526,0 1.701,6 1.552,7 1.696,3
    Almennur rekstur 1.048,2 1.175,4 1.486,2 1.482,8 1.500,0 1.530,0
    Viðhald 17,9 15,9 15,9 47,9 24,9 25,9
    Stofnkostnaður 1.054,9 67,2 23,9 170,9 27,8 140,4
Þróunarsamvinnustofnun Íslands 294,0 476,5 468,5 468,0 519,2 695,8
    Rekstur 17,0 34,0 34,9 36,1 65,8
    Þróunaraðstoð 459,5 434,5 433,1 483,1 630,0
Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi 163,7 147,7 262,1 491,0 176,4 398,6
    Jarðhitaskóli SÞ 50,3 51,8 63,0 67,4 67,3 87,8
    Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ, FAO 7,6 8,5 10,4 9,3 8,4 7,6
    Þróunaraðstoð SÞ, UNDP 18,3 18,3 22,4 20,0 18,2 19,8
    Alþjóðabarnahjálparstofnunin, UNICEF 9,5 9,5 11,6 10,4 9,4 15,3
    Sjávarútvegsskóli SÞ 30,4 36,1 48,9 54,6 52,0 67,2
    Hjálparstarf SÞ fyrir konur í þróunarlöndum, UNIFEM 2,5 2,5 3,1 2,8 2,5 11,7
    Aðstoð við endurreisnarstarf í Bosníu-Herzegóvínu 27,9
    Mannúðarmál og neyðaraðstoð 15,2 17,0 100,7 324,5 16,8 62,1
    Þróunarmál og hjálparstarfsemi 125,3
Alþjóðastofnanir (5 stærstu útgjaldaliðir) 521,6 605,1 763,4 843,6 1.018,4 1.380,4
    Þróunarsjóður EFTA 97,9 91,6 113,9 110,3 253,9 499,1
    Íslenska friðargæslan 135,5 245,4 329,8 463,0
    Eftirlitsstofnun EFTA 54,1 50,7 77,8 75,3 76,5 76,4
    Atlantshafsbandalagið 33,6 35,2 43,8 42,4 58,3 58,2
    Alþjóðleg friðargæsla 147,4 181,5 73,2 64,4 59,4 53,5
Útflutningsráð 185,0 189,8 218,0 237,7 269,4 279,4
Annað 242,1 111,0 278,5 45,5 57,5 45,9

Fylgiskjal VIII.

Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.


    Landbúnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. október sl.
    Nefndin fundaði með fulltrúum landbúnaðarráðuneytis, Guðmundi B. Helgasyni, Ingimar Jóhannssyni, Ólafi Friðrikssyni, Hákoni Sigurgrímssyni og Ingibjörgu Ólöfu Vilhjálmsdóttur, sem skýrðu þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess.
    Þá komu Sigurður Guðjónsson og Vífill Oddsson frá Veiðimálastofnun á fund nefndarinnar og kynntu viðamiklar rannsóknir á vegum stofnunarinnar og verkefni hennar sem eru mjög viðamikil og sífellt að aukast. Í frumvarpinu er fellt niður tímabundið framlag til fimm ára vegna rannsókna á sjávardvöl laxfiska en verkefnið hefur notið stuðnings í tvö ár. Meiri hlutinn leggur áherslu á að stofnunin fái áfram framlag í fjárlögum til þess að geta haldið rannsóknunum áfram enda laxveiðiauðlindin mjög mikilvæg hvort sem litið er til fjárhagslegra sjónarmiða eða byggðasjónarmiða og nauðsynlegt að tryggja viðhald og verndun hennar.
    Með hliðsjón af yfirferð ráðuneytisins telur meiri hlutinn ekki ástæðu til að gera athugasemdir við aðra liði frumvarpsins.
    Drífa Hjartardóttir og Birkir J. Jónsson skrifa undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    

Alþingi, 10. nóv. 2004.

Drífa Hjartardóttir, form., með fyrirvara.
Guðmundur Hallvarðsson.
Dagný Jónsdóttir.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Birkir J. Jónsson, með fyrirvara.Fylgiskjal IX.Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.

    Minni hlutinn stendur ekki að áliti meiri hluta nefndarinnar að því leyti að hann telur í fyrsta lagi nauðsynlegt að staðið sé við áætlun um landshlutabundna skógrækt sem er langtímaverkefni samkvæmt þingsályktunartillögu en samningar um plöntuframleiðslu eru gerðir allt að þremur árum áður en til útplöntunar kemur. Traustar áætlanir eru landshlutabundinni skógrækt nauðsynlegar og undrunarefni að landbúnaðarráðuneytið skuli ekki fylgja þingsályktun sem samþykkt var á 128. löggjafarþingi.
    Í öðru lagi er lagt til að orðið verði við óskum um lokafjárveitingu til gagnagrunns fyrir landshlutabundna skógrækt. Loks telur minni hlutinn að verkefni Veiðimálastofnunar um „silungsveiði í vötnum“ sé áhugaverður kostur og líklegt til að efla ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
    Anna Kristín Gunnarsdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.

Alþingi, 11. nóv. 2004.

Anna Kristín Gunnarsdóttir, með fyrirvara.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.Fylgiskjal X.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá 1. minni hluta sjávarútvegsnefndar.    Nefndin hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. og 18. október.
    Nefndin fékk á sinn fund Arndísi Á. Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Friðrik Friðriksson fyrir hönd AVS-rannsóknarsjóðs um aukið verðmæti sjávarafla, Jóhann Sigurjónsson frá Hafrannsóknastofnuninni og Þórð Ásgeirsson frá Fiskistofu.
    Heildarútgjöld sjávarútvegsráðuneytis árið 2005 eru áætluð um 3.344 millj. kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 832 millj. kr. en þær nema 25% af heildarútgjöldum ráðuneytisins. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 1.989 millj. kr. og lækka um 37 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs.
    Fyrsti minni hluti vekur athygli á að nokkuð vantar upp á að Hafrannsóknastofnunin hafi fjárhagslegt svigrúm til að bregðast við aðstæðum sem ekki eru fyrirséðar í upphafi fjárlagaárs. Eru loðnurannsóknir á þessu ári dæmi um slíkt. Því leggur 1. minni hluti til að í meðförum Alþingis verði sérstakt 50 millj. kr. framlag veitt til stofnunarinnar.
    Þá vekur 1. minni hluti athygli á að Fiskistofa hefur á þessu ári horfið frá mótaðri stefnu um uppbyggingu þjónustu sinnar á landsbyggðinni gagnstætt því sem aðrar helstu stofnanir sjávarútvegsráðuneytisins hafa unnið að.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að andvirði svonefnds hafrannsóknarafla renni áfram til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins sem settur var á stofn á síðasta ári í samræmi við bráðabirgðaákvæði XXIX í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. 1. minni hluti vekur athygli á því að heimild skipstjóra samkvæmt ákvæðinu til að ákveða að hluti af afla skipsins reiknist ekki til aflamarks þess fellur samkvæmt ákvæðinu niður við lok þess fiskveiðiárs sem nú er hafið. 1. minni hluti telur að umrædd heimild til að landa umfram aflamark allt að 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem hlutaðeigandi skip veiðir á hverju fiskveiðiári hafi dregið úr brottkasti og skilað verðmætum sem ella hefðu farið í súginn en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er áætlað að þessi afli skili 121 millj. kr. í verkefnasjóðinn á árinu 2005. 1. minni hluti telur, með hliðsjón af framansögðu, rétt að beina því til sjávarútvegsráðuneytisins að það meti þá reynslu sem fengist hefur af beitingu bráðabirgðaákvæðis XXIX í lögum um stjórn fiskveiða og taki afstöðu til þess hvort unnt sé að gera heimildina skilvirkari án þess þó að raska þeim markmiðum sem henni er ætlað að þjóna eða þá hvort rétt sé að framlengja gildistíma ákvæðisins án breytinga.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlag í rannsóknarsjóð til að auka verðmæti sjávarfangs, sem stofnaður var á síðasta ári í samræmi við þingsályktunartillögu sjávarútvegsráðherra, verði hækkað um 100 millj. kr. og verði samkvæmt því 200 millj. kr. á árinu 2005. Það er álit 1. minni hluta að tilvera sjóðsins sé til þess fallin að auka fjölbreytni rannsókna á sviði sjávarútvegs þar sem hann veitir einkaaðilum aðgang að fjármagni til rannsókna sem hingað til hafa einkum verið á forræði opinberra stofnana. 1. minni hluti álítur þetta mikilvægt og styður því auknar fjárveitingar í sjóðinn.
    Hjálmar Árnason, Jóhann Ársælsson og Sigurjón Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. nóv. 2004.

Guðjón Hjörleifsson, form.
Einar K. Guðfinnsson.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Ísólfur Gylfi Pálmason.
Fylgiskjal XI.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar.    Annar minni hluti telur ástæðu til að gera eftirfarandi athugasemdir við þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem varðar sjávarútvegsráðuneytið og stofnanir þess.

Verklag sjávarútvegsráðuneytisins við undirbúning fjárlaga.
    Á fundi nefndarinnar með fulltrúa sjávarútvegsráðuneytisins var óskað eftir því af hálfu fulltrúa 2. minni hluta að ráðuneytið léti nefndinni í té afrit af fjárlagatillögum undirstofnana ráðuneytisins. Í svari fulltrúa ráðuneytisins kom fram að ráðuneytið hefði ekki óskað eftir fjárlagatillögum stofnana heldur hefðu fulltrúar þeirra þess í stað verið boðaðir á fund í ráðuneytinu þar sem þeim gafst kostur á að gera munnlega grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum í tilefni fjárlagagerðar. Upplýsti fulltrúi ráðuneytisins að af þessum sökum lægju ekki fyrir nein skrifleg gögn eða upplýsingar um fjárlagatillögur stofnana ráðuneytisins. Það er skoðun 2. minni hluta að framangreint verklag sjávarútvegsráðuneytisins sé ólögmætt. Verður í fyrsta lagi talið að það sé í beinni andstöðu við 1. málsl. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, en þar segir:
    „Fjárlagatillögum aðila í A-, B- og C-hluta skal skilað til viðkomandi ráðuneytis.“
    Framangreint ákvæði var lögfest á grundvelli breytingartillögu sérnefndar sem skipuð var til að fjalla um frumvarp til fjárreiðulaga. Í nefndaráliti sérnefndarinnar segir m.a.:
    „Nauðsynlegt þótti að skýra betur en gert er í frumvarpinu stöðu framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi og samskipti milli Alþingis og ráðuneyta. Nefndin leggur ríka áherslu á það í áliti sínu að mörk löggjafarvalds og framkvæmdarvalds séu skýr og meðferð fjárlaga vel skilgreind. Mikill tími fór þannig í að ræða samspil löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, sbr. 21. gr. og 33. gr., og einnig eðli fjárlaga, sbr. 23. gr. og 26. gr., og ákvæði 30. gr., um verksamninga og samninga um rekstrarverkefni til lengri tíma en eins árs. Nefndin leggur til breytingar á öllum þessum ákvæðum og um þær vísast til frekari skýringa hér á eftir.“ (Alþt. 1996–1997, A-deild, bls. 5157.)
    Um þá breytingu sem gerð var á 21. gr. frumvarpsins sagði eftirfarandi í nefndarálitinu:
    „Lagt er til að í 21. gr. verði tekin ákvæði um skil einstakra aðila í A-, B- og C-hluta á fjárlagatillögum. Þannig verði lögfest sú framkvæmd sem verið hefur, þ.e. að aðilar skila viðkomandi ráðuneyti tillögum sínum og hvert ráðuneyti skilar síðan fjárlagatillögum um þá aðila, sem undir það heyra, til fjármálaráðuneytisins.“ (Alþt. 1996–1997, A-deild, bls. 5158.)
    Verður framangreint ákvæði fjárreiðulaga, sbr. fyrrgreind lögskýringargögn, ekki skilið á annan veg en að stofnunum ríkisins beri skila viðkomandi ráðuneyti skriflegum fjárlagatillögum. Ætla verður að öflun tillagna frá undirstofnunum sé þýðingarmikill þáttur í faglegri vinnu ráðuneyta við mótun og gerð fjárlagatillagna í samráði við fjármálaráðuneytið. Sé það afstaða manna að forstöðumenn stofnana geti fullnægt framangreindri lagaskyldu með því einu að gera munnlega grein fyrir sjónarmiðum sínum á fundi með fulltrúum ráðuneytisins verður að álíta að ráðuneytunum beri ótvíræð skylda í slíkum tilvikum til að halda fundargerð um það sem fram kemur á slíkum fundi og varðveita hana. Ljóst er að pappírslaus samskipti stjórnvalda við úrlausn lögbundinna verkefna eins og þau sem sjávarútvegsráðuneytið hefur viðhaft í þessu máli fara í bága við meginreglur um vandaða stjórnsýsluhætti og gegnsæi í stjórnsýslunni.
    Skoða verður framangreinda lagaskyldu stofnana ríkisins til að skila viðkomandi ráðuneyti fjárlagatillögum í samhengi við upplýsingarétt fjárlaganefndar, sbr. 3. mgr. 25. gr. þingskapa, en samkvæmt ákvæðinu hefur fjárlaganefnd mjög víðtækan rétt til að krefjast hvers kyns upplýsinga er varða rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana sem óska eftir framlögum úr ríkissjóði. Ljóst er að möguleikar fjárlaganefndar til að afla upplýsinga og leggja sjálfstætt mat á fjárþörf stofnana og annarra aðila sem óska fjárveitinga úr ríkissjóði skerðast mjög hafi nefndin ekki aðgang að fjárlagatillögum stofnana. Ætla verður að fjárlagatillögur stofnana sem skilað er til viðkomandi ráðuneyta á grundvelli fjárreiðulaga gefi einna gleggsta mynd af því hvert sé mat stofnunarinnar sjálfrar á fjárþörf sinni auk þess sem ætla má að tillögurnar veiti upplýsingar um framtíðarsýn hennar, ný verkefni sem hún telur ástæðu til að ráðast í, möguleika til aðhalds o.s.frv. Gera verður ráð fyrir að þessar tillögur séu meginundirstaða þeirra fjárlagatillagna sem ráðuneytin skila síðan til fjármálaráðuneytisins ásamt þeim pólitísku áherslum sem viðkomandi ráðherra og ríkisstjórn hefur. Þótt fjárlaganefnd hafi möguleika á að kalla forstöðumenn stofnana á sinn fund til upplýsingagjafar er ljóst að það eitt getur ekki komið í staðinn fyrir aðgang að skriflegum fjárlagatillögum þeirra sem settar eru fram áður en viðkomandi ráðuneyti hefur komist að niðurstöðu um fjárþörf stofnunarinnar. Má öllum vera ljóst að eftir að niðurstaða ráðuneytisins er fengin og eftir að fjárlagafrumvarp hefur verið lagt fram af hálfu fjármálaráðherra kann að reynast erfitt fyrir forstöðumenn undirstofnana að bera fram óskir og tillögur við nefndir Alþingis sem eru í andstöðu við vilja viðkomandi ráðherra og ríkisstjórnar.
    Segja má að veruleikinn í þessum efnum hafi verið skjalfestur með eftirminnilegum hætti við meðferð fjárlaga á seinasta ári er það varð opinbert að öllum ríkisstofnunum hafði verið sent bréf að undirlagi fjármálaráðuneytisins þar sem forstöðumönnum þeirra var beinlínis bannað að leita beint til fjárlaganefndar með óskir og tillögur um fjárveitingar. Gekk þetta svo langt að skrifstofu Alþingis bárust tilmæli frá forsætisráðuneytinu um að snúa sér ekki beint til fjárlaganefndar hefði það einhverjar óskir eða tillögur fram að færa heldur skyldu allar slíkar tillögur fara í gegnum forsætisráðuneytið. Þótt unnt væri að hafa langt mál um þá undarlegu sýn sem bréfritarar framkvæmdarvaldsins virðast hafa á hlutverk og stöðu Alþingis við meðferð fjárlaga er þetta einungis nefnt hér til að undirstrika hversu mikilvægt það er og í raun undirstaða þess að efnisleg umræða geti farið fram að fagnefndir þingsins hafi aðgang að fjárlagatillögum stofnana við meðferð og afgreiðslu fjárlaga.
    Með hliðsjón af framangreindu verður að teljast að umrætt verklag sjávarútvegsráðuneytisins hafi í för með sér ólögmæta skerðingu á upplýsingarétti fjárlaganefndar, sbr. 3. mgr 25. gr. þingskapa, og annara fagnefnda þingsins. Telur 2. minni hluti afar brýnt að fjárlaganefnd taki verklag sjávarútvegsráðuneytisins til rækilegrar athugunar og geri ráðstafanir til að tryggja að nefndir þingsins hafi aðgang að þessum upplýsingum í framtíðinni.
    Þegar litið er yfir þróun síðustu ára má greina sífellt aukna tregðu af hálfu framkvæmdarvaldsins til að láta Alþingi, þ.e. nefndum þess og einstökum þingmönnum, í té upplýsingar í tengslum við meðferð fjárlaga. Virðist af þessum sökum ástæða til að minna framkvæmdarvaldið á að fjárveitingavaldið er samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins í höndum Alþingis. Ætti sú staðreynd út af fyrir sig að vera nægjanleg til þess að það væri hafið yfir vafa að Alþingi eigi ótvíræðan rétt til aðgangs að öllum upplýsingum og gögnum sem fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra er byggt á. Án upplýsinga er ljóst löggjafinn hefur ekki forsendur til að endurskoða og leggja sjálfstætt mat á þær tillögur sem fjármálaráðherra setur fram í fjárlagafrumvarpinu sem leiðir í raun til þess að Alþingi hefur ekki annan kost en að fallast á tillögur ráðherra í öllum megindráttum. Þegar svo er komið er ljóst að fjárveitingavald þingsins er ekki lengur til staðar nema að forminu til.

Hafrannsóknastofnunin.
    Rétt er að mati 2. minni hluta að vekja athygli á fjárvöntun Hafrannsóknastofnunarinnar sem mun að óbreyttu leiða til þess að ýmsum þýðingarmiklum rannsóknum verði frestað eða þær jafnvel slegnar af. Telur 2. minni hluti að nú sé meiri þörf á rannsóknum, m.a. vegna breytinga sem nú verða í hafinu og stafa af hlýnun sjávar. Ekki er þó unnt að átta sig á hver fjárþörf stofnunarinnar er enda liggja ekki fyrir nefndinni neinar upplýsingar um hvert sé mat stofnunarinnar sjálfrar á fjárþörfinni. Stafar þetta af ólögmætu verklagi sjávarútvegsráðuneytisins við undirbúning fjárlagafrumvarpsins sem gerð var grein fyrir hér að framan.
    Í ljósi þessa má spyrja á hvaða grundvelli tillaga 1. minni hluta um 50 millj. kr. aukafjárveitingu til Hafrannsóknastofnunarinnar sé byggð. Verður að telja að tillaga 1. minni hluta sé hrein ágiskun á fjárþörf Hafrannsóknastofnunarinnar nema fulltrúar 1. minni hluta búi yfir upplýsingum sem fulltrúum 2. minni hluta er ekki kunnugt um.

Fiskistofa.
    Í áliti 1. minni hluta er Fiskistofa gagnrýnd fyrir að hafa hætt eða dregið úr starfsemi sinni á landsbyggðinni. Tekur 2. minni hluti undir þessa gagnrýni og bendir á að hér sannast það enn einu sinni að ekki er samræmi milli orða og athafna ríkisstjórnarinnar þegar kemur að eflingu opinberra starfa á landsbyggðinni.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að andvirði svonefnds hafrannsóknarafla renni áfram til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins sem settur var á stofn á síðasta ári í samræmi við bráðabirgðaákvæði XXIX í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Í nefndaráliti sjávarútvegsnefndar, sbr. þskj. 628 frá 130. löggjafarþingi, sagði m.a. svo um þessa breytingu:
    „Við þessa breytingu mun fjárstreymi sjóðsins aukast til mikilla muna. Það er mat nefndarinnar að nauðsynlegt sé að skýrar reglur gildi um úthlutun úr sjóðnum og að eðlilegt sé að skipuð verði stjórn yfir sjóðnum sem geri tillögur til ráðherra um úthlutun. Leggur nefndin til breytingartillögur í þessa veru. Mælist nefndin jafnframt til þess að reglur um stjórn sjóðsins og úthlutun úr honum verði kynntar fyrir nefndinni áður en þær taka gildi.“
    Þrátt fyrir framangreind tilmæli voru reglur um stjórn sjóðsins og úthlutun úr honum settar þann 8. október sl. án þess að þær væru fyrst kynnar nefndinni. 2. minni hluti harmar þessi vinnubrögð sem bera vott um vanvirðu við nefndina og Alþingi allt.
    Jón Gunnarsson skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.

Alþingi 4. nóv. 2004

Kristján L. Möller.
Jón Gunnarsson, með fyrirvara.
Fylgiskjal XII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.    Félagsmálanefnd hefur fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og tvö bréf fjárlaganefndar frá 12. og 18. október sl. Nefndin fékk til sín á fund Elínu Pálsdóttur, Ragnhildi Arnljótsdóttur, Sesselju Árnadóttur og Sturlaug Tómasson frá félagsmálaráðuneyti. Þau fóru yfir einstaka liði frumvarpsins með nefndarmönnum sem gafst jafnframt kostur á að spyrja út í þau atriði sem þeir vildu fá frekari upplýsingar um.
    Nefndin telur vert að vekja sérstaka athygli á nokkrum atriðum. Í fjárlagafrumvarpinu eru útgjöld Fæðingarorlofssjóðs áætluð 5.967 millj. kr. , en útgjöldin eru 5.826 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2004. Þetta er 150 millj. kr. lækkun að raunvirði milli ára og samræmist lækkunin kostnaðarmati laga nr. 90/2004 sem samþykkt voru á síðasta þingi. Þar sem aukning hafði orðið á útstreymi úr sjóðnum voru umrædd lög sett og er gert ráð fyrir að breytingar samkvæmt þeim leiði til lækkunar á útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs.
    Útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs eru samkvæmt frumvarpinu áætluð 4.171 millj. kr. og þar af nema útgjöld til atvinnuleysisbóta 3.498 millj. kr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir um 670 millj. kr. hækkun útgjalda til atvinnuleysisbóta frá síðasta ári. Þessi hækkun stafar annars vegar af auknu atvinnuleysi en samkvæmt spám fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir 2,7% atvinnuleysi og er áætlað að útgjöld á hvert stig atvinnuleysis verði 1.296 millj. kr. á verðlagi ársins 2005. Hins vegar hafa atvinnuleysisbætur verið hækkaðar, sbr. lög nr. 34/2004. Nefndin bendir á að heildarrannsókn á atvinnuleysisástandi er þegar farin af stað hjá félagsmálaráðuneyti.
    Rekstrarkostnaður Vinnueftirlits ríkisins er áætlaður sá sami á næsta ári eða um 295,6 millj. kr. Hins vegar verða gerðar breytingar á fjármögnun rekstrarkostnaðar stofnunarinnar frá 1. janúar 2005 til samræmis við ákvæði laga nr. 90/2004, um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um tryggingagjald. Framvegis verður fjárhagsrammi stofnunarinnar ákvarðaður í fjárlögum á ári hverju, en stofnunin mun ekki hafa markaðan tekjustofn sem tengist gjaldstofni tryggingagjalds eins og verið hefur fram að þessu. Kostnaður af rekstri stofnunarinnar mun frá framangreindu tímamarki verða greiddur úr ríkissjóði og af öðrum tekjum hennar. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 90/2004 kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir að umrædd breyting muni hafa áhrif á tekjur Vinnueftirlits ríkisins heldur sé aðeins áætlað að rekstrarkostnaður stofnunarinnar verði framvegis greiddur úr ríkissjóði óháð tekjustofni tryggingagjaldsins. Nefndin vill vekja athygli fjárlaganefndar á því að hlutdeild Vinnueftirlitsins í tryggingagjaldi árið 2004 nemur 237,8 millj. kr. Í fjárlagafrumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi stofnuninni til 201,5 millj. kr. Því þyrfti framlag til almenns reksturs stofnunarinnar að hækka úr 330,1 millj. kr. í 365,1 millj. kr. þannig að ekki þurfi að koma til samdráttar í rekstri hennar. Framlag ríkissjóðs til stofnunarinnar þyrfti samkvæmt þessu að vera 236,5 millj. kr. í stað 201,5 millj. kr.
    Heildarfjárveiting til málefna fatlaðra hækkar um 204,6 millj. kr. frá gildandi fjárlögum þegar almennar launa- og verðlagsbreytingar eru taldar frá. Um 130 millj. kr. hækkun framlaga er áætluð til sambýla og nýrra búsetuúrræða fyrir fatlaða. Hér er um að ræða lokaframlag vegna átaks frá árinu 2000 um styttingu biðlista eftir þjónustu fyrir fatlaða. Vel hefur miðað í að stytta biðlista eftir húsnæði fyrir fatlaða en helstu áform á árinu 2004 tengdust markmiðum um styttingu biðlista eftir þjónustu við þennan hóp.
    Að lokum má benda á að gert er ráð fyrir 10 millj. kr. tímabundinni fjárveitingu vegna sameiginlegs átaks félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga til eflingar sveitarstjórnarstiginu. Áætlað er að átakinu ljúki í árslok 2005.
    Birkir J. Jónsson skrifar undir álitið með fyrirvara þar sem hann á sæti í fjárlaganefnd.

Alþingi, 9. nóv. 2004.

Siv Friðleifsdóttir, form.
Guðjón Hjörleifsson.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Pétur H. Blöndal.
Birkir J. Jónsson, með fyrirvara.
Fylgiskjal XIII.Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá minni hluta félagsmálanefndar.    Minni hluti félagsmálanefrndar stendur ekki að áliti meiri hlutans enda eru verulegar vanáætlanir á stórum útgjaldaliðum ráðuneytisins sem stjórnarliðar verða sjálfir að bera ábyrgð á. Hér verða helstu gagnsrýnisatriðin rakin:

Fæðingarorlofssjóður.
    Í nefndaráliti minni hluta félagsmálanefndar frá síðasta þingi vegna fjárlagakafla félagsmálaráðuneytisins fyrir yfirstandandi ár var því haldið fram að gjöld umfram tekjur í Fæðingarorlofssjóði yrðu 948 millj. kr. á árinu 2004 og því um verulega vanáætlun að ræða á tekjum til að mæta áætluðum útgjöldum. Allar líkur eru á því að þetta gangi eftir og að leita þurfi eftir aukafjárveitingu á þessu ári til að mæta útgjöldum umfram tekjur. Mikil óvissa ríkir einnig um útgjöld næsta árs og óvíst hvernig sparnaðarráðstafanir ríkisstjórnarinnar til að draga úr útgjöldum sjóðsins skila sér á næsta ári. Margt bendir því til að útgjöld sjóðsins vegna fæðingarorlofs sem áætluð eru 5.967 millj. kr. séu vanreiknuð en ætla má að útgjöld yfirstandandi árs fari í 6,2–6,4 milljarða kr.
    Minni hlutinn gagnrýnir líka harðlega að fæðingarorlofsgreiðslur halda ekki raungildi sínu miðað við að þeir sem fara í fæðingarorlof fái 80% af launum sínum. Ástæðan er sú að í þeim breytingum sem gerðar voru á fæðingarorlofslögunum á síðasta þingi var breytt því viðmiðunartímabili sem tekjur eru reiknaðar út frá. Í stað þess að miða við 12 mánaða samfellt tekjutímabil sem lauk tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs var viðmiðunartímabilinu breytt, þannig að miðað var við tekjuár í stað tiltekins fjölda mánaða og að viðmiðunartímabilið standi yfir í tvö tekjuár á undan fæðingarári. Þetta leiðir til þess að fæðingarorlofsgreiðslur taka mið af 2–3 ára gömlum tekjum eftir því hvenær fæðing á sér stað á árinu. Samtök launafólks vöruðu við því að þetta gæti leitt til skerðingar á fæðingarorlofsgreiðslum um allt að 10%, þannig að greiðslurnar yrðu ekki 80% af tekjum heldur allt niður í 70%, þar sem ekki væri miðað við tekjur sem viðkomandi hefði á því ári sem barn fæddist. Í því sambandi er ástæða til að benda á að þegar breytingar voru gerðar á fæðingarorlofslögunum á síðasta þingi flutti minni hluti félagsmálanefndar breytingartillögu um að greiðslur héldu raungildi sínu og tækju breytingum í samræmi við launavísitölu á hverjum tíma. Þannig var lagt til að þak og gólf viðmiðunarfjárhæða breyttist á hverjum tíma í samræmi við launavísitölu og að tekjur viðmiðunartímabils vegna greiðslna í fæðingarorlofi tækju breytingum í samræmi við breytingar á launavísitölu á tímabilinu.
    Þessar breytingar voru lagðar fram til þess að tryggja að breytt viðmiðunartímabil tekna sem fæðingarorlofsgreiðslur miðast við leiddu ekki til skerðingar á fæðingarorlofsgreiðslum. Þessar tillögur voru felldar. Í umræðum um þá tillögu fullyrti félagsmálaráðherra úr ræðustól á Alþingi að 80% greiðslur í fæðingarorlofi af tekjum mundu halda raungildi sínu. Benti ráðherra á að hann mundi ef nauðsyn krefði beita ákvæðum í fæðingarorlofslögum sem kveða á um að hámarksgreiðslur og lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa og verðlags. Samkvæmt því ákvæði er félagsmálaráðherra heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnar að breyta greiðslufjárhæðum til hækkunar. Minni hlutinn krefst þess að félagsmálaráðherra standi við þessa yfirlýsingu sína og að fjármagn verði tryggt til að fæðingarorlofsgreiðslur rýrni ekki, en nú stefnir í að þær rýrni um a.m.k. 6–7% og greiðslur fari niður í 74–75% af tekjum viðkomandi við töku fæðingarorlofs. Ef greiðslurnar eiga að halda raungildi sínu þarf því að bæta við 400 millj. kr. í sjóðinn sem ríkissjóður væri ella að hafa af foreldrum í fæðingarorlofi.

Vinnueftirlit ríkisins.
    Minni hlutinn vekur einnig athygli á því að ekki er gert ráð fyrir að Vinnueftirlitið fái bættan þann tekjumissi sem stofnunin varð fyrir með breytingu á fjármögnun þess sem lögfest var á síðasta ári. Áður hafði Vinnueftirlitið tekjur af tryggingagjaldi og var hlutur þess 0,048%. Sá hlutur hefði á næsta ári gefið Vinnueftirlitinu 260 millj. kr. í tekjur en framlag ríkissjóðs til stofnunarinnar á næsta ári er einungis 201,5 millj. kr. Þannig vantar 58,5 millj. kr. til að Vinnueftirlitið hafi sambærilegar tekjur og 0,048% hlutur þess í tryggingagjaldi gaf því. Á sl. ári benti ASÍ á að mikilvægt væri að efla og treysta starfsemi Vinnueftirlitsins en ljóst væri að nýlegar breytingar á vinnuverndarlögunum, ný og aukin verkefni stofnunarinnar, almennar kröfur um aukið vinnuverndarstarf og þegar hafnar og fyrirhugaðar stórframkvæmdir gerðu auknar kröfur til stofnunarinnar og kölluðu á aukið fjármagn til starfseminnar. Minni hlutinn minnir á að upplýst var í félagsmálanefnd á sl. ári að félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra hefðu sameiginlega ákveðið að við þessa breytingu yrði fjármagn ekki skert til Vinnueftirlitsins. Minni hlutinn gerir kröfu til þess að við þetta verði staðið nú við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2005.

Ábyrgðarsjóður launa.
    Minni hlutinn varaði við því í nefndaráliti sínu um fjárlagakafla félagsmálaráðuneytisins fyrir yfirstandandi ár að útgjöld sjóðsins væru verulega vanáætluð. Það er nú komið fram og eru áætluð útgjöld þessa árs um 840 millj. kr. og í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár kemur fram í yfirliti yfir markaðar tekjur ársins 2005 að Ábyrgðasjóður launa skuldar ríkissjóði 524,3 millj. kr. en fyrir skuldaði hann ríkissjóði 90 millj. kr. Samtals skuldar sjóðurinn því ríkissjóði 614 millj. kr. Í lögum um Ábyrgðasjóð launa kemur fram að sjóðurinn er fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi, hvaða nafni sem það nefnist sem skattskylt er. Ábyrgðargjald skal vera 0,04% af gjaldstofni. Skorti sjóðinn reiðufé til að standa við skuldbindingar sínar skal ríkissjóður leggja til þá fjármuni sem til þarf og skoðast það sem lántaka. Ljóst er að hækka þarf þetta gjald um a.m.k. helming eða 0,08% til að sjóðurinn geti gert upp við ríkissjóð og staðið undir skuldbindingum sínum. Á árinu 2005 þyrfti ábyrgðargjaldið að vera 0,13% svo ekki þyrfti að koma til ríkisframlags. Framlag ríkissjóðs á árinu 2005 nemur um 0,09% af gjaldstofni ábyrgðargjaldsins.

Atvinnuleysistryggingasjóður.
    Í forsendum fjárlaga 2005 er gert ráð fyrir að atvinnuleysi á árinu verði 2,7%. Útgjöld sjóðsins eru áætluð 3.795 millj. kr. Markaðar tekjur sjóðsins eru áætlaðar 3.450 millj. kr. Sjóðurinn mun þannig ganga á eigið fé sem nemur 345 millj. kr. Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir þetta ár er gert ráð fyrir að eigið fé skerðist um 95 millj. kr. Samtals er því rýrnun á eigin fé sjóðsins um 400 millj. kr. Minni hlutinn varar við því að svo harkalega sé gengið á eigið fé sjóðsins og bendir jafnframt á að líklegt er að forsendur í fjárlagafrumvarpinu um 2,7% atvinnuleysi á næsta ári standist ekki. Í því sambandi bendir minni hlutinn á að hagdeild ASÍ spáir 3% atvinnuleysi á næsta ári. Gangi það eftir vantar um 400 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð til að hann geti staðið undir útgjöldum.

Leiguíbúðir.
    Minni hlutinn gagnrýnir lækkun á framlagi ríkissjóðs til niðurgreiðslu vaxta um 60 millj. kr. og að vextir til leiguíbúða hafi ekki lækkað samfara þeim lækkunum vaxta sem nú eru í boði til kaupa og bygginga á íbúðum. Biðlistar efnalítils fólks eftir leiguíbúðum eru enn mjög langir og má ætla að nálægt 2.000 manns bíði eftir leiguíbúðum. Hjá Reykjavíkurborg eru um 800 manns á biðlista, hjá Öryrkjabandalaginu 300–400 manns, þar af um 80 geðfatlaðir, og um 500 námsmenn eru á biðlistum eftir leiguíbúðum.

Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.
    Bráðavanda nokkurra sveitarfélaga á yfirstandandi ári hefur verið mætt með 400 millj. kr. framlagi, en á engan hátt er í fjárlögunum gert ráð fyrir að mæta knýjandi fjárhagsvanda sveitarfélaganna en halli af rekstri þeirra nam 2,8 milljörðum kr. á síðasta ári. Þó liggur fyrir sameiginleg viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins, en 3. tölul. hennar fjallar sérstaklega um breytingar á tekjuskiptingu og aukin framlög í jöfnunarsjóð. Þá leiða áform ríkisstjórnarinnar um 1% lækkun tekjuskatts og lækkun hátekjuskatts til 93 millj. kr. tekjutaps jöfnunarsjóðs sem í engu er bætt og gangi hugmyndir eftir um 4% lækkun á kjörtímabilinu verður jöfnunarsjóður af 300 millj. kr. Verði ekki tekið á þessum brýnu úrlausnarefnum fyrir afgreiðslu fjárlaga eru hugmyndir um eflingu sveitarstjórnarstigsins í öngstræti.
    Ástæða er líka til að horfa á þetta tekjutap sveitarfélaga í ljósi þróunar heildartekna ríkis og sveitarfélaga af tekjuskatti einstaklinga síðan grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna. Þar sem tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru að verulega leyti byggðar á álagningarstofni útsvars er tekjutap hans verulegt og hefur minni hlutinn óskað eftir því að fá fram þær upplýsingar fyrir 2. umræðu fjárlaga. Á heimasíðu embættis ríkisskattstjóra má skoða þessa þróun. Þar má sjá að tekjur af aukinni skattbyrði einstaklinga, tekjuskatti og útsvari, hafa nær eingöngu runnið í ríkiskassann en ekki í sveitarsjóði.
    Það má sjá á eftirgreindu:
          Árið 1997 – árið eftir að grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna – var útsvarið 32,6 milljarðar kr. en tekjuskattur ríkisins 30,3 milljarðar kr. eða 2 milljörðum kr. lægri.
          Árið 2003 höfðu engu síður tekjuskattar hækkað um 6 milljarða kr. umfram útsvar. Samt höfðu sveitarfélögin fengið heimild til hækkunar á útsvari vegna nýrra verkefna og hækkaði útsvarsprósentan um u.þ.b. 1% á árunum 1999–2001.
          Skattbyrði einstaklinga (tekjuskattur og útsvar) jókst um 15% á árunum 1997–2003. Nánast allar þessar auknu álögur fóru til ríkisins, eða 14%. Aðeins 1% kom í hlut sveitarfélaganna. Af tæplega 9 milljarða kr. skattahækkun (tekjuskatti og útsvari) fór 8,1 milljarður til ríkisins en 700 millj. kr. til sveitarfélaganna.
    Í framangreindum tölum kemur tekjutap sveitarfélaga vegna stofnunar einkahlutafélaga ekki fram nema að hluta. Skýringin er sú að tekjuskattsstofninn hefur hækkað minna en ella og það lækkar tekjur sveitarfélaga. Hins vegar hefur skattur til ríkisins vaxið – t.d. skattur af arði og gífurlegum fjármagnstekjum sem hækkað hefur um 391% síðan grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna.
    Minni hlutinn vekur einnig athygli á þeirri miklu breytingu sem orðið hefur á kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga varðandi húsaleigubætur sem aukist hafa mjög mikið, m.a. vegna hækkunar á leiguverði á undanförnum árum og breytinga á lögum um húsaleigubætur. Þannig voru húsaleigubætur á árinu 2000 rúmar 595 millj. kr. og hlutur ríkisins í útgjöldunum rúmlega 58% en sveitarfélaganna 42%. Á árinu 2004 eru áætluð útgjöld vegna húsaleigubóta tæplega 1.440 millj. kr. og er hlutur ríkisins í þeim útgjöldum rúmar 575 millj. kr. eða 40% en hlutur sveitarfélaga tæpar 864 millj. kr. eða 60%. Sveitarfélögin hafa m.a. gert kröfu um að þessi kostnaðarskipting verði endurskoðuð.

Málefni fatlaðra.
    Á síðustu árum hefur verið unnið að því að mæta brýnustu neyðinni í málefnum fatlaðra með nýjum heimilum fyrir þá sem þurfa mikinn stuðning í daglegu lífi. Í Reykjavík er þessi vandi mestur, en á næsta ári er aðeins gert ráð fyrir 30 millj. kr. til nýrra úrræða. Með hinni hendinni eru síðan teknar 20 millj. kr. í hagræðingarkröfu á svæðisskrifstofum og ljóst að loforð um eyðingu biðlista verða ekki efnd. Minni hlutinn minnir líka á að 77 geðfatlaðir eru á biðlista hjá Öryrkjabandalaginu eftir húsnæði og félagsmálaráðherra hefur ekki boðað neinar lausnir á húsnæðisvanda þessa fólks á næsta ári.

Starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Starfsmenntaráð auglýsti í febrúar sl. eftir umsóknum um styrki til starfsmenntunar í atvinnulífinu. Auglýst var eftir umsóknum til tvenns konar verkefna. Þessi verkefni eru ný tækifæri til náms, með sérstakri áherslu á nám í verk- og tæknigeiranum, og ferðaþjónusta og útivist. Til úthlutunar voru 55 millj. kr. Alls sóttu 69 aðilar um styrk til 94 verkefna samtals að upphæð rúmlega 206 millj. kr. 45 aðilar fengu úthlutað styrk, samtals rúmlega 55 millj. kr., til 55 verkefna. Að auki fengu þrír aðilar sérstaka styrki að upphæð 3.350.000 kr. Heildarúthlutun sjóðsins fyrir tímabilið janúar til október 2004 var þannig 58.725.000 kr. Ófaglært fólk og fólk með stutta skólagöngu að baki nýtur einna helst þess fjármagns sem ríkisvaldið ver til starfsmennta í atvinnulífinu. Eru þessi framlög mikilvæg þar sem starfsmenntun í atvinnulífinu er svo sannarlega lykill að bættum kjörum þessara hópa. Minni hlutinn gagnrýnir að einungis eigi að verja 60 millj. kr. í starfsmenntasjóð á næsta ári sem er engin breyting frá síðustu fjárlögum. Minni hlutinn telur að fjármagnið nýtist vel til að bæta kjör láglaunafólks sem getur orðið til þess að draga úr atvinnuleysi sem stöðugt verður meira áhyggjuefni hér á landi og þar með þörf fyrir atvinnuleysisbætur. Minni hlutinn telur mikilvægt verkefni á næstu árum að efla starfsmenntun í atvinnulífinu og spilar þar veglegt framlag til starfsmenntasjóðs lykilhlutverk.

Atvinnumál kvenna.
    Á árinu 2004 bárust 178 umsóknir um styrki til atvinnumála kvenna sem námu tæplega 150 millj. kr. Alls voru veittir 45 styrkir að upphæð 20 millj. kr. sem er 5 millj. kr. lækkun frá á árinu 2003. Síðan 1994 hafa einungis verið veittar 20 millj. kr. árlega. Minni hlutinn telur það óásættanlegt að þessi upphæð hafi staðið svo í stað. Því telur minni hlutinn mikilvægt að hún hækki svo að hún verði í einhverjum takti við eftirspurn. Má þar nefna að heildarupphæð umsókna á árinu 2003 var 236 millj. kr. og er því nokkur lækkun á þessu ári miðað við árið í fyrra. Má ætla að konur telji vonlaust að sækja um fjármagn til sjóðsins vegna þeirrar lágu upphæðar sem heildarúthlutunin er. Það er skoðun minni hlutans að auka beri framlög í sjóðinn og efla þannig frumkvöðlastarf meðal kvenna á Íslandi. Reynslan af þessari úthlutun er mjög góð og hefur nýst vel og gert mörgum konum kleift að koma á fót atvinnurekstri sem ætla má að ekki hefði orðið af hefði þessa fjármagns ekki notið við.

Niðurstaða.
    Af framansögðu er ljóst að um verulega vanáætlun er að ræða í fjárlagakafla félagsmálaráðuneytisins sem stjórnarflokkarnir einir verða að bera fulla ábyrgð á. Ljóst er einnig að fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru öll í uppnámi sem ekki hefur auðveldað lausn kennaradeilunnar. Að auki gerir minni hlutinn alvarlegar athugasemdir við hvernig ýmsir veigamiklir þættir velferðarsamfélagsins eru hornreka hjá núverandi valdhöfum. Auk þess blasa við verulegar skerðingar á greiðslum til fólks í fæðingarorlofi. Ábyrgðinni er því alfarið vísað á stjórnarflokkana.
    Bjarkey Gunnarsdóttir áheyrnarfulltrúi er samþykk áliti þessu.

         Alþingi, 10. nóv. 2004.
         
         Jóhanna Sigurðardóttir.
         Helgi Hjörvar.
         Katrín Júlíusdóttir.
         Sigurlín Margrét Sigurðardóttir.

Fylgiskjal XIV.Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október sl.
    Á fund nefndarinnar komu Davíð Á. Gunnarsson, Svanhvít Jakobsdóttir, Hrönn Ottósdóttir og Dagný Brynjólfsdóttir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Karl Steinar Guðnason, Ágúst Þór Sigurðsson, Ásta R. Magnúsdóttir, Sigríður Lillý Baldursdóttir, Ragnar M. Gunnarsson og Kristján Guðjónsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Jóhannes M. Gunnarsson, Vilhelmína Haraldsdóttir, Anna Stefánsdóttir og Ingólfur Þórisson frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Guðmundur Einarsson, Lúðvík Ólafsson, Þórunn Ólafsdóttir og Jónas Guðmundsson frá heilsugæslunni í Reykjavík og Sigrún Kristjana Óskarsdóttir frá Hlíðabæ.
    Í frumvarpinu kemur fram að heildargjöld ráðuneytisins verði 119.031 millj. kr. að teknu tilliti til aðhaldsaðgerða, sem eru 189 millj. kr. hagræðingarkrafa og 117 millj. kr. niðurfelling á tímabundnum fjárveitingum, og hækkun milli ára nemi 8.488 millj. kr. Þar af eru launa- og verðlagsbætur 4.188 millj. kr. Raunaukning útgjalda er 3,9%, 4,3 millj. kr. Þar af nemur kerfislæg breyting í almannatryggingum (fjölgun bótaþega), 2.935 millj. kr.
    Ekki er gerð hagræðingarkrafa í frumvarpinu til Landspítala – háskólasjúkrahúss, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eða hjúkrunarheimila og -rýma. Framlög til sjúkrahúsa, sjúkrastofnana og sjúkrasviða heilbrigðisstofnana hækka samtals um 825 millj. kr. milli áranna 2004 og 2005, og þar af fara 500 millj. kr. til Landspítala – háskólasjúkrahúss til að styrkja rekstrargrunn miðað við óbreytta starfsemi.

Landspítali – háskólasjúkrahús.
    Á fundum nefndarinnar var staða Landspítala – háskólasjúkrahúss mikið rædd og kom fram, svo og í stjórnunarupplýsingum fyrir fyrstu níu mánuði ársins, að starfsemi sjúkrahússins er enn að styrkjast og hefur náðst talsverð framleiðniaukning. Biðlistar eru nú engir í mörgum sérgreinum, í öðrum er bið sem er talin viðunandi og í örfáum greinum, augnaðgerðum og aðgerðum vegna offitu, er bið of löng þó svo að hún hafi styst um helming.
    Til að ná fram frekari hagræðingu og aukinni skilvirkni í rekstri sjúkrahússins þarf m.a. að tryggja því áfram forgang að hjúkrunarrýmum í nágrenninu. Enn dveljast um 100 sjúklingar á sjúkrahúsinu sem lokið hafa sérhæfðri bráða- og endurhæfingarmeðferð og því er það eitt brýnasta viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir aldraða, fyrir geðfatlaða og fyrir unga fatlaða einstaklinga.
    Í þessu samhengi er jafnframt rétt að árétta þá miklu möguleika á hagræðingu í þjónustunni sem munu skapast með byggingu nýs bráðaspítala en áætlað er að sameining bráðastarfseminnar á einn stað muni spara mörg hundruð milljónir króna árlega.
    Forsvarsmenn sjúkrahússins lögðu m.a. áherslu á þann rekstrarvanda sem skapast við það að kostnaður vegna S-merktra lyfja eykst á hverju ári langt umfram forsendur í fjárlögum að viðbættum auknum kostnaði vegna launatengdra gjalda.

Rafræn sjúkraskrá.
    Meiri hlutinn leggur enn og aftur áherslu á þýðingu þess m.a. fyrir aðhald og hagræðingu í heilbrigðiskerfinu að ráðist verði í að byggja upp heilbrigðisnet og innleiða rafræna sjúkraskrá í heilbrigðisþjónustunni. Tekin verði markviss skref til innleiðingar á rafrænni sjúkraskrá fyrir alla heilbrigðisþjónustu, jafnt á sjúkrastofnunum sem á heilsugæslustöðvum og hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og ráðist verði í kostnaðarmat og framkvæmdaáætlun um verkið án frekari tafa. Auk hagræðisins af slíku kerfi mun það tryggja öryggi og betri og greiðari þjónustu fyrir sjúklinga og auka alla skilvirkni í heilbrigðisþjónustunni. Áætlað er að þessi fjárfesting nemi tæpum 2 milljörðum kr. en að fjárhagslegur ávinningur að lokinni fjárfestingu geti numið allt að 850 millj. kr. á ári.

Fjölgun örorkulífeyrisþega.
    Á fundum nefndarinnar var mikið rætt um hækkun framlaga samhliða mikilli fjölgun örorkulífeyrisþega. Fyrir liggur að fjölgunin hefur verið tæplega 40% á fimm árum frá 1998 og heildarbætur vegna öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega hafa á sama tíma hækkað úr rúmlega 5 milljörðum kr. í rúmlega 12 milljarða kr. Sérstaka athygli vekja breytingar á aldursskiptingu öryrkja og kynjahlutföllum, 63% fleiri konur á aldrinum 25–29 ára eru öryrkjar en fyrir fimm árum sem dæmi. Eins vekur athygli hvað öryrkjum hefur fjölgað misjafnlega eftir landshlutum á þessu tímabili. Í greinargerð Tryggingastofnunar til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er velt upp ýmsum mögulegum skýringum en heilbrigðisráðherra hefur í samráði við fjármálaráðherra falið forstöðumanni Hagfræðistofnunar að grafast fyrir um ástæður mikillar fjölgunar öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega og skila um það skýrslu við upphaf næsta árs. Meiri hlutinn leggur áherslu á að sérstaklega sé hugað að því hvort um kerfislægan vanda sé að ræða og að sérstaklega verði skoðað samspil lægstu launa, fjárhæðar atvinnuleysisbóta og lífeyrisgreiðslna.

Efling heilsugæslunnar.
    Meiri hlutinn leggur sem fyrr mikla áherslu á eflingu heilsugæslunnar og mikilvægi þess að hún sé öflug og hæf til að sinna hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Meiri hlutinn fagnar því hækkun framlaga til heilsugæslunnar um 347 millj. kr. milli áranna 2004 og 2005. Sem fyrr leggur meiri hlutinn áherslu á aukið þverfaglegt samstarf heilbrigðisstarfsmanna innan heilsugæslunnar sem gefið hefur mjög góða raun svo sem reynslan af ýmsum geð- og meðferðarteymum hefur sýnt. Hluti af auknum framlögum til heilsugæslunnar, eða 42,1 millj. kr., er ætlaður til eflingar geðheilbrigðisþjónustu innan hennar og leggur meiri hlutinn áherslu á að a.m.k. hluti þeirrar fjárhæðar verði nýttur til að mæta aukningu sálfélagslegra vandamála í öllum aldurshópum sem kallar á aukna þátttöku sálfræðinga, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa í starfi heilsugæslunnar.
    Aðgengi að heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu hefur batnað mjög síðustu tvö árin, aðsókn hefur aukist og komum til læknis fjölgað um 12 þúsund árið 2003 og enn um 16.700 fyrstu átta mánuði þessa árs. Meiri hlutinn telur brýnt að tryggja áframhaldandi starfrækslu síðdegisvakta við heilsugæslustöðvarnar til að tryggt sé að sjúklingar þurfi ekki að leita í önnur dýrari og óþörf úrræði en jafnframt telur hann brýnt svo að starfsemi heilsugæslunnar og vinnutími starfsmanna sé skipulagður með tilliti til þessa svo að hægt sé að halda þessari þjónustu úti á sem hagkvæmastan hátt.
    Meiri hlutinn fagnar sérstaklega hækkun framlaga til öldrunarþjónustunnar, en með frumvarpinu er tryggð fjárveiting til reksturs 128 nýrra hjúkrunarrýma, þar af eru 83 í notkun hluta yfirstandandi árs, fjölgun dagvistarrýma fyrir heilabilaða um 20% og hækkun fjárveitinga til hvíldarinnlagna.
    Drífa Hjartardóttir og Bjarni Benediktsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.

Alþingi, 11. nóv. 2004.

Jónína Bjartmarz, form.
Drífa Hjartardóttir, með fyrirvara.
Pétur H. Blöndal.
Bjarni Benediktsson, með fyrirvara.
Siv Friðleifsdóttir.
Fylgiskjal XV.Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


    Minni hlutinn lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ríkisstjórnarflokkarnir ætli ekki að uppfylla samkomulagið við Öryrkjabandalagið um aldurstengdar örorkubætur frá 25. mars 2003. Allir stjórnmálaflokkar landsins nema Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, helstu fjölmiðlar í landinu og í raun allir sem hafa tjáð sig eru sammála um að ríkisstjórnin hafi ekki uppfyllt samkomulagið við öryrkja.
    Ljóst er að á vantar um 500 millj. kr. svo að hægt verði að standa við það fyrirkomulag sem kynnt var, þ.e. að tvöfalda hækkun grunnlífeyris hjá yngstu örykjunum. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest í fjölmiðlum að loforðið við öryrkja hafi ekki verið efnt að fullu. Haustið 2003 talaði ráðherrann um að ,,greiða þyrfti hækkanirnar sem um var samið í áföngum, 66% [kæmu] til greiðslu um næstu áramót [2003–2004] og afgangurinn ári síðar“. Sömuleiðis sagði heilbrigðisráðherra: ,,… miðað við þær heimildir sem ég hef þarf hins vegar að áfangaskipta þessu samkomulagi. En það stendur ekki til annað en að standa við það eins og það stendur.“
    Nú heyrist hins vegar annar tónn í ráðherra og öryrkjar eru sviknir aftur. Ekki er gert ráð fyrir neinu fé í fjárlagafrumvarpinu til að standa við „afganginn“ eða seinni áfangann eins og heilbrigðisráðherra talaði um fyrir um ári síðan.

Skammtímahugsun varðandi Landspítala – háskólasjúkrahús.
    Fjárhagsvandi Landspítala – háskólasjúkrahúss er mikill. Handahófskenndar niðurskurðartillögur eru kynntar með reglulegu millibili án þess að tekið sé tillit til nauðsynlegrar starfsemi, kostnaðar vegna sameiningar sjúkrahúsanna og óhagræðis af því að reka bráðastarfsemi á tveimur stöðum. Ábyrgðinni á því að reka stofnunina innan fjárlagarammans er alfarið varpað á stjórnendur spítalans sem nú hafa m.a. lagt til enn frekari skerðingu á þjónustu og hækkun notendagjalda til að ná markmiðum fjárlagafrumvarpsins.
    Minni hlutinn vill minna á bókun fulltrúa í stjórnarnefnd spítalans við afgreiðslu tillagna um aðgerðir vegna þessa. Við afgreiðslu þessa máls lögðu Margrét S. Björnsdóttir og Margrét K. Sverrisdóttir fram svohljóðandi bókun:
    „Enn standa stjórnendur Landspítala – háskólasjúkrahúss frammi fyrir kröfum stjórnvalda um niðurskurð. Á árinu 2005 þarf að skera niður sem svarar 600 milljónum í rekstri spítalans miðað við tilkostnað árið 2004, niðurskurður sem mun hafa í för með sér skerta þjónustu og aukinn kostnað sjúklinga.
    Fjárveitingar til spítalans hafa á föstu verðlagi nánast staðið í stað árin 1999–04 á sama tíma og veruleg aukning hefur orðið á heildarútgjöldum ríkisins til heilbrigðismála. Þetta gerist þrátt fyrir miklar verðhækkanir á lyfja- og lækningavörum LSH umfram forsendur fjárlaga, hækkun launatengdra gjalda LSH vegna ákvarðana stjórnvalda, aukna eftirspurn eftir þjónustu spítalans m.a. vegna framfara í tækni og lyfjum og þess að fjölgað hefur í eldri aldurshópum. Þessi atriði hafa leitt til þess að spítalinn hefur sagt upp starfsfólki, lækkað laun hjá tilteknum hópum, og dregið úr stoðþjónustu eins og sjúkraþjálfun. Þetta hefur leitt til aukins álags á starfsfólk, en of mikið álag hefur áhrif á gæði þjónustunnar og þar með árangur.
    Þrátt fyrir þetta hafa staðið yfir umfangsmiklar umbætur í öllum rekstri og starfsemi í kjölfar sameiningar spítalanna. Starfsemi sérgreina hefur styrkst og framleiðni aukist. Má geta þess að á síðasta ári fækkaði um þriðjung á biðlistum eftir aðgerðum á spítalanum. Ljóst er að allt þetta hefur skapað mikið álag á starfsfólk spítalans.
    Til að ná niður kostnaði á árinu 2005 hefur framkvæmdastjórn í samráði við stjórnarnefnd LSH unnið tillögur sem lagðar verða fyrir heilbrigðisráðherra. Undirritaðar, fulltrúar Frjálslynda flokksins og Samfylkingar í stjórnarnefnd, telja ýmsar þeirra tillagna eðlilegar umbætur og til bóta. Hins vegar viljum við að það komi skýrt fram að við getum ekki fallist á þá 10% hækkun þjónustugjalda sem lögð er til. Með því væri m.a. horfið frá þeirri heilbrigðisstefnu sem hingað til hefur verið sátt um, þ.e. að sjúklingar sem leggjast inn á spítala þurfi ekki að greiða fyrir úr eigin vasa.
    Tillögur eru um að breyta legudeildum í 5 daga deildir, sem mundi þýða aukna tilflutninga sjúklinga. Framkvæmdastjórn varar í því sambandi við aukinni sýkingahættu við flutninga fólks milli deilda, en spítalasýkingar geta verið lífshættulegar veiku fólki. Við tökum undir þessar áhyggjur.
    Undirritaðar, fulltrúar Frjálslynda flokksins og Samfylkingar í stjórnarnefnd, átelja ríkisstjórnina fyrir að þrengja að rekstri spítalans eitt árið enn. Nær væri að hægja á skattalækkunum næsta árs, en búa vel að þessari lykilstofnun íslenska heilbrigðiskerfisins.
    Við lýsum jafnframt áhyggjum okkar af því að hinu metnaðarfulla starfi sem starfsfólkið hefur byggt upp, m.a. við sameiningu spítalanna, og þeim góða árangri sem tölur sanna að hafi verið náð verði alvarlega ógnað með frekari samdráttaraðgerðum.“
    Minni hlutinn vill í þessu sambandi minna á að stjórnmál snúast um forgangsröðun og telur að málefni Landspítalans og heilbrigðisþjónustu almennt séu ekki mjög ofarlega í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Í því sambandi má minna á að á sama tíma og ríkissjóður hefur um 305 milljarða kr. á milli handanna á hverju ári vantar Landspítalann um 600–700 millj. kr. til að geta veitt óbreytta þjónustu.

Heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður.
     Minni hlutinn tekur undir álit meiri hlutans um mikilvægi þess að efla heilsugæsluna og telur hagkvæmast og skynsamlegast að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Svo að það megi verða þarf að gera enn frekara átak í málefnum heilsugæslunnar og styrkja starfsemi hennar með fleiri starfsstéttum, svo sem félagsfræðingum, auka þverfaglega vinnu og forvarnastarf og sömuleiðis samvinnu heilsugæslu og annarra stofnana innan velferðarkerfisins. Í lögum um framhaldsskóla er gert ráð fyrir að skólarnir semji um slíka þjónustu við heilsugæsluna en hvergi er gert ráð fyrir fjármagni til þessa.
    Samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslunni í Reykjavík, Kópavogi, á Seltjarnarnesi og í Mosfellsumdæmi eru um 10.000 manns ekki skráðir hjá heimilislækni á því svæði og þarf því enn að bæta þjónustu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og efla með tilliti til íbúaþróunar og aldurssamsetningar.
    Minni hlutinn tekur einnig undir álit meiri hlutans hvað varðar mikilvægi þess að áfram verði starfræktar síðdegisvaktir á heilsugæslustöðvum. Minni hlutinn vill einnig ítreka mikilvægi öflugrar heilsugæslu úti á landi og telur að vel þurfi að standa að málefnum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.
    
Málefni aldraðra og minnissjúkra.
    Minni hlutinn vill minna á alvarlega stöðu aldraðra sem búa við það að kaupmáttur ráðstöfunartekna þeirra hefur lækkað þar sem skattleysismörk hafa hvorki fylgt verðlagsþróun né launahækkunum. Kjör þeirra lífeyrisþega sem minnst hafa, svo sem þeirra sem lifa á almannatryggingagreiðslunum eingöngu, verður að bæta.
    Bið eftir hjúkrunarrýmum er óviðunandi, þrátt fyrir fjölgun þeirra, og minnir minni hlutinn á að enn eru 100 hjúkrunarsjúklingar inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem með réttu eiga ekki heima þar og gætu fengið betri þjónustu annars staðar. Þá vill minni hlutinn minna á brýna nauðsyn úrræða fyrir unga hjúkrunarsjúklinga, undir 67 ára, svo sem heilabilaða, sem ekki fá hjúkrunarrými.
    Minni hlutinn telur mikilvægt að dagþjónustustofnanir fái sambærilegar greiðslur og hjúkrunarheimili vegna skjólstæðinga sem fara út af stofnunum tímabundið, svo sem vegna hvíldarinnlagna. Minni hlutinn telur mikilvægt að fjölgað verði valkostum og úrræðum fyrir aldraða, svo sem með aukinni heimilishjálp, dagvistun og hvíldarinnlögnum, svo að komast megi hjá innlögnum á hjúkrunarheimili eða dýrari vistun.

Sálfræðiþjónusta.
    Minni hlutinn fagnar 42 millj. kr. framlagi til þess að efla geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar. Eftir er að skipta þessari fjárhæð milli heilsugæslustöðva og er ljóst að eftirspurn eftir fjárveitingu til ákveðinna verkefna verður mun meiri en hægt verður að sinna af þessum fjárlagalið. Því hlýtur minni hlutinn að líta á þetta sem fyrsta skref til eflingar þessari mikilvægu þverfaglegu þjónustu. Auk þess að koma á starfi sálfræðinga og félagsráðgjafa innan heilsugæslunnar er einnig mikilvægt að Tryggingastofnun semji við þessar stéttir (sálfræðinga) um greiðsluþátttöku eins og heimild er fyrir í lögum. Slíkt gæti borgað sig á skömmum tíma, t.d. með minnkandi lyfjaneyslu, en þrátt fyrir lagaheimild og viðurkennda þörf hefur fjármagn ekki fengist til þessa þáttar.

Rafræn sjúkraskrá og upplýsingasamfélagið.
    Minni hlutinn tekur undir áherslu meiri hlutans á að fjármagn verði veitt til að undirbúa gerð rafrænna sjúkraskráa.
    Tryggja þarf fjármagn til að halda áfram uppbyggingu fjarfundabúnaðar og tryggja öruggt netsamband við allar heilbrigðisstofnanir, svo og þráðlaust símsamband um allt land.

Önnur heilbrigðisþjónusta.
    Minni hlutinn leggur sömuleiðis ríka áherslu að bæta stöðu Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands svo að hægt verði að stytta biðtíma þar. Þjóðin er að eldast og taka verður sérstaklega tillit til þess við fjárframlög til öldrunartengdrar þjónustu.
    Fjöldi sjúklinga með átröskun eykst ár frá ári og virðist ekkert benda til þess að draga muni úr honum á næstu árum. Sárlega vantar sérstaka sjúkradeild fyrir þessa sjúklinga þar sem þeir eiga vart heima inni á almennum sjúkradeildum.
    Sjúkrastofnanir eiga flestar í miklum erfiðleikum með að halda uppi óbreyttum rekstri vegna kröfu um aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum. Mikið álag hefur því verið á alla starfsmenn á undanförnum árum og verður að vara við frekari kröfum um sparnað svo að ekki verði gengið á öryggi sjúklinga. Nýjum meðferðarúrræðum og þróunarstarfi innan stofnana eru takmörk sett við þessar aðstæður og mun það hafa áhrif á gæði heilbrigðisþjónustunnar til lengri tíma litið.
    Að lokum vill minni hlutinn áskilja sér fullan rétt til að benda á fleiri atriði sem betur mættu fara þegar kemur að skiptingu opinbers fé.

Alþingi, 11. nóv. 2004.

Ásta R. Jóhannesdóttir.
Ágúst Ólafur Ágústsson.
Guðrún Ögmundsdóttir.
Þuríður Backman.
Fylgiskjal XVI.


Álit


    
um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá samgöngunefnd.    Samgöngunefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf formanns fjárlaganefndar frá 12. og 18. október sl.
    Nefndin fékk á sinn fund Halldór S. Kristjánsson og Odd Einarsson frá samgönguráðuneyti og gerðu þeir grein fyrir þeim liðum frumvarpsins sem snerta ráðuneytið.
    Að auki komu á fund nefndarinnar Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri ásamt Kristjáni Vigfússyni til að ræða þann hluta frumvarpsins sem snýr að verksviði Siglingamálastofnunar, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri ásamt Sigrúnu Traustadóttur til að ræða þann hluta frumvarpsins sem snýr að verkefnum Flugmálastofnunar og Jón Rögnvaldsson til að ræða þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að vegamálum.
    Meiri hluti samgöngunefndar vekur athygli á að Siglingastofnun telur að hækka þurfi greiðslur úr ríkissjóði frá því sem nú er gert ráð fyrir í frumvarpinu um 27 millj. kr. Á árinu 2004 færðist tæknilegur hluti skipaskoðunar frá Siglingastofnun til einkarekinna skoðunarstofa og flokkunarfélaga. Við það féllu niður tekjur stofnunarinnar vegna þessa en hluti kostnaðar hefur haldist og mun gera um sinn, svo sem vegna uppgjörs við starfsfólk og leigu á húsnæði. Þá bentu fulltrúar Siglingastofnunar á að þeir teldu rétt að sundurliða nánar hvað sett er undir almennan rekstur í liðnum 10-335 auk þess sem þeir lögðu til að færðar yrðu 15 millj. kr. frá liðnum 10-335-6.01 Tæki og búnaður yfir í almennan rekstur. Meiri hlutinn telur það á verksviði fjárlaganefndar að taka afstöðu til þessara athugasemda. Hann mælir þó með að tillaga fulltrúa Siglingastofnunar um nánari sundurliðun verði tekin til greina svo fremi það raski ekki samræminu og samanburði við aðra sambærilega liði fjárlagafrumvarpsins.
    Á fundi með fulltrúum Flugmálastjórnar komu fram nokkrar athugasemdir sem meiri hlutinn telur að fjárlaganefnd beri að skoða í fjárlagavinnunni. Þar nefnir meiri hlutinn helst athugasemd Flugmálastjórnar um að gjaldaheimildir verði veittar til að ráðstafa ríkistekjum til brýnna verkefna vegna aukinna alþjóðlegra krafna og að fullnægjandi lánsfjárheimild verði veitt alþjóðaflugþjónustunni. Þá kom fram á fundi með fulltrúum Flugmálastjórnar að þeir telja mikilvægt að beint framlag ríkisins til flugmála haldist óbreytt í framtíðinni en að leiðrétta eigi í fjáraukalögum 2004 og fjárlögum 2005 lækkun framlagsins frá fjáraukalögum 2003.
    Gestir nefndarinnar töldu sig hafa gert fjárlaganefnd grein fyrir athugasemdum sem komu fram á fundum um málið.
    Nefndin hefur, með vísan til framangreinds bréfs formanns fjárlaganefndar frá 18. október sl., ekki tekið til skoðunar skiptingu á lið 10-190-1.90 Ýmislegt svo sem venja er til. Meiri hlutinn fagnar því að vinna við skiptingu á þessum lið og önnur samskipti fastanefnda og fjárlaganefndar séu tekin til endurskoðunar.
    Meiri hlutinn gerir ekki frekari athugasemdir við frumvarpið.
    Hilmar Gunnlaugsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara þar sem hann situr fundi samgöngunefndar og einnig fundi fjárlaganefndar í fjarveru Arnbjargar Sveinsdóttur.

Alþingi, 12. nóv. 2004.

Guðmundur Hallvarðsson, form.
Hjálmar Árnason.
Guðjón Hjörleifsson.
Hilmar Gunnlaugsson, með fyrirvara.
Dagný Jónsdóttir.
Fylgiskjal XVII.
Álit


    
um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá minni hluta samgöngunefndar.    Samgöngunefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf formanns fjárlaganefndar frá 12. og 18. október sl.
    Nefndin fundaði með fulltrúum samgönguráðuneytis, vegamálastjóra, flugmálastjóra og siglingamálastjóra.
    Við meðferð málsins óskaði minni hlutinn sérstaklega eftir að fá að sjá þær fjárlagatillögur sem stofnanirnar, sem fundað var með, gerðu til ráðuneytisins við undirbúning frumvarpsins. Þessar tillögur fékk nefndin ekki.
    Flugmálastjóri sendi minnisblað þar sem hann þó rekur nokkuð ítarlega athugasemdir sínar við frumvarpið og gerir nokkra grein fyrir fjárlagatillögum sínum vegna flugmála. Þá lagði hafnarstjóri fram minnisblað á fundi með nefndinni þar sem hann gagnrýnir nokkra þætti í þeim kafla er varðar siglingamál. Vegamálastjóri tilkynnti starfsmanni nefndarinnar að hann hefði sent fjárlagatillögur Vegagerðarinnar til samgönguráðuneytis og að nefndin yrði að óska eftir tillögunum þaðan.
    Þegar síðan var gengið á eftir því að fá fjárlagatillögur stofnananna þriggja sendar frá samgönguráðuneyti neitaði ráðuneytið að afhenda þær. Þessu mótmælir minni hluti nefndarinnar.
    Minni hlutinn telur ómögulegt að gefa álit um frumvarp til fjárlaga án þess að hafa áður fengið að sjá fjárlagatillögur stofnananna og upplýsingar um röksemdir sem þar liggja að baki útreikningum. Minni hlutinn telur ómögulegt fyrir fastanefndir þingsins að meta frumvarpið og leggja fram rökstudda gagnrýni á einstaka kafla nema þær fái helstu gögn sem liggja því að baki.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir niðurskurði upp á rúma 2 milljarða kr. varðandi vegamál án þess að fram hafi komið hvar eigi að skera niður eða hvaða verkefnum eigi að fresta.
    Minni hlutinn ítrekar því gagnrýni sína á þau vinnubrögð ráðuneytisins að neita nefndinni um upplýsingar sem liggja að baki fjárlagafrumvarpinu og vísar um þetta efni m.a. til álits 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar.


Alþingi, 15. nóv. 2004.

Kristján L. Möller.
Björgvin G. Sigurðsson.
Bryndís Hlöðversdóttir.
Pétur Bjarnason.

Fylgiskjal XVIII.Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá iðnaðarnefnd.    Iðnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. og 18. október 2004.
    Nefndin fékk á sinn fund Kristján Skarphéðinsson, Helga Bjarnason, Sigurrós Hilmarsdóttur og Pétur Örn Sverrisson frá iðnaðarráðuneyti og skýrðu þau þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess.
    Heildargjöld iðnaðarráðuneytisins árið 2005 eru áætluð um 4.490 millj. kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 757 millj. kr. en þær nema 17% af heildarútgjöldum ráðuneytisins. Rekstrargjöld ráðuneytisins hækka um 70 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs. Auk launa og verðlagshækkana munar þar mestu um aukin framlög til nýsköpunar og markaðsmála.
    Nefndin telur með hliðsjón af yfirferð fulltrúa iðnaðarráðuneytisins ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá liði fjárlagafrumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess.
    Einar Oddur Kristjánsson skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd. Jóhann Ársælsson og Einar Már Sigurðarson skrifa undir álitið með fyrirvara. Sigurður Kári Kristjánsson, Kjartan Ólafsson, Ásta R. Jóhannesdóttir og Sigurjón Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. nóv. 2004.

Birkir J. Jónsson, form.
Einar Oddur Kristjánsson, með fyrirvara.
Guðmundur Hallvarðsson.
Jóhann Ársælsson, með fyrirvara.
Einar Már Sigurðarson, með fyrirvara.
Fylgiskjal XIX.Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og tvö bréf fjárlaganefndar frá 12. og 18. október. Nefndin fékk til sín á fund Hrafnhildi Þorvaldsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Hún fór yfir þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar og svaraði spurningum nefndarmanna.
    Heildargjöld umhverfisráðuneytis árið 2005 eru áætluð um 4.987 millj. kr. á rekstrargrunni sem er 14% hækkun frá áætlun fjárlaga fyrir árið 2004. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 558 millj. kr. en þær nema um 11% af heildargjöldum ráðuneytisins.
    Á síðasta vori var samþykkt á Alþingi náttúruverndaráætlun, sú fyrsta sinnar tegundar. Augljóst er að mikil vinna er fram undan á vegum umhverfisráðuneytis og stofnana þess við að hrinda í framkvæmd friðlýsingu á þeim svæðum sem áætlunin tekur til. Þessu tengd eru áform um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Meiri hlutinn beinir því til fjárlaganefndar að farið verði vandlega yfir fjárhagslega stöðu þessara mála til að unnt verði að fylgja eftir ákvörðunum Alþingis í þessum efnum.
    Þá ítrekar meiri hlutinn þá áherslu sem fram kom í áliti meiri hlutans í fyrra, að veitt verði fé til gerðar náttúrufarskorta en slík kort eru m.a. forsenda faglegra vinnubragða við umhverfismat, gerð skipulagsáætlana og framkvæmd íslenskrar umhverfislöggjafar.

Alþingi, 10. nóv. 2004.

Guðlaugur Þór Þórðarson, form.
Hilmar Gunnlaugsson.
Sigurður Kári Kristjánsson.
Kjartan Ólafsson.
Dagný Jónsdóttir.
Rannveig Guðmundsdóttir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Fylgiskjal XX.Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá minni hluta umhverfisnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og tvö bréf fjárlaganefndar frá 12. og 18. október. Nefndin fékk til sín á fund Hrafnhildi Þorvaldsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Hún fór yfir þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar og svaraði spurningum nefndarmanna.
    Það er álit minni hluta umhverfisnefndar að ráðlegt hefði verið að kalla forstöðumenn stofnana sem heyra undir málasvið nefndarinnar á hennar fund, en ekki reyndist nægur tími til þess, svo minni hlutinn óskaði eftir sérstökum upplýsingum frá forstöðumönnum helstu stofnana og frá Samtökum náttúrustofa. Nefndinni bárust minnisblöð frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Skipulagsstofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands og Samtökum náttúrustofa. Álit þetta byggist á upplýsingum úr þessum minnisblöðum.

Stofnanir umhverfisráðuneytisins.
    Það er ljóst að allar þessar stofnanir eiga við rekstrarvanda að etja og nauðsynlegt er að fjárveitingavaldið taki afstöðu til þeirra upplýsinga sem því hafa verið gefnar við skoðun þessara mála í nefndum þingsins. Í því sambandi telur minni hlutinn nauðsynlegt að bæta Náttúrufræðistofnun Íslands uppsafnaðan halla auk þess sem þörf er á að hækka árlegan rekstrargrunn stofnunarinnar. Ef þetta verður ekki gert eru frekari uppsagnir yfirvofandi hjá stofnuninni og fari svo að fleiri verði sagt upp aukast erfiðleikar stofnunarinnar við að sinna lögbundnum verkefnum sínum með fullnægjandi hætti. Þá vill minni hlutinn að sértekjukrafa sú sem hvílir á stofnuninni verði lækkuð, enda er hún með öllu óraunhæf. Það sama má segja um sértekjukröfu á Skipulagsstofnun sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það er mat minni hlutans að nauðsynlegt sé að lækka hana til samræmis við það sem raunhæft getur talist. Hafa verður í huga að Skipulagsstofnun getur ekki haft áhrif á sértekjur sínar heldur ráðast þær alfarið af fjölda framkvæmda sem stofnuninni er ætlað að úrskurða um. Þá ber fjárlaganefnd að líta til þeirrar staðreyndar að Skipulagsstofnun hefur þurft að standa undir auknum skyldum vegna breytinga sem gerðar voru á lögum um mat á umhverfisáhrifum 2000 og er eðlilegt að fjárveitingavaldið leiðrétti fjárveitingu til stofnunarinnar vegna þessa. Þá er Veðurstofa Íslands þannig sett að veðurþjónustan, og úrvinnsla veðurgagna, er komin niður fyrir ásættanlegt lágmark að mati forstöðumanns stofnunarinnar. Það er mat minni hlutans að í fjárlögum fyrir árið 2005 verði að taka tillit til þessa. Loks ber að geta Umhverfisstofnunar, en þar er sömu sögu að segja, fjárlaganefnd hefur láðst að reikna með fjárveitingu vegna verndaráætlunar fyrir Mývatnssveit sem þó var gert ráð fyrir í lögum nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Þetta verður að leiðrétta. Einnig skortir enn á fjárveitingu til stofnunarinnar til dýraverndarmála. Þar er um að ræða atriði sem minni hluti umhverfisnefndar óskaði leiðréttinga á 2003 og er sú krafa áréttuð í þessu áliti. Einnig er nauðsynlegt að staðið verði við stóru orðin um átak í uppbyggingu þjóðgarða og friðlýstra svæða. Umhverfisstofnun ber hitann og þungann af því starfi og nauðsynlegt er að henni sé gert kleift að standa þannig að málum að sómi sé að. Þá er minni hlutinn sammála því sem segir í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar um nauðsyn þess að farið verði vandlega yfir fjárhagsstöðu verkefna er tengjast nýsamþykktri náttúruverndaráætlun og að fjárframlög í það verkefni verði tryggð.

Náttúrustofur.
    Minni hlutinn telur fjárlagafrumvarpið ekki gæta lögbundinnar skyldu Alþingis gagnvart náttúrustofunum. Þær starfa samkvæmt lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, og í 10. gr. segir að framlag ríkisins til hverrar stofu skuli miðast við fjárhæð er nemi launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri fjárhæð sem sé allt að því jafnhá þeirri fjárhæð. Samkvæmt því ætti framlag ríkisins til hverrar stofu að vera nálægt 11,7 millj. kr., en frumvarpið gerir ráð fyrir 7,9 millj. kr. á hverja þeirra. Þannig vantar 3,8 millj. kr. upp á framlagið til hverrar stofu til að það standi undir því sem til er ætlast samkvæmt lögunum. Þetta telur minni hlutinn að þurfi að leiðrétta. Auk þess má nefna stefnuleysi gagnvart möguleikum stofanna til að fjármagna sérverkefni sín. Slíkir styrkir koma gjarnan af safnliðum fjárlaga og um þá ríkir óvissa þar til við endanlega afgreiðslu laganna. Þar með skapar Alþingi stofunum óviðunandi aðstæður sem gera þeim afar erfitt fyrir að skipuleggja starfsemi sína.

Safnliðir.
    Eins og fram kemur í inngangi álits þessa bárust umhverfisnefnd tvö bréf frá fjárlaganefnd, annað dagsett 12. október og hitt dagsett 18. október. Hið fyrra var til að tilkynna umhverfisnefnd að óskað væri eftir því að hún gerði tillögur um skiptingu safnliða sem heyrðu undir ráðuneyti umhverfismála, en hið síðara var til að tilkynna umhverfisnefnd að fjárlaganefnd hefði skipt um skoðun og nú væri þess ekki óskað að umhverfisnefnd gerði tillögu um skiptingu safnliðanna. Ekki voru færð rök fyrir þeirri ákvörðun. Það er mat minni hluta umhverfisnefndar að þessi hringlandaháttur sé til marks um ráðaleysi meiri hluta fjárlaganefndar varðandi skiptingu safnliða almennt. Í 25. gr. þingskapalaga er þess getið að fjárlaganefnd geti vísað verkefnum til fastanefndar og það fyrirkomulag hefur viðgengist a.m.k. allt síðasta kjörtímabil. Það var tekið upp að fyrirmynd annarra norrænna þjóðþinga. Þannig hafa fagnefndirnar fengið til umsagnar þær umsóknir sem fjárlaganefnd berast um stuðning við félög og einstaklinga á viðkomandi málasviði. Nú er fjárlaganefnd að hverfa frá því fyrirkomulagi og virðist þar hið sama eiga að gilda um allar nefndir þingsins þótt þessi hluti starfsins hafi verið mismikill hjá nefndunum og haft mismikið álag í för með sér. Þannig hefur álit umhverfisnefndar hvað þetta varðar fyrst og fremst snúið að fjárhagslegum stuðningi til frjálsra félagasamtaka, auk þess sem nefndin hefur fjallað um einstakar umsóknir um stuðning við verkefni á sviði umhverfismála. Það umfang sem hér um ræðir er sáralítið hjá því sem t.d. hefur snúið að menntamálanefnd og því ekki sambærilegt. Það er mat minni hluta umhverfisnefndar að rétt sé að koma styrkveitingum Alþingis í formlegan farveg í fagráðuneytunum þar sem stofnaðir yrðu sjóðir með faglega yfirstjórn sem auglýsti eftir styrkjum einu sinni til tvisvar á ári. Slíkir sjóðir störfuðu eftir ákveðnum reglum um úthlutanir og auglýsingar styrkja. Þannig yrði eftir föngum reynt að tryggja að öllum væri ljós framgangsmáti slíkra styrkveitinga og allir ættu því jafnan aðgang og jafna möguleika. Einnig mætti hugsa sér að hluti af því fé sem fjárlaganefnd hefur úthlutað rynni óskipt til stofnana á viðkomandi sviði. T.d. ættu allir fjármunir sem fara í að endurgera gömul hús eða gamla eikarbáta að fara í gegnum Þjóðminjasafnið og lúta þeim viðmiðum sem safnið hefur sett sér í varðveislu menningararfsins. Einnig væri hugsanlegt að færa fjármuni yfir til húsafriðunarnefndar í þessum tilgangi. Það sem fjárlaganefnd er að gera núna með því að taka styrkúthlutanirnar inn á sitt borð og útiloka þannig fagnefndirnar getur varla talist vera lausn á þessum vanda, það er miklu frekar skref aftur á bak.


Alþingi, 10. nóv. 2004.

Kolbrún Halldórsdóttir.