Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 366. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 429  —  366. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)1. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2004“ í ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum kemur: 30. júní 2005.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að tímabundin heimild til undanþágu frá greiðslu þungaskatts fyrir bifreiðar, sem í tilraunaskyni nota annan orkugjafa en bensín, dísilolíu eða annað eldsneyti unnið úr olíu, verði framlengd til 30. júní 2005. Það er gert með hliðsjón af því að enn eru tilraunir með aðra orkugjafa en þá sem unnir eru úr olíu skammt á veg komnar. Því er eðlilegt að veita þeim sem stunda slíkar rannsóknir áfram undanþágu frá greiðslu þungaskatts af ökutækjum sem knúin eru með öðrum orkugjöfum en þeim sem unnir eru úr olíu. Undanþáguheimildinni er ætlað að gilda fram til 30. júní 2005 en þann 1. júlí 2005 taka gildi ný lög um olíugjald og kílómetragjald o.fl., nr. 87/2004, sem leiða til þess að lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, falla úr gildi. Undanþágan gildir um innlendan orkugjafa sem og orkugjafa framleiddan erlendis þar sem nauðsynlegt kann að vera í tilraunaskyni að nýta orkugjafa sem framleiddur er erlendis.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 3/1987,
um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að bifreiðar sem nota í tilraunaskyni annan orkugjafa en bensín, dísilolíu eða annað eldsneyti unnið úr olíu verði undanþegnar greiðslu þungaskatts til 30. júní 2005. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í gildandi lögum fellur undanþágan niður 31. desember 2004 en hér er lagt til að hún verði framlengd þar til lagaákvæði um þungaskatt falla úr gildi. Frumvarpið snýr að tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld svo að nokkru nemi verði það að lögum.