Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 374. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 459  —  374. mál.
Frumvarp til lagaum rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er skynsamleg stjórn og hagkvæm nýting náttúruauðlinda frá samfélagslegu sjónarmiði, að teknu tilliti til eignarréttar fasteignareigenda.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til allra jarðrænna auðlinda á landi og í jörðu og innan netlaga sjávar, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um. Lögin taka ekki til gróðurs og annarra lífvera.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum er merking helstu hugtaka eftirfarandi:
     1.      Búsþarfir: Búsþarfir til kvikfjárræktar.
     2.      Eignarland: Landsvæði, þ.m.t. innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
     3.      Fasteign: Afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega er við landið skeytt.
     4.      Grunnvatn: Vatn í samfelldu og viðvarandi vatnslagi í vatnsmettuðum jarðlögum.
     5.      Heimilisþarfir: Þarfir til venjulegs heimilishalds.
     6.      Hveraörvera: Örverufræðileg eining á jarðhitasvæði, mynduð af frumum eður ei, sem fær er um eftirmyndun eða yfirfærslu erfðaefnis.
     7.      Jarðefni: Öll gosefni og önnur steinefni, málmar, málmblendingar og málmsteindir, kol, jarðolía, jarðgas og önnur nýtanleg efni sem finnast kunna á landi og í jörðu.
     8.      Jarðhiti: Jarðvarmaforði í jarðlögum, varmastraumur úr iðrum jarðar og heitt grunnvatn, sem flytur jarðvarmaorku.
     9.      Jarðræn auðlind: Hvers konar jarðefni, frumefni, lífræn og ólífræn efnasambönd, vatn og orkulindir sem vinna má á landi og úr jörðu, hvort heldur er í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þær kunna að finnast við.
     10.      Leit að auðlind: Yfirlitskönnun á svæði með aðferðum jarðvísinda og skyldra fræða, gerð yfirlitskorta og skýrslna sem lýsa umfangi auðlindar og legu, magni og helstu aðstæðum.
     11.      Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
     12.      Nytjavatn: Grunnvatn og yfirborðsvatn sem numið er til neyslu eða til annarra nota.
     13.      Nýting á auðlind: Vinnsla efna eða orku úr auðlindinni.
     14.      Orkulind: Orkugjafi á ákveðnu formi, sem vinna má m.a. úr vatnsfalli, jarðhita, sjávarföllum, vindi, sólargeislun og kolvetni.
     15.      Rannsókn á auðlind: Mælingar og rannsóknir til að meta stærð og afköst auðlindar og gerð frumlíkans að vinnslu hennar, sannprófa hana með borun, greftri, eða langtímamælingum auk staðsetningar mannvirkja til nýtingar á auðlindinni.
     16.      Vatnsfall: Rennandi vatn í afmörkuðum farvegi, þó að tíma- og staðbreytilegur sé, sem rennur undan þyngdaraflinu niður á við.
     17.      Vatnsorka: Hreyfiorka fallandi vatns.
     18.      Yfirborðsvatn: Annað vatn en grunnvatn.
     19.      Þjóðlendur: Landsvæði utan eignarlanda þótt einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.

II. KAFLI
Eignarréttur að auðlindum.
4. gr.

    Eignarlandi fylgir eignarréttur að jarðrænum auðlindum, en í þjóðlendum eru jarðrænar auðlindir eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.

III. KAFLI
Leit að jarðrænum auðlindum.
5. gr.
Leyfi til leitar.

    Leit að jarðrænum auðlindum í eignarlöndum er háð samþykki fasteignareiganda, en um leit jarðrænna auðlinda í þjóðlendum fer samkvæmt lögum um þjóðlendur o.fl.
    Orkustofnun getur þó heimilað leit að jarðrænum auðlindum í eignarlöndum fáist ekki samþykki fasteignareiganda og skiptir þá ekki máli þó að eigandi auðlindar hafi sjálfur hafið leit eða heimilað það öðrum. Skal leyfi þá gefið út á skilgreindu svæði með frekari rannsóknir og nýtingu að markmiði.
    Orkustofnun getur haft frumkvæði að leit hvar sem er á landinu og skiptir þá ekki máli þó að eigandi auðlindar hafi sjálfur hafið leit eða heimilað það öðrum.
    Orkustofnun er heimilt að veita fleiri en einum leyfi til leitar á sama svæði ef fleiri en einn aðili óskar þess.
    Leyfi til leitar veitir leyfishafa ekki forgangsrétt til rannsóknar- eða nýtingarleyfis.

6. gr.
Málsmeðferð.

    Í umsókn um leyfi til leitar að jarðrænum auðlindum skal koma skýrt fram hver tilgangur sé með leit umsækjanda ásamt lýsingu og upplýsingum um umfang og tímasetningu.
    Ávallt skal leita umsagnar viðkomandi fasteignareiganda áður en leyfi er veitt.
    Leyfi til leitar má veita til allt að fimm ára í senn. Orkustofnun er heimilt að setja slíku leyfi nauðsynleg skilyrði.
    Orkustofnun getur hvenær sem er afturkallað leyfi til leitar ef skilyrðum þess er ekki fullnægt.
    Um mögulegan bótarétt fasteignareiganda vegna leitar á grundvelli leitarleyfis Orkustofnunar fer skv. VIII. kafla.

IV. KAFLI
Rannsóknir og nýting.
A. Rannsóknir.
7. gr.
Rannsóknarleyfi.

    Orkustofnun veitir leyfi til rannsókna á jarðrænum auðlindum. Rannsóknarleyfi felur í sér heimild til þess að rannsaka auðlind á tilteknu svæði á leyfistímanum með þeim skilmálum sem tilgreindir eru í lögum þessum. Öðrum verður ekki veitt rannsóknarleyfi á því svæði á leyfistímanum.
    Rannsóknarleyfi veitir leyfishafa forgangsrétt til nýtingarleyfis í allt að tvö ár að loknum gildistíma þess og tryggir að öðrum aðila verði ekki veitt rannsóknarleyfi á þeim tíma. Hafi leyfishafi ekki sótt um nýtingarleyfi á gildistíma rannsóknarleyfis eða innan tveggja ára frá lokum gildistíma þess fellur forgangsréttur til nýtingar niður.

8. gr.
Réttur eiganda auðlindar til rannsóknar.

    Eigandi auðlindar þarf ekki leyfi Orkustofnunar til rannsóknar hvort sem hann rannsakar auðlindina sjálfur eða aðrir á hans vegum. Þó ber honum að senda Orkustofnun tímasetta rannsóknaráætlun áður en rannsóknir hefjast og niðurstöður rannsókna að þeim loknum.
    Eigandi auðlindar á forgangsrétt að rannsóknarleyfi á auðlind sinni. Ef eigandi auðlindar nýtir ekki forgangsrétt sinn til rannsóknarleyfis getur Orkustofnun átt frumkvæði að rannsókn á auðlindinni eða auglýst eftir umsóknum um rannsóknarleyfi. Áður en Orkustofnun hefur frumkvæði að rannsókn á auðlind eða auglýsir eftir umsóknum um rannsóknarleyfi skal veita eiganda auðlindar hæfilegan frest, þó ekki lengri en þrjá mánuði, til þess að taka afstöðu til þess hvort hann hyggist nýta sér forgangsrétt sinn til rannsókna.

9. gr.
Réttur Orkustofnunar til rannsóknar.

    Orkustofnun er heimilt að hafa frumkvæði að rannsókn á jarðrænum auðlindum hvar sem er á landinu, nema annar aðili hafi þar gilt rannsóknarleyfi samkvæmt lögum þessum.

10. gr.
Tímalengd rannsóknarleyfis.

    Rannsóknarleyfi skal veitt til allt að fimm ára. Miða skal tímalengd leyfis við umfang rannsókna og eðli auðlindar.

11. gr.
Málsmeðferð.

    Rannsóknarleyfi samkvæmt lögum þessum skal veitt á grundvelli umsóknar sem metin skal á hlutlægan og gagnsæjan hátt.
    Við veitingu rannsóknarleyfis skal einkum taka mið af því hvernig framlögð rannsóknaráætlun getur náð settu markmiði um að ná sem mestum og bestum upplýsingum um stærð og eðli auðlindarinnar á sem hagkvæmastan hátt.
    Telji Orkustofnun að umsókn um rannsóknarleyfi uppfylli ekki þessar kröfur getur hún synjað um rannsóknarleyfi eða sett sérstök skilyrði í rannsóknarleyfi af þessu tilefni.
    Ef tvær eða fleiri umsóknir berast, sem Orkustofnun telur jafngóðar, skal elsta umsóknin ganga fyrir.
    Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Í þeim tilfellum sem umsókn varðar rannsóknir auðlinda í netlögum sjávar skal leita umsagnar sjávarútvegsráðuneytisins.
    Heimilt er að kveða nánar á um skilmála og skilyrði til veitingar rannsóknarleyfis í reglugerð.

B. Nýting.
12. gr.
Nýtingarleyfi.

    Nýting jarðrænna auðlinda er háð leyfi Orkustofnunar, hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða í þjóðlendum, með þeim undantekningum sem greinir í lögum þessum. Eigandi auðlindar hefur ekki forgang að nýtingarleyfi vegna auðlindar sinnar, nema hann hafi öðlast forgangsrétt með rannsóknarleyfi.
    Nýtingarleyfi samkvæmt lögum þessum felur í sér heimild til handa leyfishafa til að vinna úr og nýta viðkomandi auðlind á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum öðrum sem tilgreindir eru í lögum þessum, í leyfinu sjálfu og Orkustofnun telur nauðsynlega.

13. gr.
Tímalengd nýtingarleyfis.

    Tímalengd nýtingarleyfis vatnsorku er allt að 60 ár, en annarra auðlinda allt að 30 ár. Framlengja skal leyfi hafi forsendur leyfisveitingar ekki breyst en þó ekki lengur en til 30 ára. Hafi nýtingarleyfishafi ekki hafið nýtingu á grundvelli leyfisins innan tveggja ára frá útgáfu þess eða sótt um virkjanaleyfi innan þeirra tímamarka þá fellur leyfið úr gildi.
    Stöðvi leyfishafi vinnslu samfellt í þrjú ár fellur leyfið niður að þeim tíma liðnum. Hljóti annar aðili nýtingarleyfið ber honum að halda samkomulag og samninga sem fyrri leyfishafi gerði skv. 18. og 19. gr. og kaupa þau mannvirki sem notuð eru við vinnslu úr auðlindinni. Rísi ágreiningur um greiðsluna skal skorið úr því með mati dómkvaddra matsmanna.

14. gr.
Málsmeðferð.

    Nýtingarleyfi samkvæmt lögum þessum skal veitt á grundvelli umsóknar sem skal metin á hlutlægan og gagnsæjan hátt.
    Við veitingu nýtingarleyfis skal einkum horft til þess að nýting endurnýjanlegra orkulinda sé sjálfbær og varlega sé farið í nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda. Jafnframt sé tekið tillit til nýtingar sem þegar er hafin eða sótt hefur verið um í næsta nágrenni.
    Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Í þeim tilfellum sem umsókn varðar rannsóknir auðlinda í netlögum sjávar skal leita umsagnar sjávarútvegsráðuneytisins.
    Telji Orkustofnun að umsókn um nýtingarleyfi uppfylli ekki kröfur samkvæmt þessari grein getur hún synjað um nýtingarleyfi eða sett sérstök skilyrði í nýtingarleyfi af þessu tilefni.
    Til raforkuframleiðslu þarf virkjunarleyfi í samræmi við ákvæði raforkulaga. Hafi nýtingarleyfishafi ekki sótt um virkjunarleyfi innan tveggja ára frá leyfisveitingu fellur nýtingarleyfi hans niður.
    Ef ekki liggur fyrir gildur forgangsréttur að nýtingarleyfi og tvær eða fleiri umsóknir berast, sem Orkustofnun telur jafngóðar, skal elsta umsóknin ganga fyrir.

C. Sameiginleg ákvæði.
15. gr.
Umsókn um rannsóknar- og nýtingarleyfi.

    Í umsóknum um rannsóknar- og nýtingarleyfi skal koma skýrt fram hver tilgangur sé með öflun leyfis ásamt ítarlegum upplýsingum um staðsetningu, umfang, eðli og tímasetningu fyrirhugaðra framkvæmda umsækjanda eftir ákvörðun Orkustofnunar.

16. gr.
Efni rannsóknar- og nýtingarleyfis.

    Í rannsóknar- og nýtingarleyfi skal m.a. tilgreina:
     1.      Hvort um rannsóknar- eða nýtingarleyfi er að ræða.
     2.      Til hvaða auðlinda leyfið tekur, rannsóknaráfanga þegar um rannsóknarleyfi er að ræða og ákvæði um magn og nýtingarhraða, þegar um nýtingarleyfi er að ræða.
     3.      Tímalengd leyfis.
     4.      Afmörkun rannsóknar- eða nýtingarsvæðis.
     5.      Upplýsinga- og tilkynningarskyldu leyfishafa til Orkustofnunar, þ.m.t. skyldu til afhendingar á sýnum og gögnum og hvernig hún skuli innt af hendi.
     6.      Ákvæði um afhendingu gagna og upplýsinga til Orkustofnunar við borun og rannsóknir.
     7.      Öryggis- og umhverfisverndarráðstafanir eins og við á.
     8.      Kaup ábyrgðartrygginga hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, bankatryggingar eða aðrar tryggingar sem Orkustofnun metur jafngildar og bæta tjón sem leyfishafi kann að valda með störfum sínum.
     9.      Eftirlit og greiðslu kostnaðar af eftirliti, frágangi og varðveislu gagna.
     10.      Greiðslu leyfisgjalds til að mæta kostnaði við undirbúning og útgáfu leyfis.
     11.      Ráðstöfun vinnslumannvirkja og vinnslutækja að leyfistíma loknum.
     12.      Frágang á starfsstöðvum og landi sem nýtt hafa verið við rannsóknir eða nýtingu.
     13.      Endurgreiðslu á rannsóknarkostnaði, sbr. 18. og 19. gr.
     14.      Umsækjandi skal leggja fram viðeigandi skipulagsskilmála og uppdrætti.
    Heimilt er að kveða á um að leyfi skuli endurskoðað að tilteknum tíma liðnum, enda hafi forsendur fyrir skilyrðum leyfisins breyst.
    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um efni rannsóknar- og nýtingarleyfis.

17. gr.
Auglýsing.

    Auglýsa skal eftir umsækjendum áður en leyfi er veitt til rannsókna og nýtingar á jarðrænum auðlindum á eignarlöndum ríkisins og í þjóðlendum, sbr. þó 3. mgr. Heimilt er að auglýsa eftir umsækjendum áður en leyfi er veitt til rannsókna og nýtingar á auðlindum á landi og í jörðu í eignarlöndum annarra en ríkisins lýsi eigandi auðlindar því yfir að hann muni ekki nýta forgangsrétt sinn til rannsóknarleyfis.
    Orkustofnun getur haft frumkvæði að rannsókn og nýtingu á auðlindasvæði. Skal þá auglýst eftir umsókn um rannsóknarleyfi í Lögbirtingablaðinu. Tekið skal fram hvert svæðið er og hvaða skilyrði eru sett fyrir veitingu rannsóknarleyfis. Umsóknarfrestur skal ekki vera skemmri en 60 dagar. Beri þessi auglýsing ekki árangur má auglýsa að svæði sé frjálst til rannsókna og rannsóknarleyfi verði veitt þeim sem fyrstur sækir um að loknum tilgreindum tímafresti og telst til þess hæfur.
    Heimilt er að sækja um leyfi til rannsókna og nýtingar á svæði sem hefur ekki verið auglýst skv. 1. og 2. mgr. Áður en slíkt leyfi er veitt skal birta tilkynningu um það í Lögbirtingablaðinu og gefa öðrum kost á að sækja um þetta leyfi.
    Heimilt er að hafna öllum umsóknum um leyfi.

18. gr.
Endurgjald til eiganda rannsókna.

    Hafi eigandi auðlindar sjálfur látið rannsaka auðlind sína eða heimilað það öðrum en ekki verið veitt leyfi til nýtingar á viðkomandi auðlind getur eigandi auðlindar eða sá sem kostaði rannsóknirnar krafið nýtingarleyfishafa um sannanlegan kostnað vegna rannsókna eða markaðsvirði þeirra, sé það fyrir hendi, gegn afhendingu á niðurstöðum rannsóknanna. Rísi ágreiningur um greiðsluna skal skorið úr því með mati dómkvaddra matsmanna.
    Nú fær annar en rannsóknarleyfishafi leyfi til að nýta viðkomandi auðlind og getur þá sá sem kostaði rannsóknir krafið nýtingarleyfishafa um sannanlegan kostnað vegna rannsókna eða markaðsvirði þeirra, sé það fyrir hendi, gegn afhendingu á niðurstöðum rannsóknanna. Rísi ágreiningur um greiðsluna skal skorið úr því með mati dómkvaddra matsmanna.
    Einnig ber nýtingarleyfishafa að endurgreiða Orkustofnun sannanlegan kostnað ríkisins vegna rannsókna á auðlindinni gegn aðgangi að niðurstöðum þeirra. Rísi ágreiningur um greiðslu nýtingarleyfishafa fyrir rannsóknir ofangreindra aðila skal skorið úr því með mati dómkvaddra matsmanna.

19. gr.
Endurgjald til eiganda auðlindar.

    Áður en nýtingarleyfishafi hefur vinnslu í eignarlandi þarf hann að hafa náð samkomulagi við eiganda auðlindar um endurgjald fyrir auðlindina eða fengið heimild til eignarnáms og óskað eftir mati skv. VIII. kafla. Hafi hvorki náðst samkomulag um endurgjaldið né eignarnáms verið óskað innan þriggja mánaða frá útgáfu nýtingarleyfis fellur það niður. Sama gildir ef nýting á grundvelli leyfisins er ekki hafin innan tveggja ára frá útgáfu leyfisins. Ákvæði þetta á einnig við um nýtingu auðlinda í þjóðlendum.

20. gr.
Afturköllun rannsóknar- og nýtingarleyfis.

    Ef leyfishafi fer ekki að skilyrðum laga þessara, reglugerða settra samkvæmt þeim, skilyrðum rannsóknar- og nýtingarleyfis og samningum sem tengjast leyfi eða öðrum heimildum skal Orkustofnun veita honum skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Ef leyfishafi sinnir ekki aðvörun Orkustofnunar innan tilgreindra tímamarka getur Orkustofnun afturkallað leyfið eða breytt því. Ef um alvarleg brot eða vanrækslu er að ræða eða ljóst er að leyfishafi getur ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu getur Orkustofnun þó afturkallað það án aðvörunar.
    Heimilt er að afturkalla leyfi ef bú leyfishafa er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga.

V. KAFLI
Undantekningar frá rannsóknar- og nýtingarleyfi.
21. gr.
Jarðefni.

    Þrátt fyrir ákvæði IV. kafla er heimilt án leyfis Orkustofnunar að rannsaka og hagnýta á eignarlandi berg, grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, svo og mold, mó og surtarbrand til heimilis- og búsþarfa.

22. gr.
Jarðhiti.

    Þrátt fyrir ákvæði IV. kafla er fasteignareiganda heimilt án leyfis að hagnýta til eigin nota jarðhita í eignarlandi sínu, allt að 3,5 MW miðað við vermi sem alls er tekið úr jarðhitaauðlindum í eignarlandinu. Fasteignareiganda ber þó að tilkynna Orkustofnun um tilhögun nýtingarinnar og senda stofnuninni árlega skýrslu um raunverulega notkun.

23. gr.
Grunnvatn.

    Þrátt fyrir ákvæði IV. kafla er fasteignareiganda heimilt án leyfis að hagnýta nytjavatn í eignarlandi sínu til heimilis- og búsþarfa, þ.m.t. til fiskeldis, iðnaðar og iðju, allt að 10 l/s. Fasteignareiganda ber að tilkynna Orkustofnun um tilhögun nýtingarinnar og senda stofnuninni skýrslu um notkun grunnvatns.
    Fasteignareiganda ber að tilkynna Orkustofnun um fyrirhugaðar jarðboranir og aðrar meiri háttar framkvæmdir vegna þessa. Orkustofnun er heimilt að setja fasteignareiganda skilyrði sem nauðsynleg eru talin af tæknilegum ástæðum eða ef ætla má að boranir geti spillt nýtingu á svæðinu eða möguleikum til nýtingar síðar.

24. gr.
Vatnsorka.

    Þrátt fyrir ákvæði IV. kafla er fasteignareiganda heimilt án leyfis að hagnýta vatnsorku í eignarlandi sínu, allt að 350 kW rafafls. Fasteignareiganda ber þó að tilkynna Orkustofnun um tilhögun nýtingarinnar ef uppsett afl rafals er 100 kW eða meira og senda stofnuninni árlega skýrslu um raforkuvinnslu virkjunar. Fyrir virkjanir með uppsett afl 30–1.000 kW skal skila Orkustofnun tæknilegum upplýsingum um virkjun. Ef virkjun tengist dreifiveitu eða flutningskerfi raforku þarf leyfi fyrir virkjun samkvæmt raforkulögum.

VI. KAFLI
Forgangsréttur sveitarfélags.
25. gr.
Forgangsréttur sveitarfélags til nýtingarleyfis vegna jarðhita og nytjavatns.

    Sveitarfélag skal hafa forgangsrétt til nýtingarleyfa vegna jarðhita innan marka sveitarfélagsins vegna þarfa hitaveitu sem sveitarfélagið rekur í viðkomandi sveitarfélagi.
    Sveitarfélag skal hafa forgangsrétt til nýtingarleyfa vegna nytjavatns til vatnsveitu sem sveitarfélagið rekur í viðkomandi sveitarfélagi.

VII. KAFLI
Stjórnsýsla.
A. Yfirstjórn og málskot.

26. gr.

    Iðnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
    Stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til iðnaðarráðherra. Um meðferð máls fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

B. Eftirlit og úrræði.
27. gr.
Eftirlit Orkustofnunar.

    Orkustofnun annast eftirlit með framkvæmd laga þessara. Orkustofnun gefur iðnaðarráðherra árlega skýrslu um framkvæmd laganna.

28. gr.
Heimildir Orkustofnunar.

    Orkustofnun getur krafið leyfishafa um allar upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru við framkvæmd eftirlitsins og kveðið er á um í lögum þessum. Skulu gögn og upplýsingar berast innan hæfilegs frests sem Orkustofnun setur. Orkustofnun getur einnig skyldað þessa aðila til að upplýsa stofnunina reglulega um atriði sem máli skipta við eftirlitið.
    Orkustofnun getur í eftirlitsstörfum sínum krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.

29. gr.
Úrræði Orkustofnunar.

    Telji Orkustofnun að starfsemi leyfishafa samræmist ekki skilyrðum laga þessara, reglugerðum settum samkvæmt þeim, skilyrðum leyfis eða öðrum heimildum getur hún krafist þess að úr verði bætt að viðlögðum dagsektum. Dagsektir geta numið 10.000–500.000 kr. á dag. Við ákvörðun dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og þeirra hagsmuna sem í húfi eru. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður. Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Fari leyfishafi ekki að tilmælum Orkustofnunar skal hún veita ráðherra upplýsingar um málið.

30. gr.
Gagnagrunnur.

    Orkustofnun varðveitir gögn um jarðrænar auðlindir í gagnagrunni. Þar verða gögn sem hún hefur aflað eða látið afla með leitum, rannsóknum og eftirliti, auk skilaskyldra gagna frá leyfishöfum.

31. gr.
Þagnarskylda.

    Upplýsingar, sem veittar eru Orkustofnun eða öðrum opinberum aðilum samkvæmt lögum þessum, svo og niðurstöður rannsókna á innsendum sýnum, skulu vera trúnaðargögn á gildistíma rannsóknarleyfis og forgangsréttartíma skv. 2. mgr. 7. gr.
    Upplýsingar, sem leyfishafi veitir Orkustofnun samkvæmt lögum þessum, skulu vera í vörslu stofnunarinnar. Nú er trúnaðarskylda skv. 1. mgr. fallin niður og er Orkustofnun þá heimilt að láta umræddar upplýsingar í té eða nýta þær í þágu frekari leyfisveitingar.

C. Skyldur leyfishafa og landeigenda.
32. gr.
Skýrsla leyfishafa.

    Handhafi leitar-, rannsóknar- eða nýtingarleyfis skal eigi sjaldnar en árlega og við lok leyfistíma senda Orkustofnun skýrslu þar sem fram koma upplýsingar um niðurstöður rannsókna eða vinnslu, upplýsingar um eðli og umfang auðlinda, heildarmagn og mat á verðmæti auðlindar sem nýtt hefur verið og fleiri atriði samkvæmt nánari ákvæðum í viðkomandi leyfi. Þá skal leyfishafi senda sýni af jarðefnum og vatni óski Orkustofnun þess.

33. gr.
Umferðarréttur.

    Fasteignareiganda eða umráðamanni lands er skylt að veita leitar- og rannsóknarleyfishöfum samkvæmt lögum þessum óhindraðan aðgang að eignarlandi því sem í hlut á. Þá er fasteignareiganda og umráðamanni lands skylt að veita nýtingarleyfishöfum aðgang að því landi sem nýtingarleyfið tekur til, en þó ekki fyrr en leyfishafi hefur náð samkomulagi við fasteignareiganda um endurgjald fyrir auðlindir eða eignarnám farið fram og umráðataka samkvæmt því.
    Ber fasteignareiganda eða umráðamanni skv. 1. mgr. að hlíta hvers konar afnotum af landi, takmörkun á umráðarétti og óþægindum sem nauðsynleg eru vegna rannsóknar eða nýtingar á auðlind í samræmi við viðkomandi leyfi.
    Við nýtingu eða rannsóknir á jarðrænum auðlindum skulu fasteignareigendur og leyfishafar samkvæmt lögum þessum gæta þess að framkvæmdir valdi hvorki mönnum, munum né búpeningi hættu eða skaða. Jafnframt skulu fasteignareigendur og leyfishafar gæta þess að valda ekki mengun og spjöllum á lífríki. Sama gildir um frágang nýtingarsvæðis ef nýting leggst af.

34. gr.
Sameiginlegur réttur til nýtingar.

    Þegar ein og sama auðlind nær til tveggja eða fleiri landareigna er auðlindin sameign fasteignareigenda. Áður en nýting hefst úr slíkri auðlind skulu eigendur gera með sér samning um hlutfallslegan rétt hvers og eins til nýtingar á auðlindinni.
    Komi upp ágreiningur milli rétthafa um nýtingu auðlindar skal afla mats dómkvaddra matsmanna.

VIII. KAFLI
Eignarnáms- og bótaákvæði.
35. gr.
Skaðabætur.

    Nú veitir Orkustofnun öðrum en fasteignareiganda leyfi til leitar og rannsókna á auðlind innan eignarlands, og getur landeigandi þá krafist bóta vegna tjóns sem hann verður sannanlega fyrir af þeim sökum vegna röskunar eða skemmda á landi og mannvirkjum. Náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með mati samkvæmt ákvæðum þessa kafla.

36. gr.
Eignarnám.

    Nú hefur Orkustofnun veitt aðila nýtingarleyfi vegna auðlinda í eignarlandi, en leyfishafi nær ekki samkomulagi við fasteignareiganda um þau atriði sem nýtingarleyfið tekur til, þ.m.t. um endurgjald fyrir auðlind, og getur iðnaðarráðherra þá heimilað að þær auðlindir verði teknar eignarnámi ásamt nauðsynlegu landi, mannvirkjum, aðstöðu til vinnslu auðlindanna og öðrum réttindum fasteignareiganda að því leyti sem nauðsyn ber til svo að leyfið geti komið að notum. Ávallt skal þess þó freistað að ná samkomulagi við fasteignareiganda áður en til eignarnáms kemur.
    Ráðherra er heimilt að ákveða að ríkið taki eignarnámi auðlindir á landi og í jörðu sem fylgja eignarlandi, ásamt nauðsynlegu landi og mannvirkjum, ef þess reynist þörf til að koma við nýtingu þeirra eða koma í veg fyrir að nýting þeirra spilli fyrir hagnýtingu sömu auðlindar utan landareignarinnar.
    Ef eignarnám skv. 1.–2. mgr. á hluta af eignarlandi hefur í för með sér verulega rýrnun þess að öðru leyti á landeigandi rétt á að eignarnámið verði látið ná til þess í heild sinni.
    Framkvæmd eignarnáms á grundvelli þessara laga fer eftir almennum reglum. Við ákvörðun eignarnámsbóta skal taka sérstakt tillit til óvissu um auðlindina og kostnaðar af leitum, rannsóknum og nýtingu. Einnig skal við ákvörðun eignarnámsbóta koma til frádráttar sérhagur viðkomandi fasteignar af framkvæmdum.

37. gr.
Dómkvaddir matsmenn.

    Nú segir í lögum þessum að skorið skuli úr ágreiningi með mati dómkvaddra matsmanna og fer þá um dómkvaðningu, þ.m.t. kostnað af mati, samkvæmt lögum um meðferð einkamála.

IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.
38. gr.
Framsal leyfa.

    Leyfi samkvæmt lögum þessum eru ekki framseljanleg né má setja þau til tryggingar fjárskuldbindingum nema með leyfi Orkustofnunar.

39. gr.
Reglugerð.

    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

40. gr.
Viðurlög.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum, nema þyngri refsingu varði samkvæmt öðrum lögum. Dæma má jafnt lögaðila sem einstakling til greiðslu sekta vegna brota á lögum þessum. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á starfsmann lögaðilans.

41. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Leyfi sem veitt eru samkvæmt lögum nr. 57/1998 og lögum nr. 24/1973 og eru í gildi við gildistöku laga þessara halda gildi sínu. Samningar um gjaldtöku vegna nýtingar á auðlindum sem gerðir eru fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu.

42. gr.
Breyting á raforkulögum.

    Eftirfarandi breytingar verða á raforkulögum, nr. 65/2003:
     a.      Á eftir 1. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Umsækjandi virkjunarleyfis hafi gilt nýtingarleyfi vegna viðkomandi auðlindar samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum.
     b.      40. gr. laganna fellur brott.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Aðilar sem nýta jarðrænar auðlindir við gildistöku laganna eiga rétt á að fá útgefið nýtingarleyfi vegna þeirrar vinnslu sem fyrir hendi er við gildistöku laganna. Þessir aðilar skulu sækja um nýtingarleyfi fyrir 1. júní 2007 og leggja fram gögn skv. 15. gr. Lokið skal útgáfu nýtingarleyfa af þessu tagi fyrir 1. júní 2008.

II.

    Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti þrír fulltrúar frá Samorku. Þá skal iðnaðarráðherra skipa tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Nefndin skal skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra eigi síðar en 15. september 2006.
    Jafnframt skal iðnaðarráðherra skipa starfshóp sérfróðra manna er skal vera nefnd skv. 1. mgr. til aðstoðar við greiningu á atriðum sem máli skipta við val á umsóknum um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara. Við úrlausn verkefnis síns skal starfshópurinn m.a. líta til þess hvaða leiðir hafa verið farnar í þessu sambandi í öðrum löndum.

III.

    Lög þessi taka eftir því sem við á til rannsókna og nýtingar á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum. Rannsóknir og nýting örvera á jarðhitasvæðum er óheimil án leyfis iðnaðarráðherra samkvæmt lögum þessum. Leyfi skal veitt að höfðu samráði við umhverfisráðherra. Náttúrufræðistofnun Íslands fer með eftirlit með rannsókn og nýtingu samkvæmt þessari grein.
    Iðnaðarráðherra skal skipa nefnd sem hafi það hlutverk að afmarka skilin milli annars vegar hagnýtingar hveraörvera skv. 1. mgr. og hins vegar reglna sem stuðla að varðveislu og sjálfbærri nýtingu efnisþátta líffræðilegrar fjölbreytni íslenskrar náttúru. Skal iðnaðarráðherra tilnefna einn fulltrúa og umhverfisráðherra annan en ráðherrarnir skulu koma sér saman um tilnefningu þriðja fulltrúans og skal hann vera formaður nefndarinnar. Nefndin skal skila niðurstöðu sinni í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra eigi síðar en 31. desember 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.

    Í júní 2002 skipaði iðnaðarráðherra starfshóp til þess að endurskoða lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að fram hafi komið ýmsar tillögur um breytingar á lögunum og að höfðu samráði við orkumálastjóra hafi iðnaðarráðherra ákveðið að skipa starfshópinn. Með bréfi iðnaðarráðherra 27. júní 2002 voru eftirtaldir skipaðir í starfshópinn: Sveinn Þorgrímsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu, formaður, Kristín Haraldsdóttir, lögfræðingur í iðnaðarráðuneytinu, Sveinbjörn Björnsson, deildarstjóri í Orkustofnun, Valgarður Stefánsson, yfirverkefnisstjóri í Orkustofnun, og Eyvindur G. Gunnarsson hdl. Nefndin skilaði af sér frumvarpsdrögum hinn 23. desember 2002. Síðan þá hefur frumvarpið verið til skoðunar í iðnaðarráðuneytinu og hjá Orkustofnun. Í september 2004 voru Karl Axelsson hrl. og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, Eyvindur G. Gunnarsson hdl., fengnir til þess að endurskoða frumvarpsdrögin ásamt starfsmönnum iðnaðarráðuneytis, þeim Pétri Erni Sverrissyni lögfræðingi, Helga Bjarnasyni skrifstofustjóra og Sveini Þorgrímssyni skrifstofustjóra. Frumvarp það sem hér er lagt fram er afrakstur þessarar vinnu.

II. Þörfin á endurskoðun núgildandi laga.

    Þó að núgildandi lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, séu einungis rúmlega sex ára gömul hefur um nokkurt skeið verið talið nauðsynlegt að endurskoða þau. Við setningu þeirra laga var fyrst og fremst höfð í huga nauðsyn þess að skera ótvírætt úr um það með lögum hvernig háttað væri eignarhaldi á auðlindum í jörðu auk þess sem komið var á nýskipan auðlindastýringar. Við samningu frumvarps til þeirra laga voru hafðar í huga þær tillögur sem fram höfðu komið á Alþingi um þessi mál síðustu áratugi og einnig frumvörp sem samin höfðu verið í iðnaðarráðuneytinu. Auk þess að deilt hafði verið um það hvaða leiðir bæri að fara um skipan eignarréttar að auðlindunum hefur verið uppi ágreiningur um hvort þær tillögur sem fram hafa komið hafi farið í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar. Má segja að meginmarkmið laganna hafi því verið að mæla fyrir um eignarréttarlega stöðu auðlinda í jörðu. Mörg önnur ákvæði laganna voru að miklu látin halda sér óbreytt frá því sem verið hafði í námulögum, nr. 24/1973, sem felld voru úr gildi, og III. og IV. kafla orkulaga, nr. 58/1967, sem felldir voru úr gildi.
    Í núgildandi lög þykir einkum skorta ítarleg lagafyrirmæli um stjórnun auðlinda landsins. Þá taka gildandi lög ekki til allra jarðrænna auðlinda, sbr. einkum orkunýtingarrétt vatnsfalla. Lagðar eru til breytingar á gildandi lögum sem einfalda leit að jarðrænum auðlindum án þess að til komi útgáfa rannsóknar- og/eða nýtingarleyfis. Þá gegnir iðnaðarráðherra veigamiklu hlutverk í núgildandi lögum sem réttara þykir að Orkustofnun hafi á hendi. Frumvarp það sem hér er lagt fram miðar að því að Orkustofnun fá skilgreint hlutverk við stjórnun auðlinda landsins. Í þessu skyni er lagt til að lögfestar verði reglur um málsmeðferð við veitingu rannsóknar- og nýtingarleyfa og eftirlit og úrræði Orkustofnunar við framkvæmd laganna.
    Loks er þess að geta að á meðan samningu frumvarps þessa hefur staðið, og í kjölfar grundvallarbreytinga á raforkulöggjöf, hafa vaknað þýðingarmiklar spurningar varðandi auðlindanýtingu, forgang á því sviði og hvernig leysa skuli úr álitaefnum sem vakna þegar fleiri aðilar sækja um leyfi til rannsóknar, nýtingar og/eða virkjunar sömu auðlindar. Við þessu er brugðist með tvennum hætti. Annars vegar er komið á nauðsynlegri tengingu nýtingarleyfis samkvæmt frumvarpi þessu og virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, m.a. með þeim hætti að nýtingarleyfi er lögbundin forsenda þess að viðkomandi aðila verði veitt virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum. Hins vegar er í bráðabirgðaákvæði við lögin gert ráð fyrir stofnun sérstakrar og þverpólitískrar nefndar sem á næstu tveimur árum á að móta lagaákvæði sem taka á framangreindum grundvallarspurningum. Ákvæði frumvarps þessa eru því að hluta til og eðli málsins samkvæmt til bráðabirgða og skulu þar sérstaklega nefndir til sögunnar ýmsir tímafrestir tengdir rannsóknar- og nýtingarleyfum.


III. Helstu breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

    Ef frumvarp þetta verður óbreytt að lögum munu helstu breytingarnar á gildandi rétti verða þessar:
     1.      Nýtt markmiðsákvæði er í frumvarpinu þar sem fram kemur að markmið laganna sé að tryggja að stjórnun náttúruauðlinda sé hagkvæm frá samfélagslegu sjónarmiði og að við nýtingu þeirra sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða og réttmætra hagsmuna fasteignareiganda. Í núgildandi lögum er ekki að finna sérstakt markmiðsákvæði. Rétt þykir hins vegar að slíkt ákvæði sé fyrir hendi enda gefur það vísbendingu um hver sé tilgangurinn með lögunum og hvaða sjónarmið Orkustofnun ber að hafa að leiðarljósi við auðlindastjórnun.
     2.      Lögin taka til allra jarðrænna auðlinda, grunnvatns og yfirborðsvatns, þar á meðal auðlinda í vatnsföllum og stöðuvötnum, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga. Þau taka hins vegar ekki til gróðurs og lífvera, annarra en hveraörvera. Af þessu leiðir að hagnýting vatnsorku fellur undir frumvarpið. Sjá nánar skýringar við 2. og 4. gr. frumvarpsins. Þá er nýtt hugtak, jarðrænar auðlindir, notað um þessar auðlindir, en það merkir hvers konar frumefni, lífræn og ólífræn efnasambönd og orkulindir sem vinna má á landi og úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þær kunna að finnast við.
     3.      Gert er ráð fyrir þeirri nýskipan að Orkustofnun geti heimilað aðilum leit jarðrænna auðlinda í eignarlöndum þrátt fyrir að ekki hafi tekist að afla samþykkis fasteignareiganda. Sú tilhögun sem ráðgerð er í III. kafla frumvarpsins auðveldar mönnum þannig að standa að nauðsynlegri forathugun áður en til eiginlegrar rannsóknar kemur með útgáfu tilheyrandi leyfis. Leit felur í sér yfirlitskönnun til að staðfesta tilvist auðlindar og lýsa væntanlegri legu hennar, magni og aðstæðum. Leit getur farið fram á mjög stóru landsvæði og tekið áratugi. Þar er hins vegar beitt tiltölulega ódýrum aðferðum.
     4.      Rannsókn samkvæmt lögum þessum felur í sér mat á stærð og legu auðlindar og sannprófun hennar. Rannsókn getur verið margfalt dýrari en leit. Vegna kostnaðar rannsóknarinnar þarf sá sem hana kostar að njóta fyrirheits um forgangsrétt til nýtingar ef til hennar kemur að rannsókn lokinni. Eigandi auðlindar þarf ekki leyfi Orkustofnunar til rannsóknar hvort sem hann rannsakar auðlindina sjálfur eða aðrir á hans vegum en vilji hann njóta forgangsréttar til nýtingar verður að afla sér rannsóknarleyfis. Hann á forgangsrétt að rannsóknarleyfi á auðlind sinni en óski hann ekki eftir að nýta þennan forgangsrétt getur Orkustofnun átt frumkvæði að rannsókn á auðlindinni eða auglýst eftir umsóknum um rannsóknarleyfi á auðlindinni og skiptir þá ekki máli þó að eigandi auðlindarinnar hafi sjálfur hafið slíka rannsókn eða heimilað það öðrum, nema viðkomandi aðili hafi gilt rannsóknarleyfi samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
                  Rannsóknarleyfi veitir leyfishafa forgangsrétt til nýtingarleyfis í allt að tvö ár að loknum gildistíma þess og tryggir að öðrum aðila verði ekki veitt rannsóknarleyfi á sama svæði á gildistíma rannsóknarleyfis og forgangsréttar til nýtingar.
                  Sameiginleg er sú regla með leit og rannsóknum að Orkustofnun er heimilt að hafa frumkvæði að leit eða rannsókn á jarðrænum auðlindum hvar sem er á landinu og skiptir þá ekki máli þó að eigandi auðlindar hafi sjálfur hafið slíka rannsókn eða leit eða heimilað það öðrum. Þó er sá munur að hafi eigandi auðlindar gilt rannsóknarleyfi samkvæmt lögunum verður öðrum aðila ekki veitt rannsóknarleyfi á viðkomandi svæði. Þá er eðlilegt að leggja tilkynningarskyldu á landeigendur sem framkvæma rannsóknir á eignarlöndum sínum, en fram hefur komið að heimildinni til setningar skilyrða í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 57/1998 hefur ekki verið fylgt eftir í framkvæmd. Því verða að vera einhver úrræði til handa Orkustofnun að fá upplýsingar frá landeigendum um rannsóknir.
                  Nýting jarðrænna auðlinda er háð leyfi Orkustofnunar hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða í þjóðlendum með þeim undantekningum sem greinir í lögunum. Eigandi auðlindar hefur ekki forgang að nýtingarleyfi auðlindar sinnar, nema hann hafi öðlast forgangsrétt með rannsóknarleyfi. Ætti sú regla að vera eigendum auðlinda hvatning til þess að sækja um rannsóknarleyfi.
     5.      Í frumvarpinu er byggt á þeirri meginreglu að auglýsa skuli eftir umsækjendum áður en leyfi er veitt til rannsókna og nýtingar á jarðrænum auðlindum í eignarlöndum ríkisins og í þjóðlendum. Þá er heimildarákvæði þess efnis að auglýsa megi eftir umsækjendum áður en leyfi er veitt til rannsókna og nýtingar á auðlindum á landi og í jörðu í eignarlöndum annarra en ríkisins óski eigendur ekki eftir að nýta sér forgangsrétt sinn til rannsóknarleyfis. Eru nákvæm fyrirmæli í 17. gr. frumvarpsins um það hvernig standa skuli að auglýsingu.
     6.      Í 11. og 14. gr. frumvarpsins er að finna reglur um málsmeðferð við veitingu rannsóknar- og nýtingarleyfa. Eftir að auglýst hefur verið eftir umsækjendum, eða að öðru leyti gætt ákvæða 17. gr. frumvarpsins, er meginreglan sú að veita skuli rannsóknar- eða nýtingarleyfi á grundvelli umsóknar sem metin skal á hlutlægan og gagnsæjan hátt. Í 2. mgr. 11. gr. eru rakin þau sjónarmið sem hafa ber í huga við veitingu rannsóknarleyfis og í 2. mgr. 14. gr. eru rakin þau sjónarmið sem líta verður til við veitingu nýtingarleyfis.
                  Við úrlausn þess hvernig standa eigi að veitingu rannsókna- og nýtingarleyfa þarf að skoða hvaða viðmið ber að leggja til grundvallar við veitingu þeirra. Telja verður að unnt sé að hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem sett eru fram í álitsgerð auðlindanefndar frá september 2000 (kafli 2.2). Í álitsgerðinni segir að þau markmið auðlindastjórnunar sem mótast hafi á síðustu árum séu í meginatriðum sem hér segir:
              *      Stuðlað sé að sem hagkvæmastri nýtingu auðlinda til að hámarka hagsæld og koma í veg fyrir sóun.
              *      Tryggð sé sjálfbær nýting endurnýjanlegra auðlinda og hins sameiginlega umhverfis jarðarbúa.
              *      Varlega sé farið í nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.
              *      Stjórn auðlinda byggist á vísindalegri þekkingu um náttúruauðlindir og þau áhrif sem nýting þeirra hefur í för með sér.
     7.      Þá er í frumvarpinu nýr kafli um stjórnsýslu (VII. kafli). Er á því byggt að Orkustofnun hafi eftirlit með framkvæmd laganna. Hlutverk iðnaðarráðherra breytist. Eðlilegt þykir að Orkustofnun hafi sem fagstofnun á sviði auðlinda- og orkumála leyfisveitinga- og eftirlitshlutverk. Það er ljóst að heimildir og úrræði Orkustofnunar verða auknar mjög frá núgildandi lögum. Reynslan hefur sýnt að núgildandi lög veita Orkustofnun ekki nægilega möguleika á að sinna eftirliti sínu með viðunandi hætti. Til þess að stofnunin geti rækt hlutverk sitt við stjórnun jarðrænna auðlinda er nauðsynlegt að hún hafi úrræði til að framfylgja ákvæðum laganna. Skal sérstaklega á það bent að Orkustofnun hefur heimildir til þess að leggja dagsektir á aðila skv. 28. gr. frumvarpsins.
     8.      Það nýmæli er í frumvarpinu að gert er ráð fyrir sérstökum gagnagrunni um auðlindir, þar sem varðveitt verða gögn sem Orkustofnun hefur aflað eða látið afla með leit, rannsóknum og eftirliti, auk þeirra gagna sem henni berast með skylduskilum frá öðrum sem vinna að leit, rannsókn eða nýtingu auðlinda. Gert er ráð fyrir að gögn í þessum grunni verði gerð öllum opin og aðgengileg, en sum gögn geta þó verið bundin trúnaði um takmarkaðan tíma.
     9.      Loks er rétt að taka fram að í frumvarpinu eru engar takmarkanir þess efnis að bann sé lagt við því að landeigandi undanskilji eignarlandi sínu rétt til jarðrænna auðlinda, sbr. t.d. jarðefna og jarðhita. Mælt er fyrir um eignarráð fasteignareiganda yfir jarðhita í frumvarpi til vatnalaga sem lagt verður fram samhliða þessu frumvarpi, þannig að ekki eru efni til að kveða á um hann í þessu frumvarpi. Bann við því að undanskilja eignarlandi rétt til jarðefna er að finna í 9. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Ekki þykja lengur rök til þess að halda slíku banni í lögum og eru því engar takmarkanir gerðar á ráðstöfunarrétti fasteignareiganda að þessu leyti.
    Nánari grein er gerð fyrir framangreindum atriðum í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins og vísast til þeirra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.

    Í þennan kafla er skipað ákvæðum um markmið, gildissvið og skilgreiningar á einstökum hugtökum laganna.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er markmið frumvarpsins sett fram. Meginmarkmiðið er skynsamleg stjórnun og hagkvæm nýting náttúruauðlinda frá samfélagslegu sjónarmiði, að teknu tilliti til eignarréttar fasteignareiganda. Með tilvitnuðu orðalagi er vísað til þeirra sjónarmiða sem talin eru mikilvæg í samfélaginu á hverjum tíma, þar á meðal umhverfissjónarmiða. Samkvæmt greininni ber við stjórnun náttúruauðlinda að hafa að leiðarljósi samfélagslega hagkvæma nýtingu. Hefur greinin að geyma yfirlýsingu sem reynt getur á við túlkun og beitingu annarra ákvæða laganna. Við stjórnun á nýtingu náttúruauðlinda ber Orkustofnun því að hafa markmið laganna að leiðarljósi. Jafnframt því er í markmiðsyfirlýsingu laganna lögð áhersla á nauðsynlegt tillit til eignarréttar fasteignareiganda sem nýtur ríkrar verndar skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í gildandi lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, er ekki að finna markmiðsákvæði. Hins vegar er reglu af svipuðum toga að finna í 17. gr. laganna, en sú regla tekur mið af þeim sjónarmiðum sem litið er til við veitingu nýtingarleyfa. Þar segir orðrétt svo: „Við veitingu nýtingarleyfa skal þess gætt að nýting auðlinda í jörðu sé með þeim hætti að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða, nýting auðlindanna sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og tekið sé tillit til nýtingar sem þegar er hafin í næsta nágrenni. Telji ráðherra að umsækjandi um nýtingarleyfi uppfylli ekki þessar kröfur getur hann synjað um nýtingarleyfi eða sett sérstök skilyrði í nýtingarleyfi af þessu tilefni“. Um það við hvað sé átt með því að nýting sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að við veitingu nýtingarleyfa verði tekið tillit til umhverfissjónarmiða, má vísa til athugasemda greinargerðar við 17. gr. frumvarps til laga nr. 57/1998 (122. löggjafarþing 1997–98. Þskj. 574 – 359. mál): „Ákvæði þetta á einvörðungu við um útgáfu nýtingarleyfa. Lagt er til að ráðherra verði gert að meta umsóknir um veitingu nýtingarleyfa út frá tilteknum forsendum. Þannig skuli taka tillit til þjóðhagslegra hagsmuna, umhverfissjónarmiða og nýtingar sem hafin er í næsta nágrenni. Veiting nýtingarleyfa vegna auðlinda í eignarlandi mun því taka mið af þessum sjónarmiðum sem ganga þá framar hagsmunum fasteignareiganda“. Ákvæði frumvarpsgreinar þessarar er orðað með nokkuð öðrum hætti en 17. gr. laga nr. 57/1998. Rétt þykir að nota fremur orðið „frá samfélagslegu sjónarmiði“ en „frá þjóðhagslegu sjónarmiði“ en fyrrnefnda orðalagið þykir hafa víðtækari merkingu en hið síðarnefnda. Með tilvitnuðu orðalagi er við það miðað að við leyfisveitingar skuli taka mið af heildarhagsmunum samfélagsins.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er að finna nýtt hugtak, jarðrænar auðlindir og tekur gildissvið frumvarpsins mið af því. Eins og greinir í orðskýringum 3. gr. merkir hugtakið í lögunum hvers konar jarðefni, frumefni, lífræn og ólífræn efnasambönd og orkulindir sem vinna má á landi og úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þær kunna að finnast við. Frumvarpið tekur til kolvetna í jörðu á landi, en lög nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis taka til kolvetni á hafsbotni utan netlaga. Þó er ástæða til að geta þess að undir hugtakið jarðrænar auðlindir og gildissvið laganna eru felldar hveraörverur sem strangt til tekið mætti halda fram að telja ætti sem lífrænar auðlindir. Þær verða þó vart taldar eiga sér samastað annars staðar í lögum og því er hagfellt að fjalla um þær í þessu samhengi.
    Þá er í frumvarpinu við það miðað að vatnsföll teljist til jarðrænna auðlinda, eins og nánar er skilgreint í 3. gr. Af þessu leiðir að stjórnun þeirrar auðlindar sem felst í vatnsföllum fellur innan laganna. Meginreglan er því sú að leyfi Orkustofnunar þarf til þess að rannsaka og nýta vatnsföll. Stjórnsýsla vatnamála fellur því að hluta til undir frumvarpið, en allar reglur einkaréttarlegs eðlis er að finna í vatnalögum.
    Um leit, rannsóknir og nýtingu auðlinda samkvæmt lögum þessum gilda einnig náttúruverndarlög, skipulags- og byggingarlög og önnur lög sem varða rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða þó að það sé ekki sérstaklega tekið fram í frumvarpinu, enda leiðir það af eðli máls. Það ræðst því af ákvæðum þessara laga hverju sinni hvort einnig er skylt að afla leyfis, t.d. byggingar- eða framkvæmdaleyfis, leyfis Umhverfisstofnunar á friðlýstum svæðum, eða gera breytingu á aðalskipulagi, deiliskipulagi eða friðlýsingu áður en heimilt er að ráðast í framkvæmdir á grundvelli laga um rannsóknir og nýtingu jarðrænna auðlinda.

Um 3. gr.

    Í þessari grein eru skilgreiningar. Sumar þeirra eru efnislega samhljóða þeim skilgreiningum sem fram koma í 2. gr. gildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, þ.e. hugtökin eignarland, þjóðlendur, netlög, jarðefni, en aðrar sem skilgreiningar sem er að finna í gildandi lögum er skilgreindar með nokkuð öðrum hætti í frumvarpinu, þ.e. grunnvatn og jarðhiti. Þá hefur verið bætt við öðrum skilgreiningum sem ekki er að finna í gildandi lögum, þar á meðal skilgreiningum á orðum sem notuð eru í gildandi lögum en ekki skilgreind þar.

Um II. kafla.

    Þessi kafli hefur einungis að geyma eina grein, sem tekur til eignarréttar að auðlindum. Hún kemur í stað 3. gr. gildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þar var staðfest sú regla, sem í raun hefur verið fylgt við túlkun eignarréttar, að eignarlandi fylgi réttur til auðlinda sem þar finnast. Með frumvarpi þessu er ekki stefnt að neinni efnisbreytingu frá reglu gildandi réttar.

Um III. kafla.

    Kaflinn hefur að geyma reglur um leit að jarðrænum auðlindum. Markmiðið með ákvæðum um leit er fyrst og fremst það að tryggja nauðsynlegan aðgang væntanlegra handhafa rannsóknar- og nýtingarleyfa að því landi þar sem auðlindir finnast. Að meginreglu er út frá því gengið að samið verði við viðkomandi fasteignareigendur um aðgang að landi til leitar að auðlindum. Ekki er þó tryggt að slíkir samningar náist og þykir því nauðsynlegt að heimila Orkustofnun að veita slíkt leyfi. Leit í skilningi þessa kafla felur í öllum tilvikum í sér forathugun, í einhverjum tilvikum nauðsynlegan undanfara rannsóknar samkvæmt IV. kafla. Það skal þó áréttað að leyfi til leitar er ekki nauðsynlegur undanfari rannsóknar- og nýtingar, sbr. IV. og V. kafla, og í eðli sínu ólíkt þeim leyfum. Þá skal jafnframt tekið fram að slíkt leyfi veitir engan forgang til rannsókna- og nýtingarleyfa. Leit í þessum skilningi hefur því aðra merkingu en leit í skilningi laga nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

Um 5. gr.

    Greinin fjallar um skilyrði leitar að jarðrænum auðlindum. Í 1. mgr. er hnykkt á því að forræði á leit að jarðrænum auðlindum í eignarlöndum er á hendi viðkomandi fasteignareiganda, en um þjóðlendur fer eftir ákvæðum laga um þjóðlendur o.fl.
    Í 2. mgr. kemur síðan fram að Orkustofnun geti heimilað leit að jarðrænum auðlindum í eignarlöndum fáist ekki samþykki fasteignareiganda. Slíkt leyfi yrði þó ekki veitt nema þess hefði fyrst verið freistað að afla slíks leyfis hjá viðkomandi fasteignareiganda. Ekki skiptir máli þó að eigandi auðlindar hafi sjálfur hafið leit eða heimilað það öðrum. Þá er tekið fram að leyfið þurfi að taka til skilgreinds svæðis og á grundvelli fyrir fram ákveðinna markmiða um rannsóknir og nýtingu. Þá skal áréttað að ævinlega þurfa málefnalegar ástæður og raunveruleg þörf að liggja til grundvallar leyfisveitingar samkvæmt þessari grein frumvarpsins.
    Í 3. mgr. kemur fram að Orkustofnun sjálf hafi ákveðnar skyldur og réttindi til frumkvæðis í leit að jarðrænum auðlindum. Þannig getur Orkustofnun samkvæmt greininni haft frumkvæði að leit hvar sem er á landinu og skiptir þá ekki máli þó að eigandi auðlindar hafi sjálfur hafið leit eða heimilað það öðrum.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um heimild til að veita fleirum en einum aðila leyfi til leitar á sama landsvæði og í 5. mgr. er hnykkt á því að leyfi til leitar veiti ekki forgang til rannsóknar- eða nýtingarleyfis.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er fjallað um málsmeðferð vegna veitingar leyfis til leitar og skýrir greinir sig sjálf.

Um IV. kafla.

    Þessi kafli frumvarpsins skiptist í þrjá hluta, þ.e. rannsóknir, nýtingu og ákvæði sem eru sameiginleg rannsóknum- og nýtingu. Þó skal tekið fram að sérstakt ákvæði um málsmeðferð verður að vera fyrir bæði rannsóknir og nýtingu, enda eru ólík sjónarmið að baki hvoru leyfi um sig. Við skoðun þessa kafla ber að hafa í huga, það sem fyrr greinir, sbr. og bráðabirgðaákvæði við frumvarpið, að tilhögun þessi er ekki í alla staði hugsuð til framtíðar. Því er gert ráð fyrir knöppum tímafrestum enda ótækt að binda hendur þeirrar þverpólitísku nefndar sem ætlað er að móta framtíðarstefnu á þessu sviði.

Um 7.–9. gr.

    Þessar greinar koma að mestu í stað 4. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Rannsókn samkvæmt frumvarpinu felur í sér mat á stærð og legu auðlindar og sannprófun hennar. Rannsókn getur verið um tíu sinnum dýrari en leit og fer jafnan fram á litlum hluta leitarsvæðisins, þar sem mestar líkur eru taldar á vinnsluhæfri auðlind. Vegna kostnaðar rannsóknarinnar þarf sá sem hana kostar að njóta fyrirheits um forgangsrétt til nýtingar ef til hennar kemur að rannsókn lokinni. Eigandi auðlindar þarf ekki leyfi Orkustofnunar til rannsóknar hvort sem hann rannsakar auðlindina sjálfur eða aðrir á hans vegum en vilji hann njóta forgangsréttar til nýtingar verður að afla sér rannsóknarleyfis. Hann á forgangsrétt að rannsóknarleyfi á auðlind sinni en óski hann ekki eftir að nýta þennan forgangsrétt getur Orkustofnun átt frumkvæði að rannsókn á auðlindinni eða auglýst eftir umsóknum um rannsóknarleyfi á auðlindinni og skiptir þá ekki máli þó að eigandi auðlindarinnar hafi sjálfur hafið slíka rannsókn eða heimilað það öðrum, nema viðkomandi aðili hafi gilt rannsóknarleyfi samkvæmt lögunum. Rannsóknarleyfi veitir leyfishafa forgangsrétt til nýtingarleyfis í allt að tvö ár að loknum gildistíma þess og tryggir að öðrum aðila verði ekki veitt rannsóknarleyfi á sama svæði á gildistíma rannsóknarleyfis og forgangsréttar til nýtingar.

Um 10. gr.

    Samkvæmt 7. gr. frumvarpsins fær leyfishafi einkarétt til að rannsaka auðlindir á tilteknu svæði. Skal leyfi til rannsókna veitt til allt að 5 ára, sbr. 10. gr. frumvarpsins. Það matsatriði hverju sinni til hversu langs tíma Orkustofnun skuli veita leyfi, en það viðmið er sett í greininni að miða skuli tímalengd leyfis við umfang rannsókna og eðli auðlindar.

Um 11. gr.

    Hér er að finna fyrirmæli um málsmeðferð við veitingu rannsóknarleyfis. Í 1. mgr. er sérstaklega tekið fram að rannsóknarleyfi samkvæmt lögunum skuli veitt á grundvelli umsóknar sem metin skuli á hlutlægan og gagnsæjan hátt. Þá skal tekið tilliti til 17. gr. frumvarpsins sem mælir fyrir um auglýsa skuli eftir umsækjendum áður en leyfi er veitt til rannsókna og nýtingar á jarðrænum auðlindum. Með orðunum „hlutlægan“ og „gagnsæjan“ hátt er við það miðað að sjónarmiðin sem liggja að baki veitingu leyfisins séu kynnt umsækjendum fyrir fram. Er gert ráð fyrir því að þessum sjónarmiðum verði gerð skil í auglýsingu skv. 17. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. kemur fram að við veitingu rannsóknarleyfis skuli einkum taka mið af því hvernig framlögð rannsóknaráætlun getur náð settu markmiði um að ná sem mestum og bestum upplýsingum um stærð og eðli auðlindarinnar á sem hagkvæmastan hátt. Skoða verður þessa málsgrein í samhengi við 1. mgr.
    Í 3. mgr. er heimild til handa Orkustofnun að synja um rannsóknarleyfi eða setja sérstök skilyrði í leyfi af þessum sökum. Slík synjun getur einungis byggt á því að umsækjandi um leyfi uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. ákvæðisins.
    Í 4. mgr. kemur fram að ef tvær eða fleiri umsóknir berist, sem Orkustofnun telur jafngóðar, skuli elsta umsóknin ganga fyrir.
    Í 5. mgr.     er svo fyrir mælt að áður en leyfi er veitt skuli leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar en þegar umsókn varðar rannsóknir auðlinda í netlögum sjávar skuli leita umsagnar sjávarútvegsráðuneytisins.
    Loks er í 6. mgr. reglugerðarheimild.

Um 12. gr.

    Þessi grein að mestu sama efnis og 6. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þó er með skýrari hætti tekið fram að til þess að eigandi auðlindar (oftast fasteignareigandi) öðlist forgang til nýtingarleyfis vegna auðlindar í eignarlandi sínu verði hann að hafa öðlast forgangsrétt með rannsóknarleyfi.

Um 13. gr.

    Í greininni ræðir um tímalengd nýtingarleyfis. Gerður er greinarmunur annars vegar á nýtingarleyfi vatnsfalla og hins vegar á nýtingarleyfi annarra jarðrænna auðlinda en vatnsfalla. Ástæða þess er sú að vatnsaflsvirkjunum er almennt ætlaður nokkuð langur endingartími, sem gera verður ráð fyrir að tekið hafi verið mið af í raforkuvinnslu. Skv. 1. mgr. verður tímalengd nýtingarleyfis vatnsfalla allt að 60 ár, en tímalengd nýtingarleyfis annarra jarðrænna auðlinda allt að 30. Í báðum tilvikum er heimilt að framlengja nýtingarleyfið, hafi forsendur leyfisveitingar ekki breyst, en þó ekki lengur en til 30 ára. Þannig getur nýtingarleyfi fyrir vatnsfall orðið lengst 90 ár, en nýtingarleyfi annarra jarðrænna auðlinda 60 ár. Þá er gengið út frá því í greininni að framlengja skuli leyfi, hafi forsendur leyfisveitingar ekki breyst.
    Við 1. mgr. hefur verið bætt því þýðingarmikla nýmæli að hafi nýtingarleyfishafi ekki hafið nýtingu á grundvelli leyfisins innan tveggja ára frá útgáfu þess eða sótt um virkjanaleyfi innan þeirra tímamarka þá falli leyfið úr gildi. Vakin er athygli á því að hér er beinlínis vísað til virkjanaleyfis samkvæmt raforkulögum og þess þannig freistað að skapa samræmi og samfellu auðlindalaga og raforkulaga í tilviki nýtingar vatnsorku og jarðhita við raforkuframleiðslu.
    Í 2. mgr. kemur fram að stöðvi leyfishafi vinnslu samfellt í 3 ár falli leyfið niður að þeim tíma liðnum. Hljóti annar aðili nýtingarleyfið ber honum að halda samkomulag og samninga sem fyrri leyfishafi gerði skv. 18. og 19. gr. og kaupa þau mannvirki sem notuð eru við vinnslu úr auðlindinni. Rísi ágreiningur um greiðsluna skal skorið úr því með mati.

Um 14. gr.

    Greinin fjallar um málsmeðferð við veitingu nýtingarleyfis. Í 17. gr. frumvarpsins er kveðið á um að auglýsa skuli eftir umsækjendum áður en leyfi er veitt til rannsókna og nýtingar á auðlindum í eigu ríkisins eða þjóðarinnar. Einnig má auglýsa eftir umsóknum til rannsókna og nýtingu auðlinda í einkaeign ef eigandi auðlindar hefur ekki áhuga á að nýta forgangsrétt sinn til nýtingar. Meta skal umsóknir um nýtingarleyfi á hlutlægan og gagnsæjan hátt. Í auglýsingu eftir umsóknum um nýtingarleyfi skal geta þeirra viðmiða sem notuð verða við mat á umsóknum. Auk þessa gerir greinin ráð fyrir því að sjónarmið sjálfbærrar þróunar verði notuð við veitingu nýtingarleyfa. Í því sambandi er vert að minna á að auðlindum er skipt í tvo flokka eftir eðli þeirra. Annars vegar eru endurnýjanlegar auðlindir sem hafa þann eiginleika að þær endurnýja sig í sífellu. Dæmi um slíkar auðlindir eru t.d. fiskistofnarnir í hafinu og orkulindirnar jarðhiti og vatnsorka. Hin tegund auðlinda eru endanlegar auðlindir, en slíkar auðlindir endurnýja sig ekki. Dæmi um endanlegar auðlindir eru t.d. gull, olía og möl. Vinnsla úr endanlegum auðlindum hefur óhjákvæmilega í för með sér að auðlindin minnkar með vinnslu. Þó að endurnýjanlegar auðlindir séu í stöðugri endurnýjun þarf að taka mið af endurnýjunarhraðanum við ákvörðun á nýtingarhraða auðlindarinnar. Ef hægt er að viðhalda ákveðinni nýtingu auðlindar í mjög langan tíma (hundruð ára) er talað um að nýting auðlindarinnar sé sjálfbær. Ef nýtingarhraðinn er á hinn bóginn mun meiri en endurnýjunarhraði auðlindarinnar gengur dæmið ekki upp og fyrr eða síðar kemur að því að áhrif vinnslunnar á auðlindina eru orðin það slæm að breyta verður vinnslunni eða jafn vel að hætta vinnslu í einhvern tíma. Sem dæmi má nefna að sé veiði úr fiskistofni í langan tíma meiri en nýliðun hans getur það leitt til hruns fiskistofnsins.
    Þegar sagt er í greininni að við veitingu nýtingarleyfis skuli einkum horft til þess að nýting endurnýjanlegra orkulinda sé sjálfbær og varlega sé farið í nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda, verður að hafa tvennt í huga. Annars vegar að endurnýjanlegar auðlindir verði nýttar þannig að nýtingin hafi ekki skaðleg áhrif á auðlindina og að hægt sé að viðhalda sömu nýtingu í hundruð ára. Hins vegar verður að gera ráð fyrir að tillit verði tekið til komandi kynslóða með því að takmarka vinnslu úr óendurnýjanlegum auðlindum. Þá eru einnig ákvæði í greininni um að tillit verði tekið til þeirrar auðlindanýtingu sem fyrir er á vissu landsvæði þegar vinnsla á nýrri auðlind er hafin á sama landsvæði. Heimilt er að hafna öllum umsóknum ef Orkustofnun telur að umsóknir uppfylli ekki þær kröfur sem greinin setur eða ef nýtingin er ekki talin samrýmast markmiðum laganna. Orkustofnun getur einnig sett sérstök skilyrði fyrir veitingu nýtingarleyfis og skulu skilyrðin þá tilgreind sérstaklega í nýtingarleyfinu.

Um 15. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram að í umsóknum um rannsóknar- og nýtingarleyfi skuli koma skýrt fram hver tilgangur sé með öflun leyfis ásamt ítarlegum upplýsingum um umfang, eðli og tímasetningu fyrirhugaðra framkvæmda umsækjanda eftir ákvörðun Orkustofnunar. Einnig skuli því lýst í umsókn með hvaða hætti skilyrði 11. og 14. gr. eru uppfyllt. Það fer eftir atvikum hvað upplýsingar er nauðsynlegt að komi fram í umsókn um rannsóknar- og nýtingarleyfi. Ákvörðun Orkustofnunar að þessu leyti tekur mið af þeirri auðlind sem um er að ræða. Í 16. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, er að finna sambærilega reglu nema hvað Orkustofnun kemur í stað ráðherra, auk þess sem reglugerðarheimild til handa iðnaðarráðherra hefur verið bætt við frumvarpsgreinina.

Um 16. gr.

    Hér eru tilgreind þau efnisatriði sem ávallt þarf að tiltaka í rannsóknar- og vinnsluleyfum. Upptalningin er ekki tæmandi heldur tekur hún mið af helstu almennum atriðum sem ávallt þurfa að vera til staðar í leyfi. Að öðru leyti verður að meta það í hverju tilviki fyrir sig hvað eigi að koma fram í leyfinu.

Um 17. gr.

    Í þessari grein eru reglur um það að auglýsa skuli eftir umsóknum um leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum á tilteknum svæðum. Í 1. málsl. 1. mgr. kemur fram sú meginregla að auglýsa skuli eftir umsækjendum áður en leyfi er veitt til rannsókna og nýtingar á jarðrænum auðlindum á eignarlöndum ríkisins og í þjóðlendum, en undantekning er gerð frá reglunni í 3. mgr. Rétt þykir að miða við þessa meginreglu þegar um er að ræða jarðrænar auðlindir á eignarlöndum ríkisins og þjóðlendur, sem eru landsvæði á forræði íslenska ríkisins. Ákvæðinu er því bæði ætlað að tryggja að rannsóknir og nýting auðlinda sé með sem hagkvæmustum hætti, auk þess að tryggja jafnræði borgaranna. Samkvæmt 2. málsl. hefur Orkustofnun heimild til að auglýsa eftir umsækjendum áður en leyfi er veitt til rannsókna og nýtingar á auðlindum á landi og í jörðu í eignarlöndum annarra en ríkisins lýsi eigandi auðlindar því yfir að hann muni ekki nýta forgangsrétt sinn til rannsóknarleyfis. Hér er ekki um að ræða neina skyldu, en engu að síður þykir skynsamlegt að Orkustofnun hafi þessa heimild. Þessa heimild verður að skoða í samræmi við aðrar heimildir stofnunarinnar samkvæmt frumvarpinu skv. III. og IV. kafla, en gengið er út frá því að Orkustofnun geti veitt leyfi til leitar, rannsókna og nýtingar á eignarlöndum annarra en ríkisins. Hins vegar er fasteignareiganda bætt það tjón sem hann verður fyrir vegna slíkrar leyfisveitingar stofnunarinnar, sbr. 35. gr. frumvarpsins, auk þess sem í 36. gr. er að finna eignarnámsheimild til handa iðnaðarráðherra vegna nýtingarleyfis í eignarlandi aðila sem nýtir ekki auðlindina sjálfur.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það að í auglýsingu skuli tilgreina til hvaða svæða rannsóknarleyfi tekur. Við það er miðað að í auglýsingu verði gerð grein fyrir helstu skilmálum og skilyrðum fyrir veitingu leyfis. Einungis er unnt að geta skilmála almenns eðlis í auglýsingu. Ekki verður gengið frá endanlegum skilmálum leyfis fyrr en að loknum viðræðum við þann sem fær rannsóknarleyfi á viðkomandi svæði. Þá segir að umsóknarfrestur skuli ekki vera skemmri en 60 dagar. Loks kemur fram sú regla í 4. málsl. að beri þessi auglýsing ekki árangur megi auglýsa að svæði sé opið til rannsókna og rannsóknarleyfi verði veitt þeim sem fyrstur sækir um að loknum tilgreindum tímafresti og telst til þess hæfur.
    Í 3. mgr. kemur fram sú undantekning að heimilt sé að veita leyfi til rannsókna og nýtingar á svæði sem hefur ekki verið auglýst skv. 1. og 2. mgr. greinarinnar. Áður en slíkt leyfi er veitt skal birta tilkynningu um það í Lögbirtingablaðinu og gefa öðrum kost á að sækja um þetta leyfi. Hér er um að ræða sams konar reglu og 4. málsl. 3. mgr. felur í sér. Hún er undantekning frá þeirri meginreglu að auglýsa skuli svæði opin til rannsókna og nýtingar. Með þessum hætti er Orkustofnun heimilt að birta tilkynningu um að leyfi verði veitt fyrsta umsækjanda sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fyrir veitingu leyfis án undangenginnar auglýsingar.
    Samkvæmt 4. mgr. er Orkustofnun heimilt að hafna öllum umsóknum um leyfi. Nauðsynlegt er að hafa þessa heimild, enda kynni engin þeirra umsókna sem berast um leyfi til rannsókna þyki fullnægjandi að mati Orkustofnunar.

Um 18. gr.

    Ákvæði 1. mgr. greinarinnar kemur í stað 2. mgr. 7. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en er ekki að öllu leyti hin sama. Þar kemur fram að hafi eigandi auðlindar sjálfur látið rannsaka auðlind sínar eða heimilað það öðrum en ekki verið veitt leyfi til nýtingar á viðkomandi auðlind getur eigandi auðlindar eða sá sem kostaði rannsóknirnar krafið nýtingarleyfishafa um sannanlegan kostnað vegna rannsókna eða markaðsvirði þeirra, sé það fyrir hendi, gegn afhendingu á niðurstöðum rannsóknanna. Rísi ágreiningur um greiðsluna skal skorið úr því með mati dómkvaddra matsmanna. Efnislega sama ákvæði er að finna í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar að því er varðar aðra rannsóknarleyfishafa en um ræðir í 1. mgr.
    Um ákvæði 1. og 2. mgr. er það að segja að ekki er sjálfgefið í öllum tilvikum að handhafi rannsóknarleyfis eða eigandi auðlindar, eða sá sem eigandi hefur heimilað rannsóknir, fái nýtingarleyfi á því svæði sem hann hefur rannsakað. Af þeim sökum þykir regla þessi nauðsynleg. Við mat á endurgjaldi til handa eiganda rannsóknanna er um tvennt að velja. Annars vegar endurgreiðslu á sannanlegum kostnaði og hins vegar markaðsvirði rannsóknanna. Vera kann að rannsóknir sem gerðar hafa verið á viðkomandi svæði hafi markaðsvirði. Sanngjarnt og eðlilegt þykir, m.a. með hliðsjón af 72. gr. stjórnarskrárinnar, að í þeim tilvikum beri að greiða eiganda rannsóknanna það verð sem fæst á markaði. En þó svo að ekki sé neinn markaður fyrir rannsóknir af þessu tagi eru hagsmunir eiganda þeirra ávallt varðir með því að ávallt ber að greiða honum sannanlegan kostnað sem hann hefur haft af rannsóknunum. Rísi ágreiningur um greiðsluna skal skorið úr því með mati dómkvaddra matsmanna, eins og fram kemur í 2. málsl. 2. mgr.
    Fram kemur í 3. mgr. að einnig beri nýtingarleyfishafa að endurgreiða Orkustofnun sannanlegan kostnað ríkisins vegna rannsókna á auðlindinni gegn aðgangi að niðurstöðum þeirra. Sá munur er á þessari efni 3. mgr. og 1.–2. mgr. að ekki er gert ráð fyrir að Orkustofnun geti krafist markaðsvirðis rannsókna, heldur einungis raunverulegs kostnaðar sem stofnunin hefur haft af rannsóknunum. Rísi ágreiningur um greiðslu nýtingarleyfishafa fyrir rannsóknir ofangreindra aðila skal skorið úr því með mati.

Um 19. gr.

    Greinin er samhljóða 1. mgr. 7. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, að öðru leyti en því að tímafrestir hafa verið lengdir.

Um 20. gr.

    Í greininni ræðir um afturköllun rannsóknar- og nýtingarleyfis. Þarfnast ákvæðið ekki frekari skýringar.

Um V. kafla.

    Þessi kafli fjallar um undantekningar frá þeim reglum sem að framan greinir í tilviki einstakra auðlinda frá núgildandi lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Um 21. gr.

    Greinin kemur í stað 8. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en efnistaka, nema minni háttar efnistaka eiganda eða umráðamanns til eigin nota, er háð framkvæmdaleyfi samkvæmt náttúruverndarlögum og skipulags- og byggingarlögum.

Um 22. gr.

    Greinin kemur í stað 10. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Sú breyting er gerð frá tilvitnuðu lagaákvæði að ekki er lengur sett það skilyrði að hagnýting jarðhitans sé til heimilis- og búsþarfa, þ.m.t. ylræktar, iðnaðar og iðju, svo fremi hagnýtingin sé ekki meiri en 3,5 MW miðað við vermi sem alls er tekið úr jarðhitaauðlindum í eignarlandinu. Þá er sett skilyrði um tilkynningarskyldu hagnýtingarinnar til Orkustofnunar og skyldu til að senda stofnuninni árlega skýrslu um raunverulega notkun. Þessi heimild eiganda auðlindar er mjög rúm. Hún svarar til um 8 l/s af 100°C vatni sem duga mundu til upphitunar um 50 einbýlishúsa. Markið er sett svo hátt til þess að hlífa málsaðilum við óþarfa skrifræði vegna minni háttar nýtingar en þó er æskilegt að skýrsla sé gefin um raunverulega notkun svo að yfirlit fáist um nýtingu auðlindarinnar.

Um 23. gr.

    Hér er um hliðstæða reglu að ræða og fram kemur í 22. gr. frumvarpsins og áður er lýst. Er fasteignareiganda heimilt að hagnýta grunnvatn án leyfis til heimilis- og búsþarfa, þ.m.t. til fiskeldis, iðnaðar og iðju innan eignarlands, allt að tilteknum mörkum sem lagt er til að verði 10 sekúndulítrar. Í 14. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, er miðað við 70 sekúndulítra. Sú viðmiðun er óþarflega há og mundi duga sem nytjavatn fyrir 600 manna byggð.

Um 24. gr.

    Þessi grein fjallar um vatnsorku. Í núgildandi lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, er að ekki að finna nein fyrirmæli um vatnsorku, en ákvæði þess efnis hafa verið í vatnalögum, nr. 15/1923. Í frumvarpi þessu er byggt á þeirri meginreglu að leyfi Orkustofnunar þurfi til þess að nýta allar jarðrænar auðlindir, þ.m.t. vatnsorku. Er það í samræmi við þann tilgang laganna að Orkustofnun hafi með höndum stjórnun allra jarðrænna auðlinda, hverju nafni sem þær nefnast. Í frumvarpi til vatnalaga sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu er tekið tillit til þessa.
    Greinin felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu frumvarpsins að leyfi Orkustofnunar þurfi til þess að hagnýta jarðrænar auðlindir. Er við það miðað að fasteignareiganda sé heimilt án leyfis að hagnýta vatnsorku í eignarlandi sínu, allt að 350 kW rafafls. Heimildin er rúm. Venjulegu heimili duga 15 kW. Æskilegt þykir hins vegar að hlífa málsaðilum við óþarfa skrifræði vegna minni háttar nýtingar. Samt er æskilegt að skýrsla sé gefin um raunverulega notkun svo að yfirlit fáist um nýtingu auðlindarinnar.

Um VI. kafla.

    Í þessum kafla, sem er aðeins ein grein, 25. gr. frumvarpsins, ræðir um forgangsrétt sveitarfélags til nýtingarleyfis vegna jarðhita og nytjavatns. Þessi ákvæði voru áður í lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Um VII. kafla.

    Í þessum kafla ræðir um stjórnsýslu. Kaflanum er skipt í tvennt, annars vegar eftirlit og úrræði og hins vegar skyldur leyfishafa og landeigenda.

Um 26. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um stjórnsýslu og málskotsrétt aðila. Í 1. mgr. kemur fram að iðnaðarráðherra fari með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum, en í 2. mgr. segir að stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til iðnaðarráðherra. Um meðferð máls fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

Um 27. gr.

    Í greininni kemur fram að Orkustofnun annist eftirlit með framkvæmd laganna og að stofnunin gefi iðnaðarráðherra árlega skýrslu um framkvæmd þeirra. Greinin kemur í stað 21. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Henni hefur þó verið breytt þannig að Orkustofnun annist afdráttarlaust eftirlit með allri starfsemi sem falla undir lögin. Með sama hætti og verið hefur gefur stofnunin iðnaðarráðherra árlega skýrslu um framkvæmd laganna. Þó er ekki gengið út frá því að ráðherra setji reglugerð um innihald slíkrar skýrslu, enda hlýtur efni hennar að ráðast af atvikum hverju sinni.

Um 28. gr.

    Greinin fjallar um eftirlitsheimildir Orkustofnunar. Telja verður nauðsynlegt að stofnunin hafi rúmar heimildir til þess að sinna eftirliti sínu með framkvæmd laganna. Í gildandi lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, er ekki að finna nægilega rúmar heimildir stofnuninni til handa til þess að sinna hlutverki sínu. Orkustofnun getur gert sérstakar kannanir að eigin frumkvæði eða vegna kvartana eða ábendinga annarra. Orkustofnun fær ríkar rannsóknarheimildir verði frumvarpið að lögum. Við það ber að miða að Orkustofnun beiti eins hóflegum aðferðum og kostur er við eftirlit sitt. Hins vegar verður stofnunin að geta gripið til vettvangskannana ef sérstakar ástæður krefjast þess, svo sem ef ætla má að upplýsingum sé haldið frá stofnuninni.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að Orkustofnun geti krafið leyfishafa um allar upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru við framkvæmd eftirlitsins. Skulu gögn og upplýsingar berast innan hæfilegs frests sem Orkustofnun setur.
    Í 2. mgr. segir að Orkustofnun geti í eftirlitsstörfum sínum krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.

Um 29. gr.

    Í greininni er kveðið á um úrræði Orkustofnunar í eftirlitsstarfsemi sinni. Greinin skýrir sig sjálf.

Um 30. gr.

    Greinin er nýmæli og kveður á um gagnagrunn Orkustofnunar um auðlindir þar sem varðveitt verða gögn sem Orkustofnun hefur aflað eða látið afla með leit, rannsóknum og eftirliti, auk þeirra gagna sem henni berast með skylduskilum frá öðrum sem vinna að leit, rannsókn eða nýtingu auðlinda. Gert er ráð fyrir að gögn í þessum grunni verði gerð öllum opin og aðgengileg, en sum gögn geta þó verið bundin trúnaði um takmarkaðan tíma.

Um 31. gr.

    Greinin er að mestu sama efnis og 23. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Í 1. mgr. er þó lagt til að þagnarskyldan gildi ekki á gildistíma nýtingarleyfis sem veitt er rannsóknarleyfishafa í kjölfar rannsóknarleyfis, svo sem meginregla gildandi laga gerir ráð fyrir. Ekki þykir ástæða til að þagnarskylda af þessu tagi gildi eftir að nýtingarleyfi hefur verið veitt, enda hefur handhafi leyfisins þá ekki lengur sérstaka hagsmuni af því að upplýsingarnar fari leynt. Ákvæði 2. mgr. er samhljóða 2. mgr. 23. gr. núgildandi laga.

Um 32. gr.

    Greinin er sama efnis og 1. mgr. 35. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Hún kveður á um upplýsingaskyldu rannsóknar- og nýtingarleyfishafa. Mælt er fyrir um almenna upplýsingaskyldu þessara aðila gagnvart Orkustofnun. Gert er ráð fyrir að eigi sjaldnar en árlega á meðan á leyfistíma stendur og auk þess í lok hans verði Orkustofnun send skýrsla um framvindu mála. Til leiðbeiningar eru í ákvæðinu talin upp helstu atriði sem greina skal frá í skýrslunni, en heimilt er að kveða á um fleiri atriði í viðkomandi leyfi. Auk þess er Orkustofnun heimilt að óska eftir sýnum. Með sýnum af jarðefnum er bæði átt við jarðefnasýni og vatnssýni. Ekki þykir ástæða til að hafa sérstakt ákvæði um jarðboranir í almennum lögum um auðlindir, svo sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. 22. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en sú grein er að hluta byggð á ákvæðum 52. gr. orkulaga, nr. 58/1967.

Um 33. gr.

    Ákvæðið á sér hliðstæðu í 26. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Um 34. gr.

    Þessi grein kemur í stað 27. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Í 1. mgr. kemur fram sú regla að þegar ein og sama auðlind nær til tveggja eða fleiri landareigna er auðlindin sameign landeigenda. Áður en nýting hefst úr slíkri auðlind skulu eigendur gera með sér samning um hlutfallslegan rétt hvers og eins til nýtingar á auðlindinni.
    Í 2. mgr. segir að komi upp ágreiningur milli rétthafa um nýtingu auðlindar skuli afla mats dómkvaddra matsmanna.

Um VIII. kafla.

    Í þessum kafla eru hefðbundin eignarnáms- og bótaákvæði.

Um 35. gr.

    Greinin er sama efnis og 28. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nema að því leyti að Orkustofnun er leyfisveitandi en ekki iðnaðarráðherra.

Um 36. gr.

    Greinin kemur í stað 29. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Rétt er að taka fram að felld hefur verið á brott sérstök eignarnámsheimild 3. mgr. 29. gr. tilvitnaðra laga til handa sveitarfélögum. Sú heimild þykir alltof of víðtæk og ekki styðjast við gild efnisleg rök.
    Hvað varðar 1. mgr. greinarinnar er vakin sérstök athygli á því að gert er ráð fyrir að iðnaðarráðherra heimili eignarnám en framkvæmi það ekki sjálfur. Þykir það í betra samræmi við gildandi rétt. Þá er sérstaklega tekið fram að ávallt skuli þess þó freistað að ná samkomulagi við fasteignareiganda áður en til eignarnáms kemur, en hér er m.a. höfð hliðsjón af Hrd. 1998, 985.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. greinarinnar er hin sömu og 2. og 4. mgr. 29. gr. laga nr. 57/1998, en hið síðastnefnda á sér m.a. fyrirmynd í 12. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms. Loks er 4. mgr. greinarinnar í samræmi við 3. mgr. 30. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þá hefur verið aukið við efni hennar með því að árétta að við ákvörðun eignarnámsbóta skuli koma til frádráttar sérhagur viðkomandi fasteignar af framkvæmdum, en sú regla er í samræmi við réttarframkvæmd.

Um 37. gr.

    Í þessari grein þykir til áréttingar ástæða til að taka fram að þar sem skera verður úr ágreiningi með mati dómkvaddra matsmanna fari um dómkvaðningu, þ.m.t. kostnað af mati, samkvæmt lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Um IX. kafla.

    Í þennan kafla er safnað saman ýmsum ákvæðum, þ.e. um yfirstjórn mála samkvæmt frumvarpinu, framsal leyfa, reglugerðarheimild, viðurlögum og gildistöku frumvarpsins.

Um 38. gr.

    Greinin er sama efnis og 32. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nema að því leyti að Orkustofnun kemur í stað ráðherra.

Um 39. gr.

    Greinin er sama efnis og 33. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Um 40. gr.

    Greinin er sama efnis og 35. gr. núgildandi laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Samkvæmt þeim má ákvarða lögaðila sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á starfsmann lögaðilans. Ekki standa rök til þess að breyta því, enda getur reynst erfitt að sanna að skilyrði refsiábyrgðar séu fyrir hendi ef um refsiábyrgð lögaðila væri vísað til II. kafla A almennra hegningarlaga. Með vísan til þessa er lagt til að viðurlagaákvæði gildandi laga verði óbreytt í þessu frumvarpi. Rétt er að taka fram að viðurlagaákvæði þetta ber að túlka til samræmis við ákvæði II. kafla A almennra hegningarlaga.
    Í fyrsta lagi verður fésekt ákveðin með hliðsjón af almennum hegningarlögum, m.a. 51. gr. sem mælir svo fyrir að þegar fjárhæð sektar er ákveðin skuli eftir því sem við á höfð hliðsjón af tekjum og eignum sakbornings, afkomu, framfærsluskyldu, öðrum atriðum er orka á greiðslugetu hans og þeim fjárhagslega ávinningi eða sparnaði sem leiddi af brotinu eða stefnt var að með því.
    Í öðru lagi verður hugtakið lögaðili í viðurlagaákvæði frumvarpsins túlkað með hliðsjón af 19. gr. b almennra hegningarlaga, enda engin sérregla lögð til í frumvarpinu, en í greinargerð með 19. gr. b segir að gildandi sérrefsilagaheimildir um refsiábyrgð lögaðila verði skýrðar til samræmis við ákvæðið þannig að refsiábyrgðin taki til þeirra lögaðila sem ákvæðið afmarkar, nema annað sé sérstaklega tekið fram í sérrefsilögunum.
    Í þriðja lagi skal tekið fram að öfugt við 19. gr. a og 19. gr. b verður 19. gr. c ekki beitt um tilvik sem falla undir viðurlagaákvæði frumvarps þessa. Um það vísast til þess sem áður segir, að viðurlagaákvæði frumvarpsins miðar við hlutræna refsiábyrgð lögaðila. Heimilt er að víkja frá að refsiábyrgð lögaðila sé bundin því skilyrði að staðreynt hafi verið að fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður lögaðilans eða annar á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsinæman og ólögmætan verknað í starfsemi lögaðilans. Um þetta segir í athugasemdum við 19. gr. c í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 140/1998, um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, að ákvæði um slík frávik verði þó að vera skýr. Þannig sé t.d. ekki gert ráð fyrir því að ákvæðið felli úr gildi sérrefsilagaákvæði um að gera megi lögaðila fésekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Af þessum ummælum er ljóst að viðurlagaákvæði frumvarpsins stenst fyllilega kröfur almennra hegningarlaga.

Um 41. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 42. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003. Ástæðan er sú að verði þetta frumvarp að lögum er ráðgert að nýtingarleyfi sé forsenda nýtingar allra jarðrænna auðlinda. Því verður að teljast nauðsynlegt að umsækjandi virkjunarleyfis hafi gilt nýtingarleyfi vegna viðkomandi auðlindar samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum.

Um ákvæði til bráðabirgða I, II og III.

    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa, en um forsendur bráðabirgðaákvæðis II vísast sérstaklega til almennra athugasemda með frumvarpi þessu.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum.

    Meginmarkmið frumvarpsins er að mæla fyrir um eignarréttarlega stöðu auðlinda í jörðu. Lagðar eru til breytingar á gildandi lögum sem einfalda leit að jarðrænum auðlindum án þess að til komi útgáfa rannsóknar- og/eða nýtingarleyfis. Frumvarpið kemur í stað laga nr. 57/1998. Í frumvarpinu er ákvæði til bráðabirgða um að við gildistöku laganna skipi iðnaðarráðherra nefnd. Nefndinni er ætlað að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laganna. Nefndinni er einnig ætlað að marka framtíðarstefnu í nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Kostnaður við nefndina er áætlaður samtals 12,5 m.kr., en hann skiptist á tvö ár. Þar af eru 7 m.kr. vegna sérfræðings í eitt og hálft ár, aðkeypt sérfræðiþjónusta er 5 m.kr. og um 0,5 m.kr. fara til nefndarlauna og til að greiða annan fundarkostnað. Ráðgert er að 7,5 m.kr. komi til greiðslu 2005 og 5 m.kr. 2006.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að framangreindur kostnaður rúmist innan útgjaldaramma ráðuneytisins.