Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 389. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 486  —  389. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „66,15 kr.“ í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: 70,78 kr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     1.      Í stað fjárhæðarinnar „213,51 kr.“ í 1. tölul. kemur: 228,46 kr.
     2.      Í stað fjárhæðarinnar „2,52 kr.“ í 2. tölul. kemur: 2,70 kr.
     3.      Í stað fjárhæðarinnar „7,64 kr.“ í 3. tölul. kemur: 8,17 kr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „268,20 kr.“ í 1. tölul. kemur: 286,97 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „13,40 kr.“ í 2. tölul. kemur 14,34 kr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til tvenns konar breytingar í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2005. Annars vegar er lagt til að áfengisgjald á sterku víni hækki um 7%. Hins vegar er lagt til að tóbaksgjald hækki um 7%. Reikna má með að smásöluverð á sterku víni hækki um u.þ.b. 5,6% og verð á tóbaki um 3,7% að jafnaði. Gert er ráð fyrir því að tekjuauki ríkissjóðs vegna þessara hækkana nemi allt að 340 millj. kr. á ársgrundvelli og áætluð áhrif á vísitölu neysluverðs eru talin verða um 0,08%.
    Þar sem áfengisgjald og tóbaksgjald hafa ekki hækkað síðan í lok nóvember 2002 er ljóst að þróun þeirra gjalda hefur ekki verið í samræmi við almennt verðlag og í raun hafa þau lækkað að raungildi. Tillaga um hækkun nú er í samræmi við þróun almenns verðlags á síðustu árum en almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um u.þ.b. 7% frá því að þessi gjöld hækkuðu síðast. Í frumvarpinu er þó lagt til að áfengisgjald léttra vína og bjórs verði óbreytt, en það hefur ekki breyst síðan 1998.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að áfengisgjald á sterkum vínum verði hækkað um 4,63 kr. á hvern sentilítra af vínanda, eða um 7%.

Um 2. gr.

    Hér er lögð til 7% hækkun á tóbaksgjaldi fyrir allar tegundir tóbaks, þ.e. vindlinga, neftóbak og aðrar tegundir tóbaks.

Um 3. gr.

    Til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að gjald af tóbaki sem ferðamenn, farmenn og aðrir hafa með sér til landsins til einkanota hækki samsvarandi, eða um 7%.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 96/1995,
um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að áfengisgjald á sterku víni og tóbaksgjald hækki um 7% til samræmis við almennar verðlagsbreytingar frá því gjöldin voru síðast hækkuð í nóvember 2002. Áfengisgjald léttra vína og bjórs verði hins vegar óbreytt. Áætlað er að hækkun gjaldanna auki tekjur ríkissjóðs um allt að 340 m.kr. á ársgrundvelli. Frumvarpið beinist þannig einkum að tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki talið að það hafi áhrif á útgjöld svo að nokkru nemi verði það óbreytt að lögum.