Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 496  —  76. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2004.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004 kemur nú til lokaafgreiðslu við 3. umræðu. Fjárlög yfirstandandi árs gerðu ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs næmu um 275,3 milljörðum kr. og heildartekjur yrðu um 282 milljarðar kr. Tekjujöfnuður var því áætlaður rúmir 6,7 milljarðar kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004 með þeim breytingum sem gerðar voru við 2. umræðu eru tillögur um aukin útgjöld sem nema um 9,3 milljörðum kr. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkisins á árinu 2004 verði um 284,6 milljarðar kr. Samkvæmt frumvarpinu og endurskoðaðri tekjuáætlun er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 9,3 milljarða kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs. Samtals er því gert ráð fyrir því að tekjur ársins verði um 291,3 milljarðar kr. Auknar skatttekjur má að mestu rekja til aukins bifreiðainnflutnings, áhrifa aukinnar einkaneyslu á innheimtu virðisaukaskatts og góðrar afkomu fyrirtækja á árinu 2003. Tekjujöfnuður er því áfram áætlaður um 6,7 milljarðar kr. Því miður hefur reynslan kennt okkur að að þessar niðurstöðutölur munu breytast. Í því sambandi er nærtækast að nefna reynslu síðustu ára. Sérstök ástæða er til að hafa áhyggjur af auknum viðskiptahalla sem er talinn verða 7–8% af landsframleiðslu, eða nærri 70 milljarðar kr., og fara ört vaxandi á næstu árum þannig að hann verði 13–14% af landsframleiðslu 2006 eða um 140 milljarðar kr. Bein áhrif stóriðjuframkvæmda eru aðeins um 40% af þessum halla. Yfir 60% hallans er aukinn innflutningur almennrar neysluvöru og þjónustu. Gjöld á vöruinnflutning og viðskiptahalla verða því aðaltekjustofn ríkisins á næstu árum fari fram sem horfir. Skuldir þjóðarbúsins, skuldir einstaklinga og fyrirtækja eru orðnar með því mesta sem gerist meðal þjóða heimsins og þær eru alvarleg ógnun við efnahagslegan stöðugleika.

Fjárlagavinnan.
    Upp á síðkastið hefur fjármálaráðuneytið lagst gegn því að fulltrúar stofnana og annarra sem fá starfsfé sitt að hluta eða öllu leyti frá ríkinu komi á fund fjárlaganefndar og geri grein fyrir starfsemi sinni, fjárhagstöðu og rekstrarþörf. Sú þróun er alvarleg ógnun við stöðu Alþingis, störf og verkefni þingmanna og þingnefnda og þar með ógnun við lýðræðið.
    Eitt brýnasta verkefnið sem bíður Alþingis og fjárlaganefndar er að endurskoða alla vinnu við fjárlagagerðina, marka framkvæmdarvaldinu sinn bás í þeirri vinnu og tryggja eðlileg og lýðræðisleg vinnubrögð við fjárlagagerðina. Styrkja þarf stöðu Alþingis í fjárlagavinnunni þannig að þegar fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til fjárlaga á Alþingi og því hefur verið vísað til fjárlaganefndar sé öll frekari vinna og afgreiðsla þess á ábyrgð hennar og þingsins.
    Til þess að fjárlaganefnd geti sinnt hlutverki sínu sem skyldi þarf að bæta upplýsingastreymi til hennar. Nefndin verður að fá betri upplýsingar um stöðu stofnana og áætlaða stöðu þeirra við árslok. Aðeins með slíkum upplýsingum getur nefndin tekið ábyrga afstöðu og ákvarðanir um fjárveitingar til einstakra stofnana. Jafnframt er nauðsynlegt að bæta möguleika fjárlaganefndar á að meta á sjálfstæðan hátt forsendur útgjalda og tekjuhliðar frumvarpsins. Fjárlagafrumvarpið er lagt fram og unnið á efnahagsforsendum fjármálaráðuneytisins og er beinn hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og mótast af væntingum hennar og brellum. Fjárlaganefnd hefur eins og áður sagði litla möguleika að leita annarra viðhorfa eða meta öryggi efnahagsforsendna fjármálaráðuneytis. Þess vegna er mikilvægt að styrkja stöðu Alþingis og nefnda þess. Það er hægt að gera með stofnun sérstakrar efnahagsskrifstofu þingsins sem gæti lagt sjálfstætt mat á stöðu og þróun efnahagsmála og fjármála ríkisins.

Fjárhagsstaða stofnana í A-hluta.
    Í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu um fjárhagsstöðu stofnana í A-hluta í janúar – september 2004 kemur fram að 91 stofnun var yfir 4% viðmiðunarmarkinu, þ.e. útgjöld miðað við fjárheimild voru umfram fjögur prósent. Þannig var t.d. staða Háskólans á Akureyri neikvæð um rúmar 190 millj. kr. í lok september og staða 15 framhaldsskóla neikvæð um 624 millj. kr. Þá má nefna að neikvæð staða 20 heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana var samtals tæpar 994 millj. kr. í lok september. Eigi að taka þennan lista alvarlega er ljóst að margar stofnanir verða í miklum fjárhagsvanda við lok ársins. Margt bendir til þess að fjárveitingar séu ekki samræmi við umsvif og lögbundin verkefni margra þeirra en vegna skorts á upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu um væntanlega raunstöðu þessara stofnana um áramót er ekki hægt að taka á málum þeirra við fjáraukalagagerðina eins og skylt væri þó. Úr því að fjárlaganefnd getur ekki fengið upplýsingar um rekstrarstöðu stofnana, hvernig getur þá fjármálaráðuneytið eða hlutaðeigandi fagráðuneyti sinnt eftirlits- og ráðgjafarhlutverki sínu, kallað forstöðumenn þessara stofnana á fund til sín og rætt við þá um hvernig þeir ætli að bregðast við? Minnisblaðið sýnir að það er eitthvað að áætlanagerðinni. Það er gott að samþykkja hallalaus fjárlög en á uppsöfnuðum fjárhagsvanda stofnana verður að taka í fjárlögum næsta árs.

Bæta þarf fjárhag sveitarfélaganna.
    Þó að því sé fagnað að gerð sé tillaga um 400 millj. kr. framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að koma til móts við sveitarfélög í sérstökum fjárhagsvanda, t.d. vegna fækkunar íbúa og erfiðra ytri aðstæðna, þá er ljóst að leysa þarf vanda sveitarfélaganna til framtíðar. Þessi fjárhæð er reyndar alltof lág til að mæta brýnasta vanda þeirra. Samband sveitarfélaga hefur sagt að 700 millj. kr. til 1 milljarður kr. í ár sé þar algjört lágmark. Það verður að fara yfir og laga tekjustofna sveitarfélaganna þannig að þau geti staðið undir lögbundinni þjónustu. Sveitarfélögin eiga ekki að þurfa að vera undir náð og miskunn ríkisvaldsins komin á hverju ári eða nauðbeygð að selja arðbærustu eignir sínar eins og stjórnvöld hafa ráðlagt þeim að gera.

Lokaorð.
    Eins og svo oft áður endurspeglar fjáraukalagafrumvarpið óvönduð vinnubrögð meiri hlutans við fjárlagagerðina fyrir ári. Margar þeirra nauðsynlegu leiðréttinga sem hér eru gerðar voru fyrirsjáanlegar, svo sem þær sem varða framhaldsskólana og héraðsdómstólana.
    Annar minni hluti lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og meiri hlutanum vegna óvandaðrar vinnu við fjárlagagerðina á síðastliðnu ári og rangrar forgangsröðunar. Tekjuöflun ríkissjóðs færist í síauknum mæli í þjónustugjöld og hlutfallslega aukna skattheimtu almenns launafólks og lágtekjufólks. Á sama tíma er skattbyrðinni létt af fjármagnseigendum, fyrirtækjum og hátekjufólki. Vinstri hreyfingin – grænt framboð berst fyrir öðrum áherslum. Hún leggur áherslu á jöfnun lífskjara og velferð allra. Skattkerfinu á að beita til að afla hinu opinbera nægjanlegra tekna til að standa undir samneyslu þjóðfélagsins og öflugu velferðarkerfi. Skattastefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðunum sé dreift með sanngjörnum hætti.

Alþingi, 30. nóv. 2004.



Jón Bjarnason.





Fylgiskjal I.


Steingrímur J. Sigfússon
og Jón Bjarnason:


Sveitarfélögin svelt til hlýðni.
(Morgunblaðið, 29. september 2004.)


    Sveitarfélögin á Íslandi hafa lengi búið við óviðunandi afkomu og fer fjarri að það ástand sé bundið við minnstu sveitarfélögin. Taprekstur og skuldasöfnun er veruleiki sveitarfélaga af öllum stærðum og gerðum. Aukning skulda hefur að undanförnu verið á bilinu 3–5 milljarðar á ári, t.d. tæpir 8 milljarðar samtals sl. tvö ár. Er það nokkuð í takt við aukningu heildarskulda sveitarfélaganna uppá um 35 milljarða samtals sl. 11 ár. Varðandi samanburð milli ára ber þó að hafa í huga að reikningsskilaaðferðum var breytt upp úr 2000.
    Þingmenn vinstri-grænna hafa ítrekað reynt að vekja athygli á þessum vanda og lagt til úrbætur í þeim efnum, því miður með litlum árangri. Gætt hefur ótrúlegs tómlætis um afkomu sveitarfélaganna, ekki síst í ljósi þess að á undanförnum árum hafa veigamiklir velferðarmálaflokkar færst þangað.

Lengt í hengingarólinni.
    Í stað aðgerða hefur gætt tilhneigingar af hálfu ríkisvaldsins til að hvetja menn til að lengja í hengingarólinni með sölu eigna. Enginn vafi er á því að um meðvitaða pólitík er að ræða. Einkavæðingarsinnar líta til þess með velþóknun að sveitarfélögin sjái iðulega engin önnur úrræði en að selja verðmætar félagslegar eignir sem þó eru sveitarfélaginu bráðnauðsynlegar til að veita undirstöðuþjónustu. Þetta lagar bókhaldið tímabundið en verður svo dýrara og þar með staðan verri til lengri tíma litið.
    Við nýjar framkvæmdir eru aðstæður yfirleitt þannig að aðeins er um tvennt að ræða; viðbótarlántöku til að fjármagna fjárfestingarnar eða semja um að þær fari fram í svokallaðri einkaframkvæmd. Þ.e. að einkaaðili byggi, reki og jafnvel eigi um aldur og ævi viðkomandi eign og sveitarfélagið borgi síðan árlega leigu. Yfirgnæfandi líkur eru á því að einkaframkvæmd reynist dýrari leið þegar upp er staðið. Fyrir því er sú einfalda meginástæða að í einkarekstrinum ætla menn sér arð sem þeir taka út árlega. Ekki er þó síður alvarlegt að þessi aðferð bindur sveitarfélagið á klafa langtímasamninga sem hafa að lokum í för með sér aukinn kostnað og geta einnig kostað erfiðleika við að ná fram ýmsum félagslegum og faglegum markmiðum.
    Fyrir nokkru áttu sveitarfélög á Vestfjörðum í miklum erfiðleikum. Þá datt ríkisstjórninni það snjallræði í hug að kaupa af þeim verðmætustu sameiginlegu eign þeirra, Orkubú Vestfjarða, vel rekna og þarfa stofnun sem sá Vestfirðingum fyrir rafmagni á hagstæðu verði. Í batnandi og sterkum fjárhag Orkubúsins gátu verið fólgnir miklir framtíðarmöguleikar fyrir Vestfirðinga. Þeir urðu engu að síður að sjá á eftir þessu gulleggi sínu til að fleyta sér áfram. Svipuðu máli gegnir víðar. Má nú síðast nefna Vestmannaeyinga sem fyrir stuttu seldu veitur sínar og eru nú lagðir af stað í aðra umferð eignasölu, þ.e. sölu fasteigna bæjarins til utanaðkomandi eignarhaldsfélags. Ekki höfum við þá trú að það sé einlægur vilji forsvarsmanna Vestmannaeyjakaupstaðar heldur þvert á móti að neyðin hreki menn út í aðgerðir af þessu tagi. Það er umhugsunarefni að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna skuli taka slíkar aðgerðir góðar og gildar. Er opinberri eftirlitsnefnd stætt á því að leggja slík skammtímasjónarmið til grundvallar starfi sínu? Hvernig réttlætir nefndin það að leggja blessun sína yfir aðgerðir til meintrar lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélaga sem þýða að eftir 15–20 ár, jafnvel fyrr, verður afkoman að öðru óbreyttu enn þá verri en ella?

Pólitíkin undir, yfir og allt um kring.
    Ofan í fyrrgreindar aðstæður er nú farin í gang opinber áætlun um stórfellda sameiningu sveitarfélaganna. Nátengd eru áform um að færa yfir til þeirra enn aukin og mjög útgjaldafrek verkefni, s.s. á sviði heilbrigðismála og umönnunar aldraðra. Minna heyrist af þeim tekjum sem sveitarfélögin eiga að fá til að mæta hinum nýju verkefnum. Minnst hefur þó heyrst af aðgerðum til að lagfæra núverandi stöðu þeirra sem auðvitað er brýnasta verkefnið. Furðu sætir hversu þögulir og þolinmóðir sveitarstjórnarmenn hafa verið við þessar aðstæður.
    Enginn vafi er að óviðunandi afkoma sveitarfélaganna skapar stórfellda hættu hvað snertir framtíðarhorfur samábyrgs velferðarsamfélags á Íslandi. Þá er ljóst að bág afkoma sveitarfélaganna er einn mesti Akkilesarhællinn í byggðalegu tilliti. Félagshyggjufólk og áhugafólk um jafnvægi í byggðaþróun verður að láta þessa hluti til sín taka. Skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar koma svo eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Sé ríkissjóður aflögufær um skatttekjur, sem verulega má efast um, væri þá ekki nær að þær tekjur færðust a.m.k. að verulegu leyti yfir til sveitarfélaganna til að bæta afkomu þeirra? Ætla sveitarstjórnarmenn ekki að minna á tilveru sína í tengslum við þessa skattaumræðu, eða hvað?
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun hafa það eitt af sínum forgangsverkefnum á komandi þingi að knýja fram umræður og vonandi aðgerðir til úrbóta í fjármálum sveitarfélaganna. Við núverandi ástand verður ekki lengur unað.



Fylgiskjal II.


Skuldir fyrirtækja hafa tvöfaldast á tíu árum.
(Morgunblaðið, 27. nóvember 2004.)


Skuldir fyrirtækja hafa tvöfaldast á tíu árum.

    Í skýrslu Hildigunnar Ólafsdóttur og Ragnars Ingimundarsonar, hagfræðinga hjá BSRB, um skuldir þjóðarbúsins, kemur auk annars fram að Ísland er í hópi þeirra ríkja Evrópu sem eiga miklar eignir í lífeyriskerfinu og eru jafnframt með skuldugustu heimilum Evrópu. Dæmi um önnur ríki sem nefnd eru, eru Holland, Bretland og Danmörk. Á það er bent að lífeyrissjóðir landsmanna hafa vaxið gríðarlega á síðustu áratugum sem hafi leitt til þess að eignir sjóðanna fóru yfir 80% af landsframleiðslu árið 2001.
    Stærstan hluta skulda heimilanna má rekja til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði. Á Íslandi nema skuldir heimilanna vegna íbúðakaupa um 60% og í Bandaríkjunum og Bretlandi er hlutfallið enn hærra, í kringum 75%, að því er fram kemur. Bent er á að hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði hér á landi er með því hæsta sem þekkist, um 80% landsmanna búa í eigin húsnæði borið saman við rúmlega 50% í Svíþjóð og innan við 40% í Þýskalandi.
    Í skýrslunni er ungur aldur þjóðarinnar nefndur sem ein meginástæða hárrar skuldastöðu heimilanna. Einstaklingar hafi tilhneigingu til að jafna skuldastöðu sína yfir æviskeiðið og ungt fólk sem nýlega er komið út á vinnumarkaðinn eða er í námi, skuldi að jafnaði meira en þeir sem eldri eru. Ástæðan er einkum talin vera væntingar fólks um auknar tekjur í framtíðinni. Þegar þeir hinir sömu hafi öðlast meiri reynslu og lokið námi, greiði þeir fyrir neyslu sína frá fyrri tímum og leggi jafnframt í sjóði til efri áranna þegar gera má ráð fyrir neikvæðum sparnaði.
    „Það er því ekki óðeðlilegt að þjóðir sem búa við lágan meðalaldur íbúa líkt og Íslendingar, skuldi hlutfallslega meira en þær þjóðir sem hafa jafna aldursskiptingu eða hátt hlutfall fólks á miðjum aldri,“ segir þar.

Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja aukist um 30% frá 1997.
    Vikið er að skuldaaukningu íslenskra fyrirtækja og kemur fram að skuldirnar hafa aukist einna mest frá árinu 1997 og hafi tvöfaldast frá árinu 1995. Drifkraftur mikillar skuldaaukningar sé fyrst og fremst mikill hagvöxtur og aukin bjartsýni sem ríkt hafi í íslensku efnahagslífi. Vísað er í tölur Hagstofunnar frá árinu 2002 þar sem fram kemur að skuldir sjávarútvegsfyrirtækja, þ.e. í veiðum og vinnslu, hafa hækkað um rúmlega 30% frá 1997 og námu skuldir þeirra um 161 milljarði í árslok 2002, sem er um 18% af heildarskuldum íslenskra fyrirtækja ef frá eru talin fjármála-, trygginga-, og orkufyrirtæki.
    „Með upptöku kvótakerfisins á síðari hluta níunda áratugarins jukust skuldir atvinnugreinarinnar til muna. Má þar nefna að veiðiheimildir hafa að stórum hluta verið fjármagnaðar með lánsfjármagni auk þess sem bókhaldslegt verðmæti er oft á tíðum mun lægra en raunverulegt markaðsvirði vegna dulinna eigna, til að mynda í veiðiheimildum. Þá hafa höft í sjávarútveginum ýtt enn frekar undir auknar skuldir,“ segir þar.
    Í skýrslunni er bent á að sjávarútvegur sé fjármagnsfrek iðngrein og hugsanlega fjármagnsfrekari en stærstu iðngreinar annarra ríkja. Það leiði til þess að íslensk fyrirtæki séu hlutfallslega skuldugri en gerist annars staðar. Þrátt fyrir að skuldir íslenskra fyrirtækja hafi aukist mikið á síðustu áratugum kemur fram að dregið hafi úr skuldaaukningunni á síðustu þremur til fjórum árum, þó svo að skuldir íslenskra fyrirtækja séu með því mesta sem um getur meðal iðnþróaðra ríkja. Meðal annars hafi sjávarútvegsfyrirtæki sameinast sem hafi leitt til aukinnar stærðarhagkvæmni og stöðugri fjármunamyndunar.

Skuldir ekki endilega veikleikamerki.
    Skuldir orkugeirans hafa einnig farið ört vaxandi, að því að bent er á. Vatnsaflsvirkjanir hafi enda mjög háan stofnkostnað sem er fjármagnaður með erlendum lánum. Segir í skýrslunni að skuldir orkufyrirtækja nemi 92 milljörðum, nær eingöngu í erlendri mynt, sem er um 9,1% af vegnum erlendum skuldum þjóðarinnar. Orkugeirinn hafi stækkað verulega samhliða mikilli aukningu í orkufrekum iðnaði og er svo komið að Íslendingar framleiða mest af orku á íbúa á Norðurlöndunum. Á það beri hins vegar að líta að í ljósi þess hve fjármagnsfrekur orkugeirinn sé sé eðlilegt að lánsfjáröflun hans sé mikil til lengri tíma.
    Í lokakafla skýrslunnar segir að skuldsetning þjóðarbúsins þurfi ekki endilega að bera vott um veikleika í efnahagslífinu, þ.e. ef hún leiði til framleiðniaukningar. Heildarskuldir innlánsstofnana hafi hins vegar aukist gríðarlega og skammtímaskuldir séu verulegar sem geti verið áhættusamt fyrir hagkerfið og haft í för með sér fjármálakreppu ef ytri áföll herja á.
    Þá sé stærsti hluti erlendra lána með breytilegum vöxtum og erlendar vaxtabreytingar hafi því gríðarleg áhrif á íslenskt hagkerfi en yfir 50% af erlendum skuldum eru í evrum. „Ef litið er til þess hve næmt íslenskt efnahagslíf er fyrir erlendum vaxtabreytingum er ljóst að Seðlabanki Evrópu getur haft mikil áhrif á skuldir þjóðarinnar,“ segir í lokakafla skýrslunnar.

Við það „að slá heimsmet“.
    Skuldir Íslendinga hafa vaxið gríðarlega á undanförnum árum samhliða auknum hagvexti og Íslendingar eru við það „að slá heimsmet“ á þessu sviði, að því er fram kom í máli Ögmundar Jónassonar, formanns BSRB, í tilefni af nýrri skýrslu um skuldir íslenska þjóðarbúsins, sem kynnt var í gær. Aðeins Finnar og Nýsjálendingar skulduðu meira. Erlendar skuldir þjóðarbúsins námu rúmlega 1.100 milljörðum í fyrra, þar af er langstærstur hluti þeirra með breytilegum vöxtum.
    Að sögn Ögmundar er skýrslan varnaðarorð gagnvart íslensku fjármálalífi. Íslenskir bankar tækju lán erlendis í stórum stíl á breytilegum vöxtum sem lánuð væru innanlands á lágum föstum vöxtum. „Þeir hvetja til gegndarlausrar neyslu, ekki aðeins eru þeir farnir að veita 100% íbúaðlán heldur dynja á okkur auglýsingar, ekki aðeins frá bönkunum heldur söluaðilum hvers kyns, sem hvetja til aukinnar einkaneyslu. Það er ástæða til þess að bankarnir hugsi sinn gang, þeir bera mikla ábyrgð í okkar efnahags- og fjármálalífi.“
    Í nýrri skýrslu hagfræðinga BSRB kemur fram að Seðlabanki Evrópu hefur sterka stöðu gagnvart íslensku efnahagslífi, en um 50% af erlendum skuldum landsmanna eru í evrum. Það jafngildi því að ef 1% hækkun verði á evrópskum millibankavöxtum leiði það til 5 milljarða króna aukningar á vaxtagreiðslum Íslendinga til útlanda.

Ekki verið að mæla á móti lánum til íbúðarkaupa.
    Fram kom í máli Ögmundar í gær að með skýrslunni sé ekki verið að mæla á móti lánum bankanna til íbúðakaupa, út af fyrir sig.
    „Ef það hins vegar gerist að heimilin fara að skuldsetja sig í mjög miklum mæli til að fjármagna einkaneyslu þurfa menn að staldra við. Það er að segja þeir sem bera ábyrgð á að örva til slíkrar neyslu,“ sagði Ögmundur og vísaði þar til fjármálastofnana.


Fylgiskjal III.

Úr skýrslu BSRB um skuldir íslenska þjóðarbúsins.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.