Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 409. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 520  —  409. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (vararefsing fésektar).

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    4. mgr. 54. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 57/1997 og 10. gr. laga nr. 82/1998, orðast svo:
    Sekt allt að 300.000 krónum, sem ekki er ákveðin af dómstólum og sakborningur hefur skriflega gengist undir hjá lögreglustjóra, afplánast með fangelsi samkvæmt eftirfarandi töflu:
Sekt Vararefsing
0–29.999 kr. 2 dagar
30.000–59.999 kr. 4 dagar
60.000–89.999 kr. 6 dagar
90.000–119.999 kr. 8 dagar
120.000–149.999 kr. 10 dagar
150.000–179.999 kr. 12 dagar
180.000–209.999 kr. 14 dagar
210.000–239.999 kr. 16 dagar
240.000–269.999 kr. 18 dagar
270.000–300.000 kr. 20 dagar

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum refsiréttarnefndar að tilhlutan dómsmálaráðherra.
    Í 4. mgr. 54. gr. almennra hegningarlaga er ákvæði um að vararefsing vegna sektarrefsinga allt að 100.000 kr. sé lögbundin. Með frumvarpinu er lagt til að hámark sektar verði hækkað í 300.000 kr. og að hærri fjárhæð standi að baki hverjum degi vararefsingar.
    Með 2. gr. laga nr. 57/1997 voru vararefsingar vegna sekta að fjárhæð allt að 100.000 kr. lögbundnar þannig að þegar sakborningur fellst á boð lögreglustjóra um að ljúka máli með því að gangast skriflega undir greiðslu sektar með formlegri lögreglustjórasátt gangist hann jafnframt undir þá vararefsingu sem fylgir sektinni samkvæmt ákvæðinu. Þegar framangreind lög voru sett var lögreglustjórum heimilt að ljúka máli á hendur sakborningi ef refsing fór ekki fram úr 100.000 kr. sekt, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og þágildandi 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 250/1992, um lögreglustjórasáttir, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 402/1997. Með reglugerð nr. 980/2000 var framangreind fjárhæð hækkuð í 300.000 kr. Skv. 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, skulu sektir allt að 300.000 kr. fyrir brot á þeim lögum og reglum settum samkvæmt þeim ákveðnar í reglugerð. Með 7. gr. laga nr. 84/2004 var 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga breytt á þann veg að fjárhæð sekta var hækkuð úr 100.000 kr. í 300.000 kr.
    Mikilvægt er að framangreindar sektarfjárhæðir og lögbundnar vararefsingar haldist í hendur. Í frumvarpinu er áfram við það miðað að hámarkslengd vararefsingar verði 20 dagar svo sem ákveðið var með lögum nr. 57/1997. Óvarlegt þykir að sakborningar verði látnir gangast undir lengri vararefsingu við afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum og án atbeina dómstóla. Þetta þýðir að miðað er við að 15.000 kr. standi að baki hverjum degi í vararefsingu en telja verður að sú fjárhæð sé þó ekki svo há að sakborningar sjái sér hag í því að afplána vararefsingu sektarinnar í stað þess að greiða hana.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting
á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.

    Samkvæmt almennum hegningarlögum skal ákvarða vararefsingar með afplánun í fangelsi vegna sektarrefsinga allt að 100.000 kr. Með frumvarpi þessu er lagt til að lögboðin vararefsing nái til sekta allt að 300.000 kr. og að hærri fjárhæð standi að baki hverjum afplánunardegi vararefsingar. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.