Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 531  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 kemur nú til lokaafgreiðslu. Í frumvarpinu með þeim breytingum sem gerðar voru við 2. umræðu er gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði um 296,3 milljarðar kr. Engar breytingartillögur liggja fyrir frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar nú þrátt fyrir að ljóst sé að útgjöld ríkissjóðs séu vanmetin á mörgum sviðum í frumvarpinu. Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjármálaráðuneytsins er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verði um 306,4 milljarðar kr. Tekjuafgangur ríkissjóðs er því áætlaður um 10,1 milljarðar kr. Því miður hefur reynsla undanfarinna ára kennt okkur að þegar árið verður loks gert upp verður reyndin önnur.

Efnahagsmál.
    Í Peningamálum, ársfjórðungsriti Seðlabankans, spáir bankinn að verðbólga verði 3,4% á næsta ári. Þetta er meiri verðbólga en bankinn hefur áður spáð. Í Peningamálum kemur m.a. fram: „Frá því í september hafa töluverðar breytingar orðið á verðbólguhorfum. Flest bendir til þess að innlend eftirspurn muni vaxa enn hraðar en þá var talið líklegt. Umfang stóriðjuáformanna hefur vaxið, einkum á næsta ári, bæði vegna áforma Norðuráls og breytinga á tímasetningum framkvæmda Fjarðaráls. Þá hefur samkeppni á milli lánastofnana á sviði fasteignaveðlána magnast eftir að bankarnir brugðust við auknum umsvifum Íbúðalánasjóðs með því að bjóða einstaklingum fasteignaveðlán og endurfjármögnun eldri lána á lægri vöxtum en áður. Aðgangur almennings að lánsfé er eftir þessar breytingar orðinn mun greiðari en áður og vextir verðtryggðra fasteignaveðlána lægri en um langt skeið. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Útlán til einstaklinga hafa aukist hröðum skrefum og verð stórra fasteigna hefur hækkað skarpt. Loks hafa áform um lækkun skatta á næstu árum verið staðfest, án þess að nákvæmlega hafi verið skilgreint hvar skuli skera niður útgjöld á móti. Því verður að telja verulegar líkur á að aðhald í opinberum fjármálum verði ófullnægjandi. Allt leggst þetta á eitt um að ýta undir meiri þenslu og þar með meiri verðbólguþrýsting …“
    Greiningardeild KB-banka segir svo 2. des.: „Seðlabankinn hækkaði vexti um 1% samhliða því að tilkynna um að gjaldeyriskaupum verði hætt í árslok. Ljóst er að þessi ákvörðun mun þrýsta gengi krónunnar upp í nýjar hæðir og hún sýnir að bankinn hyggst beita genginu með ákveðnum hætti í miðlunarferli peningamálastefnunnar til þess að reyna að slá á þenslu og draga úr verðbólguvæntingum. Eins og nú er málum komið er aðeins um 20–30% af skuldum heimila og fyrirtækja í íslenskum breytilegum vöxtum. Meiri vaxtamunur mun gefa enn frekari hvata til erlendrar lántöku, en þó skyldi það tekið með í reikninginn að eftir því sem gengið rís hærra vakna einnig væntingar um gengislækkun sem vegur á móti. Enn fremur bendir hin skarpa hækkun til þess að Seðlabankinn hyggist reyna að þrengja að lausafjárstöðu bankakerfisins og þannig hægja á lánsfjárframboði. Hættan við þessa leið sem nú hefur verið valin er þríþætt. Í fyrsta lagi má nefna að sú gengishækkun sem hækkun stýrivaxta kallar fram er í rauninni frestun á verðbólgu sem mun koma fram þegar gengið leiðréttist. Í öðru lagi skapa frekari erlendar lántökur hættu á fjármálaóstöðugleika þegar fleiri aðilar hérlendis taka gengisáhættu. Í þriðja lagi er þrengt verulega að útflutningsatvinnuvegunum sem gæti tafið vöxt útflutnings þegar til framtíðar er litið.“
    Ljóst er því að ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmdanna eru gífurleg og fórnarkostnaður mikill fyrir allt annað atvinnulíf í landinu. Fyrir nokkrum missirum var gengi bandaríkjadals 110 kr. en það er nú 65 kr. Gengisvísitalan var liðlega 130 og talið að vísitala upp á 125–130 væri eðlileg miðað við að halda jöfnuði í inn- og útflutningi og eðlilegri samkeppnisstöðu útflutningsgreinanna. Gengisvísitalan er nú 118 eða þar um bil.
    Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar eru fáránlegar við þessar aðstæður. Þær auka á þenslu og óstöðugleika í efnahagskerfinu. Þær krefjast þess að ríkisútgjöld verði skorin niður á móti og það er gert.
    Megininntak efnahagsaðgerða ríkisins á næsta ári felast í um 2 milljarða kr. niðurskurði á samgönguáætlun, skertum fjárveitingum til heilbrigðismála, til ríkisháskólanna og framhaldsskólanna. Innritunargjöld í háskóla eru aukin, svo og komugjöld á heilbrigðisstofnanir. Þá eru skornar niður fjárveitingar til markaðsstarfs ferðamála. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er andvíg þessum áherslum ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum og telur þann mikla fórnarkostnað sem stóriðjustefna hennar krefst ógna varanlega hinu almenna atvinnulífi og velferðarkerfi þjóðarinnar.

Skattamál.
    Mikil munur er á skattastefnu ríkisstjórnarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Skattastefna ríkisstjórnarinnar gengur út á að þeir fái mest sem hafa mest og þeir fái minnst sem hafa minnst. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir slíkum áherslum. Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gengur út á meiri jöfnun og sanngjarnari skattlagningu og flokkurinn hefur í því sambandi lagt fram tvö frumvörp:
    Í fyrsta lagi hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Frumvarpið felur í sér þá einföldu breytingu á lögunum að rýmka heimildir þeirra til álagningar útsvars um eitt prósentustig, þ.e. úr 13,03% í 14,03% af tekjuskattsstofni eins og hann er skilgreindur í viðeigandi ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003. Þetta frumvarp er flutt í beinum tengslum við boðuð áform ríkisstjórnarinnar um að lækka álagningu tekjuskatts um sama hundraðshluta. Ástæða þessa frumvarps er sú einfalda staðreynd að ekki verður lengur vikist undan því að grípa til ráðstafana til að bæta stöðu sveitarfélaganna. Teljist ríkissjóður aflögufær um skatttekjur, sem vissulega má deila um, hlýtur því að vera nærtækast að færa þær tekjur a.m.k. að einhverjum hluta til sveitarfélaganna.
    Í öðru lagi hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003. Þar er lagt til að hlutfall fjármagnstekjuskatts hækki úr 10% í 18% en jafnframt verði sett skattleysismörk við 120 þús. kr. tekjur einstaklinga á ári. Samkvæmt þessu frumvarpi mundu tekjur af fjármagnstekjuskatti aukast talsvert og má ætla að þær yrðu rúmir 10 milljarðar kr. eða sem svarar aukningu upp á rúmlega 3 milljarða kr. Þessar tillögur miða að því að dreifa skattbyrðum með sanngjarnari hætti en nú er gert. Þannig mundu þeir sem eru með smásparnað ekki greiða neinn fjármagnstekjuskatt. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill jafnframt með þessu frumvarpi bregðast við breyttu tekjumynstri í þjóðfélaginu og því óréttlæti sem stafar af misræmi í skattlagningu fjármagnstekna og launa.
    Þingmenn vinstri-grænna lofuðu því fyrir kosningar að efla og styrkja velferðarkerfið og hlífa lægstu tekjum við skattheimtu. Stórfelldar almennar skattalækkanir á efnameira fólki og fyrirtækjum, sem aðrir flokkar lofuðu og börðust fyrir, voru ekki á loforðalista vinstri- grænna.

Efnahagsskrifstofa.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð bendir á nauðsyn þess að Alþingi hafi sjálfstæða ráðgjafa í efnahagsmálum. Núna verður það að reiða sig á útskýringar sérfræðinga framkvæmdarvaldsins en það er fjármálaráðuneytið sem gefur út endurskoðaða þjóðhagsspá sem fjárlagafrumvarpið byggist á. Nauðsynlegt er að Alþingi hafi eigin stofnun sem starfar með því í efnahagsmálum og við fjármálastjórn ríkisins. Sem dæmi um stöðu þingsins má nefna að efnahags- og viðskiptanefnd skilaði gagnslausu nefndaráliti um tekjuhlið frumvarpsins og efnahagsforsendurnar. Enda hafði hún ekki leitað annað en í fjárlagafrumvarp ráðuneytisins. Síðdegis í gær gaf Seðlabankinn út umsögn sína um horfur í efnahags- og peningamálum. Spá bankans um ýmsar grunnforsendur efnahagsþróunarinnar á næsta ári er frábrugðin því sem fjárlagfrumvarpið byggist á.

Skuldastaða heimilanna.
    Fram kemur í nýútkominni skýrslu BSRB, „Skuldir íslenska þjóðarbúsins“, að á síðustu tveimur áratugum hafi skuldir íslenskra heimila vaxið gríðarlega. Þar segir m.a.: „Ef litið er yfir þróunina frá árinu 1980 má sjá að í upphafi tímabilsins voru skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum um 20% en voru rúmum tveimur áratugum síðar komnar í um 180% og hefur hlutfallið því nífaldast yfir tímabilið. Þrátt fyrir að á síðustu áratugum hafi skuldir heimila aukist í nær öllum Evrópulöndum, hefur aukningin óvíða verið eins mikil og hjá íslenskum heimilum.“
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill þó í þessu sambandi vekja athygli á hratt vaxandi gengisbundnum lánum heimilanna. Bankarnir keppast nú við að ná til sín viðskiptavinum, veðum þeirra og íbúðum og knýta þá fasta í framtíðarviðskiptum. Innlend lán á bundnum vöxtum fela í sér verulega áhættu fyrir bankana. Þess vegna virðast þeir ýta einstaklingum út í að taka gengistryggð lán á erlendum vöxtum. Með lánveitingu af því tagi fær bankinn sitt en áhætta hans verður í lágmarki. Samkvæmt Seðlabankanum voru gengistryggðar skuldir heimilanna í júní sl. 10,6 milljarðar kr., í september 16,1 milljarður kr. og í októberlok 23,5 milljarðar. Vaxtabreyting erlendis úr 2–4% og gengislækkun um 10% munu þýða rúmlega 50% aukningu á mánaðarlegri greiðslubyrði. Með húseign sína veðsetta upp í topp eiga heimilin litla möguleika á að standa af sér snöggar breytingar á gengi eða vöxtum erlendis. Annar minni hluti veltir fyrir sér siðferðisreglum bankanna og ábyrgð þeirra á ráðgjöfinni sem þeir veita viðskiptavinum sínum. Getur þessi ráðgjöf bankanna verið hlutlaus? Hver ver hagsmuni neytandans í þessum viðskiptum?

Svikið loforð.
    Ljóst er nú að ríkisstjórnin ætlar ekki að uppfylla samkomulagið við Öryrkjabandalagið frá því í mars 2003 um aldurstengdar örorkubætur. Orð heilbrigðisráðherra í fjölmiðlum haustið 2003, þar sem hann staðfesti að loforðið við öryrkja hefði ekki verið efnt að fullu, að það þyrfti að áfangaskipta samkomulaginu og afgangurinn kæmi til greiðslu ári síðar, hafa reynst orðin tóm. Ríkisstjórnin öll og ekki þó síst Framsóknarflokkurinn, sem sló sér upp á loforðum til öryrkja fyrir síðustu alþingiskosningar, ber mesta ábyrgð á því að ekki skuli vera staðið við samkomulagið.

Heilbrigðismál.
    Mikill fjárskortur er á mörgum sjúkrastofnunum í landinu. Þannig má sjá af minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu um stöðu stofnana í A-hluta í lok september sl. að neikvæð staða 20 heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana var samtals tæpar 994 millj. kr. Þá er fjárhagsvandi Landspítala – háskólasjúkrahúss mikill og handahófskenndur niðurskurður hefur gengið mjög nærri starfsemi hans á árinu. Ljóst er að ef þessar sjúkrastofnanir eiga að vinna á fjárhagsvanda sínum þýðir það einungis meiri niðurskurð sem svo aftur kemur niður á þjónustu þeirra. Tillögur þingmanna vinstri-grænna um framlög til að mæta brýnni þörf heilbrigðisstofnananna voru felldar af meiri hlutanum. Ljóst er því að margar heilbrigðisstofnanir standa frammi fyrir miklum fjárhagsvanda og skerðingu á þjónustu.

Menntamál.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir hækkun skráningargjalda í opinberum háskólum. Áfram skal tryggja jafnrétti til náms. Ekki má heldur þrengja svo að opinberum háskólum að þeir þurfi í meira mæli en nú að taka upp aðgangstakmarkanir.
    Fjárhagsstaða margra framhaldsskóla er slæm. Nauðsynlegt er að ljúka endurskoðun á reiknilíkani sem greitt er eftir. Þá er ótækt að láta framhaldsskólana bera stöðugt uppsafnaðan halla milli ára. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á að slíkt sé ekki heimilt samkvæmt fjárreiðulögum. Það gengur ekki lengur að láta skólana bera gamlan fjárhagsvanda sem til er kominn m.a. vegna gallaðs reiknilíkans og skorts stjórnvalda á að viðurkenna fjölda nemenda. Minni hluti fjárlaganefndar flytur breytingartillögur sem miða að því að bæta nokkuð úr brýnni fjárþörf ríkisháskólanna og framhaldsskólanna.

Umhverfismál.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill efla stofnanir sem starfa á sviði náttúruverndar og nýtingar náttúruauðlinda og gera þeim kleift að sinna þýðingarmiklu hlutverki sínu. Ljóst er að margar stofnanir sem undir umhverfisráðuneytið heyra eiga við rekstrarvanda að etja eins og nýútkomin skýrsla Ríkisendurskoðunar um Náttúrufræðistofnun Íslands sýnir en þar segir m.a.: „Stjórnvöld eiga tveggja kosta völ til að leysa alvarlegan rekstrar- og fjárhagsvanda Náttúrufræðistofnunar Íslands. Að laga starfsemi hennar að núverandi fjárhagsramma með verulegum niðurskurði í rekstri eða að auka fjárveitingar til hennar svo að hún geti sinnt þeim verkefnum sem henni eru falin í lögum með svipuðum hætti og undanfarin ár.“ Vísað er til fyrri hluta nefndarálits 2. minni hluta um fjárlagafrumvarpið. Þar er rakið hvernig umhverfismálin og náttúruvernd eru stöðugt hornrekur í áherslum þessarar ríkisstjórnar.

Sveitarfélög.
    Fjárhagur margra sveitarfélaga hefur verið erfiður undanfarin ár. Stöðugt fleiri verkefni hafa verið færð til sveitarfélaganna án þess að þeim hafi fylgt nægir tekjustofnar. Þennan vanda verður að leysa til framtíðar en ekki með árlegum björgunaraðgerðum. Í þessu sambandi hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, eins og áður hefur verið gerð grein fyrir. Flutt er hér tillaga um 700 millj. kr. aukið framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að bæta í nokkru úr brýnum fjárhagsvanda þeirra verst settu. En brýnt er að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga áður en rætt er um frekari verkefnaflutning þeirra.

Mannréttindastofnun Íslands.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir framlagi til mannréttindamála almennt en framlagið er ekki eyrnamerkt Mannréttindaskrifstofu Íslands eins og áður. Samkvæmt þessari breytingu munu stjórnvöld sjálf ráða hvaða verkefni á þessu sviði verða styrkt. Það er ekki ásættanlegt að vegið sé að sjálfstæði stofnunarinnar þar sem ákvörðun um framlag til hennar hefur verið fært frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins. Nauðsynlegt er að hér á landi starfi óháð og sjálfstæð stofnun sem sinni mannréttindamálum eins og segir m.a. í áskorun frá stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands. Í áskoruninni segir enn fremur: „Að mati stjórnarinnar væri það mikill álitshnekkir fyrir Ísland ef sú yrði raunin að skrifstofunni væri ekki lengur tryggt fast framlag á fjárlögum og yrði að draga sig út úr þeim samstarfsverkefnum sem hún á aðild að á alþjóðavettvangi.“ Vinstri hreyfingin – grænt framboð tekur undir með stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands og öðrum sem hafa gagnrýnt þessa breytingu svo sem hinni virtu Wallenberg-stofnun. Nauðsynlegt er að breyta þessu og færa aftur í fyrra horf þannig að sjálfstæði skrifstofunnar sé tryggt og hún geti starfað án þess að fjárframlögum fylgi skuldbindingar eða stýring.

Lokaorð.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð getur ekki samþykkt þær áherslur sem fram koma í þessu fjárlagafrumvarpi. Frumvarpið er í samræmi við fyrri frumvörp þessarar ríkisstjórnar, þó þannig að nú er enn meiri áhersla lögð á að færa þeim einstaklingum mest sem hafa mest fyrir. Boðaðar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar munu koma þeim best sem hafa mest. Til að auka tekjur ríkissjóðs eru síðan komugjöld á sjúkrastofnanir og skráningargjöld í opinbera háskóla hækkuð. Þá mótmælir Vinstri hreyfingin – grænt framboð þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hervæða íslenska ríkisborgara og stilla þeim upp við hlið hersveita NATO og Bandaríkjanna. Þá er mótmælt veru Íslands á lista um stuðning hinna vígfúsu ríkja við innrásina í Írak, enda hefur íslenska þjóðin eða Alþingi ekki verið haft með í þeirri ákvarðanatöku, og að íslenska ríkið leggi fram fé til hergagnaflutninga.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þessum áherslum og vill að ríkisfjármálum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Mikilvægt er að létta af þeirri spennu sem hefur magnast á síðustu árum vegna aukins tekjumunar í þjóðfélaginu og kerfisbundins mismunar á lífskjörum fólks. Það að öllum þegnum þjóðfélagsins séu tryggð mannsæmandi lífskjör á að vera aðalsmerki hins samábyrga velferðarsamfélags. Leggja á meiri áherslu á að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna, að framlög til umhverfismála verði aukin og tekið verði upp „grænt bókhald“ þegar meta skal arðsemi í rekstri og framkvæmdum. Stjórnvöld þurfa að stuðla að fjölbreyttari atvinnustefnu en nú er. Stefna þeirra snýst nú alfarið um að byggja hér upp erlenda stóriðju sem ryður burt minni fyrirtækjum og öðrum útflutningsgreinum.

Alþingi, 3. des. 2004.



Jón Bjarnason.






Fylgiskjal I.


Áskorun stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands.


    Stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands skorar á Alþingi að fella ekki niður framlag til skrifstofunnar sem hefur verið á fjárlögum síðustu árin. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum á þinginu er gert ráð fyrir framlögum til mannréttindamála almennt, fjórum milljónum af lið dómsmálaráðuneytis og fjórum milljónum af lið utanríkisráðuneytis. Til þess að njóta góðs af þeim þyrfti skrifstofan að sækja sérstaklega um til dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Þetta fyrirkomulag veikir fjárhagslegan grundvöll skrifstofunnar þar sem ekki er hægt að sjá fyrir hver fjárframlög verða. Ennfremur er alvarlega vegið að sjálfstæði skrifstofunnar þegar ákvörðun um framlag til hennar hefur verið færð frá löggjafarvaldinu til framkvæmdavaldsins. Hér getur skapast sú undarlega staða að að skrifstofan sæki um beinan styrk til þess yfirvalds sem lagt hefur fram frumvarp það eða skýrslu sem skrifstofan þarfnast fjármagns til að fjalla um. Stjórn Mannréttindaskrifstofunnar telur nauðsynlegt að framlag til hennar komi frá hæstvirtu Alþingi til að sjálfstæði hennar sé yfir allan vafa hafið.
    Stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands vill ítreka mikilvægi þess að hér á landi starfi óháð og sjálfstæð stofnun sem sinni mannréttindamálum. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gegnt þessu hlutverki undanfarin tíu ár. Ennfremur er skrifstofan fulltrúi Íslands í norrænu og alþjóðlegu mannréttindstarfi. Að mati stjórnarinnar væri það mikill álitshnekkir fyrir Ísland ef sú yrði raunin að skrifstofunni væri ekki lengur tryggt fast framlag á fjárlögum og yrði að draga sig út úr þeim samstarfsverkefnum sem hún á aðild að á alþjóðavettvangi.
    Stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands skorar því á hæstvirta þingmenn að beita sér fyrir því að framlag til Mannréttindaskrifstofunnar verði ekki skert frá fyrra ári.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands,
Guðrún D. Guðmundsdóttir,
framkvæmdastjóri.


Fylgiskjal II.


Áskorun stjórnar Íslandsdeildar Amnesty International.
(26. nóvember 2004.)


    Stjórn Íslandsdeildar Amnesty International skorar á Alþingi að tryggja áfram rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands. Mannréttindaskrifstofan var stofnuð 17. júní 1994. Íslandsdeild Amnesty International er eitt þeirra félaga sem stóð að stofnun skrifstofunnar, ásamt Barnaheillum, Rauða kross Íslands, Unifem á Íslandi, Biskupsstofu, Jafnréttisstofu og fleiri félögum og samtökum. Hvert aðildarfélag starfar að afmörkuðu sviði mannréttinda og eða mannúðarmála og með stofnun Mannréttindaskrifstofu Íslands skapaðist vettvangur fyrir aðildarfélögin til að samhæfa mannréttindastörf á Íslandi. Mannréttindaskrifstofan hefur sjálfstæða stjórn sem í sitja fulltrúar félagana. Á tíu ára starfstímabili Mannréttindaskrifstofunnar hefur hún margsannað gildi sitt, staðið hefur verið fyrir fjölmörgum málþingum, yfirgripsmiklar umsagnir um lagafrumvörp hafa verið lagðar fram ásamt viðbótarskýrslum til eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna, komið hefur verið á fót bókasafni með efni um mannréttindi, stuðlað hefur verið að fræðslu á sviði mannréttindamála og ýmsar bækur og rit verið gefin út á vegum Mannréttindaskrifstofunnar.
    Á öllum Norðurlöndum, í flestum Evrópuríkjum og víða annarsstaðar um heiminn starfa mannréttindaskrifstofur sem Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur verið í samvinnu við. Mest samvinna hefur verið við skrifstofurnar á Norðurlöndum og hefur Mannréttindaskrifstofan skipulagt ráðstefnur og fundi hér á landi með fulltrúum ýmissa erlendra mannréttindaskrifstofa. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt aðildarríki til að tryggja að í hverju landi starfi mannréttindaskrifstofur og í skýrslu Íslands til eftirlitsnefndar SÞ um framfylgd samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi var þess sérstaklega getið að yfirvöld hér á landi styddu starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands sem eins framlags ríkisins til eflingar mannréttinda á Íslandi, og var því fagnað af hálfu eftirlitsnefndarinnar.
    Eins og fram hefur komið starfa aðildarfélög Mannréttindaskrifstofunnar að afmörkuðum sviðum mannréttinda og hafa ekki umboð til að fjalla um öll mannréttindi í starfsemi sinni. Mannréttindaskrifstofan hefur umboð til að fjalla um öll mannréttindi og sem slík er hún mjög mikilvæg t.d. við gerð umsagna við lagafrumvörp og veitir hún löggjafanum mikilvægt aðhald sem nauðsynlegt er í hverju lýðræðissamfélagi.
    Tillögur fjárlaganefndar Alþingis eins og þær liggja nú fyrir, þar sem gert er ráð fyrir framlögum til mannréttindamála almennt, fela í sér þá hættu að þeir fjármunir nýtist illa og dreifist á marga aðila og einstaklinga. Eins og fram hefur komið standa flest ef ekki öll þau félög sem starfa á vettvangi mannréttinda á Íslandi að Mannréttindaskrifstofunni og stjórn Íslandsdeildar Amnesty International telur að fjármagni til mannréttindamála sé vel varið með því að tryggja traustan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og tryggja þannig sjálfstæði skrifstofunnar gagnvart framkvæmdavaldinu, þannig að Mannréttindaskrifstofan geti áfram verið sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinnir þessum málaflokki á breiðum grundvelli.
    Í ljósi þessa hvetur stjórn Íslandsdeildar Amnesty International Alþingi til að tryggja fastan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands til frambúðar.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Íslandsdeildar Amnesty International,
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir,
framkvæmdastjóri.




Fylgiskjal III.


Áskorun Rauða kross Íslands.


    Rauði kross Íslands telur mikilvægt að Mannréttindaskrifstofa Íslands fái rekstrarfé af fjárlögum í þeim tilgangi að tryggja að á landinu starfi óháður greiningar- og eftirlitsaðili á sviði mannréttindamála.
    Að Mannréttindaskrifstofu Íslands sem stofnuð var árið 1994 standa Rauði kross Íslands, Íslandsdeild Amnesty International, Barnaheill, Biskupsstofa, Hjálparstarf kirkjunnar, Jafnréttisstofa, Unifem á Íslandi, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Samtökin '78 og Háskólinn á Akureyri,
    Eitt af hlutverkum skrifstofunnar er að fylgjast með og gera skýrslur til alþjóðastofnana um starfsemi stjórnvalda á sviði mannréttinda. Til þess að varðveita trúverðugleika allra aðila er mun heppilegra að Alþingi veiti fé beint til Mannréttindaskrifstofu heldur en að skrifstofan þurfi að sækja um fé til ráðuneyta sem alþjóðleg skýrslugjöf hennar fjallar óhjákvæmilega um.

Bestu kveðjur,
Sigrún Árnadóttir,
framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.




Fylgiskjal IV.


Áskorun Landssamtakanna Þroskahjálpar.
(30. nóvember 2004.)


    Landssamtökin Þroskahjálp skora á Alþingi að tryggja áfram rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands. Með tilkomu Mannréttindaskrifstofu Íslands skapaðist vettvangur fyrir félög og stofnanir sem starfa að mannréttindamálum og réttindabaráttu ýmissa hópa til að samhæfa krafta sína með velferð allra í huga. Flest ef ekki öll þau félög sem starfa á vettvangi mannréttinda á Íslandi standa nú að Mannréttindaskrifstofunni. Á tíu ára starfstímabili Mannréttindaskrifstofunnar hefur hún margsannað gildi sitt. Mannréttindaskrifstofan er mikilvægur umsagnaraðili um lagafrumvörp sem snerta mannréttindi og gegnir lykilhlutverki í samstarfi Íslands við mannréttindanefndir Sameinuðu þjóðanna.
    Mannréttindaskrifstofan hefur sjálfstæða stjórn sem í sitja fulltrúar allra félaga sem að henni standa. Eins og fram hefur komið starfa aðildarfélög Mannréttindaskrifstofunnar að afmörkuðum sviðum mannréttinda. Mannréttindaskrifstofan hefur verið þeim sameiginlegur vettvangur mannréttindaumræðu og þannig styrkt félögin í afmörkuðum baráttumálum sem og í sameiginlegri hagsmunabaráttu.
    Tillögur fjárlaganefndar Alþingis eins og þær liggja nú fyrir, þar sem gert er ráð fyrir framlögum til mannréttindamála almennt, fela í sér þá hættu að skaða þessa samstöðu og leiða til flokkadrátta. Landssamtökin Þroskahjálpar telja að fjármagni til mannréttindamála sé betur varið með því að tryggja traustan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og þar með sjálfstæði hennar, svo Mannréttindaskrifstofan megi áfram vera sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinnir þessum málaflokki á breiðum grundvelli.
    Landssamtökin Þroskahjálp hvetja því alla þingmenn til að kynna sér fjölbreytt starf Mannréttindaskrifstofunnar og aðildarfélaga hennar og tryggja fastan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands til frambúðar.

Virðingarfyllst,
f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,
Halldór Gunnarsson, formaður,
Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri.

Fylgiskjal V.


Áskorun Biskupsstofu Íslands.
(30. nóvember 2004.)


    Biskupsstofa hvetur fjárlaganefnd Alþingis til að veita Mannréttindaskrifstofu Íslands rekstrarfé af fjárlögum. Sjálfstæður rekstur Mannréttindaskrifstofu Íslands tryggir að í landinu starfi óháður greiningar- og eftirlitsaðili á sviði mannréttindamála.
    Biskupsstofa var meðal stofnaðila að Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem stofnuð var árið 1994. Aðrir sem að henni standa eru Íslandsdeild Amnesty International, Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Rauði kross Íslands, Samtökin '78, Unifem á Íslandi, Öryrkjabandalag Íslands og Háskólinn á Akureyri.
    Eitt af hlutverkum skrifstofunnar er að fylgjast með og gera skýrslur til alþjóðastofnana um starfsemi stjórnvalda á sviði mannréttinda. Til þess að varðveita trúverðugleika allra aðila teljum við heppilegra að Alþingi veiti fé beint til Mannréttindaskrifstofu heldur en að skrifstofan þurfi að sækja um fé til ráðuneyta sem alþjóðleg skýrslugjöf hennar fjallar óhjákvæmilega um. Þá er afar mikilvægt að rekstur skrifstofunnar sé tryggður til að starfsemin sé stöðug og skrifstofan fái notið krafta öflugs fagfólks.

Fyrir hönd Biskupsstofu,
Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir.



Fylgiskjal VI.


Áskorun UNIFEM.


    Öflug starfsemi sjálfstæðrar mannréttindaskrifstofu er nauðsynleg hverju lýðræðissamfélagi, ekki síst á umbreytingatímum. Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð fyrir áratug en þá var hún yngsta stofnun sinnar tegundar á Norðurlöndunum en náið samstarf á sviði rannsókna og útgáfu er þeirra á milli. Skrifstofan hefur margsannað gildi sitt en hún gegnir m.a mikilvægu hlutverki sem upplýsinga- og fræðslumiðstöð fyrir almenning og nemendur á framhalds- og háskólastigi. Hún hefur staðið að málþingum, námskeiðum og kennslu um mannréttindi auk þess að sinna eftirlitshlutverki sínu með ítarlegum umsögnum um lagafrumvörp og skýrslugerð um stöðu mannréttindamála hér á landi. Þá er skrifstofan samráðsvettvangur frjálsra félagasamtaka sem er mikilvægur hluti hins borgaralega samfélags.
    Traust mannréttindavitund almennings og stjórnvalda leiðir til réttlátara samfélags og aukinnar virðingar Íslands í alþjóðasamskiptum.
    Stjórn UNIFEM hvetur því stjórnvöld til að treysta starf Mannréttindaskrifstofunnar.

F.h. stjórnar UNIFEM á Íslandi,
Rósa Erlingsdóttir, stjórnarformaður.




Fylgiskjal VII.


Áskorun prests innflytjenda.
(29. nóvember 2004.)


    Sem prestur innflytjenda met ég mikils starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ). Starfsemi hennar varðar oft réttindamál okkar útlendinga eða fólks af erlendum uppruna og við erum þakklát fyrir það góða starf sem MRSÍ hefur unnið til þess að vernda réttindi okkar og bæta.
    Starfsemi MRSÍ nær þó ekki aðeins til almennra mannréttindamála hér innanlands heldur starfar skrifstofan einnig með öðrum mannréttindasamtökum á alþjóðlegum vettvangi.
Starfsemi MRSÍ er ómetanleg og staðfestir í raun virðingu íslensku þjóðarinnar fyrir lýðræði og mannréttindum.
    Ef MRSÍ mun ekki njóta áfram fjárveitinga frá stjórnvöldum eins og undanfarin ár er ljóst að starf skrifstofunnar er ekki tryggt eins og verið hefur. Það harma ég og tel að það sé ekki aðeins MRSÍ sem beri tjón af heldur líka alllir þegnar þjóðarinnar.
Þess vegna óska ég að þið, hæstvirtu þingmenn, beitið ykkur fyrir því að framlag stjórnvalda til MRSÍ verði ekki skert frá fyrra ári.

Virðingarfyllst,
Toshiki Toma, prestur innflytjenda.



Fylgiskjal VIII.


Skuldir fyrirtækja hafa tvöfaldast á tíu árum.
(Morgunblaðið, 27. nóvember 2004.)


Skuldir fyrirtækja hafa tvöfaldast á tíu árum.

    Í skýrslu Hildigunnar Ólafsdóttur og Ragnars Ingimundarsonar, hagfræðinga hjá BSRB, um skuldir þjóðarbúsins, kemur auk annars fram að Ísland er í hópi þeirra ríkja Evrópu sem eiga miklar eignir í lífeyriskerfinu og eru jafnframt með skuldugustu heimilum Evrópu. Dæmi um önnur ríki sem nefnd eru, eru Holland, Bretland og Danmörk. Á það er bent að lífeyrissjóðir landsmanna hafa vaxið gríðarlega á síðustu áratugum sem hafi leitt til þess að eignir sjóðanna fóru yfir 80% af landsframleiðslu árið 2001.
    Stærstan hluta skulda heimilanna má rekja til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði. Á Íslandi nema skuldir heimilanna vegna íbúðakaupa um 60% og í Bandaríkjunum og Bretlandi er hlutfallið enn hærra, í kringum 75%, að því er fram kemur. Bent er á að hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði hér á landi er með því hæsta sem þekkist, um 80% landsmanna búa í eigin húsnæði borið saman við rúmlega 50% í Svíþjóð og innan við 40% í Þýskalandi.
    Í skýrslunni er ungur aldur þjóðarinnar nefndur sem ein meginástæða hárrar skuldastöðu heimilanna. Einstaklingar hafi tilhneigingu til að jafna skuldastöðu sína yfir æviskeiðið og ungt fólk sem nýlega er komið út á vinnumarkaðinn eða er í námi, skuldi að jafnaði meira en þeir sem eldri eru. Ástæðan er einkum talin vera væntingar fólks um auknar tekjur í framtíðinni. Þegar þeir hinir sömu hafi öðlast meiri reynslu og lokið námi, greiði þeir fyrir neyslu sína frá fyrri tímum og leggi jafnframt í sjóði til efri áranna þegar gera má ráð fyrir neikvæðum sparnaði.
    „Það er því ekki óðeðlilegt að þjóðir sem búa við lágan meðalaldur íbúa líkt og Íslendingar, skuldi hlutfallslega meira en þær þjóðir sem hafa jafna aldursskiptingu eða hátt hlutfall fólks á miðjum aldri,“ segir þar.

Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja aukist um 30% frá 1997.
    Vikið er að skuldaaukningu íslenskra fyrirtækja og kemur fram að skuldirnar hafa aukist einna mest frá árinu 1997 og hafi tvöfaldast frá árinu 1995. Drifkraftur mikillar skuldaaukningar sé fyrst og fremst mikill hagvöxtur og aukin bjartsýni sem ríkt hafi í íslensku efnahagslífi. Vísað er í tölur Hagstofunnar frá árinu 2002 þar sem fram kemur að skuldir sjávarútvegsfyrirtækja, þ.e. í veiðum og vinnslu, hafa hækkað um rúmlega 30% frá 1997 og námu skuldir þeirra um 161 milljarði í árslok 2002, sem er um 18% af heildarskuldum íslenskra fyrirtækja ef frá eru talin fjármála-, trygginga-, og orkufyrirtæki.
    „Með upptöku kvótakerfisins á síðari hluta níunda áratugarins jukust skuldir atvinnugreinarinnar til muna. Má þar nefna að veiðiheimildir hafa að stórum hluta verið fjármagnaðar með lánsfjármagni auk þess sem bókhaldslegt verðmæti er oft á tíðum mun lægra en raunverulegt markaðsvirði vegna dulinna eigna, til að mynda í veiðiheimildum. Þá hafa höft í sjávarútveginum ýtt enn frekar undir auknar skuldir,“ segir þar.
    Í skýrslunni er bent á að sjávarútvegur sé fjármagnsfrek iðngrein og hugsanlega fjármagnsfrekari en stærstu iðngreinar annarra ríkja. Það leiði til þess að íslensk fyrirtæki séu hlutfallslega skuldugri en gerist annars staðar. Þrátt fyrir að skuldir íslenskra fyrirtækja hafi aukist mikið á síðustu áratugum kemur fram að dregið hafi úr skuldaaukningunni á síðustu þremur til fjórum árum, þó svo að skuldir íslenskra fyrirtækja séu með því mesta sem um getur meðal iðnþróaðra ríkja. Meðal annars hafi sjávarútvegsfyrirtæki sameinast sem hafi leitt til aukinnar stærðarhagkvæmni og stöðugri fjármunamyndunar.

Skuldir ekki endilega veikleikamerki.
    Skuldir orkugeirans hafa einnig farið ört vaxandi, að því að bent er á. Vatnsaflsvirkjanir hafi enda mjög háan stofnkostnað sem er fjármagnaður með erlendum lánum. Segir í skýrslunni að skuldir orkufyrirtækja nemi 92 milljörðum, nær eingöngu í erlendri mynt, sem er um 9,1% af vegnum erlendum skuldum þjóðarinnar. Orkugeirinn hafi stækkað verulega samhliða mikilli aukningu í orkufrekum iðnaði og er svo komið að Íslendingar framleiða mest af orku á íbúa á Norðurlöndunum. Á það beri hins vegar að líta að í ljósi þess hve fjármagnsfrekur orkugeirinn sé sé eðlilegt að lánsfjáröflun hans sé mikil til lengri tíma.
    Í lokakafla skýrslunnar segir að skuldsetning þjóðarbúsins þurfi ekki endilega að bera vott um veikleika í efnahagslífinu, þ.e. ef hún leiði til framleiðniaukningar. Heildarskuldir innlánsstofnana hafi hins vegar aukist gríðarlega og skammtímaskuldir séu verulegar sem geti verið áhættusamt fyrir hagkerfið og haft í för með sér fjármálakreppu ef ytri áföll herja á.
    Þá sé stærsti hluti erlendra lána með breytilegum vöxtum og erlendar vaxtabreytingar hafi því gríðarleg áhrif á íslenskt hagkerfi en yfir 50% af erlendum skuldum eru í evrum. „Ef litið er til þess hve næmt íslenskt efnahagslíf er fyrir erlendum vaxtabreytingum er ljóst að Seðlabanki Evrópu getur haft mikil áhrif á skuldir þjóðarinnar,“ segir í lokakafla skýrslunnar.

Við það „að slá heimsmet“.
    Skuldir Íslendinga hafa vaxið gríðarlega á undanförnum árum samhliða auknum hagvexti og Íslendingar eru við það „að slá heimsmet“ á þessu sviði, að því er fram kom í máli Ögmundar Jónassonar, formanns BSRB, í tilefni af nýrri skýrslu um skuldir íslenska þjóðarbúsins, sem kynnt var í gær. Aðeins Finnar og Nýsjálendingar skulduðu meira. Erlendar skuldir þjóðarbúsins námu rúmlega 1.100 milljörðum í fyrra, þar af er langstærstur hluti þeirra með breytilegum vöxtum.
    Að sögn Ögmundar er skýrslan varnaðarorð gagnvart íslensku fjármálalífi. Íslenskir bankar tækju lán erlendis í stórum stíl á breytilegum vöxtum sem lánuð væru innanlands á lágum föstum vöxtum. „Þeir hvetja til gegndarlausrar neyslu, ekki aðeins eru þeir farnir að veita 100% íbúaðlán heldur dynja á okkur auglýsingar, ekki aðeins frá bönkunum heldur söluaðilum hvers kyns, sem hvetja til aukinnar einkaneyslu. Það er ástæða til þess að bankarnir hugsi sinn gang, þeir bera mikla ábyrgð í okkar efnahags- og fjármálalífi.“
    Í nýrri skýrslu hagfræðinga BSRB kemur fram að Seðlabanki Evrópu hefur sterka stöðu gagnvart íslensku efnahagslífi, en um 50% af erlendum skuldum landsmanna eru í evrum. Það jafngildi því að ef 1% hækkun verði á evrópskum millibankavöxtum leiði það til 5 milljarða kr. aukningar á vaxtagreiðslum Íslendinga til útlanda.

Ekki verið að mæla á móti lánum til íbúðarkaupa.
    Fram kom í máli Ögmundar í gær að með skýrslunni sé ekki verið að mæla á móti lánum bankanna til íbúðakaupa, út af fyrir sig.
    „Ef það hins vegar gerist að heimilin fara að skuldsetja sig í mjög miklum mæli til að fjármagna einkaneyslu þurfa menn að staldra við. Það er að segja þeir sem bera ábyrgð á að örva til slíkrar neyslu,“ sagði Ögmundur og vísaði þar til fjármálastofnana.
Fylgiskjal IX.


Úr skýrslu BSRB um skuldir íslenska þjóðarbúsins.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Fylgiskjal X.


Greiningardeild KB-banka:

Að taka eða ekki taka …
… erlend húsnæðislán.

(Janúar 2004.)


    Það er á flestra vitorði að vextir á Íslandi eru hærri en þekkist í nágrannalöndunum og íslensk heimili þurfa að bera hærri vaxtakostnað. Það er vitaskuld ástæða fyrir þessum mun. Almennur sparnaður er fremur lítill hérlendis en lánaeftirspurn mikil, m.a. vegna þess hve meðalaldur þjóðarinnar er lágur. Hér er mikið af ungu fólki sem þarf lán til þess að koma sér fyrir, kaupa húsnæði og svo framvegis. Ennfremur hefur verðbólga verið fremur mikil og sveiflukennd hérlendis sem hefur orðið til þess að ýta vaxtastiginu upp.
    Af þessum sökum hlýtur það teljast töluvert freistandi að taka lán í erlendri mynt og borga lægri vexti. Hins vegar er ekki allt sem sýnist í þessum efnum. Með því að taka erlend lán er verið að taka töluverða áhættu og það er ekki víst að kjörin séu hagstæðari þegar upp er staðið. Fyrir það fyrsta er gengi krónunnar mjög breytilegt og hefur sveiflast um tugi prósenta innan sama árs. Til að mynda hefur gengi Bandaríkjadollars veikst um 37% gagnvart krónu frá nóvember 2001 og þó afborganir af erlendum lánum hafa lækkað við þær aðstæður getur sveiflan vitanlega verið í hina áttina líka eins og á tímabilinu 2000–2001 styrkist dollarinn um 52% gagnvart krónu. Það þýðir að vextir og afborganir geta hækkað eða lækkað með litlum fyrirvara vegna óróa á gjaldeyrismörkuðum. Raunar er erlend lántaka einstaklinga alls ekki nein nýlunda hérlendis, en á síðustu árum hafa margir brennt sig á því að taka erlend lán þegar gengi krónunnar var hátt og síðan setið uppi með mikið tap þegar gengið hefur lækkað.
    Þegar til lengri tíma er litið ættu reyndar íslensk verðbólga og gengishreyfingar krónunnar að fylgjast nokkuð náið að, m.a. vegna þess að gengisfall leiðir til verðhækkana sem koma fram í vístölu neysluverðs. Af þeim sökum kemur það á svipaðan stað niður að hafa lán sem eru bundin erlendum gjaldmiðli og þau sem eru verðtryggð – í báðum tilvikum mun íslensk verðbólga þyngja greiðslubyrði lánanna. Hins vegar er einn mikilvægur munur hér sem tengist lántökutímanum. Þeir sem taka erlent lán á hagstæðum tíma – þegar gengi krónunnar er lágt – geta hagnast verulega, en þeir sem taka lán á óhagstæðum tíma – þegar gengið er hátt gætu aftur á móti komið mjög illa út. Eins og leikar standa er gengi krónunnar mjög hátt vegna yfirvofandi stóriðjuframkvæmda. Flestir sérfræðingar á fjármálamarkaði eru ennfremur sammála um að svo hátt gengi geti ekki staðist til framtíðar. Það þýðir að skilyrði til erlendrar lántöku er fremur óhagstæð um þessar mundir.
    Hins vegar er sagan ekki öll hvað varðar áhættu. Vextir í nágrannalöndum eru óvenju lágir um þessar mundir, m.a. vegna þeirrar niðursveiflu sem hefur verið þar ytra síðustu árin. Til að mynda eru millibankavextir (LIBOR) nú um1,7% en hafa verið um 5,4% að meðaltali síðustu fimmtán ár. Vaxtabyrði erlendra lána sem tekin eru við núverandi aðstæður er líkleg til þess að hækka um leið og vaxtastigið hækkar erlendis og miðað við sögulega vexti má allt eins vænta að vaxtakjörin verði að meðaltali 3,7% hærri en þau eru í dag. Ef efnahagslíf nágrannalandanna réttir úr kútnum um svipað leyti og áhrifa stóriðjuframkvæmda hér á landi hættir að gæta í gengi krónunnar, sem er í takti við spár sérfræðinga, hækkar bæði vaxtabyrði og höfuðstóll erlendra lána á sama tíma.
    Í þessu samhengi má taka dæmi um einstakling sem tekur 10 millj. kr. lán á 4% vöxtum í dag má búast við að meðalvextirnir á láninu verði tæpir 7,7% yfir lánstímann. Mánaðarlegar afborganir sem er í dag tæp 42 þús. kr. verða því 67 þús. kr. að meðaltali. Í þessu dæmi var gert ráð fyrir stöðugu gengi krónunnar en ef gengislækkun er einnig tekin með í reikninginn gæti greiðslubyrðin hækkað enn meira (sjá töflu).
    Það eru gildar ástæður fyrir hærra vaxtastigi hérlendis en erlendis og það eru ennfremur mjög gildar ástæður fyrir því af hverju þessi munur hefur ekki jafnast út í fjármagnsviðskiptum, meðal þeirra má nefna smæð bæði íslensku myntarinnar og málsvæðisins. Fólk verður vitaskuld að hafa í huga þá miklu áhættu sem fylgir erlendum lánum áður en ráðist er í lántökur. En við núverandi aðstæður – hátt gengi krónunnar og lága erlenda vexti – verður að vara sérstaklega við erlendum lántökum. Það er þó mat greiningardeildar að raunvaxtamunur milli Íslands og nágrannalandanna eigi eftir að fara minnkandi á næstu árum með aukinni alþjóðavæðingu íslensks fjármálamarkaðar og íslenskra fjármálafyrirtækja. greiningardeild mælir því fremur með að fólk taki lán á innlendum raunvöxtum nú um stundir en raunvextir á Íslandi hafa lækkað mikið að undanförnu og hafa þeir farið úr um 6% niður í 4,5% og er þeir með lægsta móti nú um stundir.
    Af ofanrituðu má sjá að þessir tvær áhættuþættir – gengis- og vaxtabreytingar – sem fylgja lántökum erlendis geta magnað hvorn annan upp. Ef lántakendur eru hins vegar reiðubúnir að bera gjaldeyrisáhættu í þeirri trú að vaxtamunur á milli Íslands sé of hár og eigi eftir að minnka, er skynsamlegt að reyna að takmarka vaxtaáhættuna og taka lán með föstum vöxtum og þannig læsa inni það lága vaxtastig sem nú ríkir erlendis.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.