Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 347. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 539  —  347. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um olíuleit við Ísland.

    Leitað var til Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna um svör við fyrirspurninni og byggist eftirfarandi á upplýsingum frá þeim.

     1.      Hafa mörg erlend olíufélög kynnt sér lög nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, og hafa einhver félög sótt um leyfi til olíu- og gasleitar í íslenskri lögsögu eftir gildistöku laganna? Ef svo er, hvaða félög og hver eru áform þeirra?
    Lög nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, setja almennan ramma um leit að olíu og jarðgasi á landgrunninu og vinnslu olíu- og jarðgaslinda og gera ráð fyrir tvenns konar leyfum. Annars vegar eru veitt leyfi til leitar með mælingum og sýnatöku af hafsbotni. Hins vegar gera lögin ráð fyrir að veitt verði leyfi til rannsókna og vinnslu sem fela í sér einkarétt til borana og vinnslu á tilteknu, afmörkuðu svæði.
    Leit samkvæmt kolvetnislögunum felur í sér eins konar forkönnun á olíu- og gasmöguleikum. Hún er í eðli sínu fjarkönnun, sem yfirleitt er framkvæmd með hljóðendurvarpsmælingum, og tekur til víðáttumikilla svæða. Heimilt er að gefa út fleiri en eitt leitarleyfi á sama svæði, en boranir eru ekki leyfðar nema í undantekningartilvikum. Leitarleyfin voru útfærð nánar í reglugerð iðnaðarráðherra nr. 553/2001.
    Tvö fyrirtæki hafa sótt um og fengið leitarleyfi. Leyfin tóku til leitar á Jan Mayen-svæðinu og stunduðu bæði fyrirtækin leit þar með hljóðendurvarpsmælingum.
    InSeis fékk þriggja ára leyfi 19. júlí 2001. Fyrirtækið mældi 2.800 km af hljóðendurvarpsmælingum árið 2001 á svæði sem nær frá lögsögumörkunum við Jan Mayen og suður að 67. breiddargráðu.
    TGS-NOPEC fékk eins mánaðar leyfi 24. apríl árið 2002. Fyrirtækið hreppti slæmt veður í mælingaleiðangri sínum árið 2002 og náði einungis að mæla um 800 km af hljóðendurvarpsmælingum á syðsta hluta Jan Mayen-hryggjar og landgrunni Austurlands. Bæði fyrirtækin hafa skilað gögnum úr leitinni og kynnt niðurstöðurnar í skýrslum.
    Helstu niðurstöður eru þær að mjög þykk setlög eru á Jan Mayen-svæðinu og er greinilegur skyldleiki milli þeirra og setlaga á landgrunni Vestur-Noregs og Austur-Grænlands. Jafnframt hefur komið í ljós skyldleiki við jarðfræði Hjaltlandsrennunnar við Færeyjar, meiri en áður var talið. Í gögnunum eru jafnframt vísbendingar um svæði sem hugsanlega gætu vakið áhuga olíufyrirtækja á frekari athugunum, þ.m.t. borunum.
    Leyfin eru nú útrunnin og engar aðrar umsóknir hafa borist um leitarleyfi. Fyrirtækin telja ekki tímabært að halda mælingum áfram að sinni, þar sem enn hefur ekki tekist að selja þau gögn sem aflað var í leiðöngrunum 2001 og 2002. Viðræður ráðuneytisins við tengda aðila hafa þó leitt í ljós að vaxandi áhugi er á að ráðast í borun á Jan Mayen-svæðinu sem fjármögnuð yrði í samstarfi einkaaðila.
    Öllum fyrirtækjum sem þess hafa óskað hafa verið sendar upplýsingar um fyrirkomulag olíuleitarmála hér, þ.m.t. kolvetnislögin og reglugerðin um olíuleit. Lögin hafa einnig verið kynnt sérstaklega þeim fyrirtækjum sem hingað hafa komið til að afla upplýsinga um olíuleitarmöguleika. Hér er samtals um 13 fyrirtæki að ræða, bæði stór og smá, sem nær öll sérhæfa sig í olíuleit en stunda hvorki boranir né vinnslu eins og stóru erlendu olíufyrirtækin gera. Ólíklegt er að nokkurt stóru erlendu olíufyrirtækjanna hafi kynnt sér lögin vel. Þó ber að hafa í huga að olíuleitarfyrirtækin InSeis og TGS-NOPEC, sem hér hafa stundað mælingar samkvæmt leyfi og aðilar tengdir þeim, hafa boðið mörgum þessara fyrirtækja gögn sín af Jan Mayen-svæðinu til sölu og jafnframt kynnt þeim meginatriðin í fyrirkomulagi olíuleitar hér við land.
    
     2.      Hafa erlendir aðilar sýnt málinu áhuga án þess að sækja formlega um leyfi til leitar?

    Nokkur erlend fyrirtæki, sem ekki hafa sótt formlega um leyfi, hafa sýnt áhuga á olíuleit við Ísland.
    Annars vegar er um að ræða fyrirtæki sem hafa verið að velta fyrir sér að sækja um leitarleyfi. Þetta eru fyrirtæki sem sérhæfa sig í hljóðendurvarpsmælingum en stunda ekki boranir eða vinnslu sjálf. Allmörg slík hafa óskað eftir upplýsingum og sum þeirra hafa sent fulltrúa til landsins til að kynna sér leitarmöguleikana betur. Hins vegar er um að ræða fyrirtæki sem hafa áhuga á að sækja um rannsóknar- og vinnsluleyfi og gangast fyrir rannsóknarborunum á landgrunninu. Í viðræðum við íslensk stjórnvöld hafa öll þessi fyrirtæki bent á að það sé mikilvægt fyrir starfsemi þeirra að stjórnvöld taki ákvörðun um að bjóða fram rannsóknar- og vinnsluleyfi þannig að ljóst sé að rannsóknaboranir geti hafist á landgrunninu. Það hefur jafnframt verið mat þeirra að skynsamlegast sé að byrja á Jan Mayen-svæðinu.
    Ástæður fyrir áhuga fyrirtækjanna á rannsóknar- og vinnsluleyfum á Jan Mayen-svæðinu eru nokkrar.
     1.      Olíuleit er hafin á svæðinu og ný gögn eru tiltæk olíufyrirtækjum sem vilja kynna sér jarðfræði þess nánar. Líkur á olíulindum í jörðu hafa aukist því að í nýju gögnunum eru vísbendingar um hugsanlegar olíugildrur á svæðinu sem áhugavert væri að kanna með rannsóknarborunum.
     2.      Reynsla olíufyrirtækja af því að stunda rannsóknarboranir á svæðum þar sem jarðfræðilegum og öðrum aðstæðum svipar til aðstæðna á Jan Mayen-svæðinu fer vaxandi.
     3.      Tæknilegar hindranir í vegi fyrir olíuvinnslu við Jan Mayen eru að mestu leyti horfnar. Vegna framfara í olíuvinnslutækni virðist nú mögulegt að vinna olíu á því hafdýpi og í því veðurfari og sjólagi sem ríkir á svæðinu án þess að slá af eðlilegum kröfum um mengunarvarnir og vinnuöryggi.
    Mat iðnaðarráðuneytisins er að þeir aðilar sem hafa sóst eftir rannsóknar- og vinnsluleyfum búi yfir nægjanlegri reynslu, sérþekkingu og viðskiptatengslum í olíuiðnaðinum til að gangast fyrir stofnun samstarfshóps fyrirtækja og undirbúa umsókn um rannsóknar- og vinnsluleyfi. Þá skortir hins vegar reynslu, sérþekkingu og fjárhagslegt bolmagn til þess að standa sjálfir að borunum og uppbyggingu vinnslustöðva til hafs og eru því háðir því að fá til liðs við sig stærra olíufyrirtæki sem uppfyllir þessi skilyrði.
    Ráðuneytið telur hins vegar að gera verði ráð fyrir því að innan fárra ára geti skapast raunverulegur áhugi hjá stórum alþjóðlegum olíufyrirtækjum á því að hefja rannsóknarboranir á svæðinu. Þetta mat er þó háð mikilli óvissu sem stafar fyrst og fremst af því að lítið er vitað um hvernig stóru olíufyrirtækin meta olíumöguleika Jan Mayen-svæðisins í samanburði við önnur svæði sem þeim standa til boða. Ólíklegt er að mat þeirra muni skýrast að ráði fyrr en ákvörðun hefur verði tekin um að bjóða fram rannsóknar- og vinnsluleyfi á svæðinu.

     3.      Eru lögin sambærileg við lög erlendra ríkja þar sem olíu- og gasleit eða vinnsla fer fram á landgrunni?

    Lögin eru mjög sambærileg. Við samningu þeirra var sérstaklega tekið mið af þeirri löggjöf sem gildir í Færeyjum, en einnig höfð hliðsjón af löggjöf Norðmanna, Grænlendinga og annarra nágrannaþjóða.
    Lagaumhverfi rannsóknarborana var hins vegar ekki fullmótað með setningu kolvetnis- laganna því áður en rannsóknar- og vinnsluleyfi verða veitt þarf að ganga frá leyfisskilmálum og ljúka ýmsum öðrum undirbúningi. Það getur kallað á lagabreytingar eða setningu nýrra laga og hefur ráðuneytið haft það til athugunar, eins og síðar er vikið að.
    Í þessu samhengi er rétt að nefna að Hafréttarstofnun Íslands gekkst nýlega fyrir málstofu um olíurétt og nýtingu olíuauðlinda í Norðaustur-Atlantshafi, m.a. í þeim tilgangi að auka þekkingu okkar á lagaumhverfi og fyrirkomulagi olíuleitar og olíuvinnslu í nágrannalöndunum. Til málstofunnar var boðið sérfræðingum frá Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Írlandi.

     4.      Hafa komið fram athugasemdir við fyrrnefnd lög? Ef svo er, hvaða athugasemdir helstar?

    Fjölmörg tækifæri hafa gefist til að ræða kolvetnislögin og fyrirkomulag olíuleitarmála á Íslandi við sérfróða erlenda aðila, bæði meðan kolvetnislögin voru á undirbúningsstigi og eftir að þau tóku gildi. Hér er um að ræða stjórnendur og sérfræðinga við olíustofnanir í nágrannalöndunum, erlenda sérfræðinga sem hafa verið íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar á þessu sviði og starfsmenn og eigendur fyrirtækja sem hér hafa sótt um leyfi eða komið til upplýsingaöflunar.
    Svo virðist sem þessir aðilar telji kolvetnislögin vera ágætan ramma um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Skýrasta ábendingin lýtur að útgáfu rannsóknar- og vinnsluleyfa. Þessir aðilar telja flestir að stóru olíufyrirtækin, sem hafa bolmagn til þess að ráðast í rannsóknarboranir á Jan Mayen-svæðinu, muni ekki sýna svæðinu mikinn áhuga fyrr en ljóst er að stefnir í útgáfu rannsóknar- og vinnsluleyfa og hvaða leyfisskilmálar verði í boði. Jafnframt er ljóst að ekki er skynsamlegt að veita leyfi nema unnt sé að að tryggja að starfsemin verði þjóðhagslega hagkvæm, fari fram í sátt við umhverfið og að vinnuöryggi sé tryggt.
    Af þessari ástæðu hefur samráðsnefnd um landgrunns- og olíuleitarmál verið falið að afla yfirlits um þá undirbúningsvinnu og athuganir sem fram þurfa að fara áður en til útgáfu rannsóknar- og vinnsluleyfa getur komið. Nefndin fékk til liðs við sig Margréti Völu Kristjánsdóttur lögmann til að vinna yfirlitið og er skýrsla hennar væntanleg á næstu mánuðum. Vinnan hefur þegar leitt í ljós að nauðsynlegar breytingar á lagaumhverfi og annar undirbúningur munu taka nokkurn tíma, sennilega um tvö ár til þrjú ár. Auk lagabreytinga er hér m.a. um að ræða útfærslu á rannsóknar- og vinnsluleyfi, athuganir á náttúrulegum aðstæðum á Jan Mayen-svæðinu og athuganir á umhverfisáhrifum og efnahagslegum áhrifum af olíuleit og olíuvinnslu. Þegar skýrslan liggur fyrir mun iðnaðarráðuneytið meta hvort rétt sé að hefja þetta starf og stefna að því að bjóða fram rannsóknar- og vinnsluleyfi á Jan Mayen-svæðinu innan fárra ára.

     5.      Hafa verið kannaðir möguleikar sem gerð er grein fyrir í niðurstöðum skýrslu Anthony George Doré frá júní 1998 en hann var óháður ráðgjafi starfshóps iðnaðarráðuneytisins um olíuleit?

    Í skýrslu Antony Doré kemur fram að möguleg olíusvæði á landgrunni Íslands séu þrjú: Hatton-Rockall svæðið, Jan Mayen-svæðið og setlagasvæðið úti fyrir Norðurlandi en mat hans á olíumöguleikum og tillögur um rannsóknir beindust fyrst og fremst að landgrunni Norðurlands. Skipulega hefur verið unnið að því að þoka olíuleitarmálum áfram á öllum þessum svæðum.
    Lykillinn að nýtingu hugsanlegra olíu- eða jarðgasauðlinda á Hatton-Rockall svæðinu er að óvissu um landgrunnsréttindi verði eytt. Á undanförnum þremur árum hafa íslensk stjórnvöld gengist fyrir umfangsmiklum mælingum á svæðinu og jafnframt tekið upp viðræður við þau lönd sem gera tilkall til landgrunnsréttinda þar. Markmiðið með þessu er að tryggja réttindi Íslands til nýtingar auðlinda á svæðinu í framtíðinni.
    Á Jan Mayen-svæðinu hefur þegar orðið töluverður árangur af setningu kolvetnislaganna og reglugerðarinnar um leit því leitarfyrirtæki hafa varið töluverðum fjármunum til þess að kanna svæðið með mælingum. Sem dæmi um framgang leitarinnar má nefna að nú liggur fyrir skýrsla fyrirtækjanna Globex Norway, InSeis Terra og Geysir Petroleum um olíumöguleika á Jan Mayen-svæðinu. Skýrslan, sem byggð er á hljóðendurvarpsgögnum InSeis, hefur verið kynnt í olíuiðnaðinum og er föl þeim fyrirtækjum sem kaupa hljóðendurvarpsgögn InSeis.
    Landgrunn Norðurlands hefur nokkra sérstöðu meðal leitarsvæðanna á landgrunni Íslands, vegna þess hve aðstæður til olíuleitar þar eru ólíkar aðstæðum á hefðbundnum olíusvæðum. Þetta er eina svæðið þar sem íslensk stjórnvöld hafa sjálf gengist fyrir leit og hefur þar verið farið eftir tillögum starfshóps um olíuleit við Ísland og ráðgjafans Anthony Doré. Markmið hennar hefur verið að bæta vitneskju um setlagasvæðin á landgrunninnu frá Öxarfirði yfir í Eyjafjarðarál í þeirri von að líkurnar á olíu eða jarðgasi ykjust nægilega mikið til að áhugi annarra vaknaði á frekari leit.
    Áður en rannsóknir þessar hófust árið 1999 var var talið að líkur á að finna olíu eða jarðgas á landgrunni Norðurlands væru um 1 á móti 12. Niðurstöður rannsóknanna eru um margt áhugaverðar og er ljóst að líkurnar eru meiri en álitið var í upphafi. Niðurstöðurnar eru í stuttu máli eftirfarandi:
     1.      Jarðgas, sem inniheldur vott af kolagasi, leitar til yfirborðs víða á söndum Öxarfjarðar.
     2.      Líklegt er að kolagasið sé myndað við fergingu og upphitun surtarbrands í berggrunninum undir söndunum. Staðfest er að surtabrandslög á Tjörnesi geta gefið af sér sams konar gas.
     3.      Sýnt hefur verið fram á að jarðgas er til staðar í jarðlögum á botni Skjálfanda og að það leitar upp til yfirborðs á vissum stöðum. Vonir standa til að þetta gas innihaldi kolagas myndað við afgösun surtarbrands, en það hefur ekki fengist staðfest.
     Stefnt er að því að ljúka þessum undirbúningsrannsóknum innan tveggja eða þriggja ára og leggja mat á framhaldið á grundvelli þeirra niðurstaðna sem þá munu liggja fyrir.
    Olíufyrirtækjum hafa verið kynntur framgangur rannsóknanna á landgrunni Norðurlands eftir því sem tilefni hefur gefist til.