Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 212. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 560  —  212. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um greiðslur yfir landamæri í evrum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.
    Í frumvarpinu er lögð til innleiðing á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2560/2001 frá 19. desember 2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum. Reglugerðin er prentuð sem fylgiskjal með frumvarpinu. Með innleiðingu reglugerðarinnar er stefnt að því að gjöld vegna greiðslna í evrum yfir landamæri verði hliðstæð þeim sem tekin eru fyrir greiðslur innan lands. Reglugerðin nær til færslna að fjárhæð allt að 12.500 evrur en frá og með 1. janúar 2006 hækkar fjárhæðin í 50.000 evrur. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að reglugerðin nái til greiðslna í íslenskum krónum þó svo að heimild sé til þess í reglugerðinni.
    Í umsögn Fjármálaeftirlitsins um málið var bent á að vafi væri á hvort það gæti uppfyllt að öllu leyti þau skylduverk sem í greinargerð segir að það eigi að vinna varðandi beitingu viðurlaga, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar og setningu reglna um kvartanir og málskot til að jafna deilur á milli aðila á síbreytilegum fjármálamarkaði. Þetta ræddi nefndin nokkuð og leggur meiri hlutinn til breytingu á málinu á grundvelli þessa þar sem ráðherra er veitt heimild til að setja nánari reglur um greiðslur yfir landamæri í evrum.
         Nefndin leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 1. gr. frumvarpsins bætist við ný grein, svohljóðandi:
    Viðskiptaráðherra er heimilt að setja reglugerð um greiðslur yfir landamæri í evrum.

    Gunnar Örlygsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 7. des. 2004.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Gunnar Birgisson.


Siv Friðleifsdóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.Einar Már Sigurðarson,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.