Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 352. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 564  —  352. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Péturs Bjarnasonar um vöruflutninga til og frá Vestur- Barðastrandarsýslu.

     1.      Telur ráðherra að vegir í Austur-Barðastrandarsýslu geti mætt þörfum fyrir landflutninga ef sjóflutningar til og frá höfnum í Vestur-Barðastrandarsýslu leggjast af?
    Í skýrslu vinnuhóps á vegum samgönguráðuneytisins, „Greinargerð um breytingar á flutningum innanlands“, sem gefin var út í október 2004, kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Eimskip, sem rak strandflutningaskipið Mánafoss, er gert ráð fyrir að viðbótarflutningar á vegum um sunnanverða Vestfirði verði um 8 þús. tonn á ári vegna niðurlagningar skipsins. Út frá þeim tölum var í greinargerðinni áætlað að þungaflutningar ykjust úr um það bil 10 bílum í 12 á sólarhring að meðaltali. Það er óveruleg aukning og ekki ástæða til að ætla annað en að vegir í Austur-Barðastrandarsýslu muni geta annað þessum viðbótarflutningum.

     2.      Mun Breiðafjarðarferjan Baldur geta annað þessari flutningsþörf ef vegir lokast, t.d. vegna snjóa?
    Breiðafjarðarferjan Baldur er um 645 bt skip sem getur tekið allt að 192 farþega, 19 einkabíla og þrjá flutningabíla um borð í hverri ferð. Ef þær aðstæður skapast að vegir í Barðastrandarsýslu lokast er sá möguleiki fyrir hendi að bæta við ferðum í áætlun Baldurs til að anna flutningaþörf til og frá svæðinu.

     3.      Hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir eða áætlanir í ráðuneytinu vegna vöruflutninga til og frá Vestur-Barðastrandarsýslu ef sjóflutningar leggjast af?
    Benda má á að vegir í Barðastrandarsýslum, í Vesturbyggð og til Tálknafjarðar eru nú mokaðir fimm sinnum í viku og ættu möguleikar á að halda vegum opnum á þessu svæði ekki að vera síðri en t.d. á vegum til Ísafjarðar.