Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 569  —  191. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Benedikt Bogason og Skúla Magnússon, Eygló Halldórsdóttur frá Lögbirtingablaði, Róbert Spanó frá lagadeild Háskóla Íslands, Guðrúnu Kvaran frá Íslenskri málnefnd, Jóhannes Rúnar Jóhannsson frá Lögmannafélagi Íslands, Tómas H. Heiðar og Kristján Andra Stefánsson frá utanríkisráðuneyti og Hildi Pétursdóttur frá Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins. Umsagnir bárust um málið frá Stjórnartíðindum og Lögbirtingablaði, lagadeild Háskóla Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Sýslumannafélagi Íslands og Íslenskri málnefnd.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði ný heildarlög varðandi skipulag á birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Við gildistöku þeirra falli jafnframt úr gildi lög um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, nr. 64/1943, með síðari breytingum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ráðherra verði veitt heimild til að ákveða að Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað skuli að hluta eða í heild eingöngu gefin út og þeim dreift á rafrænan hátt. Slík heimild hefur verið í lögum í tæp þrjú ár hvað Lögbirtingablað varðar og bæði Lögbirtingablað og Stjórnartíðindi hafa verið gefin út rafrænt jafnlengi.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að undirbúningur þess að prentaðri útgáfu Lögbirtingablaðs verði hætt og blaðið eingöngu gefið út rafrænt er langt kominn og stefnt er að því að heimildin verði nýtt strax frá upphafi næsta árs. Að fenginni reynslu af þeirri útgáfu er síðan stefnt að því að rafræn útgáfa Stjórnartíðinda leysi hina prentuðu af hólmi um mitt næsta ár. Nefndin ítrekar að verði útgáfa blaðanna eingöngu rafræn muni þeir sem þess óska geta keypt þau í prentuðu formi í áskrift eða fengið einstök tölublöð send gegn greiðslu kostnaðar af prentun þeirra og sendingu. Aðgengi allra landsmanna að lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og opinberum tilkynningum verður því það sama og hingað til.
    Nefndin fjallaði ítarlega um ákvæði frumvarpsins, einkum ákvæði 4. gr. og 7. gr. Í 4. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um C-deild Stjórnartíðinda, en í henni skulu líkt og hingað til birtir samningar við önnur ríki og auglýsingar varðandi gildi þeirra. Birting ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar og þeirra gerða sem þar er vísað til í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins telst jafngild birting að þessu leyti. Í 2. mgr. 4. gr. er síðan gert ráð fyrir að heimilt verði að birta eingöngu erlendan frumtexta milliríkjasamnings í C-deild Stjórnartíðinda ef samningurinn varðar afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar. Í 7. gr. er svo að finna heimild til handa dómsmálaráðherra til að ákveða að Stjórnartíðindi eða Lögbirtingablað skuli að hluta eða í heild eingöngu gefin út og þeim dreift á rafrænan hátt. Þar er jafnframt að finna ákvæði þess efnis að dómsmálaráðherra mæli í reglugerð nánar fyrir um rafræna útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs, þar á meðal um persónuvernd, gagnaöryggi og ákvörðun útgáfudags.
    Í 2. mgr. 4. gr. er, eins og áður var getið, að finna nýmæli þess efnis að heimilt verði að birta eingöngu erlendan frumtexta milliríkjasamnings í C-deild Stjórnartíðinda ef samningurinn varðar afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar. Í þessu sambandi bendir nefndin á að venjulega eru frumtextar milliríkjasamninga ekki á íslensku og þýðingar á þeim yfir á íslensku hafa ekki ígildi samnings og þar af leiðandi ekkert lagalegt gildi. Til að taka af allan vafa telur nefndin þó rétt að bæta við 2. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 3. gr. ákvæði þess efnis að þær heimildir sem þar eru nefndar til að vísa til birtingar skv. 4. gr. laganna eigi eingöngu við um reglur sem hafi verið birtar og þýddar á íslensku.
    Nefndin telur rétt að skerpt verði á ákvæði 7. gr. frumvarpsins hvað varðar þær kröfur sem gerðar eru í löggjöfinni til rafrænnar útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs. Því leggur nefndin til viðbót þess efnis að tryggja skuli að birtar upplýsingar varðveitist á varanlegan hátt. Jafnframt verði skýrt kveðið á um að rafrænni útgáfu Lögbirtingablaðs skuli hagað þannig, eftir því sem tæknilega er unnt, að komið verði í veg fyrir úrvinnslu og samtengingu persónuupplýsinga sem birtar eru. Þá skuli útgáfudagur undantekningarlaust tilgreindur við rafræna birtingu, en nefndin telur rétt að sú regla sé fortakslaust orðuð í lagatexta í stað þess að vera tilgreind í reglugerð sem ráðherra setur.
    Loks gerir nefndin athugasemd við það sem fram kemur í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins sem fjallar um réttaráhrif birtingar, en þar segir að ákvæðið komi ekki í veg fyrir að lög eða eftir atvikum stjórnvaldsfyrirmæli feli stjórnvöldum að taka ákvörðun um gildistöku þeirra á einhverju síðara tímamarki. Nefndin bendir á að réttaröryggis vegna verður að gera kröfu um það að skýrt sé hvenær og með hvaða hætti lög öðlist gildi. Með því að ráðherra verði hugsanlega falið að ákveða endanlega hvenær og þar með hvort lög skuli öðlast gildi kann að vera vegið að réttaröryggi almennings. Hugsanlega mætti þó fara þá leið að löggjafinn mælti fyrir um að ráðherra væri heimilt að ákveða gildistöku laga innan ákveðins frests eða að tilteknum skilyrðum fullnægðum eins og fram kemur í nýlegri grein Sigurðar Líndals um birtingu laga og annarra fyrirmæla í 2. tbl. 57. árgangs Úlfljóts.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Bryndís Hlöðversdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þau munu gera grein fyrir við 2. umræðu um málið.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 7. des. 2004.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Kjartan Ólafsson.



Bryndís Hlöðversdóttir,


með fyrirvara.


Birgir Ármannsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


með fyrirvara.



Steinunn K. Pétursdóttir.


Sigurður Kári Kristjánsson.