Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 375. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 578  —  375. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Ragnheiði Snorradóttur, Guðmund Thorlacius, Ingva Má Pálsson og Fjólu Agnarsdóttur frá fjármálaráðuneyti.
    Í frumvarpinu er lögð til hækkun ýmissa gjalda um 10% að jafnaði. Þó er gert ráð fyrir að fjárhæð gjalda standi eftir atvikum á heilu eða hálfu hundraði. Fram komu á fundi nefndarinnar upplýsingar um að við þetta hækki flest gjaldanna minna en verðlag almennt frá því þeim var síðast breytt með lögum. Þau lækki því að raungildi. Helstu undantekningar varða annars vegar skráningu erlendra félaga þar sem gjöld eru hækkuð til samræmis við gjöld fyrir skráningu innlendra félaga og hins vegar gjöld fyrir útgáfu vegabréfa sem er samræmd á milli allra aðildarríkja Schengen-samningsins.
    Auk þess er lögð til formbreyting á gjaldi fyrir skráningarmerki á ökutæki, þ.e. bílnúmeraplötur. Þetta er gert í samráði við Fangelsismálastofnun sem hefur haft tekjur af framleiðslu og sölu merkjanna. Kostnaður bifreiðaeigenda verður hinn sami og áður þar sem gert er ráð fyrir að söluverð merkjanna lækki að sama skapi.
    Meiri hlutinn leggur til að orðalagi 14. gr. verði breytt til samræmis við hugtakanotkun í VIII. kafla umferðarlaga.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    14. gr. orðist svo:
    Við VIII. kafla laganna, Ýmis vottorð og leyfi, bætist ný grein, 14. gr. a, er orðast svo:     Greiða skal í ríkissjóð 1.500 kr. af hverju skráningarmerki ökutækja.

Alþingi, 7. des. 2004.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Gunnar Birgisson.


Siv Friðleifsdóttir.