Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 335. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 583  —  335. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Minni hlutinn mótmælir harðlega þeim áformum sem felast í frumvarpinu um að framlengja í fjögur ár gjaldtöku af fasteignaeigendum sem nemur liðlega 1.100 millj. kr. Þó að meiri hlutinn hafi við meðferð málsins séð að sér og flytji breytingartillögu um að þessi ósanngjarna gjaldtaka á fasteignaeigendur framlengist um tvö ár í stað fjögurra þá er gjaldtakan algjörlega óásættanleg. Í raun lýsir hún, ásamt öðrum gjaldtökum, skattahækkunum og skerðingu á bótum á þessu ári og síðasta, að ríkisstjórnin dælir út álögum á skattgreiðendum á sama tíma og boðaðar eru skattalækkanir. Það sýnir svo ekki verður um villst að ríkisstjórnin er staðráðin í að láta landsmenn greiða með margvíslegum álögum boðaðar skattalækkanir áður en þeim er skilað í vasa almennings. Þetta heitir að taka úr einum vasa og skila aftur í annan og er svik við kosningaloforð stjórnarflokkanna um skattalækkanir til almennings. Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar eru því sýndarmennska ein.
    Forsaga þessarar gjaldtöku er að á 125. löggjafarþingi lagði fjármálaráðherra fram frumvarp sem fól í sér að fasteignaeigendur yrðu látnir bera kostnaðinn við að koma á einu samhæfðu gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir og réttindi sem þeim tengjast. Lagt var til að svonefnt umsýslugjald sem nú rennur til Fasteignamats ríkisins hækkaði úr 0,025‰ í 0,1‰ af brunabótamati hverrar húseignar. Kveðið var á um hækkun umsýslugjaldsins í ákvæði til bráðabirgða sem renna átti út nú um áramótin og gilda aðeins í fjögur ár. Brunabótamat fasteigna er notað sem gjaldstofn í ýmsum tilgangi og námu gjöld sem lögð voru á húseigendur samkvæmt því um 1.600–1.800 millj. kr. árið1999 þegar frumvarpið var til umfjöllunar á þingi. Á það var bent að lauslegt mat á gjöldum sem ríkissjóður hefði af fasteignaeigendum væri um 8 milljarðar kr. Þar vega m.a. stimpilgjöld þungt en tekjur ríkissjóðs af þeim hafa vaxið mikið á umliðnum mánuðum og missirum.
    Þegar umsýslugjaldið var hækkað úr 0,025‰ í 0,1‰ kom fram hjá umsagnaraðilum að þeir teldu það orka tvímælis að húseigendum væri einum gert að greiða kostnaðinn af stofnun Landskrár fasteigna en eigendur lóða, jarða, hlunninda og ítaka hvers konar, sem virt eru til fasteignamats, yrðu hins vegar undanþegnir þessu gjaldi. Einnig kom fram að færa mætti rök fyrir því að Landskráin hefði svo almennt gildi í þjóðfélaginu að eðlilegt væri að fjármagna hana með skatttekjum ríkissjóðs fremur en að hækka umsýslugjaldið. Fjölmargir aðilar nýta upplýsingar fasteignamatsins, svo sem tryggingafélög, álagningardeildir sveitarfélaga, byggingarfulltrúar, þinglýsingarstjórar, lánastofnanir o.fl. Því er fullkomlega óeðlilegt að fasteignaeigendur skuli einir og sér þurfa að bera upp kostnaðinn af stofnun Landskrár með háu umsýslugjaldi sem er innifalið í brunatrggingu fasteigna en vátryggingafélögin innheimta það með iðgjöldum af brunatryggingum. Í því sambandi hefur verið á það bent að ekki væri óeðlilegt að líta á stofnkostnaðinn sem fjárfestingu sem ríkissjóður fengi síðan endurgreiddan með notendgjöldum, sem þeir sem nota upplýsingar frá Fasteignamatinu stæðu straum af.
    Ástæða er líka til að nefna að árið 2000 var gert ráð fyrir að stofn- og rekstrarkostnaður Landskrár fasteigna yrði á fjórum árum um 615 millj. kr. eða um 150 millj. kr. á hverju ári og að þegar Landskráin væri tilbúin yrði árlegur rekstrarkostnaður um 100 millj. kr. Á árunum 2001–2004 hefur umsýslugjaldið skilað um 950 millj. kr. í tekjur til Fasteignamats ríkisins, þannig að gjaldið hefði á þessum fjórum árum átt að standa vel undir kostnaði samkvæmt áætlun sem lögð var fyrir árið 2000. Ljóst er að kostnaður hefur farið úr böndunum nú þegar óskað er eftir fjögurra ára framlengingu á gjaldinu, sem hefði skilað um 1,1 milljarði kr. í tekjur. Virðist því stefna í að kostnaður við að koma Landskránni á fót verði tvöfalt meira en upphaflega var gert ráð fyrir.
    Minni hlutinn mótmælir því harðlega, nú eins og þegar þessi gjaldtaka var tekin upp fyrir fjórum árum, að enn eina ferðina séu lagðar auknar byrðar á fasteignaeigendur og þeir einir látnir standa undir fjárfestingu sem hefur víðtækt þjóðfélagslegt gildi og nýtist fjölda aðila í opinberri stjórnsýslu og á einkamarkaði.
    Gunnar Örlygsson sem sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi er sammála áliti þessu.

Alþingi, 8. des. 2004.



Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Lúðvík Bergvinsson.


Einar Már Sigurðarson.